Spurt og svarað til skipulagsfulltrúa
Hér finnur þú algengar spurningar og svör sem berast skipulagsfulltrúa.
Listi spurninga
Hver geta sent inn fyrirspurn og umsókn?
- Öll sem áhuga hafa á skipulagi í Reykjavík geta sent inn fyrirspurnir til embættis skipulagsfulltrúa.
- Húseigendur og lóðarhafar, eða ráðgjafi fyrir þeirra hönd, geta sótt um að gera breytingu á aðalskipulagi, nýtt deiliskipulag og/eða gera breytingu á gildandi deiliskipulagi/hverfisskipulagi.
- Ef ráðgjafi sækir um fyrir hönd húseiganda eða lóðarhafa þarf að tilgreina eiganda/lóðarhafa í umsókn og leggja fram skriflegt umboð þeirra með umsókninni.
Dæmi um fyrirspurnir og umsóknir:
- Þær geta varðað starfsemi og notkun. Fjallað er um landnotkun í aðalskipulagi eins og hvort um sé að ræða íbúðarbyggð, opin svæði eða mismunandi atvinnusvæði. Misjafnt er hvort fjallað um starfsemi í deiliskipulagi en þá er oft nákvæmari lýsing á starfsemi í tilteknu húsnæði.
- Nýtt eða breyting á deiliskipulagi einstakra svæða,hverfa eða borgarhluta.
- Breyting á aðalskipulagi.
- Aukið byggingarmagn, hækkun húsa eða breyting á lóð.
- Breyting og staðsetning á einstaka starfsemi.
- Niðurrif bygginga og annarra mannvirkja.
- Breytingar á húsnæði til dæmis hvað varðar svalir, kvisti, sólstofur o.s.frv.
- Breyting á fjölda eða fyrirkomulagi bílastæða.
Hver er munurinn á fyrirspurn og umsókn?
Fyrirspurn til skipulagsfulltrúa getur meðal annars verið eftirgrennslan um samræmi við gildandi skipulag og/eða afstöðu embættisins til breytingar á aðalskipulagi, deiliskipulagi/hverfisskipulagi og lóð eða skiptingu lóðar, án þess að lagðir séu fram fullnaðaruppdrættir með erindinu.
Taki embættið jákvætt í fyrirspurnina er hægt að fylgja málinu eftir með því að senda inn formlega umsókn sé farið fram á það. Jákvæð afgreiðsla fyrirspurnar felur þó ekki í sér endanlega afgreiðslu máls þar sem málsmeðferð og kynningarferli umsóknar getur haft áhrif á endanlega afgreiðslu.
Umsókn til skipulagsfulltrúa getur verið formlegt erindi um breytingu á aðalskipulagi, gerð nýs deiliskipulags, breytingu á gildandi deiliskipulagi/hverfisskipulagi og/eða breytingu á lóð eða skiptingu lóðar. Með umsókn þurfa að fylgja fullnaðargögn.
Hvenær eru fyrirspurnir og umsóknir teknar fyrir?
Fyrirspurnir og umsóknir eru lagðar fyrir á vikulegum afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa þegar afgreiðslugjald hefur verið greitt. Krafa um afgreiðslugjald berst í heimabanka. Greiðsla verður að hafa borist fyrir kl. 14.00 á þriðjudegi til að erindið verði tekið fyrir á næsta afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa. Afgreiðslufundir eru að jafnaði haldnir á fimmtudögum.
Þegar fyrirspurn eða umsókn er send embættinu fær sendandi upplýsingar í sjálfvirku svari um innheimtu og að erindið fari ekki til afgreiðslu fyrr en greiðsla hafi borist.
Umsækjanda er jafnframt tilkynnt með tölvupósti eða bréfi um afgreiðslu máls og um það gjald sem ber að greiða fyrir ef um áframhaldandi vinnu/ kynningarferli er að ræða. Umsýslu- og auglýsingagjöld vegna breytinga á aðalskipulagi eða deiliskipulagi skal greiða áður en tillaga er auglýst í kjölfar samþykktar þess efnis. Gjald vegna framkvæmdaleyfis skal greiða fyrir samþykkt og útgáfu framkvæmdaleyfis.
Hvaða umsóknir þurfa formlega málsmeðferð?
- Breyting á aðalskipulagi: Sótt er um breytingu á aðalskipulagi til embættis skipulagsfulltrúa. Við mat á því hvort breyting á aðalskipulagi geti talist veruleg eða óveruleg er tekið mið af því hvort breytingin hafi veruleg áhrif á landnotkun í för með sér eða sé líkleg til að hafa mikil áhrif á einstaka aðila eða stór svæði.
- Nýtt deiliskipulag: Ef umsókn felur í sér grundvallarbreytingu á deiliskipulagi svæðis t.d. varðandi landnotkun, byggðamynstur eða yfirbragð alls svæðisins, er rétt að gera nýtt deiliskipulag og fella það eldra úr gildi í þeim tilfellum þar sem deiliskipulag er þegar fyrir hendi. Ef deiliskipulag er ekki fyrir hendi þarf að vinna nýtt deiliskipulag frá grunni til samræmis við gildandi aðalskipulag. Ef nýtt deiliskipulag er samþykkt, þá fara upplýsingar þar að lútandi í formlegt auglýsingarferli.
- Veruleg breyting á deiliskipulagi/hverfisskipulagi: Í hverju tilviki fyrir sig metur embætti skipulagsfulltrúa hvort breyting telst veruleg eða óveruleg. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skal taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Ef um er að ræða verulega breytingu á deiliskipulagi fer tillagan í formlegt auglýsingarferli.
- Óveruleg breyting á deiliskipulagi/hverfisskipulagi: Í þeim tilfellum þegar um óverulega breytingu á deiliskipulagi er að ræða er breytingin grenndarkynnt fyrir nærliggjandi lóðarhöfum og leigjendum sem hún er talin hafa áhrif á.
- Byggingarleyfi: Þegar sótt er um byggingarleyfi til embættis byggingarfulltrúa í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir vísar embættið málinu til umsagnar hjá embætti skipulagsfulltrúa sem fjallar um málið og ákveður hvort grenndarkynna eigi umrædda byggingarleyfisumsókn.
Hvar er hægt að nálgast teikningar?
Teikningar af húsum má fá á teikningavef og hjá þjónustuveri Reykjavíkur með því að senda tölvupóst á netfangið upplysingar@reykjavik.is
Hvar er hægt að skoða aðal- og deiliskipulag?
Hægt er að nálgast aðal- og deiliskipulag á skipulagssjá Reykjavíkurborgar.