Líffræðileg fjölbreytni

Stefna

Stefna Reykjavíkurborgar um líffræðilega fjölbreytni var samþykkt í janúar 2016. Í stefnunni eru skilgreind markmið og lykilverkefni sem miða að því að hlúa að líffræðilegri fjölbreytni - bæði innan og utan borgarmarka. Bæklingur um Náttúruborgina kom út 16. september 2019. 

Líffræðileg fjölbreytni vísar til margbreytileika lífríkisins í umhverfi fólks, allt frá einstaklingum og stofnum einstakra tegunda til lífsamfélaga og vistkerfa. Þessi fjölbreytni er undirstaða náttúruauðlinda, sem eru lífsnauðsynlegar fyrir afkomu manna en mótar einnig lífsgæði og hamingju, ekki síst í borgum þar sem náttúra getur verið af skornum skammti.

Reykvíkingar deila borg sinni með ótal lífverum, allt frá álftum til hunangsflugna og birkitrjám til kuðungakrabba. Innan borgarmarkanna finnast mörg sérstæð, verðmæt og viðkvæm vistkerfi, til dæmis leirur og þangfjörur sem eru mikilvæg búsvæði vaðfugla og sjávarhryggleysingja, straumvötn sem hýsa laxa- og silungastofna, mosavaxin hraun, mólendi og lundavörp í eyjum. Hið byggða umhverfi er einnig auðugt af lífi og borgarbúar eru í daglegu samneyti við lífverur til dæmis syngjandi garðfugla. Þá skiptir návist við gróskumikinn og skjólveitandi gróður borgarbúa miklu máli.

Vernda lífverur

Líffræðileg fjölbreytni á undir högg að sækja á heimsvísu, því miður að miklu leyti vegna umsvifa mannsins en athafnir hans hafa beint eða óbeint valdið eyðingu búsvæða, hnignun vistkerfa og útdauða tegunda. Sífellt meiri vilji er meðal almennings og stjórnvalda til að hlúa að og vernda lífverur og umhverfi þeirra. Borgir víða um heim eru í fararbroddi í þeirri vegferð enda eru ákvarðanir um landnotkun og nýtingu náttúruauðlinda veigamiklar á vettvangi þeirra. Með þessari nýju stefnu mun Reykjavík verða virkur þátttakandi í þessu starfi. Þannig er jafnframt stutt við þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi á vegum hins Alþjóðlega Samnings Sameinuðu Þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni.

Stefnan byggist á sex meginmarkmiðum

  • Að upplýsingar um líffræðilega fjölbreytni í Reykjavík séu skráðar og greindar.
  • Að staða líffræðilegrar fjölbreytni í borgarlandinu sé sterk.
  • Að unnið sé gegn helstu ógnum líffræðilegrar fjölbreytni.
  • Að fræðsla um líffræðilega fjölbreytni fari fram með víðtækum hætti.
  • Að sess líffræðilegrar fjölbreytni sé tryggður í starfsemi Reykjavíkur.
  • Að Reykjavík sé leiðandi í stefnu- og aðgerðamótun um líffræðilega fjölbreytni.
  • Sjá alla stefnuna um líffræðilega fjölbreytni

Náttúruborgin

Bæklingur um Náttúruborgina kom út á Degi íslenskrar tungu 16. september 2019.

Aðgerðaáætlun

Undir hverju markmiði eru skilgreind lykilverkefni sem hafa beina skírskotun í þær fjölbreyttu aðgerðir sem koma við sögu við innleiðingu stefnunnar. Má þar nefna verkefni eins og rannsóknir á helstu vistgerðum og lykiltegundum, mat á þjónustu vistkerfa, mat á stöðu verndarsvæða, vöktun fuglalífs,  endurheimt votlendis, aukning á grænu rými í byggðu umhverfi, aðgerðir gegn ágengum plöntutegundum, eftirlit með mengun í fjörum, aukin almenningsfræðsla um náttúru Reykjavíkur, fjölgun náttúrulegra lausna við aðlögun að loftslagsbreytingum og svo mætti lengi telja.

Unnin hefur verið aðgerðaáætlun til tíu ára sem samþykkt var í borgarráði í mars 2017. Umsjón með gerð aðgerðaáætlunar og framfylgd hennar fer fram á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur.