Velferðarráð - Fundur nr. 435

Velferðarráð

Ár 2022, miðvikudagur 21. september var haldinn 435. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:06 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Rannveig Ernudóttir, Sandra Hlíf Ocares, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þorvaldur Daníelsson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Aðalbjörg Traustadóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Þórhildur Guðrún Egilsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

 1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL22050007.

 2. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 21. september 2022, um nýtt útboð á heimsendum mat:

  Lagt er til að velferðarráð samþykki að fela velferðarsviði að fara að nýju í útboð á heimsendum mat og pökkun. Útboðið fari fram á grundvelli fyrirliggjandi þarfagreiningar en með breytingu á tímabili þjónustu, þ.e. tímaspönn samnings verði aukin frá tveimur árum í tíu ár til að tryggja að viðunandi tilboð fáist. Tillagan hefur ekki í för með sér aukakostnað fyrir velferðarsvið.

  Greinargerð fylgir tillögunni. VEL22090109.

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

  Lagt er til að í stað 10 ára verði útboðstíminn til 6 ára.

  Breytingartillagan er samþykkt með fimm atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata gegn einu atkvæði fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. Fulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

  Tillagan er samþykkt svo breytt.

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Mikilvægt er að tryggja góða og öfluga máltíðaþjónustu til þeirra Reykvíkinga sem það þurfa og kjósa. Kallað hefur verið eftir meiri fjölbreytni og hér er hugsunin að mæta því kalli. Samþykkt er að fara í útboð á heimsendum mat og pökkun. Við útboðið er þó lögð áherslu á að bæði matar- og loftlagsstefnu Reykjavíkur verði fylgt eftir í útboðslýsingu. Þá er lagt til að útboðstíminn verði styttur í 6 ár.

  Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi sósíalista telur mikilvægt að finna leiðir til að tryggja að hægt sé að framleiða matinn í nærumhverfi þeirra sem neyta hans og að maturinn sé framleiddur á forsendum þeirra sem borða hann. Mikilvægt er að tryggja að borgarbúar sem kaupa mat af borginni fái sitt að segja um það hvað er í boði. Hér er verið að leggja til að þjónustan á heimsendum mat og pökkun verði boðin út til þriðja aðila, fyrst um sinn átti að miða við tvö ár en nú er lagt til að samningstími verði til sex ára. Um langan tíma er að ræða og fulltrúi sósíalista telur mikilvægt að aðgerðir verði tryggðar svo að velferðarsvið og framleiðslueldhús geti þróað þjónustuna innanhúss. 

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins vill stíga varlega til jarðar þegar kemur að útvistun opinberra verkefna til einkaaðila, sérstaklega þegar kemur að beinni þjónustu við viðkvæma hópa. Útvistanir til einkaaðila hafa gengið misvel auk þess sem útvistanir geta leitt til lægri launa, verra starfsumhverfis og verri þjónustu. Ef horft er til  matarþjónustu á velferðarsviði þá erum við í Flokki fólksins ekki sannfærð um að henni eigi að útvista. Það gæti leitt til þess að þjónustan færist fjær fólkinu og að persónulegar þarfir fólks séu ekki virtar. Útvistun er ekki ávísun á sparnað. Hafa skal í huga að varla er nokkurt fyrirtæki að óska eftir verkefni nema komið sé út í hagnaði. Það leiðir líkum að því að gjöld kunni að hækka fyrir þjónustuna. Þann 8. júní 2022 voru tilboð á EES útboði velferðarsviðs.  Eitt tilboð barst upp á kr. 317.400.000 en í kostnaðaráætlun var gert ráð fyrir kr. 170.100.000. Fleiri tilboð bárust ekki og var tilboðinu hafnað. Nú á að reyna að auka tímaramma samnings úr  tveimur árum í tíu ár til að tryggja að viðunandi tilboð fáist. Flokki fólksins finnst áhætta fólgin í  því ef þjónustan er léleg og þá er ekki hægt að segja upp samningi.

  Fylgigögn

 3. Fram fer kynning á ársskýrslu velferðarsviðs 2021. VEL2209011.

  Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir, teymisstjóri árangurs- og gæðamats, og Hólmfríður Helga Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi velferðarsviðs, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Ársskýrsla velferðarsvið er yfirgripsmikil. Fulltrúa Flokks fólksins fannst sérstaklega athyglisverðar upplýsingarnar um stuðningsþjónustu fyrir börn og foreldra. Þar koma fram algengustu ástæður tilvísana barna til stoðþjónustu. Aukning er á öllum ástæðum tilvísana. Langmesta aukningin milli ára er hins vegar vegna tilfinningalegs vanda, eða um 63% og vegna málþroskavanda, eða 62%. Einbeitingarvandi hefur aukist frá 280 í 456 börn. Hér eru án efa  vísbendingar um ADHD. Þessi börn þurfa að fá skimun og greiningu til að fá viðeigandi úrræði. Það er greinilegt af þessum upplýsingum að mikil fjölgun hefur orðið hjá börnum sem glíma við tilfinninga- og félagslegan vanda. Þetta þarf að greina nánar þ.e. í hverju vandinn felst. Flokkur fólksins hefur ítrekað bent á að málefni barna verði að hafa meiri forgang. Það er ótækt að börn séu á bið eftir þjónustu fagaðila í skóla. Hvert barn á biðlista er einu barni ofaukið en nú eru börnin 2017 sem bíða eftir stuðningsþjónustu. Hundruð barna hafa verið á biðlistum barna eftir allri mögulegri þjónustu í Reykjavíkurborg. Hér þarf velferðarsvið að axla ábyrgð. Það Þarf að styðja betur við foreldra í uppeldishlutverkinu og  brýnt er  að víkka út úrræðið PMTO sem hefur gefið góða raun.  

