Hávaði

Með hávaða er átt við hljóð sem er ekki verið að sækjast eftir. Hljóð sem einn upplifir hávaða getur verið list í eyrum annars. Hvernig fólk upplifir hávaðann ræðst t.d. af styrk hljóðsins, tíðni þess og tímalengd.

Regluverk

Markmið reglugerðar nr. 724/2008 um  hávaða er að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum af völdum hávaða. Reglugerðin tekur til hávaða t.d. á tónleikum og skemmtistöðum, umferð bíla og flugvéla auk hávaða tengdum framkvæmdum.

Mörk fyrir hávaða frá nokkrum uppsprettum eru talin upp í töflum I til V í reglugerðinni um hávaða. 

Í byggingarreglugerð nr. 112/2012, eins og í reglugerð um hávaða, er sérstaklega kveðið á um að hljóðvist sé góð í umhverfi barna, s.s. í leikskólum, grunnskólum, frístundaheimilum og öðrum stöðum þar sem börn dvelja. Þar er krafa um að húsnæði skuli að lágmarki uppfylla hljóðvistarflokk C í staðlinum ÍST 45 - Hljóðvist-Flokkun íbúðar og atvinnuhúsnæðis.

Vinnueftirlitið

Vinnueftirlitið hefur eftirlit með hávaða á vinnustöðum.

Hljóðstyrkur

Mælieining hljóðstyrks er decibel (dB). Decibel - skalinn er lógaritmískur kvarði eins og jarðskjálftamælieiningin Richter. Tvöföldun er hækkun um 3 dB, fjórföldun 6 dB o.s.frv.

Með öðrum orðum þá má segja að einstaklingur sem dvelur stanslaust í 94 dB hávaða í eina klukkustund hefur upplifað sama hávaða og einstaklingur sem hefur stöðugt viðdvöl í átta tíma í 85 dB hávaða. Talað er um að 10 dB aukning skynjist sem tvöföldun hávaðans.

Hljóðvísarnir

Til að útskýra lítillega hvaða hávaðavísanir merkja þá felur jafngildishljóðstigið í sér mælingu með stöðugum hljóðstyrkleika og segir til um samanlagða hljóðorku hins sveiflukennda hljóðstigs yfir ákveðinn tíma. Með öðrum orðum þá skráir mælirinn niður hljóðstigið jafnt og þétt yfir tiltekinn tíma sem stöðugt sveiflast og að lokum gefur eitt gildi, jafngildishljóðstig. Líta má á það sem nokkurs konar meðalhljóðorku sem einstaklingur verður fyrir yfir ákveðið tímabil. Ekki er um hefðbundið meðaltal að ræða þar sem dB-gildin eru lógariþmísk. Hámarkshljóðstigið er svo aftur hámarkshljóðbil yfir 0,125 sek og að lokum er hæsti hljóðtoppur mæling yfir enn skemmri tíma. Hæsti hljóðtoppur er mældur með svokallaðri C-síu og jafngildis- og hámarkshljóðstigið með A-síu. A-sía fylgir því tíðnibili sem menn skynja lægra hljóðstig. C-sían líkir svo aftur á móti eftir því hvernig menn skynja mjög hátt hljóðstig og nemur betur tóna á lægsta tíðnibilinu.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur

  • Borgartún 12, 105 Reykjavík
  • Þjónustuver 411 1111