Alþjóðlegur dagur gegn fordómum í garð hinsegin fólks

Flaggað í tilefni af IDAHOBIT deginum
Flaggað við Ráðhús Reykjavíkur í tilefni af IDAHOBIT deginum.

17. maí er alþjóðlegur dagur gegn fordómum í garð hinsegin fólks, einnig nefndur IDAHOBIT (International Day Against Homophobia, Biphobia, Intersex Discrimination and Transphobia).

Þann 17. maí árið 1990 fjarlægði Alþjóðaheilbrigðisstofnunin samkynhneigð af lista sínum yfir geðsjúkdóma. Frá árinu 2004 hafa hinsegin félög víðs vegar um heiminn unnið að því að vekja athygli á þessari sögu ásamt stöðu hinsegin fólks með því að minnast þessa dags. Árið 2019 færði svo Alþjóðaheilbrigðisstofnunin flokkun sína á þáttum sem snerta trans fólk úr kafla um geðsjúkdóma yfir í kafla um kynverund og heilsu.

Í ár flaggar Reykjavíkurborg regnbogafánum í tilefni af IDAHOBIT til að vekja athygli á málefnum hinsegin fólks sem og að fagna hinseginleikanum. 

Reykjavíkurborg vinnur að málefnum hinsegin fólks með fjölbreyttum hætti í borginni alla daga. Hæst ber að nefna Regnbogavottun Reykjavíkurborgar en yfir 100 starfsstaðir hjá borginni hafa nú hlotið Regnbogavottun og fjölmargir starfsstaðir til viðbótar eru að vinna að því að ljúka vottuninni. 

Í vikunni var einnig tilkynnt að Ísland hefði náð 2. sæti á Regnbogakortinu sem greinir lagalega stöðu hinsegin fólks í Evrópu og Mið-Asíu. Ísland uppfyllir nú 83% af þeim viðmiðum sem regnhlífarsamtök hinsegin fólks í Evrópu setja um réttindi hinsegin fólks. Þetta er árangur sem ber að fagna.

Þó svo að margt hafi áunnist síðustu ár þegar litið er til lagalegrar og félagslegrar stöðu hinsegin fólks er það enn svo að það upplifir fordóma, mismunun, öráreitni og útilokun. Það er ljóst að allar stofnanir og hópar samfélagsins þurfa að sameinast um að gera betur ef fullt jafnrétti hinsegin fólks á að nást. 

Til hamingju með daginn og áfram með baráttuna!

Hér má finna fróðleik um hinsegin málefni hjá Reykjavíkurborg:

Síða Reykjavíkurborgar um hinsegin málefni