Velferðarráð
Ár 2023, miðvikudagur 1. mars var haldinn 448. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:07 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Sandra Hlíf Ocares, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þorvaldur Daníelsson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Agnes Sif Andrésdóttir, Anna Sigrún Baldursdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL22050007.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 1. mars 2023, um reglur um sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk á landi í eigu Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjali:
Lagt er til að velferðarráð samþykki tillögu að reglum um sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk á landi í eigu Reykjavíkurborgar.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL23020070.
Samþykkt að gera svohljóðandi breytingu:
Við 1. mgr. 2. gr. bætist eftirfarandi málsliður: Umsókn getur einnig verið lögð fram á sérstöku eyðublaði hjá miðstöð, undirrituðu af umsækjanda sem þá skal framvísa gildu persónuskilríki með mynd. Niðurlagsákvæði 2. mgr. 3. gr. orðast svo: Ekki er úthlutað fleiri en einu sérmerktu bílastæði fyrir hreyfihamlaða fyrir hvern einstakling.
Vísað til umsagnar aðgengis – og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks.
Helga Jóna Benediktsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, Kristín Ösp Jónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs taka sæti á fundinum undir þessum lið. Styrmir Erlingsson, framkvæmdastjóri Rafrænnar miðstöðvar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 1. mars 2023, um breytingu á reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að: Tekju- og eignamörk 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði verði uppfærð til samræmis við ákvæði reglugerðar nr. 1342/2020, um ráðstöfun leiguíbúða, sbr. 37. gr. laga um húsnæðismál nr. 44/1998, með síðari breytingum. Viðmið varðandi tekjur á ársgrundvelli í matsviðmiðum varðandi almennt félagslegt leiguhúsnæði, sbr. fylgiskjal I með reglunum, verði uppfærð til samræmis við reglugerðina. Við 18. gr. bætist önnur málsgrein varðandi kröfu um milliflutning þegar aðstæður leigutaka hafa breyst á þann veg að stærð húsnæðis er ekki til samræmis við fjölskyldustærð. Nauðsynlegar orðalagsbreytingar verði gerðar vegna breytinga sem hafa orðið, s.s. í stað orðsins þjónustumiðstöð í reglunum verði notað orðalagið miðstöð Reykjavíkurborgar eða viðeigandi miðstöð í hverfi, eftir því sem við á og orðalagi verði breytt með tilliti til kynhlutleysis, s.s. heimilismenn verði heimilisfólk og starfsmenn verði starfsfólk. Ekki er gert ráð fyrir að tillagan feli í sér viðbótarkostnað.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL23020071.
Samþykkt með þeirri breytingu að 18. gr. reglnanna stendur óbreytt.Helga Jóna Benediktsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, Kristín Ösp Jónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs og Inga Borg, fjármálasérfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að tryggja að uppfæra reglurnar í samræmi við þróun á tekju- og eignamörkum. Tekju- og eignamörk í reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði hafa verið miðuð við þær fjárhæðir sem fram koma í reglugerð nr. 1342/2020, um ráðstöfun leiguíbúða skv. 37. gr. laga um húsnæðismál nr. 44/1998, með síðari breytingum. Innviðaráðuneytið tilkynnti þann 17. janúar 2023 um uppreiknuð tekju- og eignamörk og eru umræddar breytingar í samræmi við það.
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér eru lagðar til breytingar varðandi tekju- og eignamörk um félagslegt leiguhúsnæði, þar sem verið er að hækka þau mörk. Fulltrúi sósíalista telur almennt að víkka þurfi út reglur um félagslegt leiguhúsnæði svo að þær nái til fleiri þar sem margt fólk er í slæmri fjárhagslegri og félagslegri stöðu en uppfyllir samt sem áður ekki skilyrðin um veitingu félagslegs leiguhúsnæðis.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 1. mars 2023, um breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning, ásamt minnisblaði, dags. 1. mars 2023, um breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning:
Lagt er til að samþykktar verði eftirfarandi breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning:
- að hækka eignamörk sérstaks húsnæðisstuðnings úr 6.186.000 kr. í 7.158.000 kr. (3. gr.).
- að hækka tekjumörk sérstaks húsnæðisstuðnings um 7,40% (5. gr.).
- að hækka lágmarks húsnæðiskostnað úr 40.000 kr. í 50.000 kr. (4. gr.).
- að gert verði skýrara að sérstakur húsnæðisstuðningur sé ekki greiddur aftur í tímann (6. gr.).
