Velferðarráð - Fundur nr. 464

Velferðarráð

Ár 2023, miðvikudagur 1. nóvember var haldinn 464. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:10 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þorvaldur Daníelsson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Aðalbjörg Traustadóttir, Anna Sigrún Baldursdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL22050007.

  2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 19. október 2023, þar sem kemur fram að samþykkt hafi verið á fundi borgarstjórnar 17. október 2023, að Líf Magneudóttir taki sæti sem varafulltrúi í velferðarráði í stað Stefáns Pálssonar. MSS22060049.

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning á MA ritgerð um upplifun einstaklinga af þjónustu Atvinnu- og virknimiðlunar og vinnumarkaðsaðgerðum Reykjavíkurborgar. VEL23100030.

    Edda Laufey Bjarnadóttir, félagsráðgjafi á barna- og fjölskyldudeild á Austurmiðstöð, Elín Oddný Sigurðardóttir, deildarstjóri Virknimiðlunar og Virknihúss, Guðlaug Jóna Hilmarsdóttir, verkefnastjóri á skrifstofu ráðgjafar og Dóra Guðlaug Árnadóttir, verkefnastjóri Atvinnu- og virknimiðlunar, taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er jákvætt að sjá að niðurstöður rannsóknarinnar bendi til þess að störf og þjónusta Atvinnu- og virknimiðlunar hafi skipt sköpum í að veita þátttakendum tækifæri til að komast aftur inn á vinnumarkað. Það var fróðlegt að sjá að af þeim 45 sem fengu fjárhagsaðstoð sóttu 80% þeirra ekki aftur um fjárhagsaðstoð að sex mánaða ráðningarsamningnum loknum. Höfundur rannsóknarinnar bendir á nokkur atriði sem betur mættu fara. Höfundur bendir á að eftirfylgni sé ábótavant og auka þurfi reglulega eftirfylgd á meðan ráðningarsamningnum stendur ásamt því að skýra mætti betur hlutverk Atvinnu- og virknimiðlunar fyrir skjólstæðingum. Tímabundnir ráðningarsamningar eru aðeins í sex mánuði sem er ekki nægur tími til að öðlast rétt til atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun. Viðkomandi einstaklingar eiga heldur ekki rétt á fjárhagsaðstoð vegna tekna fyrri mánaðar og þurfa því að vera tekjulausir í einn mánuð að ráðningarsamningnum loknum. Því getur þátttaka í úrræðinu skapað auknar fjárhagsáhyggjur að því loknu. Þennan ágalla ætti að vera auðvelt að lagfæra með því að breyta reglum um fjárhagsaðstoð fyrir þennan viðkvæma hóp. Flokkur fólksins fagnar svona rannsókn því það er alltaf gott að meta þau úrræði sem Reykjavíkurborg veitir og læra af hvað betur má fara.

    Fylgigögn

  4. Fram fer kynning á skýrslu um starfsemi Atvinnu- og virknimiðlunar Reykjavíkurborgar 1. maí 2022 - 30. apríl 2023. Einnig lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 1. nóvember 2023, um starfsemi Atvinnu- og virknimiðlunar Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjali. VEL23100031.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Sviðsstjóra er falið að vinna kostnaðarmetna tillögu að áframhaldandi starfsemi Atvinnu-og virknimiðlunar út frá þeirri reynslu sem hefur skapast og í samráði við stýrihóp um mótun virknistefnu. Skoða skal sérstaklega samspil endurhæfingarúrræða velferðarsviðs í því samhengi . Gert er ráð fyrir að starfsemi Atvinnu-og virknimiðlunar verði áfram innan Virknihúss og skoða mætti að sameina alla atvinnuráðgjöf Reykjavíkur á einn stað. 

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt.

    Elín Oddný Sigurðardóttir, deildarstjóri Virknimiðlunar og Virknihúss, Guðlaug Jóna Hilmarsdóttir, verkefnastjóri á skrifstofu ráðgjafar og Dóra Guðlaug Árnadóttir, verkefnastjóri Atvinnu- og virknimiðlunar, taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  5. Fram fer kynning á Listvinnslunni. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 1. nóvember 2023, um samstarf við þriðja aðila um vinnu- og virkniþjónustu fyrir fatlað fólk, ásamt fylgiskjölum. VEL23100061.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Velferðarráð felur velferðarsviði að semja við Margréti M. Norðdahl um starfsemi Listvinnzlunnar - listmiðstöðvar með framlagi í formi húsnæðis. Listmiðstöðin kemur meðal annars til með að nýtast fötluðum þjónustunotendum velferðarsviðs sem nýta vinnu- og virkniúrræði á vegum Reykjavíkurborgar. Með samningnum skuldbindur velferðarsvið sig til að útvega starfseminni húsnæði eða annars, eftir samkomulagi við viðsemjanda, að niðurgreiða kostnað vegna húsaleigu fyrir starfsemina, allt að 13 m.kr. á ári . Kostnaður rúmast innan fjárheimilda sviðsins.

