Velferðarráð - Fundur nr. 426

Velferðarráð

Ár 2022, miðvikudagur 6. apríl var haldinn 426. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:04 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir, Þórdís Pálsdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Rannveig Ernudóttir og Berglind Eyjólfsdóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Kristjana Gunnarsdóttir, Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, Regína Ásvaldsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

 1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

 2. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 6. apríl 2022, um breytingu á samþykkt velferðarráðs frá 20. maí 2020 um rekstrarform áfangaheimilis, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að áfangaheimili fyrir konur að Njálsgötu sem fyrirhugað er að opni í maí 2022 verði rekið af velferðarsviði. Áætlaður kostnaður nemur 23,4 m.kr. á ári sem rúmast innan fjárheimilda velferðarsviðs.

  Greinargerð fylgir tillögunni. VEL22030152.
  Samþykkt.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúarnir hafa lengi bent á að úrræði vanti fyrir heimilislausar konur til jafns við karla í borginni. Velferðarráð felur velferðarsviði að hefja undirbúning að rekstri áfangaheimilis fyrir konur og óska eftir samstarfsaðilum. Það er hins vegar mat sviðsins að farsælast sé að velferðarsvið annist rekstur áfangaheimilisins. Því er nú samþykkt að fela sviðinu reksturinn. Stefnt er að því að hægt verði að hefja rekstur áfangaheimilisins í maí nk. en endurbætur hafa staðið yfir á húsnæðinu. Ráðgert er að áfangaheimilið Brautin sem er fyrir karla og nýtt áfangaheimili fyrir konur verði samrekin til að tryggja sambærilega þjónustu og stuðning við konur og karla. Reynslan af rekstri Brautarinnar sýnir fram á mikilvægi þess að tengja betur saman endurhæfingarúrræði við trygga búsetu að lokinni meðferð. Markhópur áfangaheimilisins verða því konur sem eru virkir þátttakendur í endurhæfingarúrræðum.

  Fylgigögn

 3. Fram fer kynning á ársuppgjöri velferðarsviðs 2021. Trúnaðarmál. VEL22040004.

 4. Fram fer kynning á samstarfssamningi velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs um samstarf og verkaskiptingu milli sviðanna vegna innleiðingar verkefnisins Betri borg fyrir börn í fjórum borgarhlutum Reykjavíkur. VEL2021060009.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúarnir fagna framkomnum samningi vegna innleiðingar á verkefninu Betri borg fyrir börn í öllum borgarhlutum. Innleiðingin er á höndum skóla-og frístundasviðs og velferðarsviðs með það að markmiði að samhæfa og bæta þjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra. Auk þess að auka stuðning við stjórnendur og starfseiningar skóla-og frístundasviðs.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Það er alltaf flókið mál þegar tvö svo stór svið eru að reyna að finna hentugan samstarfsgrundvöll og gott að hafa formlegan samning. Þetta er flókinn samningur, ekki aðeins vegna verkaskiptingar heldur einnig hvernig skipta á fjármagni í samræmi við verkefnaskiptingu. Lang hagkvæmast væri ef þessi tvö svið sameinuðust enda skarast verkefni þeirra mikið. Það er t.d. mjög sérstakt að ábyrgðin á skólasálfræðingum sé á forræði velferðarsviðs en ekki skóla- og frístundasviðs. Þessi svið hafa lengst af ekki unnið mikið saman en eru engu að síður að vasast í sömu málum með sömu einstaklingana, foreldra og nemendur með tilheyrandi flækjustigi. Stærsti vandinn er biðlistinn en málum hefur fjölgað og það þarf að fjölga fagaðilum um all nokkra til að anna þessu og til að eiga þess einhvern tímann kost að sjá þennan biðlista hverfa. 

 5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um mótun geðheilbrigðisstefnu Reykjavíkurborgar, sem vísað var til meðferðar velferðarráðs, sbr. 2. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 1. febrúar 2022, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 6. apríl 2022: 

  Lagt er til að Reykjavíkurborg, fyrst sveitarfélaga móti sér geðheilbrigðisstefnu varðandi geðrækt, forvarnir og þjónustu í geðheilbrigðismálum. Borgarráði verði falið að stýra vinnu við gerð stefnunnar. Áfangaskil af stefnunni verða tilbúin fyrsta maí ásamt tillögum um aðgerðir.

  Greinargerð fylgir tillögunni. MSS22020023.

