Elliðaárdalur

Útivistarsvæði

Elliðaárdalur
110 Reykjavík

Foss í Elliðaá.

Um Elliðaárdal

Elliðaárdalurinn er eitt stærsta græna svæðið innan þéttbýliskjarna Reykjavíkur. Hann er jafnframt eitt vinsælasta svæðið til útivistar, leikja og íþróttaiðkunar af ýmsu tagi. Dalurinn einkennist af fjölbreyttu umhverfi, landslagi og gróðurfari en þungamiðjan eru Elliðaárnar sem dalurinn er kenndur við.

Elliðaár falla úr Elliðavatni í norður og vestur milli Breiðholts og Selás- og Ártúnsholts í tveimur kvíslum. Má segja að þær skipti borginni í tvennt við Elliðaárósa. Lax gengur upp í árnar og eru þær með vinsælli laxveiðiám á suðvesturhorni landsins. Elliðaár voru virkjaðar árið 1921 og er stærsta stíflan nálægt gamla Árbæjarbænum. Í Elliðaárdal hefur verið stunduð skógrækt en þar má einnig finna fjölda náttúrulegra gróðurlenda. Fuglalíf er mjög auðugt í dalnum. Meðal áhugaverðra staða sem eru í Elliðaárdal eða í jaðri hans eru Árbæjarsafn, Minjasafn Orkuveitu Reykjavíkur og hesthúsahverfi Hestamannafélagsins Fáks í Víðidal. 

Grunnupplýsingar

Samgöngur:

  • Elliðaárdalur er mikilvæg samgönguæð fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og tengjast göngu- og hjólastígar við Fossvogsdal og Heiðmörk sem og nálæg íbúðahverfi.
  • Bílastæði – við Árbæjarsafn (Kistuhyl), Árbæjarlaug (Fylkisvegi)
  • Strætó: 3-4-5-11-12-17-19-24-26-28-57-58-59 – Stöðvar: Elliðaárdalur/Blesugróf (3-11-12-17-57-58-59), Árbæjarsafn (12-24), Rafstöðvarvegur (19), Sílakvísl/Laxakvísl (19), Hraunbær/Hábær (5), Fylkisvegur/Hraunsás(19-26), Næfurás/Reykás/Sauðás (5/19),  Smyrilshólar/Stelkhólar (3-4),Gerðuberg (3-4-12-17), Ögurhvarf (28).

Þar er að finna:  Safn – Listaverk – Bekkir - Piknikborð – Göngustígar – Hjólastígar – Reiðleiðir - Íþróttasvæði –Stangveiði - Fuglalíf – Skógrækt  – Sögulegar minjar – Jarðminjar.

Jarðfræði

  • Jarðfræði Elliðaárdals er fjölbreytt enda um stórt svæði að ræða. Berggrunnur Elliðaárdals einkennist af grágrýti sem á rætur að rekja til eldsumbrota á hlýskeiðum síðustu ísaldar. Víða má finna setlög frá lokum ísaldar, einkum strandseti frá tímum hærri sjávarstöðu. Neðarlega í dalnum má sjá stóra strandhjalla.
  • Leitahraun er 4.500 ára gamalt hraun sem mótar mjög landslag Elliðaárdals. Hraunið rann úr gíg er kallast Leitin og er á Bláfjallasvæðinu, niður Sandskeiðið og um Elliðavatn. Rauðhólar mynduðust er Leitahraunið rann yfir mýri eða grunnt stöðuvatn. Leitahraun er að mestu helluhraun og myndar skemmtilegar hraunmyndanir víða í dalnum. Þá hafa Elliðaárnar rofið hraunið og fellur í fallegum fossum um miðjan og neðanverðan dalinn. Stærstu fossarnir eru Selfoss og Stórifoss skammt fyrir neðan Árbæjarstífluna.

