Velferðarráð - Fundur nr. 433

Velferðarráð

Ár 2022, miðvikudagur 31. ágúst var haldinn 433. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:05 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Natalie Guðríður Gunnarsdóttir, Sandra Hlíf Ocares, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þorvaldur Daníelsson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Aðalbjörg Traustadóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Regína Ásvaldsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL22050007.

  2. Fram fer kynning á 5 ára fjárhagsáætlun velferðarsviðs 2023-2027. Trúnaðarmál. VEL22080048. 

    Fram fara umræður um forgangsröðun í fjárhagsáætlun velferðarsviðs. 

  3. Lagt fram erindi nemenda í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, dags. 22. ágúst 2022, með beiðni um stuðning við ákall um að félagsráðgjöf verði kennd í fjarnámi við Háskóla Íslands.VEL22080049.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð tekur undir kröfu nemenda í félagsráðgjöf. Fjarnám eykur aðgengi fólks að námi og jafnar tækifæri fólks til náms óháð stöðu og búsetu.

  4. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Í Reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði er fjallað um skilyrði fyrir því að umsókn um almennt félagslegt leiguhúsnæði verði samþykkt á biðlista. Umsóknir eru  metnar samkvæmt ákveðnum matsviðmiðum, þar sem reiknuð eru stig fyrir hvern þátt í matsviðmiði. Viðkomandi þarf að vera metinn til ákveðið margra stiga til þess að vera samþykktur á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði. Með þessum reglum er Fylgiskjal 1: Matsviðmið varðandi almennt félagslegt leiguhúsnæði. Þetta fylgiskjal er notað við mat á umsækjendum um þjónustu sem þeir hafa rétt á að sækja til Reykjavíkurborgar, m.a. í áfrýjunarnefnd velferðarráðs. Í skjalinu eru tölur sem stangast á við þær sem koma fram í fyrrnefndum reglum. Undir 4. gr. d. liðar í reglunum er fjallað um tekjur og eignir umsækjenda: „Tekjumörk eru kr. 5.995.000 fyrir einstakling en kr. 8.394.000 fyrir hjón og sambúðarfólk. [...] Tekjumörk eru miðuð við meðaltal tekna síðastliðinna þriggja ára.“ Þá kemur einnig fram að fjárhæðir séu endurskoðaðar af velferðarráði Reykjavíkurborgar árlega. Um þetta er fjallað á bls. 3 í reglunum. Í fylgiskjali 1 með Reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði er talan hins vegar öllu lægri: kr. 5.345.000. Því er lagt til að skrifstofu fjármála og reksturs á velferðarsviði verði fengið að lagfæra tekjuviðmiðin í Matsviðmið varðandi almennt félagslegt leiguhúsnæði, fylgiskjali 1 með Reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði til samræmis við það sem fram kemur í reglunum sjálfum í 4. gr., lið d.

    Greinargerð fylgir tillögunni. 
    Frestað. 

    Fylgigögn

  5. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Flokkur fólksins leggur til að farið verði í að endurskipuleggja íbúðakjarna að Rökkvatjörn 3 með það að markmiði að gera almenningsrými fyrir íbúana. Komið hefur í ljós að það er stór galli á húsnæðinu því þar er ekkert sameiginlegt rými þar sem íbúar geta komið saman, borðað saman og horft  saman á viðburði í sjónvarpi. Flestir íbúar kjarnans eru að stíga sín fyrstu spor í eigin húsnæði. Íbúarnir þurfa mikla aðstoð við flesta hluti og verkefnin sem hvíla á starfsfólki eru mörg og margvísleg. Foreldrar íbúanna hafa ítrekað haft samband við borgarfulltrúa Flokks fólksins  og viðrað áhyggjur sínar.  Ljóst er að láðst hefur að hafa foreldra með í ráðum við hönnun og skipulagningu íbúðakjarnans. Áherslan ætti að sjálfsögðu alltaf að vera á þjónustuþegana og þarfir þeirra. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skoðað verði hvort á öðrum stöðum í íbúðakjarnanum sé óþarfa mikið eða stórt rými, eða rými sem er illa nýtt eða sjaldan, sem þá er hægt að nýta undir sameiginlegt rými fyrir íbúana. Flokkur fólksins hefur reifað þetta mál á fundi umhverfis- og skipulagsráðs og er það mat ráðsmanna að málið eigi heima í velferðarráði/sviði.

    Frestað.

  6. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Gistiskýlið á Lindargötu rekur neyðarúrræði fyrir heimilislausa karlmenn með fjölþættan fíknivanda. Þarna er unnið gott starf eins langt og það nær. Húsnæðið á Lindargötu er löngu sprungið og mikil vöntun er á þjónustu s.s. heilbrigðisþjónustu. Sama má segja um fleiri úrræði af þessum toga svo sem smáhýsin út á Granda. Flokkur fólksins þekkir vel til mála á báðum þessum stöðum og leggur til að velferðarsvið beiti sér fyrir því að bæta aðstæður, fjölga stöðugildum og bæta þjónustu með því að koma á samningi milli borgarinnar og heilsugæslunnar. Fjölga þarf starfsfólki með fjölbreytta starfsreynslu. Á Lindargötunni, sem dæmi, starfar aðeins einn félagsráðgjafi sem sér um öll mál. Álagið er mikið og næst ekki að sinna öllum málum svo vel sé.  Plássleysi er mikið sem skapar enn meira álag á starfsfólkið. Þrengsl eru oft slík að menn þurfa að sofa í stólum því ekki eru næg rúm.