- að gert verði skýrara að það sé ekki skilyrði fyrir greiðslu sérstaks húsnæðisstuðnings vegna 15-17 ára barna að umsækjandi fái einnig greiddar húsnæðisbætur á grundvelli laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur (8. gr.).
- að fallið verði frá endurnýjun umsókna (9. gr.).
- að umsóknir falli sjálfkrafa úr gildi að loknum endurútreikningi á sérstökum húsnæðisstuðningi í kjölfar lokauppgjörs frá Húsnæðis- og Mannvirkjastofnun, ef umsækjandi er með tekjur hærri en efri tekjumörk, sbr. 5. gr. reglnanna, allt árið á undan og alla mánuði fram að framkvæmd endurútreiknings (9. gr.).
- að velferðarsviði verði heimilt við endurskoðun að skuldajafna ofgreiddum sérstökum húsnæðisstuðningi við vangreiðslur sem endurskoðun nær til (12. gr.).
- nokkrar breytingar verði gerðar á orðalagi, s.s. í stað orðsins þjónustumiðstöð verði notað orðalagið miðstöð Reykjavíkurborgar eða viðeigandi miðstöð í hverfi, eftir því sem við á, og einnig verði nokkrum orðum skipt út með tilliti til kynhlutleysis, þ.e. heimilismönnnum fyrir heimilisfólk og starfsmönnum fyrir starfsfólk.
- að orðalagsbreytingar verði gerðar til samræmis við þá framkvæmd að nú er unnt að sækja rafrænt um sérstakan húsnæðisstuðning og að í stað heitisins Lánasjóður íslenskra námsmanna komi Menntasjóður námsmanna (2. gr.).
- að bráðabirgðaákvæði II og III falli brott.Greinargerð fylgir tillögunni. VEL230200072.
Samþykkt. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.Helga Jóna Benediktsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, Kristín Ösp Jónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, og Inga Borg, fjármálasérfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Umræddar breytingar eru í samræmi við reglugerðarbreytingu á reglugerð nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur sem tók gildi þann 1. janúar 2023 og fól í sér að grunnfjárhæðir húsnæðisbóta voru hækkaðar auk þess sem frítekjumörk voru hækkuð. Aðrar breytingar sem lagðar eru til í reglunum eru ætlaðar til að skerpa á vissum þáttum og auka samræmi milli húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings. Þá fela breytingarnar einnig í sér minni umsýslu fyrir notendur auk vinnusparnaðar fyrir starfsfólk.
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er verið að leggja til hækkun á húsnæðisstuðningi sem er mjög mikilvægt fyrir leigjendur þar sem leiguverð er gríðarlega hátt og leigjendur margir gjörsamlega að sligast. Fulltrúi sósíalista fagnar því að verið sé að falla frá því að umsækjendur þurfi að endurnýja umsókn á 12 mánaða fresti. Leigjendur hafa áður þurft að gera slíkt þrátt fyrir að ekkert hafi breyst í þeirra stöðu. Fulltrúi sósíalista telur að ráðast þurfi að rót vandans sem er hagnaðardrifið húsnæði sem gerir það að verkum að leigjendur greiða allt of hátt verð fyrir húsnæði. Á meðan ekki er til nægt félagslegt húsnæði þarf að mæta leigjendum með húsnæðisstuðningi. Hér eru lagðar til breytingar sem þýða að greiðslur sérstaks húsnæðisstuðnings takmarkast við að húsnæðiskostnaður leigjenda að teknu tilliti til samanlagðra húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings sé að lágmarki 50.000 en áður var það 40.000. Gert er ráð fyrir að 618 notendur muni fá lægri greiðslur vegna hækkunar á lágmarki húsnæðiskostnaðar. Mikilvægt er að reglur um húsnæðisstuðning nái utan um öll sem eru í viðkvæmri stöðu og greiða hátt hlutfall af ráðstöfunartekjum sínum í leigu. Þá er einnig mikilvægt að hægt sé að fá greiðslur aftur í tímann ef eðlilegar ástæður liggja þar að baki.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á samantekt og tillögum starfshóps um stöðu heimilislauss fólks í tengslum við heimilisofbeldi. VEL23020040.
Tillögum starfshópsins er vísað til stýrihóps um endurskoðun aðgerðaáætlunar með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir.
