Framtíð skóla- og frístundastarfs í Laugardal

Unnið er að framtíðarmótun skóla- og frístundastarfs í Laugardal. Upplýsingum um ákvarðanir, undirbúning og framkvæmdir verður miðlað á þessari síðu.

 

Framtíð í mótun

Skóla- og frístundaráð hefur samþykkt að halda áfram vinnu sem snýr að þróun og byggingu safnskóla á unglingastigi í Laugardal en með breytingum sem taka eins og kostur er tillit til athugasemda um breytingar á skólahverfum. Þannig munu Laugarnesskóli og Laugalækjarskóli áfram tilheyra sama skólahverfi. 

 

Grunnskólarnir þrír sem fyrir eru í hverfinu munu allir vera skólar fyrir yngri árganga: Langholtsskóli fyrir nemendur í 1.– 7. bekk, Laugarnesskóli fyrir nemendur í 1.– 4. bekk og Laugalækjarskóli fyrir nemendur í 5.- 7. bekk. 

 

Skólarnir vinna allir eftir sameiginlegri framtíðarsýn og stefnu: Menntastefnu Reykjavíkurborgar. Stefnan leggur áherslu á framsækið skóla- og frístundstarf þar sem öll börn hafa jöfn tækifæri til náms í fjölbreyttu námsumhverfi sem samræmist þeirra áhuga og hæfileikum.

Laugardalur

Safnskóli á unglingastigi

Bygging safnskóla á unglingastigi og viðhaldsframkvæmdir

Eftir samráð við skólastjórnendur, nemendur og foreldra í hverfinu eru línur farnar að skýrast varðandi framtíðarfyrirkomulag skóla- og frístundastarfs í Laugardal. Skóla- og frístundaráð samþykkti þann 9. desember 2024 að halda áfram vinnu sem snýr að þróun og byggingu safnskóla á unglingastigi (svokölluð sviðsmynd 4) en með breytingum sem taka eins og kostur er tillit til athugasemda um breytingar á skólahverfum. Þannig munu Laugarnesskóli og Laugalækjarskóli áfram tilheyra sama skólahverfi. Ráðist verður í umfangsmikið viðhald og framkvæmdir á Laugarnesskóla, Laugalækjarskóla og Langholtsskóla samhliða byggingu nýs safnskóla. 

Áætlað er að unglingaskólinn muni rísa á svokölluðum þríhyrningi milli Skautahallarinnar og félagsheimilis Þróttar og Ármanns. Skólinn verður fyrir unglinga í 8. – 10. bekk af skólasvæði skólanna þriggja; Langholtsskóla, Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla. Einnig er gert ráð fyrir á þessu stigi að unglingar sem búa á nærliggjandi uppbyggingareitum, við Grensásveg, á Orkureitnum og í Skeifunni, muni stunda nám í skólanum. Í samráðsferlinu komu fram áhyggjur að unglingaskólinn verði of fjölmennur ef uppbyggingareitirnir tilheyri skólahverfinu og verða þær áætlanir endurskoðaðar árið 2026 þegar fjöldi íbúa og samsetning verður orðin skýrari.

Yngri barna skólar

Langholtsskóli, Laugalækjarskóli og Laugarnesskóli verða yngri barna skólar

Grunnskólarnir þrír sem fyrir eru í hverfinu munu allir vera skólar fyrir yngri árganga: Langholtsskóli fyrir nemendur í 1.– 7. bekk, Laugarnesskóli fyrir nemendur í 1.– 4. bekk og Laugalækjarskóli fyrir nemendur í 5.- 7. bekk. 