    Frestað.

  7. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Flokkur fólksins leggur til að opnunartíma neyðarskýla verði breytt þannig að þau verði opin að degi til líka. Nú fer vetur í hönd og hefur Flokkur fólksins áhyggjur af þeim sem þiggja þjónustu gistiskýlisins þegar veður verða válynd. Á meðan annað úrræði er ekki til staðar er mikilvægt að gistiskýlið sé opið allan sólarhringinn. Hlutverk gistiskýlisins er orðið stærra en lagt var upp með í upphafi og á það verður að horfa raunsæjum augum. Í ljósi heilsufars þessara manna sem er oft á tíðum grafalvarlegt er óásættanlegt að senda þessa menn út á Guð og gaddinn þangað til klukkan slær 5.

    Frestað.

  8. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvað hafa margar kvartanir borist Félagsbústöðum og/eða Reykjavíkurborg vegna raka og/eða myglu í íbúðum Félagsbústaða á síðustu fimm árum? Hvernig er skiptingin eftir árum og hverfum?

  9. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir yfirliti og útlistun um verksvið Félagsbústaða annarsvegar og verksvið velferðarsviðs hinsvegar í öllu er viðkemur þjónustu við leigjendur Félagsbústaða, allt frá því að umsókn berst um félagslega leiguíbúð og þangað til að leigutímabili kann að ljúka. Það er ekki alltaf skýrt hver ber ábyrgð á hverju varðandi t.a.m. viðgerðir innan íbúða, upplýsingagjöf vegna spurninga sem kunna að vakna upp, aðstoð vegna greiðsluerfiðleika, óskum um milliflutninga o.s.frv.

  10. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Á vef Félagsbústaða er fjallað um vanskil á húsaleigu og þær afleiðingar sem slíkt kann að hafa í för með sér. Motus sér um að innheimta leigu sem komin er í vanskil fyrir Félagsbústaði. Ef leiga er ekki greidd á eindaga er send innheimtuviðvörun 14 dögum frá eindaga húsaleigu. Ef húsaleiga er ógreidd 28 dögum eftir eindaga fer leigukrafa í milliinnheimtu til Motus. Þar er greiðanda gefinn 7 daga frestur til þess að ganga frá greiðslu eða samkomulagi. Sé ekki brugðist við innheimtuviðvörun getur útburðarferli tekið við ásamt auknum innheimtukostnaði. Því er spurt hvort að viðkomandi eigi rétt á félagslegu leiguhúsnæði að loknu útburðarferli? Einnig er spurt hvernig sé staðið að því að tryggja manneskju sem enn uppfyllir öll skilyrði um veitingu félagslegs húsnæðis, slíkt húsnæði, ef að til útburðar hefur komið?

  11. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvað eru margar manneskjur á bið eftir NPA (notendastýrðri persónulegri aðstoð) hjá Reykjavíkurborg?

  12. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fellur starfsfólk sem vinnur við stoð- og stuðningsþjónustu fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir (áður nefnt m.a. liðveisla) undir reglur Reykjavíkurborgar um samgöngusamning? Þ.e.a.s. getur það sótt um samgöngustyrk ef það ferðast um með almenningssamgöngum á milli staða vegna starfsins?

  13. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Flokkur fólksins hefur fengið ábendingar frá fólki sem telur hið nýja fyrirkomulag heimaþjónustu ekki vera nógu gott. Breytingin fólst í því að meta átti meira hvað þjónustuþeginn getur gert sjálfur og hvað hann þarf nauðsynlega aðstoð við. Spurning er hvort þetta hafi gengið of langt? Nú hafa borist ábendingar um að þjónustuþegum er ætlað að gera meira en þeir hafa getu til. Hér er um fína línu að ræða og hlýtur það alltaf að verða að byggjast á færni og getu hvers þjónustuþega hvað hann treystir sér til að gera og hvað ekki. Annað vandamál með heimaþjónustuna er að heimsóknir eru of handahófskenndar. Sífellt eru heimsóknir að falla niður ýmist vegna veikinda starfsfólks eða veikinda barna starfsfólks. Við þessu þarf velferðarsvið að bregðast. Dæmi eru um að þjónustan hafi ekki verið veitt frá því í júlí. Heimsóknir eru iðulega afboðaðar kannski rétt áður en þær hefjast og líða jafnvel 2-3 vikur milli heimsókna. Það virðist sem alvarlegir brestir séu í þessari þjónustu og kallar Flokkur fólksins eftir tafarlausri skoðun á henni.

  14. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Flokkur fólksins óskar upplýsinga varðandi vinnu stýrihóps um endurskoðun aðgerðaáætlunar með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Umræddur stýrihópur starfaði á tímabilinu jan. - apríl 2022. Vandi heimilislausra kvenna með miklar og flóknar þjónustuþarfir  er mikill. Flokkur fólksins óskar eftir upplýsingum um hvenær  má vænta niðurstöðu?

  15. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hvernig  heilbrigðisþjónustu fólks  sem nýtir smáhýsin t.d. út á Granda er háttað? Einnig er óskað upplýsinga um hvernig nýting þeirra er? Hafa komið tímabil sem eitt þeirra eða fleiri eru ekki í notkun? Ef svo er hversu lengi og af hvaða ástæðu?

Fundi slitið kl. 13:55

PDF útgáfa fundargerðar
433. Fundargerð velferðarráðs frá 31. ágúst 2022.pdf