Veðurstofureitur

Kynning fyrir hagsmunaaðila

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs þann 22. mars 2023 var lögð fram skipulagslýsing, dags. 7. mars 2023, vegna nýs deiliskipulags fyrir Veðurstofureit. Í tillögunni sem lögð er til felst að koma fyrir nýrri íbúabyggð ásamt þjónustu á Veðurstofuhæð.

  • Að greina núverandi horf Veðurstofuhæðar og næsta nágrennis svo byggja megi undir heildstætt nýtt íbúðahverfi á miðsvæði ásamt þjónustu með sterkum vistvænum áherslum í sátt við núverandi umhverfi.
  • Að leita uppi styrkleika rýmisins á svæðinu og flétta saman við borgarsamhengið næst reitnum í Hlíðum og Kringlu.
  • Að koma fyrir nýrri 7m breiðri tengingu sem þjónar öllum virkum ferðamátum undir Bústaðaveg og tengja saman norður–suðurás milli Stigahlíðar og Beykihlíðar/Birkihlíðar (Suðurver og Klettaskóli).
  • Að skoða þróunar- og uppbyggingarmöguleika lóða á reitnum, hæðir húsa, stakstæð eða í klösum ásamt samnýtingu rýma.
  • Að finna hæfilegt nýtingarhlutfall nýbygginga á reitnum.
  • Að skoða bílastæðakröfur og bílastæðahús ásamt fyrirkomulagi á aðgengi ökutækja inn á íbúðareitinn sem gengur í aðalatriðum út á samnýtingu með Veðurstofunni.
  • Að deilihagkerfið eigi að geta þjónað öllum íbúum reitsins.
  • Að staðsetja 5-7 íbúa sambýli fyrir fatlaða.
  • Að skilgreina útivistarsvæði fyrir íbúa reitsins og núverandi nágranna.

Gert er ráð fyrir að byggingarmagn á reitnum skiptist á milli Græns húsnæðis framtíðarinnar á veðurhæðinni, Variat - hagkvæms húsnæðis og Bjargs íbúðafélags. Gert er ráð fyrir að starfsemi þjónustustofnunar á Veðurstofureit (Veðurstofa Íslands) muni alfarið færast yfir á lóð nr. 7 við Bústaðaveg með nýbyggingarreit vestan við núverandi byggingu. Byggingarreitur Veitna ohf. undir framtíðarstækkun kaldavatnsgeymis verður staðsettur sunnan við hlið núverandi geymis.

Óskað er eftir að ábendingar/umsagnir berist á netfangið skipulag@reykjavik.is eigi síðar en 4. maí 2023. 

Umhverfis- og skipulagssvið notar þær persónugreinanlegu upplýsingar sem settar eru fram vegna athugasemda við skipulag, s.s. kennitölu, nafn og netfang í þeim tilgangi að vinna úr athugasemdum og auðkenna borgarbúa. Að auglýsingarferli loknu eru gögn varðveitt í 30 ár og flytjast að þeim tíma liðnum til Þjóðskjalasafns Íslands skv. lögum nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn. Nánari upplýsingar um meðferð persónuupplýsinga hjá Reykjavíkurborg má finna hér.

Vakin er athygli á því að athugasemdir teljast til opinberra gagna í allri skipulagsmeðferð og birtast meðal annars nöfn borgarbúa í fundargerðum skipulags- og samgönguráðs á netinu.