Um Vesturbæjarskóla
Vesturbæjarskóli er grunnskóli fyrir börn í 1. - 7. bekk. Einkunnarorð skólans eru virðing, vellíðan og velgengni. Með það að leiðarljósi leggjum við áhersla á alúð, hlýju og áhuga á velferð nemenda og stuðlum þannig að jákvæðum skólabrag. Starfsfólk leggur sig fram við að skapa jákvætt og uppbyggjandi umhverfi þar sem öllum líður vel.
Fjölbreyttir kennsluhættir
Við leggjum okkur fram við að koma til móts við mismunandi þarfir barna með því að bjóða upp á fjölbreytta kennsluhætti og námsefni í samþættu námi eins og í vali, þemavinnu og útikennslu svo dæmi séu nefnd. Löng hefð er fyrir leiðsagnarnámi þar sem börnin velta reglulega fyrir sér námi sínu með kennurum sínum til að nálgast eigin markmið í náminu og ákveða hvert skuli stefna. Með markvissum hætti ræktum við færni, leikni, þekkingu og viðhorf sem hjálpa börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í samfélagi.
Teymiskennsla
Við leggjum áherslu á samvinnu nemenda og kennara í teymiskennslu þar sem kennarar sameina krafta sína, hæfileika, áhuga og bjargir og bera sameiginlega ábyrgð á nemendum. Fagleg teymi gefa kennurum tækifæri til að þróa og læra í starfi. Skólaþróun snýst um að gera skólana að betri stað til náms og þroska fyrir nemendur. Blöndun barna í árgangi styrkir þau félagslega þar sem þau læra að vinna saman í fjölbreyttum hópi og að takast á við breytingar.
Hér má finna grein sem lýsir leið kennara Vesturbæjarskóla í innleiðingu á teymiskennslu.
Skapandi hugsun og frumkvæði
Okkur finnst mikilvægt að efla skapandi hugsun og frumkvæði og að veita börnum fjölbreytt tækifæri til sköpunar og tjáningar. Mikilvægt er að styrkja sjálfsmynd barna, þrautseigju, trú á eigin getu og hvetja þau til að nýta hæfileika sína í skapandi umhverfi. Börn læra að nýta margvíslega miðla í námi sínu og efla upplýsinga- og miðlalæsi sitt. Í sköpunarsmiðjum læra börn með því að gera (learning by doing) og geta unnið að hugmyndum og verkefnum sem þau hafa áhuga á og eru þeim merkingarbær. Við leggjum áherslu á að skapa nemendum okkar þroskavænlegt- og námshvetjandi umhverfi.
Efling lykilhæfnis
Við leggjum rækt við að efla lykilhæfni nemenda eins og hæfni til tjáningar, gagnrýnnar hugsunar, hæfni til samstarfs við aðra, sjálfsþekkingar, ábyrgðar og sjálfstæðis og frumkvæðis. Heimakrókur er í öllum kennslustofum þar sem ríkir heimilislegt andrúmsloft sem byggir upp traust og öryggi ásamt því að stuðla að vellíðan og opinskáum umræðum. Í þessu umhverfi fá nemendur tækifæri til að tjá sig og læra hver af öðrum. Við leggjum okkur fram við skapa umhverfi þar sem börnunum líður vel í skólanum og nái framförum í námi sínu. Upplifun hvers barns er einstök og með því að veita hverju barni athygli og rými hjálpum við þeim að finna hvar styrkur þeirra liggur.
Réttindaskóli Unicef
Við erum Réttindaskóli Unicef þar sem markmið er að námsumhverfi sé lýðræðislegt, börn læri um mannréttindi og tileinki sér gagnkvæma virðingu. Grunnforsendur Barnasáttmálans eru útgangspunktur fyrir allar ákvarðanir sem teknar eru í skólastarfinu og endurspeglast í samskiptum allra í skólasamfélaginu.