  Fylgigögn

 4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 21. september 2022, um stöðu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA). VEL22090112.

  Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

  Mikið framfaraskref var stigið í þjónustu við fatlað fólk þegar samningum um notendastýrða persónulega þjónustu var komið á fót. Ljóst er að þjónustuformið hefur haft mikil og jákvæð áhrif á líf og störf einstaklinga sem hafa notið þjónustunnar, það hefur verið valdeflandi og aukið sjálfstæði einstaklinganna. Mikil eftirspurn hefur verið eftir þessum samningum og hafa myndast biðlistar eftir þjónustunni. Það er mikilvægt að NPA verði raunverulegur valkostur fyrir fatlað fólk. Skýra þarf fjármögnun þjónustunnar, ramma og verkferla til þess að svo geti orðið. Mikilvægt er að vanda vel til verka og til að það geti orðið þurfa sveitarfélög og ríkisvaldið að taka höndum saman í samráði við notendur þjónustunnar. Starfshópur um heildarendurskoðun á lögum nr 38/2018 lagði til að innleiðingartímabilið verði framlengt og tekur velferðarráð Reykjavíkurborgar undir þá tillögu og skorar á ríkisvaldið að gefa þessu mikilvæga verkefni lengri tíma. Ekki síst í ljósi þess að í bráðabirgðaákvæði laganna var gert ráð fyrir að samningar yrðu 172 í árslok 2022 en þeir eru einungis 95 á landsvísu. NPA þjónusta er ein mesta réttarbót sem komið hefur fram fyrir fatlað fólk og þeir einstaklingar sem eru með þjónustu í formi NPA eiga það sammerkt að upplifa miklar og jákvæðar breytingar á lífi sínu. Það er mikilvægt verkefni samfélagsins að tryggja að þetta mikilvæga þjónustuform verði fest í sessi.

  Fylgigögn

 5. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að mæta þörfum þeirra sem vísað er úr landi, sbr. 14. lið fundargerðar velferðarráðs frá 14. september 2022. VEL22050035.

  Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi breytingartillögu:

  Hér er lögð fram breytingartillaga við tillögu sem var lögð fram í velferðarráði 25. maí 2022. Tillagan er borin fram til afgreiðslu á fundi velferðarráðs 21. september 2022 og ýmislegt hefur breyst á þeim tíma. Tillagan fól í sér að í ljósi þess að til stóð að vísa hátt í 300 umsækjendum um alþjóðlega vernd úr landi, samþykki Reykjavíkurborg að taka á móti því fólki sem dvelur hér í borginni og veita þeim viðeigandi stuðning og úrræði svo sem húsnæði, atvinnu og nám. Reykjavíkurborg, höfuðborg Íslands, samþykkir því að vera leiðandi í því að bjóða þær manneskjur velkomnar sem mæta útskúfun af hendi ríkisins. Hér er um mannúðarmál að ræða þar sem mikilvægt er að líta til aðstæðna þeirra sem eiga í hlut og mæta þeim. Lagt er til að Reykjavíkurborg taki stöðuna á fjölda þeirra sem hafa ekki fengið úrlausn sinna mála og veiti þeim viðeigandi stuðning líkt og fjallað er um í tillögunni.

  Frestað.

  Fylgigögn

 6. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um endurskipulagningu íbúðakjarnans að Rökkvatjörn, sbr. 5. lið fundargerðar velferðarráðs frá 31. ágúst 2022. VEL22090003.

  Tillagan er felld með fimm atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins lagði til að  farið verði í að endurskipuleggja íbúðakjarna að Rökkvatjörn 3 með það að markmiði að gera almenningsrými fyrir íbúana. Komið hefur í ljós að það er stór galli á húsnæðinu því þar er ekkert sameiginlegt rými þar sem íbúar geta komið saman, borðað saman og horft saman á viðburði í sjónvarpi. Fram kemur í umsögn að húsnæðið að Rökkvatjörn var sérstaklega hannað og skipulagt með hagsmuni verðandi íbúa að leiðarljósi. Að hönnun komu auk arkitekta og fulltrúa Félagsbústaða, sérfræðingur af skrifstofu málefna fatlaðs fólks. Komu aðstandendur og verðandi íbúar ekkert þarna að? Það er stefna borgarinnar að sameiginleg almenningsrými skuli ekki vera í íbúðakjörnum fyrir fatlað fólk . Auðvitað hentar það ekki endilega öllum. Það er ekki afsökun að aðhafast ekkert ef meirihluti aðstandanda og notenda vilja annað. Í stað almenningsrýmis er í öllum íbúðakjörnum íbúð sem nýtist sem starfsmannaaðstaða og þessa íbúð geta íbúar nýtt sér til sameiginlegra viðburða óski þeir  þess. Hér er bara mikil hætta á að þessi íbúð endi sem starfsmannaaðstaða. Flokkur fólksins fagnar því að stofna eigi íbúaráð sem geti  tekið ákvarðanir varðandi þetta rými og önnur mál sem þau vilja ræða til að gera húsið sitt að skemmtilegu samfélagi. 