  Vísað til vinnu við mótun forvarnaráætlunar á grundvelli lýðheilsustefnu Reykjavíkurborgar.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Reykjavíkurborg hefur sett sér lýðheilsustefnu, velferðarstefnu og menntastefnu sem allar fjalla meðal annars um hvernig styðja má við geðheilsu og vellíðan borgarbúa. Í lýðheilsustefnu kemur fram að mótuð verði forvarnaráætlun sem undir áætlun lýðheilsu- og velferðarstefnu. Vinnan verður undir forystu velferðarsviðs í samstarfi við skóla- og frístundasvið, skrifstofu borgarstjóra og önnur fagsvið borgarinnar. Lagt er til að tillögunni verði vísað til vinnu við nýja forvarnaráætlun enda mikilvægt að huga að geðheilsu borgarbúa í hvívetna. 

  Fylgigögn

 6. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um könnun á afstöðu notenda til upphæðar fjárhagsaðstoðar, sbr. 8. lið fundargerðar velferðarráðs frá 2. mars 2022:

  Í Úttekt á fyrirkomulagi úthlutana og ráðgjafar hjálparsamtaka - Hvaða hópar leita aðstoðar? kom fram að til hjálparsamtakanna leitar breiður hópur fátæks fólks á Íslandi. Stærsti hópurinn er fólk sem framfleytir sér með fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, atvinnuleysisbótum eða örorkubótum. Skýrslan var unnin af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir félagsmálaráðuneytið og Velferðarvaktina og kom út 4. janúar 2021. Í ljósi þeirrar niðurstöðu samþykkir velferðarráð að kanna afstöðu fólks til upphæðar fjárhagsaðstoðar. Könnunin verði send með tölvupósti á notendur sem hafi fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu í að minnsta kosti sex mánuði. Einnig verði hringt í þá einstaklinga sem ekki svari tölvupóstum. Markmið með könnuninni er að skoða hvort að upphæðin dugi til framfærslu og ef ekki hvernig fólk framfleyti sér og greiði fyrir helstu nauðsynjar og hvert það leiti til að sjá sér fyrir helstu nauðsynjum. Velferðarráð samþykkir að fela velferðarsviði að framkvæma könnunina. Einnig verði boðið upp á opinn svarmöguleika þar sem fólk sem er með tekjur fjárhagsaðstoðar geti komið sínum skilaboðum varðandi fjárhagsaðstoðina á framfæri. VEL22030004.

  Vísað til framkvæmdar næstu þjónustukönnunar meðal notenda fjárhagsaðstoðar hjá velferðarsviði. 

  Fylgigögn

 7. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins um könnun á áhrifum COVID-19 faraldursins á líðan fólks yfir sjötugu í Reykjavík, sbr. 7. lið fundargerðar velferðarráðs frá 2. mars 2022, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 6 apríl 2022:

  Vitað er að faraldurinn hefur haft áhrif á alla aldurshópa en vísbendingar eru um að hann hafi lagst þungt á eldra fólk sem hefur upp til hópa verið einangrað í tvö ár. Lagt er til að ráðist verði í markvissa könnun á líðan fólks í Reykjavík sem komið er yfir sjötugt og kannað hver áhrif heimsfaraldurinn hefur haft á það. Í framhaldinu yrði ráðist í að veita þeim sem það þurfa viðeigandi sálfélagslegan stuðning til að hjálpa fólki að komast aftur út í lífið eftir þessa einangrun. Minnt er á að ekki allir eiga ættingja sem hafa getað veitt félagsskap eða hlaupið undir bagga á meðan faraldurinn geisaði sem mest. Þessi hópur er einnig sennilega sá sem minnst er tæknivæddur og notar því ekki rafrænar lausnir til að vera í sambandi við umheiminn. VEL22030048.