    Samþykkt.

    -    Magnús Davíð Norðdahl víkur af fundinum við afgreiðslu tillögunnar.

    Tómas Ingi Adolfsson, sérfræðingur á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, Margrét M. Norðdahl, ráðgjafi og framkvæmdastýra Listvinnslunnar, Þórir Gunnarsson, starfsmaður Listvinnslunnar og Elín S. M. Ólafsdóttir, starfsmaður Listvinnslunnar, taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Atvinnu- og virknimál fatlaðs fólks hafa að mörgu leyti setið á hakanum undanfarin ár. Á undanförnum árum hafa kröfur sem varða atvinnumöguleika og virka samfélagsþátttöku fatlaðs fólks aukist. Það má þakka baráttu fatlaðs fólks fyrir réttindum sínum og einnig hefur samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks haft áhrif. Flokki fólksins líst vel á verkefni Margrétar M . Norðdahl sem felst í því að búa til listamiðstöð sem er hugsuð sem starfsvettvangur listafólks með þroskahömlun. Miðstöð af þessu tagi væri mikilvæg viðbót við þá möguleika sem fatlað fólk hefur til þátttöku í lista- og atvinnulífi í Reykjavík. Slíkar miðstöðvar eru fyrir hendi í öðrum löndum og hafa gefist vel. Flokkur fólksins vonar að þetta verkefni fái þann stuðning sem það þarf til að það verði að veruleika.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 1. nóvember 2023, um beiðni SSH um aðkomu sveitarfélaganna að þjónustu Vettvangs- og ráðgjafarteymis (VoR-teymis) og mögulegri vetraropnun sérstaks neyðarskýlis:

    Lagt er til að velferðarsviði verði falið að ganga til samninga við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) vegna beiðni þeirra um aðkomu sveitarfélaganna að þjónustu VoR-teymis og vetraropnun sérstaks neyðarskýlis. Drög að kostnaðarmetnum samningi verða lögð fyrir fund velferðarráðs.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL23100039.

    Samþykkt.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi sósíalista styður allt sem getur bætt líf þeirra sem nýta sér þjónustu VoR-teymisins. Mikilvægt er að þau sem starfa í VoR-teyminu fái það sem þörf er á til að sinna starfseminni og að ef önnur sveitarfélög nýta sér starfskrafta teymisins er mikilvægt að þau greiði fyrir þá þjónustu. Þá er rétt að taka það fram að manneskja getur ekki verið skilgreind með heimilisleysi eins og stendur í textanum sem kemur frá SSH og fylgir með þessari tillögu þar sem eftirfarandi kemur fram: „[...] 76 einstaklingar, í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur, skilgreindir með heimilisleysi, en af þeim höfðu 9 nýtt sér neyðargistingu Reykjavíkurborgar [...].“ Mikilvægt er að öll þau sem eru án heimilis fái þá þjónustu sem þau eiga rétt á.

     

    Fylgigögn

  7. Lögð fram drög að umsögn um tillögu mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs, dags. 25. september 2023, um samráðsvettvang um börn og ungmenni í tengslum við ofbeldi, sbr. bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 28. ágúst 2023. MSS23060018.

    Samþykkt. 

