Velferðarráð - Fundur nr. 474

Velferðarráð

Ár 2024, miðvikudagur 6. mars var haldinn 474. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:11 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Magnea Gná Jóhannsdóttir, Helga Þórðardóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þorvaldur Daníelsson. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Sara Björg Sigurðardóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Agnes Sif Andrésdóttir, Anna Sigrún Baldursdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL24010017. 

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 6. mars 2024, um hækkun tekju- og eignamarka í reglum Reykjavíkurborgar fyrir sérstakan húsnæðisstuðning:

    Lagt er til að samþykkt verði hækkun tekjumarka sem fram koma í 5. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning, afturvirkt frá 1. janúar 2024, sem hér segir:

    Fjöldi heimilis- Fólks    Neðri tekjumörk á ári    Efri tekjumörk  á ári    Neðri tekjumörk          á mánuði    Efri tekjumörk         á mánuði
    1    5.690.772    7.113.465    474.231    592.789
    2    7.526.505    9.408.131    627.209    784.011
    3    8.811.518    11.014.398    734.293    917.866
    4 eða fleiri    9.545.812    11.932.265    795.484    994.355

    Jafnframt er lagt til að samþykkt verði að eignamörk samkvæmt 6. tl. 1. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning verði hækkuð úr 7.158.000 kr. í 7.745.000 kr. og gildi afturvirkt frá 1. janúar 2024.

    Kostnaður vegna tillögunnar rúmast innan fjárheimilda velferðarsviðs.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL24020038.
    Samþykkt. Vísað til borgarráðs.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Nauðsynlegt er að styðja við leigjendur sem greiða allt of háan húsnæðiskostnað. Viðmiðið ætti að vera að enginn greiði meira en fjórðung tekna sinna í húsnæðiskostnað en á þeim markaðsvædda húsnæðismarkaði sem er ráðandi í dag, þá eru sturlaðar arð¬semis¬kröfur leigu¬sala að grafa undan lífs¬kjörum leigj¬enda líkt og formaður leigjendasamtakanna, Guðmundur Hrafn Arngrímsson, hefur ítrekað tekið fram og leigjendasamtökin hafa barist gegn. Fulltrúi sósíalista ítrekar nauðsyn þess að leigjendur verði studdir og varðir gegn markaðsvæddum leigumarkaði og til þess þarf að regluvæða leigumarkaðinn og breyta stefnumótun í húsnæðismálum með því að félagsvæða húsnæði og stórfjölga í uppbyggingu félagslegs húsnæðis. Við eigum öll rétt á húsnæði og líta þarf á slíkt sem réttindi en ekki tækifæri fyrir fjárfesta til þess að græða. Á meðan húsnæðiskostnaður leigjenda er of hár og hækkar í sífellu, munu greiðslur vegna húsnæðisstuðnings halda áfram að taka hækkunum. Á þessu ári er gert ráð fyrir því að framlög Reykjavíkurborgar vegna sérstaks húsnæðisstuðnings nemi tæpum 1,7 milljarði.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi flokks fólksins telur rétt að miða uppfærslu tekjuviðmiða í reglum um sérstakan húsnæðisstuðning við þróun launa milli ára. Launavísitala hækkaði um 7% milli áranna 2023 og 2024 og þá hækkuðu lægstu laun um 66.000 kr. í þeirri kjarasamningslotu sem fór fram síðasta vetur og teygði sig fram á vorið. Þá má ekki gleyma því að vísitala neysluverðs hækkaði um 6,7% milli áranna 2023 og 2024. Hér stendur til að ganga skemur en sem nemur þróun launa og verðlags milli ára og hækka viðmiðin aðeins um 5,6%. Það þýðir í reynd að réttur fjölda fólks til sérstaks húsnæðisstuðnings rýrnar milli ára.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram minnisblað, dags. 6. mars 2024, um þjónustu velferðarsviðs við fanga í afplánun. VEL23120035.

    Sigrún Skaftadóttir, deildarstjóri á skrifstofu ráðgjafar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð þakkar fyrir góða kynningu á því starfi sem velferðarsvið borgarinnar er að sinna með föngum í afplánun. Ljóst er að mikið er gert og gott samstarf er við félagasamtök og stofnanir, en sömuleiðis er ljóst að málaflokkurinn er þungur og  brýnt að öll leggist á eitt til þess að auðvelda komu dómþola út í samfélagið að nýju.
     