Gróður og dýralíf

  • Gróðurfar í Elliðaárdal er mjög fjölbreytt með margvíslegum gróðurlendum allt frá berangurslegum melagróðri til þéttra skóga. Hátt í 320 tegundir háplantna hafa fundist í dalnum. Áhrif búsetu manna, landbúnaðar og skógræktar hefur haft mikil áhrif á gróðurfarið. Mikið er um slæðinga sem hafa dreift sér úr nálægum görðum. Þá hefur Rafmagnsveita Reykjavíkur og Skógræktarfélag Reykjavíkur plantað fjölda trjáa um dalinn miðjan og neðanverðan síðan um miðja 20. öldina. Birki, reyniviður, viðja, lerki, alaskavíðir, sitkagreni og stafafura eru meðal algengari trjátegunda í dalnum. Gömul tún og engi hafa víðast hvar breyst í gróðursæl blómlendi enda jarðvegurinn frjór. Í Blásteinshólma ofan Árbæjarstíflu eru einstök votlendisgróðurlendi sem eru í kafi hluta árs.
  • Fuglalíf í Elliðaárdal er afar fjölbreytt og fá svæði í Reykjavík búa yfir jafn miklum fjölda fuglategunda en alls hafa um 25 tegundir verpt í dalnum. Andfuglar eru áberandi á Elliðaánum, einkum fyrir ofan Árbæjarstíflu. Þar má nefna álft, grágæs, stokkönd, urtönd, skúfönd og toppönd. Þá hafa straumendur verpt við Elliðaár efst í dalnum. Einnig eru gulendur nokkuð algengir vetrargestir. Ýmsar vaðfuglategundir verpa í dalnum svo sem tjaldur, sandlóa, heiðlóa, hrossagaukur, jaðrakan og stelkur. Hettumáfar, sílamáfar og kría eru algengir gestir. Spörfuglar eru mest áberandi í kjarr- og skóglendinu neðan Árbæjarstíflu einkum skógarþröstur, auðnutittlingur, stari og svartþröstur en músarrindlar og glókollar sjást reglulega á skógræktarsvæðum. Þúfutittlingar verpa á opnum svæðum og maríuerlur eru algengar í nábýli við hús. Þá eru hrafnar áberandi á veturna.
  • Bæði minkar og hálfvilltar kanínur hafa sést í Elliðaárdal. Einkum hefur kanínum farið fjölgandi á síðustu árum.
  • Lífríki Elliðaánna er fjölbreytt enda árnar lindár með uppruna í stóru, lífauðugu vatni, Elliðavatni. Smádýralíf í ánni er auðugt og nokkuð breytilegt milli svæða í ánni. Nálægt útfalli ánna eru bitmýslirfur ríkjandi en á lygnari svæðum er meira um svif- og botndýralíf. Þar eru rykmýslirfur, krabbaflær, vatnamaurar og ánar ríkjandi hópar. Þessi smádýr eru undirstöðufæða fyrir vatnafugla og enn fremur fiskalífið í ánum.
  • Elliðaárnar eru laxveiðiá og mikilvæg hrygningarstöð fyrir íslenska laxinn. Um 2500 laxar ganga upp í árnar á hverju sumri og fjöldi áætlaðra gönguseiða sem ganga út árlega eru um 15 þúsund. Einnig ganga um urriði og bleikja í árnar og álar finnast einstöku sinnum. Göngur laxfiska eru mældar með teljara sem staðsettur er skammt hjá gömlu rafstöðinni.

Saga og mannlíf

  • Laxveiði hefur verið stunduð í Elliðaánum frá fornu fari, líklega frá upphafi byggðar í Reykjavík. Danakonungur átti laxveiðirétt í ánum í um 300 ár þar til á 19. öld en þá voru veiðiréttindi seld. Reykjavíkurborg keypti árnar árið 1906.
  • Á tímum Innréttinganna í Reykjavík um miðja 18. öld var ullarvinnsla í Elliðaárdal og þar var reist þófaramylla, litunarhús og sútunarverkstæði. Straumur árinnar var nýttur við þæfinguna.
  • Fyrsta brú yfir Elliðaárnar var reist árið 1883. Í dag eru yfir 20 brýr á ánum, flestar fyrir fótgangandi.
  • Rafstöðin við Elliðaár hóf starfsemi sína 1921. Aðalstíflan er við Árbæ, en hún er einungis virk á veturna. Þá myndast uppistöðulón í dalnum ofanverðum og Blásteinshólmi fer undir vatn. Á vorin og sumrin streyma árnar óhindraðar um dalinn. Í Minjasafni Orkuveitu Reykjavíkur má fræðast um sögu raforkuframleiðslu í Elliðaárdal. Í Elliðaárdal eru einnig jarðhitasvæði sem nýtt eru til hitaveitu.
  • Á stríðsárunum voru reist braggahverfi í Elliðaárdal á fimm stöðum en einu ummerkin í dag eru neðst í Ártúnsbrekku þar sem eru leifar um neðanjarðarbyrgi.
  • Elliðaárdalur hefur lengi verið nýtt sem útivistarsvæði Reykvíkinga. Áður en byggð teygði sig austur yfir Elliðaár var mikið um sumarbústaði og önnur smáhús í dalnum. Sums staðar var rekinn búskapur, einkum sauðfjárrækt, tún- og garðrækt. Beitarálag var töluvert í dalnum þar til lausaganga búfjár lagðist af á sjöunda áratugnum. Sumarbústaðabyggðin lagðist að mestu niður eftir að Árbæjar- og Breiðholtshverfin byggðust upp á tímabilinu frá 1960-1990.

Heimildir

  • Árni Hjartarson. 1998. Elliðaárdalur: land og saga. Mál og Mynd, Reykjavík.
  • Jóhann Pálsson. 2004. Flóra Elliðaárdals: uppruni og útbreiðsla tegunda. Unnið fyrir Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur.
  • Kristbjörn Egilsson, Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Guðmundur Guðjónsson, Haukur Jóhannesson og Jóhann Óli Hilmarsson. 1999. Náttúrufar með Sundum í Reykjavík: Elliðaárdalur, Úlfarsá, Blikastaðakró, Grafarvogur, Elliðavogur og Laugarnes. Unnið af Náttúrufræðistofnun fyrir Borgarskipulag Reykjavíkur.