  Vísað til vinnu við mótun forvarnaráætlunar á grundvelli lýðheilsustefnu Reykjavíkurborgar.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Tillagan er lögð fram vegna þess að fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af því hvernig fólk um og yfir 70 ára er að koman undan Covid. Flestir eru sem betur fer að koma heilir út úr þessum erfiðu aðstæðum þar sem margir voru innilokaðir í allt að tvö ár vegna smithættu. Í svari/umsögn er sagt frá lýðheilsustefnu Reykjavíkur til ársins 2030 og aðgerðaráætlun. Þessi stefna róar fulltrúa Flokks fólksins ekki mikið. Stefna er stefna, orð á blaði. Annar hlutur er síðan framkvæmd stefnunnar. Fulltrúi Flokks fólksins er að hugsa um stöðuna núna. Vitað er að faraldurinn hefur haft áhrif á alla aldurshópa en vísbendingar eru um að hann hafi lagst þungt á sumt eldra fólk. Tillögur Flokks fólksins um sálfélagslega aðstoð hafa verið felldar. Minnt er á að ekki allir eiga ættingja sem eru til staðar. Þessi hópur er einnig sennilega sá sem minnst er tæknivæddur og ekki allir nota þá velferðartækni sem er þó í boði. Kanna þarf með þennan hóp núna en ekki bíða eftir að aðgerðarplan lýðheilsustefnu komi í virkni. Rétt er að velferðarsvið ber ábyrgð á vinnunni í samstarfi við önnur svið en er til nægt fjármagn til að vinna þessa vinnu með metnaðarfullum hætti?

  Fylgigögn

 8. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 6. apríl 2022, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um viðbrögð við niðurstöðum þjónustukönnunar meðal notenda í heimaþjónustu, sbr. 13. lið fundargerðar velferðarráðs frá 2. mars 2022. VEL22030030.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Sú breyting sem er í nýjum reglum Reykjavíkurborgar um stuðningsþjónustu þar sem lögð er meiri áhersla  á félagslegan stuðning er  góð. Fram kemur í  3. gr. að félagslegur stuðningur sé veittur þeim sem hefðu þörf fyrir stuðning og felst hann m.a. í samveru með umsækjanda, markvissum stuðningi, hvatningu og örvun. Markmikið er að rjúfa félagslega einangrun og stuðningurinn hafi það markmið að styðja og hvetja notanda til félagslegrar þátttöku svo sem í félagsstarfi. Fulltrúi Flokks fólksins veltir því fyrir sér hvernig framkvæmdin verður, hefur verð sett í þetta nægt fjármagn? Einnig er bent á að fólkið sjálft er kannski ekki að leita eftir meiri stuðningi. Það eru margir á þessum aldri sem vilja ekki láta hafa mikið fyrir sér, vilja ekki gera neinar kröfur og láta sig frekar hafa einmanaleika. Finna þarf leiðir til að finna þetta fólk og koma til þeirra með tilboð um félagsskap og sálfélagslega aðstoð eftir atvikum. 

  Fylgigögn

 9. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 6. apríl 2022, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um afhendingu matar, sbr. 12. lið fundargerðar velferðarráðs frá 2. mars 2022. VEL22030029.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hvernig afhendingafyrirkomulagi matar sé núna háttað og hvort  það hafi breyst hjá öllum eða aðeins þeim sem kvörtuðu? Spurt er einnig um fjölda kvartana vegna fyrirkomulags á afhendingu matar árið 2021 og það sem af er 2022. Ljóst er á svari að verið er að vanda sig meira en áður. Reynt er að fylgja því eftir sem þjónustuþeginn óskar eftir. Fjöldi kvartana vegna fyrirkomulags á afhendingu matar á árinu 2021 voru alls fjórar talsins. Í janúar 2022 var ein kvörtun skráð og í febrúar 2022 ein kvörtun. Skoða þarf þessi mál aftur nú þegar Covid er búið enda riðlaðist skipulag mikið á þeim tíma þar sem fólk óskaði í miklum mæli eftir að matur væri skilinn eftir fyrir utan vegna ótta við smit. Fulltrúi Flokks fólksins vill umfram allt að afhending sé nákvæmlega eins og óskað er eftir og ef það gengur ekki eftir skal strax athugað hvað veldur. Aldrað fólk er sumt hvert farið að heyra illa og heyrir kannski ekki í bjöllunni, getur verið sofandi, man ekki að gá að matnum o.s.frv. Ef ekki næst í viðkomandi þarf að láta fjölskylduaðila vita. 

