Ferli umsókna og fyrirspurna til skipulagsfulltrúa

Hvenær eru umsóknir og fyrirspurnir teknar fyrir?

Fyrirspurnir og umsóknir eru lagðar fyrir á vikulegum afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa þegar afgreiðslugjald hefur verið greitt. Krafa um afgreiðslugjald berst í heimabanka. Greiðsla verður að hafa borist fyrir kl. 14.00 á þriðjudegi til að erindið verði tekið fyrir á næsta afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa. Afgreiðslufundir eru að jafnaði haldnir á fimmtudögum.   

Þegar fyrirspurn eða umsókn er send embættinu fær sendandi upplýsingar í sjálfvirku svari um innheimtu og að erindið fari ekki til afgreiðslu fyrr en greiðsla hafi borist.  

Umsækjanda er jafnframt tilkynnt með tölvupósti eða bréfi um afgreiðslu máls og  um það gjald sem ber að greiða fyrir ef um áframhaldandi vinnu/ kynningarferli er að ræða.  Umsýslu- og auglýsingagjöld vegna breytinga á aðalskipulagi eða deiliskipulagi skal greiða áður en tillaga er auglýst í kjölfar samþykktar þess efnis.

Gjald vegna framkvæmdaleyfis skal greiða fyrir samþykkt og útgáfu framkvæmdaleyfis.   

Nánar um ferli umsókna og fyrirspurna

Skref 1

Umsókn eða fyrirspurn er send inn rafrænt. Hægt er að koma í þjónustuver Reykjavíkurborgar, Borgartún 12-14, 105 Reykjavík, og fá aðstoð við að senda inn umsókn eða fyrirspurn gerist þess þörf.

Skref 2

Umsækjandi verður að fylla út eyðublaðið og senda með öll fylgigögn s.s. teikningar, skýringarmyndir, greinargerð og annað sem hann telur styðja við viðkomandi fyrirspurn og/eða umsókn.

4–6 vikur

Vinnsla umsókna og fyrirspurna tekur mismunandi tíma eftir hver málsmeðferðin er. Til dæmis má ætla að afgreiðsla fyrirspurnar taki 4–6 vikur frá því að málið hefur verið tekið fyrir á fyrsta afgreiðslufundi, en slíkir fundir eru að öllu jöfnu á fimmtudögum.

8 vikur

Gera má ráð fyrir að málsmeðferð umsókna sem fela í sér grenndarkynningu til nágranna og annarra hagsmunaaðila, frá því að umsókn er sett á fund og þar til málið hefur hlotið lokaafgreiðslu hjá skipulagsfulltrúa/umhverfis- og skipulagsráðs, taki að lágmarki átta vikur.

6 mánuðir

Nýtt deiliskipulag og/eða breyting á gildandi deiliskipulagi getur tekið allt að sex mánuðum og jafnvel lengur sé verið að vinna með stór svæði.