Velferðarráð - Fundur nr. 447

Velferðarráð

Ár 2023, miðvikudagur 15. febrúar var haldinn 447. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 15:17 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þorvaldur Daníelsson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Agnes Sif Andrésdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Rannveig Einarsdóttir, Þórhildur Guðrún Egilsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

 1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL22050007.

 2. Fram fer kynning á innleiðingu velferðarstefnu. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 15. febrúar 2023, með stöðumati á innleiðingu aðgerðaáætlunar með velferðarstefnu, ásamt fylgiskjali. VEL22090177. 

  Hildur Hrönn Oddsdóttir, verkefnastjóri fræðslumála á velferðarsviði, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 
  Katrín Helga Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, Kristinn Jakob Reimarsson, framkvæmdastjóri Norðurmiðstöðvar, Margrét Richter, staðgengill framkvæmdastjóra Austurmiðstöðvar, Óskar Dýrmundur Ólafsson, framkvæmdastjóri Suðurmiðstöðvar, Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Vesturmiðstöðvar og Styrmir Erlingsson, framkvæmdastjóri Rafrænnar miðstöðvar, taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

  Fylgigögn

 3. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 15. febrúar 2023, um fjármögnun húsnæðis fyrir starfsemi Mánabergs:

  Lagt er til að breyting verði gerð á fjárhagsáætlun velferðarsviðs 2023 vegna reksturs Mánabergs, vistheimili barna. Áætla skal tekjur vegna endurgreiðslu frá ríkinu vegna vistunarkostnaðar að fjárhæð 37,5 m.kr. og gjöld á móti.

  Greinargerð fylgir tillögunni. VEL23020032.
  Frestað.

  Katrín Helga Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

  Fylgigögn

 4. Lagt fram minnisblað Barnaverndar, dags. 15. febrúar 2023, um verklag vegna athugasemda Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála í kvörtunarmálum sem tengjast þjónustu Barnaverndar Reykjavíkur. VEL23020036. Einnig lagt fram trúnaðarmerkt minnisblað Barnaverndar, dags. 15. febrúar 2023, um niðurstöður Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála vegna athugunar kvörtunarmáls í máli hjá Barnavernd Reykjavíkur. VEL23020035. 

  Katrín Helga Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

  Fylgigögn

 5. Lögð fram drög að viðauka við þjónustusamning milli Vinnumálastofnunar og Reykjavíkurborgar um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd, ásamt minnisblaði sviðsstjóra, dags. 15. febrúar, um stækkun þjónustusamnings við Vinnumálastofnun um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd. VEL23020039. 

  Magdalena Kjartansdóttir, deildarstjóri teymis fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og Jasmina Vajzovic Crnac, leiðtogi Alþjóðateymis, taka sæti á fundinum undir þessum lið. Óskar Dýrmundur Ólafsson, framkvæmdastjóri Suðurmiðstöðvar tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

  Fylgigögn

 6. Kynning á samantekt og tillögum starfshóps um stöðu heimilislauss fólks í tengslum við heimilisofbeldi. VEL23020040.  
  Frestað.

 7. ulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

  Lagt er til að leiga smáhýsanna að Fiskislóð verði lækkuð til að samsvara leiguverði Félagsbústaða þar sem fermetraverð spilar inn í leiguverð. Leiguverðsgrunnur Félagsbústaða byggir á fasteignamati og leigustuðli fyrir ólík póstnúmer en mánaðarleiguverð sértækra búsetuúrræða Félagsbústaða og almennra leigueininga sem ekki hafa fasteignamat er óháð leiguhverfi og er ákvarðað þannig að greitt er fast gjald fyrir hverja leigueiningu auk breytilegs gjalds sem er í réttu hlutfalli við birt flatarmál leigueiningar. Lagt er til að leiga smáhýsanna verði reiknuð út til samræmis við leiguverð annarra íbúða sem borgin leigir út. Sé litið til þess þá má sjá að leiga smáhýsa er hlutfallslega mun hærri en leiga íbúða hjá Félagsbústöðum. Sem dæmi þá er mánaðarleiga fyrir 62 fermetra íbúð í Vesturbæ 130.900 kr. (fermetraverð um 2.100 kr.) og mánaðarleiga fyrir 59 metra íbúð í Efra Breiðholti er 106.416 kr. (fermetraverð rétt yfir 1.800 kr.). Leiguverð fyrir 25 fermetra smáhýsi að Fiskislóð 1 er hinsvegar tæpar 87.000 kr. á mánuði auk 10 þúsund kr. hússjóðs sem gerir samanlagt um 3.900 kr. á fermetrann. Fjármálaskrifstofu velferðarsviðs verði falið að útbúa leiguverð sem tekur mið af þessum veruleika. Einnig verði litið til leiguverðs smáhýsa á öðrum staðsetningum með ofangreint í huga. 

