Húsverndarsjóður Reykjavíkurborgar
Húsverndarsjóður veitir styrki til endurgerðar eða viðgerðar á mannvirkjum sem hafa sérstakt varðveislugildi af listrænum eða menningarsögulegum ástæðum. Auglýst er eftir styrkjum einu sinni á ári. Krafist er að framkvæmdir séu í samræmi við upprunalegan byggingarstíl mannvirkis og sjónarmið minjavörslu höfð að leiðarljósi.
Hverjir geta sótt um úr húsverndarsjóði?
Öllum er heimilt að sækja um styrki úr húsverndarsjóði vegna húseignar eða mannvirkis sem telst hafa sérstakt varðveislugildi.
Hver eru skilyrðin fyrir styrknum?
Ýmis skilyrði þarf að uppfylla til að framkvæmdin hljóti styrk úr húsverndarsjóði. Sem dæmi má nefna:
- að mannvirkið hafi sérstakt varðveislugildi af listrænum eða menningarsögulegum ástæðum;
- að framkvæmdir séu í samræmi við upprunalegan byggingarstíl mannvirkis og sjónarmið minjavörslu haft að leiðarljósi;
- að framkvæmdin teljist ekki til eðlilegs viðhalds, svo sem endurnýjun eða málun.
Er húsið mitt friðað?
Öll hús sem eru 100 ára eða eldri eru friðuð samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012. Samkvæmt sömu lögum getur mennta- og menningarmálaráðherra friðlýst hús óháð aldri. Upplýsingar um friðun húsa og skrá yfir friðlýst hús í Reykjavík er að finna á vef Minjastofnunar Íslands.
Hvernig er sótt um styrk?
- Umsókn send. Sótt er um á mínum síðum. Ef umsókn berst of seint er hún ekki gjaldgeng.
- Gögn metin. Fulltrúar skipaðir af umhverfis- og skipulagssviði fara yfir gögn og leggja til styrkþega.
- Umsókn afgreidd. Skipulags- og samgönguráð afgreiðir umsókn um styrk og borgarráð staðfestir afgreiðsluna
- Svar sent. Umhverfis- og skipulagssvið sendir öllum umsækjendum, sem hljóta styrk, skriflegt svar með upplýsingum um áframhaldandi ferli.
- Styrkur greiddur út. Styrkur er ekki greiddur út fyrr en verk það er hafið, sem styrkurinn hefur verið veittur fyrir.
Hægt er að koma ábendingum og athugasemdum vegna meðferðar umsókna á framfæri við umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur, Borgartúni 12 - 14, 105 Reykjavík, sími 4 11 11 11. Netfang: skipulag@reykjavik.is.
Aðilum sem neitað er um styrk er heimilt að gera um það athugasemd til umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur.
Hvaða gögn þurfa að fylgja umsókninni?
Upplýsingar um nauðsynleg fylgigögn má finna í umsókninni. Upplýsingar sem skulu koma fram eru:
- Lýsing á fyrirhuguðum framkvæmdum.
- Tímaáætlun og kostnaðaráætlun um fyrirhugaðar framkvæmdir.
- Ljósmynd, 1-5, af húsinu sem sýnir núverandi útlit þess og nánari myndir ef þurfa þykir.
- Beðið er um teikningar af húsi eða nánari gögn, ef ástæða þykir.
Teikningar af húsum má fá á teikningavef og hjá þjónustuveri Reykjavíkurborgar með því að senda tölvupóst á netfangið upplysingar@reykjavik.is. Ef þær eru ekki til má hafa gamlar ljósmyndir til hliðsjónar. Gamlar ljósmyndir má fá hjá Ljósmyndasafni Reykjavíkur eða Þjóðminjasafni.