Aðgangur að gögnum hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur

Þegar óskað er eftir aðgangi að gögnum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012 eða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þarf að fylla út beiðni á þar til gerðu eyðublaði í gegnum Mínar síður hjá Reykjavíkurborg.
Á því tiltekur þú gögnin sem þú vilt fá aðgang að eða efni þess máls sem þau tilheyra með nægilega skýrum hætti svo við getum áttað okkur sem best á því hvað þú ert að biðja um. Þetta flýtir fyrir afgreiðslu og þjónustan verður betri.
Afgreiðslutími beiðna
- Beiðnin verður afgreidd eins fljótt og auðið er sem fer eftir umfangi hennar.
- Ef beðið er um aðgang að öllum gögnum tiltekins máls á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012 þarf að meta hversu langan tíma það tekur að verða við henni. Ef beiðnin er enn í skoðun að sjö (virkum) dögum liðnum, ber að útskýra fyrir beiðanda hvenær svars er að vænta.
- Hámarksfrestur vegna afgreiðslu á beiðni er 30 virkir dagar frá móttöku hennar, annars er beiðanda heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.