    Fulltrúar Pírata, Flokks fólksins og Þorvaldur Daníelsson, fulltrúi Framsóknar, sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Til afgreiðslu er umsögn velferðarráðs um tillögu mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs. Í umsögn er bent á að bráðaviðbrögð við ofbeldisatviki eigi ekki að vera á verksviði kjörinna fulltrúa. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort þarna sé ekki um einhvern misskilning að ræða? Fulltrúi Flokks fólksins lagði aldrei þann skilning í tillöguna að þarna væri um að ræða samstarfshóp um bráðaviðbrögð við ofbeldisatvikum heldur væri verið að leggja áherslu á þverfaglega samvinnu stofnana og grasrótarsamtaka til að sporna gegn auknu ofbeldi meðal barna. Fyrir um ári síðan lagði Flokkur fólksins fram tillögu um stofnun stýrihóps sem myndi kortleggja aukinn vopnaburð og tillögu um aukið samráð þriggja ráða í ofbeldisvarnarmálum. Það vakti því sérstaka athygli fulltrúans að í umræddri umsögn er bent á að betra væri að stofna stýrihóp þar sem sætu formenn VEL, SFS og MOR og að þeir njóti ráðgjafar ýmissa fagaðila. Fulltrúi Flokks fólksins hefur beitt sér ítrekað á þessum vettvangi og nú síðast lagði flokkurinn til að Reykjavíkurborg sendi foreldrum grunnskólabarna bréf þar sem reglur um bann við vopnaburði væru kynntar. Fulltrúi Flokks fólksins minnir á sláandi niðurstöður nýlegrar Æskulýðsrannsóknar um aukið ofbeldi og telur því brýnt að menn láti ekki staðar numið og gangi í verkefnið.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram drög að fundadagatali velferðarráðs fyrir tímabilið janúar - júní 2024. VEL23100063.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 1. nóvember 2023, við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fjölda rekstrarheimilda fyrir hjúkrunarrými sem Reykjavíkurborg hefur gefið frá sér síðastliðinn áratug, sbr. 14. lið fundargerðar velferðarráðs frá 18. október 2023. VEL23100049.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 1. nóvember 2023, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um aðgengi borgarbúa að starfsfólki miðstöðva, sbr. 16. lið fundargerðar velferðarráðs frá 4. október 2023. VEL23100018.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er nokkuð erfitt að átta sig á svarinu en þó má sjá að fjöldi símtala er afar mismunandi eftir því um hvaða þjónustumiðstöð er að ræða. Sem dæmi er Norðurmiðstöð að fá yfir 3000 símtöl á meðan Suðurmiðstöð fær um 1000 símtöl. Sama má segja um tölvupósta. Á meðan Austurmiðstöð fær 200 eru rúmlega 500 póstar að berast til Vesturmiðstöð í ágúst. Fram kemur að Rafræn miðstöð hefur tekið við hluta af símtölum og svörun tölvupósta. Fulltrúa Flokks fólksins finnst ekki ljóst hver sé meginmunur á að Rafræn miðstöð taki símtöl/tölvupósta samanborið við miðstöðvarnar. Er það einhver einn sem situr við allan daginn á Rafrænni miðstöð? Er þjónustan þar með hraðari og skilvirkari? Þetta mætti skýra. Og hvar má sjá þann samanburð? Hér skipta mælingar öllu máli, svo sjá megi hvort það sem verið er að fjárfesta í sé að skila meiri skilvirkni. Fram kemur að reynt sé að svara flestum tölvupóstum daglega. Því miður fá fulltrúar Flokks fólksins oft ábendingar frá fólki sem ekki hefur fengið erindum sínum svarað þótt liðnir séu fjölmargir dagar.

    Fylgigögn

  11. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Flokkur fólksins leggur til að punktakerfi Reykjavíkurborgar um félagslegt húsnæði verði endurmetið með það í huga að gera það sanngjarnara fyrir einstaklinga í viðkvæmri stöðu. Flokki fólksins hefur borist ábendingar um að einstaklingum  í mjög viðkvæmri stöðu hafi verið hent út af biðlista eftir  félagslegu leiguhúsnæði. Dæmi: Einstaklingur sem eingöngu lifir  á lífeyri frá TR og er að greiða næstum helming af lífeyri sínum í leigu fær  ekki að vera á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði. VEL23110002.

    Frestað.

  12. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Eignamörk í reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði hafa tekið breytingum út frá breytingum á reglugerð nr. 1342/2020, um ráðstöfun leiguíbúða. Nú eru eignamörk kr. 7.158.000. Hver er ástæða þess að eignamörkin eru sett við þá upphæð? Er ástæðan einna helst að verið er að tengja við reglugerð eða eru aðrar ástæður sem liggja þar að baki? VEL23110003.

  13. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hversu langt er síðan punktakerfi Reykjavíkurborgar um félagslegt húsnæði var uppfært? Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hvenær punktakerfið var síðast endurmetið og hver er það sem ákveður viðmiðin sem farið er eftir í punktakerfi Reykjavíkurborgar um félagslegt húsnæði? VEL23110004.

  14. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um sundurliðun á málum/tilvísunum til skólaþjónustu. Nú eru 2380 börn á biðlista eftir sálfræðingi og talmeinafræðingum, ýmist í greiningu eða annað. Á haustdögum 2020 lagði fulltrúi Flokks fólksins fram fyrirspurn um sundurliðun á málum (tilvísunum frá skóla/foreldra til skólaþjónustu) sem vísað hefur verið til skólaþjónustu. Þá biðu um 1.600 börn á biðlista eftir fagfólki skólanna. Nú bíða 2012 börn á þessum sama lista. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá  sundurliðun á þessum málum (tilvísunum) með eftirfarandi hætti:

    Hvað mörg börn bíða eftir greiningum, og þá hvernig greiningum?

    Hvað mörg bíða eftir annars konar fagþjónustu?

    Hversu löng hefur biðin verið hjá þeim sem hafa beðið lengst og hvað eru það mörg börn?

    Hver er meðalbiðtíminn á biðlistanum?

    Hversu líklegt er að börn komist að sem koma inn á listann í 9. eða 10 bekk?

    Óskað er upplýsinga um hvort þau börn sem hafa beðið lengst hafi fengið þjónustu í samræmi við tilvísun? VEL23110005.

Fundi slitið kl. 16:09

Heiða Björg Hilmisdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir Magnús Davíð Norðdahl

Helga Þórðardóttir Þorvaldur Daníelsson

Magnea Gná Jóhannsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 1. nóvember 2023