Í stærstum hluta umsagna sem bárust eftir kynningar á sviðsmynd 4 (umsögnum sem ætlað var að styðja við sviðsmynd 1) komu fram athugasemdir sem beindust að hugmyndum um að skipta upp skólahverfinu í Laugarnesi og þar með aldurshópum barna. Samkvæmt áætlunum sem samþykktar voru í skóla- og frístundaráði í dag er nú gert ráð fyrir að börnin í skólahverfinu verði áfram saman eftir aldurshópum. Þannig verða yngstu árgangarnir (1.-4. bekkur) í Laugarnesskóla og miðstigið (5.-7. bekkur) í Laugalækjarskóla. 

 

Frístundastarf og skólahljómsveit

Samhliða viðhaldsaðgerðum í skólunum þremur þarf að huga að aðstöðu fyrir frístunda- og félagsmiðstöðvastarf. 

 

Gera þarf ráð fyrir frístundaheimilum fyrir 1. og 2. bekk í Laugarnesskóla og Langholtsskóla. Auk þess sem rýna þarf staðsetningu safnfrístundaheimilis í Fjölskyldu- húsdýragarðinum fyrir nemendur í 3. og 4. bekk í sömu skólum.

 

Gera þarf aðstöðu fyrir félagsmiðstöðvastarf fyrir 5. - 7. bekk í Laugalækjarskóla og Langholtsskóla. Yfirfara þarf aðstöðu sértæku félagsmiðstöðvarinnar Hofs sem nú er við Laugalækjarskóla. Einnig þarf að gera ráð fyrir aðstöðu fyrir skólahljómsveit Austurbæjar í Laugalækjarskóla.

 

Aðstaða fyrir félagsmiðstöðvastarf á unglingastigi verður í safnskólanum.

Öflugt starfsfólk og gott skólastarf

Það er mat skóla- og frístundasviðs, bæði út frá skóla- og frístundastarfi og framkvæmdum, að sviðsmynd 4 með þeim breytingum sem gerðar hafa verið, sé vænlegust skóla- og frístundasamfélaginu í Laugardal bæði til  skemmri og lengri tíma. 

 

Í skólunum þremur starfar öflugt starfsfólk og skólastarf í öllum skólunum til eftirbreytni. Ljóst er að breytingum fylgir rask bæði fyrir starfsfólk og nemendur en með gott fólk innanborðs standa vonir til að hægt verði að halda í það góða og nýta jafnframt tækifæri til frekari þróunar skólastarfsins.

Framkvæmdir í skólum

Framkvæmdir og mótvægisaðgerðir hafa staðið yfir í Langholtsskóla og Laugarnesskóla undanfarin misseri. 

 

Upplýsingum um gang mála er miðlað á framkvæmdasíðum skólanna.

Teikning af fólki á fundi í Ráðhúsinu.

Hvernig miðar?

Vinna með fagfólki í skóla- og frístundastarfi

Í haust hefst vinna með sérfræðingum skóla- og frístundasviðs ásamt skólastjórnendum Langholtsskóla, Laugalækjarskóla og Laugarnesskóla (3L skóla) og starfsfólki vegna þeirra breytinga sem fyrirhugaðar eru á skólastarfi í skólunum. Horfa þarf sérstaklega til hvers skóla fyrir sig og eins allra skólana í samhengi því nú breytast allir skólarnir í yngri barna skóla gangi áform eftir.

Áformað er að vinnan verði unnin í sprettum þar sem fundað verður með skólafólki og sérfræðingum auk þess sem arkitektar verða til aðstoðar. Þeir munu síðan vinna úr þeim niðurstöðum sem fást á hverjum stað og samræma á milli skóla. Vonir standa til að það takist að fanga og lyfta upp þeirri þekkingu sem býr í hverju skólasamfélagi fyrir sig og miðla áfram inn í það skólaumhverfi sem er í mótun.

Áformaðar framkvæmdir á árinu 2025

Yfirstjórn Reykjavíkurborgar ákvað í vor að fá ytri verkefnisstjóra til verkefnisins til að samþætta fyrirhugaðar framkvæmdir varðandi skólamál í Laugardal.

