Velferðarráð - Fundur nr. 465

Velferðarráð

Ár 2023, miðvikudagur 15. nóvember var haldinn 465. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:12 í Austurmiðstöð, Gylfaflöt 5. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Ásta Björg Björgvinsdóttir, Helga Þórðardóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Stefán Pálsson og Þorvaldur Daníelsson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Agnes Sif Andrésdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer skoðunarferð um Austurmiðstöð.

    Ingibjörg Þ. Sigurþórsdóttir, framkvæmdastjóri Austurmiðstöðvar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  2. Fram fer kynning á starfsemi Austurmiðstöðvar. VEL23110017.

    Ingibjörg Þ. Sigurþórsdóttir, framkvæmdastjóri Austurmiðstöðvar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur fengið upplýsingar um að Félagsbústaðir hafi sagt upp leigusamningi við áfangaheimilið Brú sem rekið er af Samhjálp. Brú er langtíma meðferðarúrræði sem hefur skilað gríðarlega góðum árangri fyrir alkóhólista og aðra vímuefnaneytendur en þar hefur batinn verið um 80%. Samkvæmt upplýsingum þá á áfangaheimilið  að yfirgefa húsnæðið 1. febrúar þannig að lítill tími er til að bregðast við. Ljóst er að  um neyðarástand er að ræða  sem okkur ber skýlaus skylda að bregðast við og finna annað húsnæði fyrir þennan viðkvæma hóp. Flokkur fólksins hvetur til góðrar samvinnu borgarinnar við Samhjálp og við notendur þjónustunnar.

  3. Lögð fram drög að umsögn velferðarráðs um skýrslu nefndar um heildstæða athugun á starfsemi Vöggustofunnar að Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins. MSS23090194.

    Elísa Ragnheiður Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  4. Fram fer kynning á drögum að nýjum reglum Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð til framfærslu. VEL22110033.

    Helga Jóna Benediktsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, Sigrún Skaftadóttir, deildarstjóri á skrifstofu ráðgjafar, og Kristín Ösp Jónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, taka sæti á fundinum undir þessum lið. Sandra Hlíf Ocares, fulltrúi minnihluta velferðarráðs í stýrihópi um endurskoðun reglna um fjárhagsaðstoð til framfærslu, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Vísað til umsagnar hagsmunaaðila með breytingum í samræmi við umræður á fundinum.  

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Kynning á breytingum á reglum um fjárhagsaðstoð til framfærslu. Fulltrúi Flokks fólksins telur mikilvægt að yfirfara og lagfæra reglur reglulega enda margar orðalagsbreytingar gerðar vegna breyttra aðstæðna. Það er greinilegt að það er verið að herða reglur til að koma í veg fyrir misnotkun á fjárhagsaðstoðinni eins og það að þiggja greiðslur frá fleiri aðilum á sama tíma eða stunda svarta atvinnustarfsemi. Flokkur fólksins vill vara við slíkri tortryggni gagnvart fólkinu í borginni. Það er greinilegt að ýmsar breytingar eru gerðar til að hvetja einstaklinga til að taka þátt í virkniúrræðum og sýna fram á virka atvinnuleit. Þetta eru ágætis markmið því vitað er að það er mikilvægt öllum að taka þátt í samfélaginu og stunda atvinnu. Fulltrúi Flokks fólksins vill leggja áherslu á að farið verði í slíkar breytingar með varfærni og horft sé til mannúðar. Flokkur fólksins leggur ríka áherslu á að áður en farið verði í breytingar þá verði þær kynntar vel fyrir notendum aðstoðarinnar. Flokkur fólksins fagnar að verið sé að taka út 13. greinina þar sem kveðið er á um að hægt sé að greiða meðlagsgreiðslur einstaklinga með fjárhagsaðstoð. Fjárhagsaðstoð dugir rétt svo fyrir grunnþörfum og því ekki réttlætanlegt að skerða hana vegna meðlagsskulda.

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 15. nóvember 2023, um hækkun grunnfjárhæða fjárhagsaðstoðar til framfærslu:

    Lagt er til að grunnfjárhæðir fjárhagsaðstoðar til framfærslu hækki sem hér segir:
    -    Grunnfjárhæð fyrir einstakling sem rekur eigið heimili hækkar úr 228.689 kr. í á mánuði 239.895 kr.
    -    Grunnfjárhæð til hjóna/sambúðarfólks hækkar úr 365.902 kr. í 383.832 kr. á mánuði.
    -    Grunnfjárhæð til einstaklings sem býr með öðrum, leigir húsnæði án þinglýsts leigusamnings eða hefur ekki aðgang að húsnæði hækkar úr 192.682 kr. í 202.123 kr. á mánuði.
    -    Grunnfjárhæð til þeirra sem búa í foreldrahúsum hækkar úr 114.345 kr. í 119.948 kr. á mánuði.
    -    Fjárhæð vegna barna í 16 gr. a hækkar úr 18.355 kr. í 19.254 kr. á mánuði.
    Breyting þessi taki gildi frá og með 1. janúar 2024. Áætlað er að aukinn kostnaður við breytinguna nemi um 90 m.kr. á ári.
    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL23110016.
    Samþykkt. Vísað til borgarráðs.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins vill benda á nokkur atriði í umræddri tillögu. Lagt er til að hækka grunnfjárhæðir fjárhagsaðstoðar til framfærslu um 4,9% um næstu áramót í samræmi við forsendur fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar. Vert er að taka fram að vegin meðalhækkun launa ríkisstarfsmanna á yfirstandandi ári er 7,3%. Laun á almennum vinnumarkaði hækkuðu um 6,75% samkvæmt kjarasamningum, þó ekki minna en 35.000 kr. Auk þess mældist vísitala neysluverðs 7,9% síðastliðinn október og hefur hækkað um 7,9% síðustu tólf mánuði, sbr. nýjustu tölur Hagstofunnar. Eðli málsins samkvæmt rýrnar fjárhagsaðstoðin þar sem hækkunin heldur ekki í við laun og verðlag. Þetta telur fulltrúi Flokks fólksins að þurfi að taka til greina þegar hækkun fjárhagsaðstoðar er ákvörðuð.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram drög að stafrænni stefnu Reykjavíkurborgar. VEL23110014.

    Orri Freyr Rúnarsson, samskiptafræðingur á þjónustu- og nýsköpunarsviði, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Vísað til umsagnar velferðarsviðs.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Stafræn stefna borgarinnar er alltof almennt orðuð og lýsing á framkvæmd hennar er því löng, ómarkviss og flókin. Hún er einskonar samantekt og upptalning á þeim almennu hugtökum sem þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur verið að nota í kynningum sínum undanfarin ár. Stafræn þjónusta Reykjavíkurborgar og Reykjavík almennt séð á að vera á heimsmælikvarða. Hér skortir ákveðið raunsæi að mati Flokks fólksins. Erfitt er að sjá hvernig borgin á að geta sigrað heiminn ef hún ætlar að vera hálfgert eyland. Samstarf við aðra og samvinna er það eina sem gildir til að koma lausnum sem fyrst í loftið. Enn á að hanna og þróa sem mest upp á eigin spýtur í stað þess að leita skipulega meira samstarfs við aðra hvað stafrænar lausnir í almannaþjónustu varðar. Ákveðið samstarf er þó hafið við ríkið sem er gleðilegt en það er hlutfallslega lítið miða við önnur sveitarfélög. Samstarf við ríkið átti að hefjast strax 2019 og 2020 og gæti verið meira en það er núna. Hröðun hefur verið of hæg og allt of margar lausnir tafist eða dagað uppi. Milljarðar hafa farið í stafræna vegferð frá árinu 2019. Lausnir “í loftið” eru ekki í samræmi við þessa gríðarlegu fjármuni.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 15. nóvember 2023, um samstarf við Samhjálp vegna vetraropnunar sérstaks neyðarskýlis, ásamt fylgiskjali:

    Lagt er til að gengið verði til samstarfs við Samhjálp sem lið í vetraráætlun um opnun neyðarskýla. Kaffistofa Samhjálpar verði opin fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir frá kl. 14:00-16:30 alla daga í desember 2023 og janúar og febrúar 2024. Ennfremur er lagt til að Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu verði boðin aðild að vetraropnuninni gegn hlutdeild í kostnaði. Áætlaður heildarkostnaður vegna þriggja mánaða vetraropnunar er 5,2 m.kr., sem rúmast ekki innan fjárheimilda velferðarsviðs.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL23100028.
    Samþykkt. Vísað til borgarráðs.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram umsögn Reykjavíkurborgar um tillögu til þingsályktunar um leyfisskyldu og eftirlit með áfangaheimilum, dags. 25. október 2023. VEL23050017.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 15. nóvember 2023, við fyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um lagalegar hliðar þess að hefja ekki þjónustu við þau sem eiga samþykkta umsókn um NPA, sbr. 16. lið fundargerðar velferðarráðs frá 20. september 2023. VEL23090067.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 15. nóvember 2023, við fyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um eignamörk í reglum um félagslegt leiguhúsnæði, sbr. 12. lið fundargerðar velferðarráðs frá 1. nóvember 2023. VEL23110003.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 15. nóvember 2023, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um stefnu og aðgerðir til að uppræta fátækt barna, sbr. 13. lið fundargerðar velferðarráðs frá 15. febrúar 2023. VEL23020054.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins spurði hvort borgarmeirihlutinn hyggist grípa til einhverra sértækra aðgerða til að mæta vaxandi fjölda barna sem búa við fátækt í Reykjavík og vísar í fyrirspurn sinni til nýlegrar könnunar Gallup. Þar kom fram að hlutfall þeirra sem ekki ná endum saman fjárhagslega hefur ekki verið jafn hátt síðan fyrir sjö árum. Um þriðjungur þekkir fátækt af eigin raun og leigjendur eiga sérlega erfitt með að ná endum saman ef samanborið er við húsnæðiseigendur eða þau sem búa í foreldrahúsum. Nú hafa allar aðgerðir sem settar voru fram í aðgerðaáætlun meirihlutans þegar komist í framkvæmd samkvæmt svari. Engu að síður fer staðan versnandi. Fulltrúi Flokks fólksins veltir því fyrir sér hvort „velferðarkerfi“ borgarinnar séu ekki að ná að tala saman og því náist ekki að vinna með nógu skilvirkum hætti. Sem dæmi er óljóst vægi ákvarðana annars vegar milli velferðarsviðs og hins vegar Félagsbústaða og einnig er spurning hvernig þjónustumiðstöðvar spila í þessum þríhyrning. Flokkur fólksins veit til þess sem dæmi að velferðarsvið var ekki nægjanlega upplýst um að nú stendur til að hækka leigu hjá Félagsbústöðum umfram vísitölu og verðlag. Engar hugmyndir eru um mótvægisaðgerðir til að mæta þeim verst settu sem ekki ráða við þessa hækkun.
     