  Greinargerð fylgir tillögunni. VEL23020048.
  Vísað til Félagsbústaða til meðferðar.

  Fylgigögn

 8. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

  Á meðan að niðurstöður eru ekki komnar úr vinnu stýrihóps um endurskoðun á fjárhagsaðstoð er lagt er til að grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar verði a.m.k. hækkuð út frá verðlagsforsendum sem eru í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023. Á síðustu árum hefur grunnupphæð fjárhagsaðstoðar gjarnan verið hækkuð í kringum áramót en slíkt átti ekki við núna. Því er lagt til að upphæðin verði hækkuð þannig að þau sem treysta á fjárhagsaðstoð verði ekki gert að framfleyta sér á upphæð sem miðast við árið 2022. 

  Greinargerð fylgir tillögunni. VEL23020049.
  Vísað inn í stýrihóp um endurskoðun á fjárhagsaðstoð.

  Fylgigögn

 9. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

  Tillaga Flokks fólksins um að ræða við og taka stöðuna hjá foreldrum 2290 barna sem bíða á biðlista eftir sérfræðiaðstoð skóla s.s. sálfræðiaðstoð og aðstoð talmeinafræðings. Biðlistinn hefur lengst stöðugt og lengist enn þrátt fyrir breytt skipulag, Betri borg verkefnið, sem komið er í gang í sumum hverfum borgarinnar. Biðlistinn hefur lengst stöðugt þrátt fyrir umfangsmiklar aðgerðir við að innleiða BBB. Tafir hafa orðið á verkefninu enda ferlið flókið. Skipaðir voru fimm starfshópar til að koma verkefninu af stað. Skipaður var eigendahópur verkefnisins með sviðsstjórum, formanni verkefnastjórnar og fulltrúa miðstöðva. Settur var á laggirnar stýrihópur innleiðingar. Skipaðir voru verkefnisstjórnir BBB á hverri miðstöð sem samanstóðu af röð stjórna með ýmsum titlum. Og öll þessi hersing var svo í samvinnu við ÞON. Það skal því ekki undra að ekki hefur tekist að spyrna fótum við fjölgun á biðlista barna. Viðurkennt er að þetta reyndist allt þyngra en reiknað var með og að fundaálag sé mikið sem ekki er skrýtið. Það er mikilvægt að kanna stöðuna hjá þessum fjölskyldum og heyra í foreldrum barnanna sem hafa sum beðið mánuðum saman eftir aðstoð. Eru þeir jafn ánægður með BBB eins og sagt er að starfsfólkið sé og “deildir”? VEL23020050.

  Frestað.

 10. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

  Óskað er eftir að rætt verði við þá foreldra barna með tilfinningavanda sem á að bjóða á HAM námskeið (hugræn atferlismeðferð) þegar námskeiði líkur og þeir spurðir hvort þeir telji námskeiðið hafa gagnast sér til að hjálpa börnum sínum með tilfinninga- og kvíðavandamál sín. Það er áhugavert að fá upplýsingar hvernig Hugræn atferlismeðferð fyrir foreldra nýtist foreldrum barna með tilfinninga- og kvíðavandamál. Þau börn sem hér um ræðir eru eftir því sem best er vitað á biðlista eftir sálfræðingi. VEL23020051.