  Fylgigögn

 10. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 6. apríl 2022, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um fjölda tilkynninga til Barnaverndar vegna skólasóknar, sbr. 16. lið fundargerðar velferðarráðs frá 2. mars 2022. VEL2203036.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins spurði um fjölda tilkynninga til Barnaverndar vegna skólasóknar eða sem tengjast skólaforðunarmálum. Fjöldi tilkynninga vegna vanrækslu varðandi nám eins og það er orðað var 67 árið 2019 en er árið 2021 46 talsins. Fjöldi tilkynninga vegna erfiðleika með skólasókn, skólasókn áfátt var árið 2019 77 og 2021 72. Segir í svari að hér sé um að ræða lítið hlutfall sem er tilkynnt eða 0,9% vegna vanrækslu og 1,5% vegna skólaforðunar. Hér getur Covid vissulega verið að spila inn í. En gera má ráð fyrir að við séum aðeins að sjá ákveðinn topp á ísjaka. Bæði er allur gangur á hvort samræmi sé í hvenær tilkynna skuli mál, kannski einnig hvaða mælikvarðar skóla nota, talningu og/eða huglægt mat nema hvoru tveggja sé enda eru aðstæður í fjölskyldum mismunandi. Því er ljóst að skólavandi og skólaforðun tengist líka málum sem falla undir aðra flokka. Niðurstaðan er kannski sú að fulltrúi Flokks fólksins vill sjá, ef óvissa ríkir hvort eigi að tilkynna, að það sé frekar gert en ekki. Málið er þá einfaldlega skoðað og ef í ljós kemur að ekki er ástæðan til áhyggna þá er það gott en einnig er líklegt að "tilkynning" myndi leiða til aukinnar aðstoðar við barn og fjölskyldu þess sem leiða mun til góðs.

  Fylgigögn

 11. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 6. apríl 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fjölda heimilislausra árið 2022, sem vísað var til meðferðar velferðarráðs, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. mars 2022. MSS22030100.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Spurt var um fjölda heimilislausra í Reykjavík nú eftir Covid. Í svari kemur fram að í desember 2021 var 301 einstaklingur heimilislaus, 214 karlar (71%) og 87 konur (29%). Um 89% hópsins er með íslenskt ríkisfang og 11% með erlent ríkisfang. Flestir eru á aldrinum 30-41 árs eða 87 (29%). Ekki liggja fyrir nýjar upplýsingar. Þetta eru sláandi tölur. Það er talað um að verið sé að endurskoða fyrirliggjandi aðgerðaráætlun en spurning er af hverju hefur ekki meira verið gert í málefnum heimilislausra í Reykjavík í gegnum árin? Hvernig ætlar borgin að koma til móts við þennan hóp til lengri tíma? Of mikið hefur verið af skyndilausnum í gegnum árin. Þetta er einni manneskju of mikið sem ekki á heimili og í raun ótrúlega stór hópur ef horft er á borg eins og Reykjavík sem ætti að geta veitt öllum þeim sem ekki geta bjargað sér sjálfir þak yfir höfuðið.  Það má  gera ráð fyrir að þessi tala hafi hækkað eftir Covid faraldurinn. En eins og stendur er ekkert vitað um það.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

  Meirihlutinn hefur sett málefni fólks í heimilisleysi og með miklar þjónustuþarfir á oddinn á kjörtímabilinu. Unnin var ítarleg stefna ásamt aðgerðaáætlun auk þess sem unnið hefur verið markvisst að því að auka stuðning og fjölga úrræðum í málaflokknum. Fjöldi nýrra úrræða hafa opnað auk fjölgun íbúða innan "Húsnæðið fyrst", VoR-teymið hefur verið eflt og aukið fé sett inn í rekstur Konukots og neyslurýmið Ylja hefur opnað svo dæmi séu tekin. Neyðarrýmum og íbúðum hefur fjölgað um 49 frá lokum árs 2019. Samkvæmt stöðumati frá desember 2021 kemur fram að um 85% hópsins dvelji í úrræðum á vegum velferðarsviðs, þar af rúmlega helmingur í langtímaúrræðum auk þess sem um 40% hópsins fær stuðning frá Vettvangs-og Ráðgjafarteymi. Stefnan er að fjölga þeim sem fá úthlutað húsnæði til lengri tíma og minnka samhliða þörfina á neyðargistingu. Heimilislausum hefur fækkað frá árinu 2017. Stýrihópur um endurskoðun aðgerðaráætlunar í málaflokknum er að störfum sem mun koma með tillögur að nýjum eða breyttum aðgerðum ásamt forgangsröðun og kostnaðarmati. Lögð skal sérstök áhersla á stöðu kvenna í heimilisleysi. Mikilvægt er að halda ótrauð áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið til að tryggja öllum þak yfir höfuðið í Reykjavík. Dylgjum um skammtímasýn og aðgerðarleysi í málaflokknum er með öllu vísað á bug. 

