Umbúðir, nauðsyn eða sóun?

Umhverfi Menning og listir

""

Umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar ásamt Umhverfisstofnun stóðu að áhugaverðu málþingi um umbúðaaustur í tilefni Nýtniviku í lok nóvember. Framsögu höfðu ýmsir sérfræðingar sem ræddu um gagn og hlutverk umbúða í nútíma neyslusamfélagi. Einnig kynntu fyrirtæki framleiðslu sína og notkun umhverfisvænna umbúða.

Fyrirlesarar veltu fyrir sér til hvaða aðgerða þyrfti að grípa  til að draga úr plastnotkun, ekki síst plastpoka. Talað var um mikilvægi þess að sveitarfélög sýndu fordæmi, það þyrfti samtal milli ólíkra aðila og fræðslu til almennings um ávinninginn af því að temja sér umhverfisvænan lífstíl.

Reynsla Landspítalans er að þegar rætt er við birgja um umbúðir eru þeir viljugir til samstarfs. Með samstarfi hefur spítalinn dregið úr notkun frauðplasts-umbúða undir sýni með því að endurnýta þær. Í mötuneyti nota starfsmenn nú fjölnota box í stað einnota áður. Spítalinn hefur minnkað umbúðir sem nemur 150 Hallgrímskirkjum.

Fjallað var um hönnun umbúða og hvernig vöruhönnuðir geta haft áhrif á umbúðaval seljanda. IKEA sparar árlega miklar umbúðir með því að koma sem flestum vörum í flata kassa. Í dag er hægt  að velja matarbakka og fleiri matvælaumbúða úr náttúrulegum efnum, umbúðir sem geta farið beint í moltu eftir notkun. Einnig eru að ryðja sér til rúms ætilegar umbúðir sbr. undir kaffidrykki. Hver sem varan er er það umhverfinu til góða að umbúðir brotni hratt og vel niður í náttúrunni.

Flokkun úrgangs færist í vöxt og með aukinni þjónustu sveitarfélaganna og einkaaðila þá er þægilegra að flokka. Í Reykjavík og víðar er hægt að flokka pappír og plast frá blönduðum úrgangi auk þess sem grenndar- og endurvinnslustöðvar bjóða upp á enn frekari flokkun. Á flestum grenndarstöðvum má skila fimm flokkum endurvinnsluefna og endurvinnslustöðvar taka við 32 flokkum. Mikilvægt er út frá umhverfis- og hagkvæmnisjónarmiðum að draga úr myndun úrgangsins, t.d. með að hætta notkun á einnota burðarpokum og nota þess í stað fjölnota töskur og poka sem og að velja vörur sem eru í engum eða umhverfisvænum umbúðum.

Frá Listaháskólanum kom kynning sem vakti athygli á sérstöðu Íslands og tækifærum til að þróa vistvænar umbúðir úr þeim efnivið sem til eru, s.s. tómataplöntum og þörungum. Við gætum verið öðrum fordæmi í vistvænni hugsun. Leggja þarf meira í rannsóknir og þróunarvinnu og koma á samstarfi milli frumkvöðla og fjárfesta.

Öllum bar saman um að málþing sem þetta væri veigamikið innlegg í samtal ólíkra hagsmunaaðila. Samtal framleiðenda, hönnuða, verslunar, þjónustu og ólíkra stofnanna opnaði fyrir samstarf sem í gætu leynst gífurleg verðmæti til lengri tíma.

Fyrirlestrar;

Umbúðir og umhverfið
Kristín Linda Árnadóttir frá Umhverfisstofnun

Hlutverk umbúða og leiðir til að lágmarka notkun
Bryndís Skúladóttir frá Samtökum iðnaðarins

Hlutverk og vald sveitarfélaga í að draga úr umbúðaaustri
Eygerður Margrétardóttir frá Reykjavíkurborg

Efni, umbúðir, samhengi
Garðar Eyjólfsson frá Listaháskóla Íslands

Umbúðir, hvenær nauðsyn og hvenær sóun
Hulda Steingrímsdóttir, frá Landspítala

Umbúðanotkun hjá veitingasölum
Sæunn Ingibjörg Marínósdóttir frá Gló og Rakel Eva Sævarsdóttir frá Borðinu (sýnishorn af hennar kynningu).