Stöðubrot

Útdráttur úr umferðarlögum 77/2019 og reglugerð um umferðarmerki 250/2024

Umferðarmerki- bannað að leggja

Bann við stöðvun eða lagningu ökutækis sem gefið er til kynna með umferðarmerki, bannað að leggja ökutæki.

Umferðarmerki. Bannað að leggja

 

Lagning ökutækis

Ökutæki komið fyrir í kyrrstöðu, með eða án ökumanns. Stöðvun ökutækis í minna en þrjár mínútur eða til að hleypa farþegum inn eða út eða vegna lestunar og losunar farms telst þó ekki lagning þess.

Umferðarmerki - bannað að stöðva

Bann við stöðvun eða lagningu ökutækis sem gefið er til kynna með umferðarmerki, bannað að stöðva ökutæki.

Umferðarmerki. Bannað að stöðva ökutæki.

 

Stöðvun ökutækis

Stutt hlé sem ökumaður ákveður sjálfur að gera á akstri sínum og ekki er tilkomið vegna annarrar umferðar, umferðarmerkja, fyrirmæla lögreglu eða þess háttar.

Umferðarmerki - bannað að leggja á svæði

Bann við stöðvun / lagningu ökutækis sem gefið er til kynna með umferðarmerki. Mörk svæðis þar sem heimild til að leggja ökutæki er takmörkuð.

Umferðarmerki - bannað að leggja á svæði

Gangbraut

Eigi má stöðva ökutæki eða leggja því á gangbraut eða innan 5 metra frá henni. 

Umferðarmerki - gangbraut

Gangbraut

Gangbraut er sérstaklega merktur hluti vegar með umferðarmerki og yfirborðsmerkingum sem er ætlaður gangandi vegfarendum til að komast yfir akbraut.

Vegamót

Eigi má stöðva ökutæki eða leggja því á vegamótum eða innan 5 metra frá næstu brún akbrautar á þvervegi.

Vegamót

Þar sem vegir mætast eða skerast eða vegur greinist.

Biðstöð hópbíla

Að undanskildum þeim ökutækjum sem stæði eru ætluð er bannað að stöðva eða leggja ökutæki á biðstöð hópbifreiða innan 15 metra frá merki.

 

Umferðarmerki - biðstöð hópbíla

Hópbifreið: 

Bifreið sem ætluð er til flutnings fleiri en átta farþega, einnig þótt bifreiðin sé jafnframt ætluð til annarra nota. 

Bílastæði fyrir fatlað fólk

Að undanskildum þeim ökutækjum sem stæði eru ætluð er bannað að stöðva eða leggja ökutæki á merktu stæði fyrir ökutæki fatlaðs fólks.

Umferðarmerki - bílastæði fyrir fatlað fólk

Stæðiskort fyrir hreyfihamlaða

Eingöngu handhafa stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða er heimilt að leggja ökutæki í bifreiðastæði sem ætlað er fyrir fatlaða og auðkennt með þar til gerðu umferðarmerki eða þar sem á annan hátt er sannanlega gefið til kynna að um stæði fyrir ökutæki hreyfihamlaðs einstaklings sé að ræða. (1.mgr. 87.gr)

Gangstétt, göngugötur, umferðareyjar og fleira.

Eigi má stöðva skráningarskylt ökutæki eða leggja því á stöðum sem ekki eru ætlaðir fyrir umferð slíkra ökutækja, svo sem gangstétt, göngustíg, göngugötu, hjólarein eða hjólastíg nema annað sé ákveðið, sbr. 1. mgr. 84. gr. Sama á við um umferðareyjar, grassvæði og aðra svipaða staði. 

Gangstétt: 

Sá hluti vegar til hliðar við akbraut sem aðallega er ætlaður gangandi vegfarendum. 

Göngugata: 

Göturými sem aðallega er ætlað gangandi vegfarendum og er merkt sem slíkt. Umferð annarra ræðst af merkingum og ákvæðum laga þessara. 

Göngustígur: 

Stígur sem aðallega er ætlaður umferð gangandi vegfarenda og er merktur þannig. 

Hjólarein: 

Sérrein á götustæði sem ætluð er umferð reiðhjóla og léttra bifhjóla í flokki I og merkt þannig. 

Hjólastígur:
    a. Sá hluti vegar sem eingöngu er ætlaður umferð reiðhjóla og léttra bifhjóla í flokki I, er merktur þannig og er greinilega aðskilinn frá akbraut, t.d. með umferðareyju eða kantsteini.
    b. Stígur sem er ekki hluti vegar og eingöngu ætlaður umferð reiðhjóla og léttra bifhjóla í flokki I og er merktur þannig. 

 

Annað

Annað skv. 84. gr. og 1. mgr 86. gr.

Leigubílastæði

Að undanskildum þeim ökutækjum sem stæði eru ætluð er bannað að stöðva eða leggja ökutæki á merktu stæði fyrir leigubifreið, vörubifreið eða hópbifreið.

Umferðarmerki - leigubílastæði

Vistgata

Skráningarskyldum ökutækjum má ekki leggja í vistgötu nema á merktum stæðum. 

 

Umferðarmerki - vistgata

Öfugt við akstursstefnu

Á vegi má einungis stöðva ökutæki eða leggja því hægra megin. Þar sem einstefnuakstur er má þó setja aðrar reglur, sbr. 1. mgr. 84. gr.