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins  tekur undir að mikilvægt er að halda ótrauð áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið til að tryggja öllum þak yfir höfuðið í Reykjavík. Fulltrúi Flokks fólksins hefur staðið þétt að baki meirihlutanum bæði í ræðu og riti í öllum úrræðum fyrir heimilislaust fólk t.d. smáhýsaverkefninu.

  Fylgigögn

 12. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 6. apríl 2022, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um mál Flokks fólksins sem lögð hafa verið fram í velferðarráði á kjörtímabilinu, sbr. 14. lið fundargerðar velferðarráðs frá 2. mars 2022. VEL22030037.

  Fylgigögn

 13. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 6. apríl 2022, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um viðbrögð velferðarsviðs vegna aukinnar verðbólgu, sbr. 17. lið fundargerðar velferðarráðs frá 2. mars 2022. VEL22030038.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins var að spyrja um viðbrögð velferðarráðs við verðbólgunni sem hefur rokið upp og hvernig sviðið hyggst bregðast við t.d. með sértækum aðgerðum. Í svari kemur fram það sem búast mátti við að heyra að allt byggist á fjármagni. Flokkur fólksins mælir með sértækum aðgerðum til að tryggja að þeir sem eru verst settir fái örugglega aðstoðina en ekki þeir sem eru e.t.v. efnaðir. Með sértækum aðgerðum fyrir þá verst settu verður jöfnuður helst aukinn. Velferðarráð/svið getur vissulega beitt sér af krafti fyrir að fá auknar fjárheimildir til að hjálpa viðkvæmum hópum í ljósi þess hve verðbólga hefur hækkað skart. Horfa þarf til þeirra sem eru með tekjur undir 442.324 kr. á mánuði. Sú fjárveiting sem sviðið er með nú dugar engan veginn enda hafa það margir skítt í Reykjavík. Gulltryggja þarf að börn fái að borða þótt foreldrar geti ekki greitt fyrir skólamáltíðir og víkja ætti frá því að senda vanskilareikninga til lögfræðinga. Fulltrúi Flokks fólksins mun senda þessar fyrirspurnir til borgarráðs í von um aukna fjárheimildir til sviðsins á næsta kjörtímabili.  Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður lagt fram tillögur að aðgerðum í tengslum við húsnæðismál, gjaldfrjálsar máltíðir, gjaldfrjáls frístundaheimili og kostnað við framfærslu, svo helstu þættir séu ávarpaðir.

  Fylgigögn

 14. Lagt fram til kynningar erindisbréf samhæfingarhóps vegna móttöku flóttafólks. Fram fer kynning á starfi samhæfingarhópsins. MSS22030128.

  Jasmina Vajzovic Crnac, teymisstjóri alþjóðateymis velferðarsviðs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

 15. Lagðar fram til kynningar tillögur borgarstjóra að markvissum vinnu- og virkniaðgerðum fyrir fólk sem fær fjárhagsaðstoð til framfærslu, ásamt fylgiskjölum, sem samþykktar voru á fundi borgarráðs, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. mars 2022. FAS22030060.

  Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

  Velferðarráð fagnar markvissum vinnu- og virkniaðgerðum fyrir fólk sem fær fjárhagsaðstoð til framfærslu. Horft verður frekar til einstaklinga sem fá fjárhagsaðstoð í virknitilboðum borgarinnar auk þess sem samlegðaráhrif hljótast af því að atvinnu- og virknimiðlun verði hluti af starfsemi Virknihúss á velferðarsviði. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg styðji notendur fjárhagsaðstoðar til aukinnar virkni og þátttöku á atvinnumarkaði á einstaklingsbundnum forsendum, en öll viljum við hafa hlutverk og tilgang í lífinu, og eru aðgerðirnar liður í því. 