Eftir skoðun á stöðu mála við skólana þrjá, Langholtsskóla, Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla, var ákveðið að leggja áherslu á að endurnýja veðurkápur skólanna og gera þær vatn og rakaheldar til að stöðva og koma í veg fyrir skemmdir. Unnið er að undirbúningi svo unnt verði að hefja framkvæmdir við skólana á næsta ári.

Unnið er með Minjastofnun svo húsin fái að njóta sinna sérkenna. Laugarnesskóli er friðaður og ætlunin er að meðhöndla Langholtsskóla með sama hætti enda húsin glæsileg og bera sérkenni síns tíðaranda sem mikilvægt er að vernda.

Unnið er með þá hugmynd að allir skólarnir verði einangraðir og múraðir að utan með viðurkenndum og góðum efnum, en þó þannig að þeir haldi núverandi útliti og hlutföllum. Framkvæmdirnar verða viðamiklar og hefjist á næsta ári. Stefnt að því að byrja á yfirferð og endurnýjun drenlagna í kringum alla skólana og áætlað að vinna við gluggaskipti hefjist á vormánuðum. 

Samræmd ástandsskoðun skólanna

Gerður var samningur við verkfræðistofuna Verkvist ehf. um að gera samræmda ástandsskoðun á Laugarnesskóla, Laugalækjarskóla og Langholtsskóla.

Úttektir hafa verið gerðar á afmörkuðum stöðum í skólunum í gegnum tíðina en nú fer fram heildarskoðun á skólum þremur og samræmt mat á ástandi þeirra. Með þessu fæst heilstætt yfirlit yfir skólana sem notað verður við ákvarðanir og forgangsröðun verkefna og hversu ítarlegra viðgerða er þörf.

Í samningi við Verkvist var m.a. óskað eftir að gert yrði mat á eftirfarandi þáttum:

  • Ítarleg ástandsskoðun á ytri hjúp mannvirkja og kanna ástand steypu í útveggjum.
  • Meta ástand innnandyra í skólunum.
  • Meta ástand þaka og kjallara.
  • Mynda og kortleggja ástand vatnslagna, drens, regnvatnslagna og fráveitu.
  • Kanna ástand tæknikerfa svo sem rafkerfa, hitakerfa og loftræsikerfa.
  • Meta ástand hljóðvistar, inniveggja, gólfefna, salerna og annarra rýma.
  • Ástand bruna- og öryggismála skoðað. 

Úttektirnar voru gerðar í lok árs 2024 og liggja til grundvallar fyrir frekari vinnu.

Mótvægisaðgerðir sumarsins 2024

Í sumar hefur verið unnið að mótvægisaðgerðum og lagfæringum í skólunum þremur, Laugarnesskóla, Laugalækjarskóla og Langholtsskóla til að tryggja bætta innivist þar til kemur að viðgerðum hvers skóla fyrir sig. 

Sýnu mikilvægast var að grípa til aðgerða í Laugarnesskóla og hefur verktakafyrirtækið Ístak unnið að lagfæringum í 16 rýmum í skólanum. Stuðst er við úttektarskýrslu EFLU frá apríl síðastliðnum og er helst unnið að því að fjarlægja efni þar sem greinst hefur mygla svo sem gamla einangrun og gólfdúka. Rannsóknir hafa sýnt að fyrri mótvægisaðgerðir hafa gefist vel og því stuðst við þá reynslu.

Að sama skapi er unnið að mótvægisaðgerðum í Langholtsskóla þar sem verið er að skipta um gólfdúka þar sem mælst hefur raki. Jafnframt hafa staðið yfir gluggaskipti í C álmu sem er hluti af endurnýjun álmunnar.

Í Laugarlækjarskóla er unnið að undirbúningi aðgerða svo sem ástandsskoðun á stjórnendarými til að undirbúa viðgerðir þar. Skipt hefur verið um nokkra glugga í skólanum og liggur fyrir undirbúningur fyrir frekari gluggaskiptum.