Skyggt á umferðarmerki

Eigi má stöðva ökutæki eða leggja því þannig að skyggi á umferðarmerki eða umferðarljós.

Veggöng, undir eða á brú

Eigi má stöðva ökutæki eða leggja því í veggöngum, undir brú eða á brú, nema sérstaklega sé ráð fyrir því gert.

Blindhæð eða beygja

Eigi má stöðva ökutæki eða leggja því í eða við blindhæð eða beygju eða annars staðar þar sem vegsýn er skert.

Óbrotin deililína

Eigi má stöðva ökutæki eða leggja því þar sem akbraut er skipt í akreinar með óbrotinni mið- eða deililínu milli akreina eða svo nálægt slíkri línu að torveldi akstur inn á rétta akrein. 

Hringtorg

Eigi má stöðva ökutæki eða leggja því á hringtorgi.

Hringtorg 

Vegamót þar sem hringlaga svæði er í miðjunni með akbraut umhverfis.

Vörubílastæði

Að undanskildum þeim ökutækjum sem stæði eru ætluð er bannað að stöðva eða leggja ökutæki á merktu stæði fyrir leigubifreið, vörubifreið eða hópbifreið. 

Umferðarmerki. Bílastæði fyrir vörubíla.

Vörubifreið

Bifreið sem aðallega er ætluð til farmflutninga, er með leyfða heildarþyngd meiri en 3,5 tonn og er að hámarki fyrir átta farþega. Sama gildir um flutningabifreið. 

Hópbifreiðastæði

Að undanskildum þeim ökutækjum sem stæði eru ætluð er bannað að stöðva eða leggja ökutæki á merktu stæði fyrir leigubifreið, vörubifreið eða hópbifreið.

Umferðarmerki. Bifreiðastæði ætlað hópbifreiðum.

Hópbifreið 

Bifreið sem ætluð er til flutnings fleiri en átta farþega, einnig þótt bifreiðin sé jafnframt ætluð til annarra nota. 

Stæði ætlað bifreið til rafhleðslu

Að undanskildum þeim ökutækjum sem stæði eru ætluð er bannað að stöðva eða leggja ökutæki á merktu stæði ætluðu bifreið til rafhleðslu.

Bílastæði ætluð rafmagnsbílum

Lögreglu- og sjúkrabifreiðastæði

Að undanskildum þeim ökutækjum sem stæði eru ætluð er bannað að stöðva eða leggja ökutæki á merktu stæði ætluðu lögreglu eða sjúkrabifreið.

Bílastæði ætluð lögreglu og sjúkrabílum.

Reiðhjólastæði

Að undanskildum þeim ökutækjum sem stæði eru ætluð er bannað að stöðva eða leggja ökutæki á merktu stæði ætluðu reiðhjóli. 

Umferðarmerki. Stæði ætlað reiðhjólum.

Reiðhjól

  • Ökutæki sem er knúið áfram með stig- eða sveifarbúnaði.
  • Hjól með stig- eða sveifarbúnaði, búið rafknúinni hjálparvél þar sem samfellt hámarksafl er allt að 0,25 kW og afköstin minnka smám saman og stöðvast alveg þegar hjólið hefur náð hraðanum 25 km á klst. eða fyrr ef hjólreiðamaðurinn hættir að stíga hjólið.
  • Annað lítið vélknúið ökutæki sem ekki telst til létts bifhjóls og er hannað til aksturs á hraða frá 6 km á klst. upp í 25 km á klst. Undir þessa skilgreiningu fellur m.a. vélknúið hlaupahjól og tvíhjóla ökutæki á einum öxli. Slíkum farartækjum má ekki aka á akbraut.

 

Bifhjólastæði

Að undanskildum þeim ökutækjum sem stæði eru ætluð er bannað að stöðva eða leggja ökutæki á merktu stæði ætluðu bifhjóli.

Bifhjól: 

Vélknúið ökutæki sem ekki telst bifreið, dráttarvél eða torfærutæki og er aðallega ætlað til farþega- eða farmflutninga, á tveimur hjólum, með eða án hliðarvagns, eða á þremur eða fleiri hjólum með sprengirými yfir 50 [cm 3]  sé það búið brunahreyfli og hannað til hraðari aksturs en 45 km á klst.

Fólksbílastæði

Að undanskildum þeim ökutækjum sem stæði eru ætluð er bannað að stöðva eða leggja ökutæki á merktu stæði ætluðu fólksbifreiðum.

Bílastæði ætlað fólksbifreiðum

Innkeyrslur

Eigi má leggja ökutæki að hluta eða í heild fyrir framan innkeyrslu að húsi eða lóð.

Við hlið annars ökutækis við brún akbrautar

Eigi má leggja ökutæki við hlið ökutækis sem stendur við brún akbrautar, annars en reiðhjóls eða létts bifhjóls.

Snúningshaus botnlangagötu

Eigi má leggja ökutæki í snúningshaus botnlangagötu.

Hindrar aðgang

Eigi má leggja ökutæki þannig að hindri aðgang að öðru ökutæki eða færslu þess af staðnum.

Vatnshani

Eigi má leggja ökutæki við vatnshana slökkviliðs.

Veghaldari eða eftir atvikum landeigandi getur, að höfðu samráði við lögreglu, bannað stöðu eftirvagna, báta, húsbíla og annarra svipaðra tækja á götum og almennum bifreiðastæðum sem þykja valda óþægindum, óþrifnaði eða hættu.