    Fylgigögn

  4. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um að vangreiddar skuldir íbúa á íbúðakjörnum verði ekki sendar til innheimtufyrirtækja, sbr. 22. lið fundargerðar velferðarráðs frá 6. desember 2023, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 6. mars 2024. VEL23120018.

    Felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Verklag vegna vangreiddra skulda frá 2021 hefur gefið góða raun og síðastliðin misseri hefur upplýsingagjöf verið aukin með þeim hætti að Félagsbústaðir senda lista yfir skuldastöðu til forstöðumanna einu sinni í mánuði í þeim úrræðum þar sem vanskil hafa verið vandamál. Þannig geta stuðningsaðilarnir verið fljótir að grípa inn í ef þess er þörf. Stuðningsaðilar eru meðvitaðir um vandamálið í öllum tilvikum en þau hafa takmörkuð úrræði ef leigjandinn er ekki sjálfur viljugur að greiða leigu. Í þeim tilvikum felst lausnin oft í að viðkomandi sé útvegaður fjárhaldsmaður. Á síðastliðnum fjórum árum hefur enginn leigjandi í sambýli eða íbúðakjarna fyrir fatlað fólk misst húsnæði sitt vegna vanskila. Rétt væri þó að skerpa á þessu verklagi í kjölfar athugasemda frá forstöðumönnum við fulltrúa Flokk fólksins. Því er beint til stjórnar Félagsbústaða að skoða það. Þá er áréttað að kröfurnar sjást í heimabanka.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins lagði til að vangreiddar leiguskuldir einstaklinga á sambýlum eða íbúðakjörnum verði ekki sendar til Motus eða annarra kröfufyrirtækja. Eftir nokkrar ábendingar frá forstöðumönnum sambýla um áhyggjur þeirra af skjólstæðingum sínum sem voru komnir í vanskil þá fannst fulltrúa Flokks fólksins mikilvægt að grípa í taumana. Í umsögn kemur fram að almennt sé lítið um vanskil meðal fatlaðs fólks og að um síðustu áramót hafi einungis 16 leigjendur verið með meira en 200.000 kr. í ógreidda leigu. Þetta er sérstakt í ljósi þess að eftir að Flokkur fólksins lagði fram þessa tillögu þá frétti fulltrúi flokksins af fötluðum einstaklingi sem var kominn í miklu hærri skuld og þessi háa skuld kom aðstandendum viðkomandi einstaklings algjörlega í opna skjöldu. Í umsögn segir að í þeim tilvikum þar sem vanskilin eru orðin alvarleg þá séu aðstandendur upplýstir. Það er augljóst að það er einhver brotalöm á þessari verklagsreglu. Félagsbústöðum finnst ástandið greinilega ásættanlegt þar sem enginn leigjandi í sambýli eða íbúðakjarna fyrir fatlað fólk hefur misst húsnæði sitt vegna vanskila undanfarin fjögur ár. Mál eru send í innheimtu eftir fjórar vikur frá eindaga. Tillagan var felld.

    Fylgigögn

  5. Lagðar fram verklagsreglur um fyrirspurnir og tillögur í ráðum og nefndum Reykjavíkurborgar, sem samþykktar voru á fundi forsætisnefndar 19. janúar 2024, sbr. bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 26. janúar 2024. MSS23090170.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um rekstrarkostnað vegna hjólhýsabyggðar, sbr. 17. lið fundargerðar velferðarráðs frá 7. febrúar 2024. VEL24020015.

    Vísað til menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs.
     