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 15. nóvember 2023, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um viðbrögð við fátækt barna, sbr. 16. lið fundargerðar velferðarráðs frá 15. mars 2023. VEL23030049.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Svar hefur borist við fyrirspurn Flokks fólksins um viðbrögð við fátækt barna. Spurt var hvort Reykjavíkurborg sé með slíka stefnu eða áætlun til að uppræta fátækt barna í Reykjavík? Um 10 þúsund íslensk börn búa við fátækt og ýmsar ábendingar hafa komið um að fátækt hafi aukist. Þess þarf að gæta að varpa ekki allri sök á verðbólgu og hækkun vaxta þótt vissulega séu það stórir áhrifaþættir sem bitna mest á þeim tekjulægstu. Velferðaryfirvöld verða að taka ábyrgð. Það hefur ekki tekist að fylgja eftir fjórum tillögum sem settar voru fram í skýrslunni Lífskjör og fátækt barna á Íslandi 2004-2016, sem unnin var fyrir Velferðarvaktina en þær voru: Brúa umönnunarbilið, auka tilfærslur til einstæðra foreldra, ókeypis skólamáltíðir og aukin niðurgreiðsla tómstundastarfs. Það gengur ekki að bíða eftir að sjá hvað ríkið ætlar að gera. Kallað er eftir ábyrgð meirihlutans í þessu máli. Frumkvæði um ókeypis skólamáltíðir fyrir þá verst settu kom frá Flokki fólksins en ekki meirihlutanum. Börn sem eiga foreldra sem þurfa á fjárhagsaðstoð til framfærslu að halda fá þjónustugreiðslur til að greiða gjald leikskóla og skólamáltíða. En hvað með öll hin börnin, börn foreldra sem ná ekki endum saman en eru ekki nægjanlega illa settir til að fá fjárhagsaðstoð?

    Fylgigögn

  13. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um framtíðarsýn gistiskýla Reykjavíkur. Gisti- og neyðarskýli borgarinnar eru yfirfull og óvissa er mikil í kringum þau. Nú er vetur að genginn í garð og allra veðra von. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvernig gistiskýlin eru undir það búin að taka við fjölgun fólks, mögulega víðsvegar að? Hvernig verður opnunartíma neyðarskýla háttað í vetur? VEL23110023.

  14. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fyrirspurn Flokks fólksins um hækkun leigu hjá Félagsbústöðum. Til stendur að hækka leigu hjá Félagsbústöðum umfram vísitölu neysluverðs og umfram verðlag árið 2024. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort fyrirhuguð hækkun hafi verið rædd við leigjendur og ef svo er hver voru þeirra viðbrögð? Hefur fyrirhuguð leiguhækkun verið rædd við velferðarsvið, og ef svo er, er ákvörðun um leiguhækkun tekin í samráði við velferðarsvið? Nú þegar það liggur fyrir að hækka eigi leigu hjá Félagsbústöðum óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir upplýsingum um hvort hugað hafi verið að mótvægisaðgerðum? Er fyrirhugað að hjálpa þeim sem verst  eru settir til að mæta umræddri hækkun? Fulltrúi Flokks fólksins minnir á að hér er um okkar fátækasta og viðkvæmasta hóp að ræða. VEL23110024.

  15. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsingar um hvernig samvinnu og samstarfi er háttað milli velferðarsviðs og Félagsbústaða annars vegar og hins vegar Félagsbústaða og miðstöðva borgarinnar? Hvert er valdajafnvægi milli þessara kerfa ef kemur til ágreinings vegna einstakra mála? Hversu mikið vægi hafa miðstöðvar þegar kemur að vandamálum sem upp kunna að koma hjá leigjendum Félagsbústaða hvað varðar húsnæðið sjálft eða innheimtu á leigu? VEL23110025.

  16. Starfið á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL22050007.

Fundi slitið kl. 16:32

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 15. nóvember 2023