  Svanhildur Jónsdóttir, stjórnandi atvinnu- og virknimiðlunar Reykjavíkurborgar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

 16. Lögð fram drög að stefnu velferðarsviðs um velferðartækni 2022-2026, ásamt fylgiskjölum. VEL2021120003.

  Samþykkt að vísa til umsagnar hagsmunaaðila og í opið umsagnarferli.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Stefna velferðarsviðs um velferðartækni er metnaðarfull. Velferðartækni er ætlað veigamikið hlutverk, s.s. stuðla að þátttöku og valdeflingu notenda við að viðhalda eða auka eigin heilbrigði og lífsgæði; stuðla að fjölbreyttri og sveigjanlegri þjónustu sem miðar að einstaklingsmiðuðum þörfum, styðja við samþætta þjónustu með þarfir notenda að leiðarljósi svo fátt sé nefnt. Fulltrúi Flokks fólksins styður heilshugar allt það sem gert er til þess að auka þjónustu við eldri borgara og aðra þjónustuþega í Reykjavík en vill að það sé gert með eins markvissum hætti og hægt er. Það væru mikil vonbrigði ef fyrirhugaðar uppfærslur á þjónustu til þessa hóps, myndu daga uppi í enn einum tilraunafasanum án þess að raunhæfar lausnir komi fram sem fyrst. Það er einlæg von fulltrúa Flokks fólksins að nú verði gengið rösklega til verka og leitað verði til fagaðila á einkamarkaði til þess að koma með tilbúnar lausnir í þau verkefni sem lýst er. Það getur bara ekki verið að þau verkefni sem talað er um séu það einstök eða sérstök í Reykjavík að finna þurfi upp alveg sér lausnir sem hvergi finnast annars staðar t.d. í öðrum sveitarfélögum.

  Kristín Sigurðardóttir, verkefnastjóri Velferðartæknismiðju, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

  Fylgigögn

 17. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi tillögu:

  Velferðarráð samþykkir að fela sviðsstjóra að óska eftir fundi með heilbrigðisráðuneytinu vegna sólarhringsþjónustu við sjúklinga með mjög miklar hjúkrunarþarfir og eru í öndunarvél, s.s. MND, MS og Parkinson sjúklinga. Velferðarráð telur mikilvægt að komið verði upp sérhæfðu teymi starfsmanna sem heyri undir Landspítala háskólasjúkrahús eða að samið verði við hjúkrunarheimili að hýsa slíkt teymi. Teymið starfi fyrir allt höfuðborgarsvæðið en gera má ráð fyrir að um 3-5 einstaklingar þurfi að fá sólarhringsþjónustu frá teyminu að jafnaði. Teymið hefði bakland í MND teymi Landspítalans enda mikil og góð tengsl milli þessara skjólstæðinga og MND teymis. Teymið hefði teymisstjóra sem heldur utan um alla mönnun og má reikna með að teymið verði mjög sveigjanlegt eftir fjölda verkefna hverju sinni. Fjármögnun á slíku teymi kæmi annars vegar frá Sjúkratryggingum Íslands sem greiddu laun heilbrigðisstarfsmanns á þrískiptum vöktum (24/7) fyrir hvern skjólstæðing auk fjármagns frá sveitarfélögum sem greiði ígildi beingreiðslusamnings eða allt að 250 klukkustundir á mánuði. Auk þess kæmi þjónusta frá heimahjúkrun.

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt. 

  Fylgigögn

 18. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram 7. nóv. 2019 tillögu um að brugðist verði við breyttum lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar. Málinu var frestað og er enn óafgreitt. Óskað er eftir að málið verði afgreitt formlega hið fyrsta. Einnig er óafgreitt mál sem lagt var fram í mars sl. um leigubílanotkun starfsmanna velferðarsviðs árin 2020 og 2021. Óskað er eftir að málið komi á dagskrá fyrir lok kjörtímabilsins og verði afgreitt. 

 19. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Stefna velferðarsviðs um velferðartækni er metnaðarfull. Velferðartækni er ætlað veigamikið hlutverk, s.s. stuðla að þátttöku og valdeflingu notenda við að viðhalda eða auka eigin heilbrigði og lífsgæði; stuðla að fjölbreyttri og sveigjanlegri þjónustu sem miðar að einstaklingsmiðuðum þörfum, styðja við samþætta þjónustu með þarfir notenda að leiðarljósi svo fátt sé nefnt. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir svari við eftirfarandi spurningum: Hvað eru stafrænar lausnir velferðartækni margar, óskað er eftir stuttri lýsingu? Hvað af stafrænum  lausnum velferðartækni er komnar í fulla virkni? Hvaða lausnir eru komnar í virkni að hluta til? Hvað af lausnum eru enn í uppgötvunar- þróunar- og tilraunafasa hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði?

Fundi slitið klukkan 15:22

PDF útgáfa fundargerðar
426._fundargerd_velferdarrads_fra_6._april_2022.pdf