    Fylgigögn

  7. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 6. mars 2024, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um tilvísanir til skólaþjónustu, sbr. 14. lið fundargerðar velferðarráðs frá 1. nóvember 2023. VEL23110005.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins lagði fram fyrirspurn um sundurliðun á málum/tilvísunum til skólaþjónustu. Á þriðja þúsund barna bíða eftir aðstoð fagfólks skólaþjónustu langflestir eftir sálfræðingi og talmeinafræðingi. Aðeins um 900 börn bíða eftir vitsmuna- og málþroska greiningum en allir hinir eru að bíða eftir aðstoð vegna tilfinninga- og félagslegra vandamála. Verkefnið „Betri borg fyrir börn“ var sett á laggirnar til að bæta þjónustu við börn og færa hana inn í skólana. Þrátt fyrir þetta er bið barna eftir þjónustu alltof löng. Fram kemur í svari að flestir hafa beðið skemur en ár. Meðal biðtími barna eftir þjónustu er 6 mánuðir eða 180 dagar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta of langur biðtími. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögu í borgarstjórn um að stofnaður verði starfshópur sem vinni markvisst að því að ná biðtíma barna eftir þjónustu undir 90 daga. Tillögunni var vísað inn í velferðarráð og vonar fulltrúi Flokks fólksins að hún fái þar góðan hljómgrunn. Fram kemur að verið sé að gera könnun meðal foreldra um hvað betur megi fara og fagnar fulltrúi Flokks fólksins því.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 6. mars 2024, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um fjölda barna sem búa undir fátæktarviðmiði, sbr. 16. lið fundargerðar velferðarráðs frá 7. febrúar 2024. VEL24020014.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram fyrirspurn um fjölda barna í Reykjavík sem búa undir fátæktarviðmiði. Í svari kemur fram að velferðarsvið heldur ekki utan um upplýsingar né skráir upplýsingar um fjölda barna í Reykjavík sem búa undir fátæktarmörkum þ.e. undir framfærsluviðmiði félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins né hvort börnum sem búa undir fátæktarviðmiðunum hafi fjölgað. Bent er á hvar sé hægt að nálgast upplýsingar, m.a skýrslu forsætisráðherra um fátækt og áætlaðan samfélagslegan kostnað frá maí 2023. Fulltrúi Flokks fólksins þakkar fyrir þessar upplýsingar. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af börnum sem búa við fátækt og mun því kynna sér viðkomandi gögn.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 6. mars 2024, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um aðstoð og ráðgjöf fyrir stúlkur sem glíma við vanlíðan, sbr. 12. lið fundargerðar velferðarráðs frá 17. janúar 2024. VEL24010034.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þann 1. nóvember 2023 lagði fulltrúi Flokks fólksins fram fyrirspurn um sértæka aðstoð og ráðgjöf fyrir stúlkur sem glíma við vanlíðan, um hvort velferðaryfirvöld og velferðarsvið séu að sinna sértækri aðstoð og ráðgjöf fyrir t.d. stúlkur sem glíma við vanlíðan á borð við kvíða og þunglyndi? Fram kemur í svari að velferðarsvið Reykjavíkurborgar er ekki að sinna stúlkum með kvíða/þunglyndi í formi hópastarfs. Það er virkilega miður að heyra. Ekkert af úrræðum borgarinnar leggja áherslu á stúlkur. Rannsóknir hafa sýnt sem og komið hefur fram í lærðum skýrslum að unglingsstúlkur glíma við ýmis konar tilfinningalegan og félagslegan vanda sem rekja má til ákveðinna þátta í nútímasamfélagi. Niðurstöður hafa sýnt okkur að huga þarf sérstaklega að stúlkum þegar kemur að ímyndinni, sjálfsmynd og sjálfsöryggi. Fjölmargir umhverfisþættir spila án efa sitt hlutverk s.s. jafningjahópurinn, lífsstíll og samfélagsmiðlar ásamt auðvitað persónulegum þáttum. Fulltrúi Flokks fólksins þekkir verkefnið Hugur og heilsa sem er margra vikna námskeið. Er þetta ekki sama prógrammið og var lengi við líði í Hafnarfirði og var aflagt því það þótti of dýrt og var illa sótt af unglingunum?
     

