Meindýravarnir
Hlutverk meindýravarna borgarinnar er að halda meindýrum í lágmarki með eyðingu meindýra, upplýsingagjöf og fyrirbyggjandi starfsemi.
Óvelkomnar mýs, rottur, pöddur, fuglar og jafnvel minkar og refir láta stundum vita af sér á borgarlandi og jafnvel inni á heimilum fólks og vinnustöðum. Borgin veitir þjónustu í þessum málaflokki upp að ákveðnu marki. Fjölmargir einkaaðilar eru einnig starfandi á þessu sviði. Í mörgum tilfellum er um að ræða mál sem bregðast þarf skjótt við. Hætta eða heilsuógn getur stafað af óvelkomnum gestum af þessu tagi í sumu tilfellum og er fólk sem í slíku lendir oft óttaslegið, ráðalaust og veit ekki hvert skal snúa sér.
Hverjir geta haft samband?
Allir borgarbúar geta leitað til Dýraþjónustu Reykjavíkurborgar og óskað eftir þjónustu fái þeir rottu í heimsókn. Starfsfólk Dýraþjónustunnar losar íbúa við óværuna og koma málum í réttan farveg svo unnt sé að fyrirbyggja með sem bestum hætti slíka heimsókn aftur. Iðulega láta dýrin vita af sér í görðum og fyrir utan heimili. Þá er gott að geta leitað til dýraþjónustu borgarinnar sem kemur á staðinn og fyrirbyggir eins og kostur er að dýrin nái að koma sér fyrir.
Dýraþjónusta Reykjavíkur sinnir flestum dýratengdum málum sem koma upp á borgarlandi eins og almenningsgörðum, við götur og göngustíga, við Reykjavíkurtjörn og við strandlengjuna.
Ytri byggðum borgarinnar er sinnt af kostgæfni. Þar er aðallega fugli, mink, og ref haldið í skefjum vegna ágangs þeirra á varplönd ýmissa fuglategunda. Dýraþjónustan sinnir einnig þeim stofnunum sem tilheyra Reykjavíkurborg eins og leik- og grunnskólum, félagsþjónustunni, sundlaugum, ráðhúsinu og íþróttamannvirkjum.
Ef upp koma mál sem falla utan þjónustu Reykjavíkurborgar til dæmis silfurskottur á heimilum er þeim málum beint í einkageirann.
Dauð dýr
Óumflýjanlega drepast dýr í hinu iðandi borgarlífi, ýmist af völdum annarra dýra, manna, farartækja, mannvirkja og jafnvel sjúkdóma, og geta hræ þeirra valdið óhug borgarbúa. Fuglar af ýmsum stærðum og gerðum og kettir fara sér oft að voða en endrum og sinnum þarf að sinna fátíðari skepnum eins og minkum og jafnvel selum. Starfsfólk Dýraþjónustu sér um að fjarlægja þau eins fljótt og mögulegt er.
Utan opnunartíma Dýraþjónustu sinnir Lögreglan á Höfuðborgarsvæðinu slíkum útköllum.
Dýraþjónustan starfar náið með Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og Lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu.
Hafa samband
Dýraþjónusta Reykjavíkur sér um meindýraþjónustu við borgarbúa alla virka daga frá 08.00 - 20.00. Hægt er að hafa samband beint við Dýraþjónustuna í s: 822-7820 eða beint við einstaka starfsmenn.
-
Ólafur Ingi Heiðarsson teymisstjóri, sími 693 9620
-
Sólon, sími 693 9622
-
Bjarki, sími 693 9623