Spurt og svarað um sundlaugar Reykjavíkur

Hér eru algengar spurningar um sundlaugar Reykjavíkur.

Má hanga á línum í sundlaugum?

Sundlaugalínur er kostnaðarsamur og viðkvæmur búnaður sem ekki er hugsaður sem leikfang. Línurnar slitna fyrr ef mikið álag er á þeim og því ekki æskilegt að hanga á þeim.

Hvers vegna er vafasamt að vera með köfunarsundgleraugu í sundi?

Viðeigandi þjálfun þarf til að nota búnað að þessu tagi. Erfitt er fyrir laugarvörð að meta aðstæður þegar slíkur búnaður er notaður.

Hvers vegna þurfa gestir að koma með sundkortið sitt í sund?

Eingöngu sá sem skráður er fyrir korti hefur heimild til að nota það og þess vegna er mikilvægt að gestir komi með kortið sitt.

Hvers vegna má ekki neita áfengis né vímuefna í sundlaugum Reykjavíkur?

Notkun áfengis og vímuefna veldur bæði andlegum og líkamlegum breytingum hjá þeim sem þess neyta. Það virkar slævandi á taugakerfið og hægir á og truflar starfsemi heila. Dómgreind raskast og er einstaklingur undir áhrifum líklegri til að valda sér og öðrum skaða.

Hvers vegna má ekki taka ljósmyndir í sundlaugum Reykjavíkur?

Sundlaugar Reykjavíkur eru stoltar af því að bjóða upp á símalausa samveru í sundi. Ekki eru allir sáttir við að láta birta mynd af sér t.d. á samfélagsmiðlum í sundfötum einum klæða. Sundlaugarnar eru hugsaðar sem staður til að næra líkama og sál og þá er ekkert betra en að vera laus við áreiti tækjanna.