Lóðir fyrir skapandi greinar í Gufunesi

Reykjavíkurborg auglýsir eftir fyrirtækjum á sviði skapandi greina sem eru áhugasöm um að staðsetja sig í Gufunesi. Bæði er leitað eftir upplýsingum um stærðarþarfir og mögulegar tegundir fyrirtækja.

  • Reykjavíkurborg er að þróa einstakt hverfi fyrir skapandi greinar í Gufunesi þar sem íbúðabyggð blandast saman við spennandi atvinnugreinar framtíðarinnar í frábærum tengslum við náttúruna með útsýni til Esjunnar og Viðeyjar.
  • Uppbygging á fyrsta áfanga svæðisins er í fullum gangi, hundruðir íbúða eru á byggingarstigi og fyrstu íbúar þegar fluttir inn auk þess sem nokkur fyrirtæki hafa hafið starfsemi á svæðinu. 
Hönnun: JVST & Partners, Andersen & Sigurdsson

    Skipulagsvinna fyrir næsta áfanga hverfisins er hafin og stefnt að því að rammaskipulag verði samþykkt á árinu.

    MYND: SÓS

    Tilgangur

    Ekki er verið að auglýsa eftir áhuga á lóðum undir íbúðarhúsnæði og verða slíkar lóðir auglýstar á síðari stigum. Það er þó opið fyrir því að allt að 20% lóðar sé nýtt undir íbúðarhúsnæði að því gefnu að það tengist skapandi starfsemi.

    Tilgangurinn er að skapa tækifæri til þess að tryggja að í nýju skipulagi verði til staðar lóðir sem henta áhugasömum fyrirtækjum sem koma með sköpunarkraft og áhugaverða áfangastaði inn í hverfið.

    Hugmyndir

    Reykjavíkurborg áskilur sér rétt til að ákveða hvort hugmyndir sem berast verði kveikja að samstarfi eða samningum um lóðir á svæðinu og þá um leið að þær verði hluti af forsendum fyrirhugaðs skipulags. Mögulegir samningar um lóðir á svæðinu verða gerðir á markaðsforsendum. Tekið verður tillit til rekstrarsögu og fjárfestingargetu við mat á vænleika verkefna.  Ef af lóðarúthlutun verður þá mun kvöð varðandi skapandi starfsemi verða sett á lóðina.

    Áhugasamir sendi inn erindi á netfangið athafnaborgin@reykjavik.is merkt „Gufunes – áfangi 2“ þar sem lýst er væntanlegri starfsemi, æskilegri stærð lóðar og vænt byggingarmagn. Frestur er til loka dags 1. mars 2023.

    Falleg teiknuð mynd af svæðinu á Gufunesi.