Ný íbúðarhverfi í undirbúningi í Úlfarsárdal
Nú liggur fyrir verklýsing aðalskipulagsbreytingar um breytt skipulag í landi Halla og nágrenni en þar eru tækifæri til að efla byggð í austurhluta Reykjavíkur og styrkja sjálfbæra borgarþróun á höfuðborgarsvæðinu öllu. Þetta er fyrsta skrefið í kynningar- og samráðsferli en áformað er að því ferli ljúki á fyrri hluta árs 2026.
Möguleg uppbyggingarsvæði eru vel staðsett landfræðilega og má segja að þau séu meðal síðustu byggingarsvæðanna innan samfelldrar byggðar á höfuðborgarsvæðinu, sem hafa miðlæga legu.
Styrki þá byggð sem fyrir er
Skipulagning nýs skólahverfis í landi Halla felur í sér tækifæri til að efla borgarhlutann Grafarholt-Úlfarsárdal sem samfélagslega heild, þar sem þegar er búið að fjárfesta á metnaðarfullan hátt í samfélags- og menningarstofnunum og íþróttamannvirkjum. Jafnframt skapast tækifæri til að efla verslun og þjónustu á svæðinu. Markmiðið er að ný hverfi í Höllum og nágrenni styrki þá byggð sem er fyrir.
Uppbygging nýrra íbúðarhverfa í Úlfarsárdal er enn fremur lykil forsenda þess að efla húsnæðismarkaðinn í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu á komandi árum og liður í því stuðla að auknu og stöðugra framboði íbúða, samanber markmið Húsnæðisáætlunar 2025-2034.
Uppbygging almenningssamgangna og styrking stofn- og tengibrauta
Uppbygging öflugra almenningssamganga er mikilvæg forsenda þess að hægt verði að byggja upp ný borgarhverfi á svæðinu á vistvænan og hagkvæman hátt. Það er enn fremur lykil forsenda í þróun frekari byggðar í Úlfarsárdal. Styrking stofn- og tengibrauta að svæðinu, samanber gildandi stefna Aðalskipulags Reykjavíkur 2040, er einnig forsenda þess að fjölga íbúðum verulega í Úlfarsárdal, fyrst í Höllum og síðar mögulega í innanverðum dalnum.
Opið fyrir athugasemdir til 11. desember
Fólk er hvatt til að kynna sér málið en hægt er að skoða öll gögn inni á Skipulagsgáttinni. Opið er fyrir umsagnir og athugasemdir til 11. desember.