Velferðarráð - Fundur nr. 460

Velferðarráð

Ár 2023, miðvikudagur 20. september var haldinn 460. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:08 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Ellen Jacqueline Calmon, Helga Þórðardóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Unnur Þöll Benediktsdóttir og Þorvaldur Daníelsson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Agnes Sif Andrésdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

 1. Samþykkt að Magnús Davíð Norðdahl fari með formennsku í velferðarráði í fjarveru formanns og varaformanns sbr. 54. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. MSS22060049.

 2. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL22050007.

 3. Fram fer kynning á niðurstöðum þjónustu- og aðgengiskönnunar velferðarsviðs 2023. VEL23090055.

  Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir, teymisstjóri árangurs- og gæðamats á velferðarsviði, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Margt hefur lagast en annað hefur versnað. Það sem hefur versnað er að fólk þarf að leita til margra aðila áður en það fær svör við erindum sínum og margir upplifa tungumálaörðugleika. Sami vandi t.d. ef horft er til aðgengis að sækja þjónustu fyrir fötluð börn og foreldra þeirra. Hér má sannarlega gera betur. Það virðist sem okkar allra viðkvæmustu hópar mæti ávallt afgangi. Aðgengi er langt í frá að vera ásættanlegt og biðlistar óviðunandi. Reglur eru sumar ósveigjanlegar og aðgengi að ráðgjafa þarf að bæta. Kvartað hefur verið yfir flækjustigi og erfiðleikum með að fá upplýsingar. Til að svona könnun skili árangri þarf að taka niðurstöður hennar alvarlega.

 4. Fram fer kynning á tölfræði áfrýjunarnefndar velferðarráðs. VEL23090005.

  Fanney Magnadóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, Helga Jóna Benediktsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, Kristín Ösp Jónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, og Sigrún Skaftadóttir, deildarstjóri virkni og ráðgjafar á skrifstofu velferðarsviðs, taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

 5. Lögð fram til kynningar drög að fjárhagsáætlun velferðarsviðs 2024. Trúnaðarmál. VEL23090056.

 6. Lögð fram til kynningar drög að gjaldskrám fyrir þjónustu á vegum velferðarsviðs 2024. VEL23090062.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins mótmælir öllum gjaldskrárhækkunum sem koma beint og óbeint við pyngju þeirra sem minnst mega sín. Nú stefnir meirihlutinn á að hækka gjaldskrár um 3,6% frá og með 1. október 2023. Hækkun gjaldskráa mun þess utan fara beint út í verðlagið og hafa áhrif á verðbólguhorfur. Hér er verið að kynna fyrirhugaða hækkun á gjaldskrá akstursþjónustu fatlaðs fólks og aldraðra og hækkun á margs konar stuðningsþjónustu við eldri borgara.
   

 7. Fram fer kynning á stöðu móttöku flóttafólks. VEL23090063.

  Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Vesturmiðstöðvar og teymisstjóri alþjóðateymis, og Guðmundur Sigmarsson, verkefnastjóri í teymi árangurs- og gæðamats á velferðarsviði, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

 8. Fram fer kynning á tölfræði Barnaverndar Reykjavíkur í janúar - júní 2023. VEL23090059.

  Elísa Ragnheiður Ingólfsdóttir, starfandi framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Tilkynningum hefur fjölgað. Ekki kemur fram hverjir tilkynna. Fulltrúi Flokks fólksins hefur spurt um það og fengið svör. Tilfelli um að foreldrar tilkynni sig sjálfa voru árið 2017 279 en árið 2022 eru tilkynningar foreldra 337. Ástæðuna má án efa rekja til þess að nú bíða 2.500 börn á biðlista skólaþjónustunnar. Með því að tilkynna mál til Barnaverndar geta tilkynnendur verið öruggir um að mál þeirra fái skoðun fljótt. Samkvæmt lögum ber Barnavernd að skoða málið innan ákveðins tímafrests. Foreldrar í neyð sinni hafa ekki annan kost en að tilkynna sig sjálf og barn þeirra til barnaverndarkerfisins sem er margfalt skilvirkara en skólaþjónustukerfið. Farið hefur fækkandi þeim málum þar sem barn og ungmenni fá að hitta fagaðila/sálfræðing þrátt fyrir ítrekað ákall þeirra. Fulltrúa Flokks fólksins finnst sérstaklega alvarlegt að sjá hvað tilkynningar um áhættuhegðun barna hafa aukist mikið. Það er greinilegt að afbrot og ofbeldi meðal barna hefur aukist. Það er líka áhyggjuefni að sjá að tilkynningar um skólasókn hafa meira en tvöfaldast milli áranna 2022 og 2023. Það væri athyglisvert að skoða hvað veldur. Hér er um börn að ræða. Finna þarf ástæður þessarar aukningar og bregðast við.

 9. Lagt fram trúnaðarmerkt minnisblað, dags. 20. september 2023, um niðurstöðu Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála vegna athugunar kvörtunarmáls hjá Barnavernd Reykjavíkur frá janúar 2023. VEL23090060.

  Elísa Ragnheiður Ingólfsdóttir, starfandi framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

 10. Lagt fram trúnaðarmerkt minnisblað, dags. 20. september 2023, um niðurstöðu Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála vegna athugunar kvörtunarmáls hjá Barnavernd Reykjavíkur frá í júní 2023. VEL23090061.

  Elísa Ragnheiður Ingólfsdóttir, starfandi framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

 11. Lögð fram ársskýrsla Barnaverndar Reykjavíkur 2022. VEL23090058.

  Elísa Ragnheiður Ingólfsdóttir, starfandi framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

  Fylgigögn

 12. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um sjálfkrafa breytingar húsnæðisbóta, sbr. 12. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. júlí 2023. MSS23070093.
  Frestað.