  Frestað.

 11. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Hvernig er leiguverð fyrir smáhýsi borgarinnar reiknað út og hvaða forsendur lágu að baki þeirri ákvörðun? Hefur leiguverðsgrunnurinn tekið breytingum í gegnum tíðina og ef svo er, hvernig þá? Er greiðsla mismunandi eftir staðsetningu smáhúsanna?  Hvað felst í hússjóði og er hann mismunandi eftir staðsetningu smáhúsanna? VEL23020052.

 12. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Flokkur fólksins óskar að fá upplýsingar um hversu mörgum skólaforðunarmálum var vísað til Barnaverndarnefndar árið 2022? Í apríl 2022 kom fram í svari sviðsstjóra við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um fjölda tilkynninga til Barnaverndar vegna skólasóknar eða sem tengjast skólaforðunar málum að fjöldi tilkynninga vegna vanrækslu varðandi nám eins og það er orðað var árið 2019 67 mál en er árið 2021 46 mál talsins. Fjöldi tilkynninga vegna erfiðleika með skólasókn var árið 2019, 77 mál og árið 2021,  72.  Nú er spurt um árið 2022. Óskað er eftir sömu upplýsingum og liggja fyrir fyrri ár. Viðmiðunarflokkum vegna skólaforðunarmála er skipt í þrjú stig eftir alvarleika. Langvinn, alvarleg skólaforðun á við þegar hún hefur staðið yfir lengur en eitt ár og flokkast þá sem stig 3. Þegar á 3. stig er komið er þörf á sértækri íhlutun og nauðsynlegt getur verið að vísa málinu til Barnaverndar. Þetta á við um nemendur sem hafa ekki svarað þeim inngripum sem hafa verið reynd og vandinn því orðinn langvinnur og alvarlegur. VEL23020053.

 13. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Í nýlegri könnun Gallup kom fram að það er erfiðara nú en áður að ná endum saman í Reykjavík. Hlutfall þeirra sem ekki ná endum saman fjárhagslega hefur ekki verið jafn hátt hérlendis síðan fyrir sjö árum og hlutfall þeirra sem ná að safna sparifé hefur ekki verið lægra um sex ára skeið. Um þriðjungur þekkir fátækt af eigin raun eða í sínu nærumhverfi. Leigjendur eiga sérlega erfitt með að ná endum saman ef samanborið er við húsnæðiseigendur eða þau sem búa í foreldrahúsum. Í ljósi þessara og fleiri sambærilegra niðurstaðna spyr fulltrúi Flokks fólksins: Hyggst borgarmeirihlutinn  grípa til einhverra sértækra aðgerða til að mæta vaxandi fjölda barna sem búa við fátækt í Reykjavík. Er hafin vinna við að móta stefnu eða áætlun til að uppræta fátækt í Reykjavík. Engin slík stefna er til í Reykjavíkurborg. VEL23020054.

 14. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvort Reykjavíkurborg sé með þjónustusamning við einkarekin vistheimili fyrir börn með fjölþættan og flókinn vanda? Ef svo er, hvernig er eftirliti háttað með þessum heimilum? Einnig er spurt um hvort fylgst sé með öryggi skjólstæðinga og starfsfólks og hvort það sé tryggt? Er gerð krafa á að vistheimilin séu með fagfólk sem kann að veita börnum meðferð og aðstoð? Hér er um að ræða börn sem eru veik, mörg með alvarlegan geðrænan vanda og hljóta því að þurfa sértæka meðhöndlun. Er fylgst með arðgreiðslum hjá þessum einkareknu vistheimilum, ef þær eru til staðar? VEL23020055.

Fundi slitið kl. 17:37

Heiða Björg Hilmisdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir

Magnea Gná Jóhannsdóttir Þorvaldur Daníelsson

Helga Þórðardóttir Magnús Davíð Norðdahl

Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Velferðarráð 15.2.20223 - prentvæn útgáfa