Halldóra Dýrleifar- Gunnarsdóttir, sérfræðingur í jafnréttismálum og verkefnisstjóri Saman gegn ofbeldi, Valgerður Jónsdóttir, sérfræðingur á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, og Soffía Hjördís Ólafsdóttir, teymisstjóri málaflokks heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að tryggja að þolendur heimilisofbeldis fái sambærilega þjónustu óháð húsnæðisstöðu og að vinnureglur lögreglu breytist hvað varðar þjónustu við þolendur. Tekið er undir tillögur hópsins og þeim vísað til stýrihóps í málefnum heilmilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja þakka starfshópnum um heimilisofbeldi og heimilisleysi fyrir sérstaklega vel unna samantekt. Þar kemur fram að heimilisleysi kvenna er jafnan duldara og þær útsettari fyrir kynbundnu- og kynferðisofbeldi ofan á annað ofbeldi. Einnig eru konur líklegri til að dvelja í ótryggu húsnæði, þá upp á einn geranda komnar, frekar en að eiga á hættu að lenda í ofbeldi frá mörgum aðilum. Rímar þetta við reynslu starfsfólks úr Konukoti, þangað sem konur í slíkum aðstæðum hafa flúið heimilisofbeldi. Tillaga Sjálfstæðisflokksins um nýtt neyðarathvarf fyrir konur sem hlaut á dögunum framgöngu undir formerkjum nýs áfangaheimilis í anda skaðaminnkunar byggði á þessu ákalli frá starfsfólki málaflokksins um fleiri og fjölbreyttari úrræði. Líkt og fram kemur í samantektinni er þó annað og meira sem þarfnast nauðsynlegra úrbóta, þá sérstaklega þegar kemur að skráningu. Hér hefur starfsfólk sett fram sjö vel rökstuddar og þarfar tillögur sem nauðsynlegt er bregðast við án tafar. Sérstaklega sláandi er að í septembermánuði milli ársins 2021 og 2022 hafi orðið tæplega 90% aukning í gistinóttum í Konukoti. Ljóst er að Konukot getur ekki annað slíkri eftirspurn og því rækið tilefni til að flýta opnun fyrrnefnds áfangaheimilis fyrir konur og jafnvel bæta í.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um deilibílakerfi á miðstöðvum Reykjavíkurborgar, sbr. 19. lið fundargerðar velferðarráðs frá 1. febrúar 2023. VEL23020007.
Samþykkt.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Sjálfsagt er að skoðað verði að koma upp deilibílakerfi með vistvænum bifreiðum á miðstöðvum Reykjavíkurborgar, niðurstaðan verði kynnt velferðarráði.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins lagði til að skoðað verði að koma upp deilibílakerfi með vistvænum bifreiðum á miðstöðvum Reykjavíkurborgar. Leigubílakostnaður er hár á velferðarsviði og telur Flokkur fólksins að með því að velferðarsvið eigi sína eigin bíla þá geti sá kostnaður lækkað. Starfsmenn velferðarsviðs á miðstöðvunum gætu haft afnot af þessum bílum til að sækja fundi á vinnutíma. Í tillögunni er talað um litla vistvæna rafmagnsbíla sem starfsmenn geta deilt. Komið hefur í ljós að velferðarsvið hefur þurft að leigja jepplinga fyrir háar fjárhæðir í verstu vetrarfærðinni til að geta sinnt bráðnauðsynlegri heimaþjónustu í efri byggðum borgarinnar. Það væri því kannski ráð að þessir deilibílar væru jepplingar og gætu þá nýst í mestu vetrarhörkunum. Flokkur fólksins telur að þarna sé sóknarfæri til sparnaðar, bæta þjónustu og nota vistvænan ferðamáta. Tillagan er samþykkt og Flokkur fólksins fagnar því svo sannarlega. Vonandi fær tillagan góða skoðun og alvöru útfærslu sem kemur öllum til góða.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 1. mars 2023, við fyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um niðurskurð í heimastuðningi árin 2022 og 2023, sbr. 22. lið fundargerðar velferðarráðs frá 11. janúar 2023. VEL23010031.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Ekki hefur verið skorið niður fjármagn í heimastuðning á árinu 2022 en heimastuðningur sætti 1% hagræðingu á laun eins og aðrar rekstrareiningar velferðarsviðs á þessu ári. Ekki stendur til að skera niður fjármagn til heimastuðnings árið 2023.