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 6. mars 2024, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um þjónustu fyrir fólk í sorg, sbr. 10. lið fundargerðar velferðarráðs frá 17. janúar 2024. VEL24010032.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins óskaði upplýsinga um hvort Reykjavíkurborg væri með úrræði eða sérstaka verkferla fyrir einstaklinga og börn í sorg. Fram kemur í svari að velferðarsvið hafi ekki yfir að ráða sérstöku úrræði eða hafi gert sérstaka verkferla fyrir einstaklinga og börn í sorg. Bent er á að miðstöðvar borgarinnar geti veitt fólki stuðning og ráðgjöf sem verður fyrir skyndilegum áföllum og að innan allra miðstöðva borgarinnar eru ákveðin viðbrögð þegar upp koma óvænt atvik t.d. í nærsamfélagi barna og þá í samstarfi við skóla- og frístundasvið. Má þar nefna þegar um er að ræða óvænt andlát barna/ungmenna t.d. vegna slysa. Bent er á mikilvægt starf Sorgarmiðstöðvarinnar en markmið með starfsemi hennar er að styðja við syrgjendur. Fulltrúa Flokks fólksins finnst jákvætt að fyrirhugað er að Sorgarmiðstöðin kynni starfsemi sína fyrir ráðgjöfum á miðstöðvum velferðarsviðs. Líka er gott að vita til þess að miðstöðvar geti leitað til Sorgarmiðstöðvarinnar eftir sértækri ráðgjöf og geti haft milligöngu um þjónustu við fjölskyldur og einstaklinga sé þess þörf.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 6. mars 2024, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um opnunartíma neyðarskýla Reykjavíkurborgar, sbr. 13. lið fundargerðar velferðarráðs frá 15. nóvember 2023. VEL23110023.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þessi fyrirspurn var lögð fram í nóvember þegar vetur var að ganga í garð og þá hafði Flokkur fólksins miklar áhyggjur af þjónustuþegum neyðarskýla bæði þeim sem tilheyra Reykjavík og öðrum. Fólk er fólk sama hvaðan það kemur. Í svari skilst svo að skýlin eru opin í desember til febrúar. Minnt er á að mars getur verið mjög kaldur mánuður. Flokkur fólksins vill að boðið sé upp á dagathvarf eftir þörfum enda ómögulegt að vita hvernig veður skipast í lofti. Umfram allt má aldrei vísa fólki á dyr, vísa því út á guð og gaddinn og má þakka fyrir að enginn hafi orðið úti eftir slíkan brottrekstur úr neyðarskýli. Flokkur fólksins fagnar því að opnunartíminn hafi verið framlengdur úr marsmánuð.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 6. mars 2024, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um þjónustu Liðsaukans, sbr. 11. lið fundargerðar velferðarráðs frá 17. janúar 2024. VEL24010033.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins óskaði upplýsinga um þjónustu Liðsauka. Liðsauki er færanlegt teymi sem veitir ungu fólki með væg þroskafrávik stuðning í búsetu. Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið en þar kemur fram að frá árinu 2020 hefur teymið þjónustað 18 einstaklinga hverju sinni, víðsvegar í Reykjavík. Í svari segir m.a. að jaðarhópur ungs fatlaðs fólks með væg þroskafrávik og skyldar fatlanir hafi reynst sérstaklega viðkvæmur og flókinn í þjónustu. Vandamál tengd aðlögunarerfiðleikum svo sem neysla, afbrot og slæmur félagsskapur taka í ákveðnum tilfellum við sem alvarlegir áhættuþættir þegar þetta unga fólk yfirgefur foreldrahús og tekur sín fyrstu skref í sjálfstæðu lífi. Fulltrúi Flokks fólksins varð nokkuð uggandi yfir þessum upplýsingum og vonar að þetta séu ekki mjög algeng vandamál og að starfsfólk Liðsauka veiti einstaklingum með neysluvanda aukinn stuðning. Einnig kom fram að einungis tveir einstaklingar af þessum 18 einstaklingum eru í virkni þ.e einn í námi og annar í vinnu. Þessar upplýsingar valda vonbrigðum því eitt af markmiðum úrræðisins er að stuðla að virkri þátttöku einstaklinganna í samfélaginu. Spurning er hvort ekki verði að leggja meiri áherslu á þennan þátt í starfseminni.

    Fylgigögn

  13. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að gjald vegna ferðar hjá akstursþjónustu fatlaðra verði helmingur af almennu gjaldi Strætó bs. óháð því hvenær ferð er pöntuð. Í núverandi gjaldskrá kemur fram að panta þurfi ferð með tveggja klukkustunda fyrirvara og að gjaldið sé helmingur af almennu fargjaldi nema þegar pantað er samdægurs eða utan opnunartíma þjónustuvers. VEL24030008.

    Frestað.

  14. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hversu margir sem nota akstursþjónustu fatlaðra hjá Reykjavíkurborg hafa þurft að greiða yfir 52.000 krónur á ári í akstursþjónustuna á síðasta ári? VEL24030009.

Fundi slitið kl. 15:00.

Magnea Gná Jóhannsdóttir Þorvaldur Daníelsson

Sara Björg Sigurðardóttir Helga Þórðardóttir

Magnús Davíð Norðdahl Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Sanna Magdalena Mörtudottir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 6. mars 2024