  Fylgigögn

 7. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 21. september 2022, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um nýtt fyrirkomulag heimaþjónustu, sbr. 13. lið fundargerðar velferðarráðs frá 31. ágúst 2022. VEL22090011.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Ástæða fyrirspurnar Flokks fólksins um nýtt fyrirkomulag heimaþjónustu er að ábendingar hafa borist um að sú breyting sem gerð var hefur fengið gagnrýni. Ábendingar hafa borist um að fólki sé ætlað að gera meira en það getur. Varast þarf að ganga of langt og ávallt að muna að þjónustuþeginn stýrir för. Í svari er farið yfir regluverkið og allt gott um það að segja. En fylgja þarf þessu eftir með aðhaldi og eftirliti og ef einhver kvartar þá þarf að hlusta. Ef fjármagn er takmarkað þá verður forgangsröðun oft mjög stíf og aðeins þeir sem eru í allra mestu þörf fá aðstoðina. Það gengur auðvitað ekki. Þeir sem þurfa aðstoðin eiga að fá hana.

  Fylgigögn

 8. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 21. september 2022, við framhaldsfyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um óafgreidd mál Flokks fólksins frá síðasta kjörtímabili, sbr. 10. lið fundargerðar velferðarráðs frá 10. ágúst 2022. VEL22080009.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið. Flokkur fólksins spurði um óafgreidd mál Flokks fólksins hjá velferðarsviði. Segir  í svari að lagðar hafi verið fram á síðasta kjörtímabili 57 tillögur og 76 fyrirspurnir. Samkvæmt gögnum sviðsins er búið er að afgreiða allar tillögur og fyrirspurnir frá síðasta kjörtímabili. Ein fyrirspurn, sem lögð var fram í borgarráði 4. júlí 2019, hefur ekki verið svarað. Sú fyrirspurn snýr að afdrifum búsetuhúss en ekki hefur fengist niðurstaða í það mál. Óskandi er að niðurstaða komi í það mál sem fyrst. Fjórar tillögur:  Tillaga fulltrúa Flokks fólksins um sjúkraþjálfun og heimahjúkrun; tillaga fulltrúa Flokks fólksins um matseðil, framleiðslu matar og næringargildi; tillaga fulltrúa Flokks fólksins um verkferla aðstoðar við böðun eldri borgara og tillaga fulltrúa Flokks fólksins um átak í að kynna tilkynningarhnapp ætlaðan börnum í Reykjavík hafa verið afgreiddar af ráðinu með vísun til vinnu innan stjórnkerfisins. Það hafði þó ekki verið gerð formlega grein fyrir afdrifum þeirra.

  Fylgigögn

 9. Fram fer kynning á helstu áskorunum í Barnavernd og ársskýrslu Barnaverndar 2021. VEL22090010.

  Katrín Helga Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, og Elísabet Gunnarsdóttir, deildarstjóri, teymi barna af erlendum uppruna og heimilisofbeldi, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fylgigögn

 10. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Óskað er eftir yfirliti um þróun stöðugilda hjá sálfræðingum og öðrum fagaðilum sem hafa veitt þjónustu í grunnskólum Reykjavíkurborgar og/eða sem hafa þjónustað grunnskóla Reykjavíkurborgar. Óskað er eftir þróun á milli ára, skipt eftir árum frá 2000 til dagsins í dag. Einnig er óskað eftir sundurliðun út frá starfstitlum fagaðila. VEL22090221.

 11. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Hinn 1. september sl.  voru 118 á bið eftir félagslegri heimaþjónustu. Flokkur fólksins vill spyrja hvar þetta fólk er statt? Hvað margir eru heima að bíða? Hvað margir eru hjá aðstandendum? Hvað margir eru á hjúkrunarheimilum, þjónustukjarna og hvað margir eru fastir á Landspítala - háskólasjúkrahúsi vegna þess að þeir geta ekki farið heim því enga heimaþjónustu er að fá. Árið 2019 biðu 271. Ástandið er búið að vera slæmt í áratugi. Aðeins hefur verið hægt að sinna þeim sem eru veikastir. VEL22090222.

Fundi slitið kl. 16:12

Heiða Björg Hilmisdóttir Magnea Gná Jóhannsdóttir

Rannveig Ernudóttir Þorvaldur Daníelsson

Sanna Magdalena Mörtudottir Helga Þórðardóttir

Sandra Hlíf Ocares