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúa Flokks fólksins hafa einnig borist ábendingar þess efnis að breytingar hafi verið gerðar á heimastuðningi, þar sem dregið hefur verið úr stuðningi í formi heimilisþrifa þrátt fyrir að ekkert hafi breyst í stöðu umsækjenda. Segir í svari að áherslubreyting varðandi forgangsröðun hafi verið gerð með nýjum reglum sem tóku gildi 1. febrúar 2022 en í forgangsflokk 4 raðast þeir sem eru með væga stuðningsþörf þ.e. eru sjálfbjarga en þurfa leiðbeiningar, þjálfun og stuðning við heimilishald s.s. með almennum heimilisþrifum. Gert er ráð fyrir að þeir fái almenn heimilisþrif einu sinni til tvisvar sinnum í mánuði. Vegna fjölda kvartana er augljóst að þessi breyting hefur ekki verið skýrð nægjanlega fyrir notendum þjónustunnar. Flokkur fólksins fagnar því að ekki standi til að skera niður fjármagn til heimastuðnings árið 2023.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 1. mars 2023, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um fjölda heimilislausra sem nýtir neyðarskýli Reykjavíkurborgar lengur en þrjá mánuði, sbr. 21. lið fundargerðar velferðarráðs 1. febrúar 2023. VEL23020009.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir upplýsingum um hvort enn sé fjölgun í hópi heimilislausra sem nýta gistiskýlin lengur en þrjá mánuði og hvað sé nákvæmlega verið að gera til að sporna við henni? Flokkur fólksins þakkar greinargott svar. Af svari má sjá að staðan hefur versnað til muna árið 2022. Þar kemur fram að heildarfjöldi þeirra sem nýta neyðarskýlin lengur en 91 dag er 44 einstaklingar árið 2020, heldur áfram að fjölga á árinu 2021 upp í 60 og er orðinn 76 einstaklingar árið 2022. Það er virkilega sláandi að sjá þróunina varðandi einstaklinga sem hafa dvalið 201 dag eða lengur í gistiskýlunum en þeim hefur fjölgað úr 13 einstaklingum árið 2020 í 29 manns árið 2022. Jafnframt kemur fram að þeir sem dvelja langdvölum í skýlunum eru að meginuppistöðu þeir einstaklingar sem þarfnast hjúkrunarþjónustu. Það er ánægjulegt að verið sé að vinna að því að finna viðeigandi hjúkrunarúrræði fyrir þennan hóp. Vonandi gengur sú vinna fljótt og vel því neyðin er mikil. Flokkur fólksins hvetur til þess að aukinn þungi verði settur í vinnuna við að útfæra og kostnaðarmeta þrepaskipt úrræði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir.
Fylgigögn
-
Velferðarráð leggur fram svohljóðandi tillögu:
Velferðarráð felur velferðarsviði að fara þess á leit við Rauða krossinn að framlengja samning um rekstur neyslurýmis um einn mánuð enda hafi náðst samkomulag við ríkið um fjármögnun. Tíminn verði nýttur til að leita lausna til að tryggja að áfram verði rekið neyslurými í Reykjavíkurborg. VEL23030002.
Samþykkt.
-
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Flokkur fólksins spyr hvort Reykjavíkurborg sé að styrkja Betra Líf í Vatnagörðum en þar er rekið áfangaheimili fyrir fólk sem glímir við fíkniefnavanda? Er einhver eftirfylgni með áfangaheimilum að þau starfi samkvæmt skilgreiningu áfangaheimila og að öryggi íbúa sé tryggt í úrræðinu. Áfangaheimili er skilgreint sem tímabundinn dvalarstaður fyrir einstaklinga sem hafa átt við áfengis- og fíkniefnavanda að stríða en eru í virkri endurhæfingu eftir meðferð. Málefni áfangaheimila hafa komist í hámæli eftir að eldsvoði varð í einu slíku fyrir skömmu. Þrjátíu manns voru skráðir með aðsetur á hæð hússins við Vatnagarða þar sem eldurinn kom upp. Jafnframt kom fram í fréttum að nokkur fjöldi flóttafólks hafi aðsetur í húsnæðinu. Samkvæmt frásögn íbúa þá er engin eftirfylgni með íbúum og enginn skiptir sér af fólkinu og hafði nágranni hans verið látinn í nokkra daga áður en það uppgötvaðist. Samkvæmt upplýsingum frá sama íbúa þá greiðir hann 140 þúsund krónur í leigu fyrir herbergi sem er fimm til tíu fermetrar að stærð. Flokkur fólksins telur rétt að Reykjavíkurborg skoði þessar upplýsingar því það getur ekki verið boðlegt að bjóða fólki í viðkvæmri stöðu upp á svona ótryggt húsnæði. VEL23030001.
Fundi slitið kl. 17:00
Heiða Björg Hilmisdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir
Magnea Gná Jóhannsdóttir Magnús Davíð Norðdahl
Sandra Hlíf Ocares Þorvaldur Daníelsson
Helga Þórðardóttir
PDF útgáfa fundargerðar
448. fundur velferðarráðs 1. mars 2023