  Fylgigögn

 13. Lagður fram að nýju 16. liður fundargerðar velferðarráðs frá 24. maí 2023, kynning á leiguverðslíkani Félagsbústaða, sem bókað var um í trúnaðarbók velferðarráðs.  VEL23050027.

  Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands lagði fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsins:

  Fulltrúi sósíalista mótmælir öllum tillögum um hækkun leigu hjá Félagsbústöðum, um er að ræða leigjendur í erfiðri fjárhagslegri og félagslegri stöðu. Félagsbústaðir og Reykjavíkurborg verða að finna aðra leið til að styrkja tekjugrunn félagsins. Það gengur ekki að það sé gert með því að rukka leigjendur í félagslegu leiguhúsnæði um hærri leigu. Mikilvægt er að enginn greiði of háa leigu fyrir húsnæði. Fjármála- og áhættustýringarsvið fjallar um þær tvær tillögur sem eru lagðar fram. Ef tillaga 1 yrði samþykkt þá er algengast að leiguverð hækki á milli 0-5 þúsund krónur á mánuði en alls myndu 686 leigjendur fá slíka hækkun. Í 207 tilvikum myndi hækkunin nema 10-15 þúsund krónur á mánuði og í 113 tilvikum myndi leigan hækka um meira en 15 þúsund krónur á mánuði. Í 136 tilvika nemur hækkunin meira en 11%. Einnig eru dæmi um hækkanir sem eru yfir 40 þúsund krónum. Ef tillaga 2 yrði samþykkt þá væri algengast að leiguverð hækki um 0-5 þúsund krónur á mánuði en alls myndu 748 leigjendur fá slíka hækkun. Í 730 tilvikum myndi hækkunin nema 5-10 þúsund krónur og í 85 tilvikum myndi leigan hækka meira en 15 þúsund krónur á mánuði. Í 138 tilvikum myndi hækkunin vera umfram 11%. 

 14. Samþykkt að taka á dagskrá svohljóðandi tillögu fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata: 

  Velferðarráð Reykjavíkur samþykkir að setja á fót aðstöðu á Vesturgötu 7, 101 Reykjavík fyrir jaðarsett fólk með fjölþættan vanda til þess að það geti sinnt listsköpun.

  Greinargerð fylgir tillögunni. VEL23090069.
  Vísað til umsagnar velferðarsviðs.

  Fylgigögn

 15. Samþykkt að taka á dagskrá svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem vísað var til meðferðar velferðarráðs, sbr. 12. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 19. september 2023:

  Lagt er til að fallið verði frá því að skerða fjármögnun unglingasmiðjanna Traðar og Stígs um 12,7 milljónir sbr. 6. lið fundargerðar velferðarráðs frá 6. september. Í staðinn sé færður peningur úr styrkjapotti velferðarráðs upp á 12,7 milljónir yfir í rekstur Traðar og Stígs, þannig að ekki þurfi að skerða þjónustu við ungmenni sem eiga í félagslegum erfiðleikum og í leiðinni auka vinnuálag á starfsmenn. Með því er verið að færa hagræðingu á milli liða innan sviðsins en ekki falla frá hagræðingu. MSS23090119.

  Frestað.

  Fylgigögn

 16. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Fyrirspurn um lagalegar hliðar þess að hefja ekki þjónustu við þau sem eiga NPA umsókn samþykkta. Enginn á að þurfa að bíða til lengdar eftir þjónustu eða stuðningi. NPA (notendastýrð persónuleg aðstoð) er lögbundin þjónusta. Nú eru borgarbúar sem bíða eftir því að NPA geti hafist. Mikil umræða hefur átt sér stað um fjármögnun, m.a. vegna kostnaðarskiptingar á milli ríkis og sveitarfélaga. Spurt er hvort að Reykjavíkurborg sé lagalega stætt á því að hefja ekki NPA við þau sem eiga samþykkta umsókn og bíða eftir því að þjónusta geti hafist. VEL23090067.
   

 17. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Flokkur fólksins spyr hvort það sé algengt að velferðarsvið hafi milligöngu um leigusamninga á almennum markaði, velji  leigjendur og gangist í ábyrgð fyrir leigjendur?  Ef svo er, ber þá velferðarsvið  ekki ábyrgð á því að samningar standi? Fulltrúi Flokks fólksins óskar þessara upplýsinga vegna fréttar þar sem sagt er frá vandræðum einstaklings með að endurheimta húsnæði sitt. Eigandi íbúðar hafði sett sig í samband við velferðarsvið og boðið íbúðina sína til leigu þar sem viðkomandi yrði fjarverandi um tíma. Gerður var leigusamningur með aðstoð velferðarsviðs. Velferðarsvið valdi leigjendur og gekkst að auki í fjárhagslega ábyrgð fyrir þá.  Þegar eigandi íbúðarinnar þurfti að fá íbúðina til baka þá var það ekki hægt þar sem velferðarsviði tókst ekki að finna leigjendunum nýtt húsnæði.  Enginn virðist bera ábyrgð og eigandi íbúðarinnar húsnæðislaus. Fulltrúi Flokks fólksins óskar einnig upplýsinga um hvort þetta mál sé leyst. VEL23090068.

Fundi slitið kl. 16:40

Magnús Davíð Norðdahl Unnur Þöll Benediktsdóttir

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir Þorvaldur Daníelsson

Sanna Magdalena Mörtudottir Ellen Jacqueline Calmon

Helga Þórðardóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 20. september 2023