Velferðarráð - Fundur nr. 406

Velferðarráð

Ár 2021, miðvikudagur 18. ágúst var haldinn 406. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:04 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Alexandra Briem, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Kolbrún Baldursdóttir og Ellen Jacqueline Calmon. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í auglýsingu nr. 894/2021 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Líf Magneudóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Berglind Magnúsdóttir, Regína Ásvaldsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. 

    -    kl. 13:09 tekur Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir sæti á fundinum.

  2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 15. júní 2021, um kjör fulltrúa í velferðarráð á fundi borgarstjórnar þann 15. júní 2021, þar sem samþykkt var að Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir taki sæti í velferðarráði í stað Egils Þórs Jónssonar. Jafnframt var samþykkt að Alexandra Briem taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Valgerðar Árnadóttur. VEL2018060029. 

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning um stöðuna á velferðarsviði vegna fjórðu bylgju COVID-19. VEL2021080013.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ljóst er að í mörg horn er að líta og álag hefur verið gríðarlegt á stjórnendur og allt starfsfólk velferðarsviðs, ekki síst þá sem starfa á stöðum sem eru með sólarhringsþjónustu. Velferðarráð þakkar starfsfólki og notendum fyrir lausnamiðun og þrautseigju við erfiðar aðstæður.

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 18. ágúst 2021, um boð til íbúa herbergjasambýlis í austurborginni um aðra búsetu: 

    Lagt er til að íbúum á herbergjasambýli í austurborginni auk eins íbúa annars herbergjasambýlis í austurborg verði boðin búseta í nýjum íbúðakjarna í miðborginni fyrir einstaklinga með þroskahömlun og skyldar raskanir í þjónustuflokki II. Heildarrekstarkostnaður hins nýja íbúðakjarna er áætlaður um 153,4 m.kr. á ári, sem rúmast innan fjárheimilda velferðarsviðs. VEL2021080003.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er um góða tillögu að ræða, en mikilvægt er að bjóða fólki sem verið hefur í herbergjasambýli lengi upp á að komast í eigin íbúð. Fulltrúarnir samþykkja tillöguna enda í samræmi við lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir að bjóða fötluðu fólki varanlega búsetukosti sem uppfylla núgildandi lög og reglugerðir.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga meirihlutans er að bjóða íbúum herbergjasambýlis í austurborginni búsetu í nýjum íbúðakjarna í miðborginni. Tillagan er nokkuð óskýr en skilst engu að síður þannig að leggja eigi niður úrræði í austurborginni og gera nýtt í miðborginni í húsnæði sem Félagsbústaðir eiga, húsnæði sem er komið í viðhaldsþörf en á að gera upp. Þetta er liður í að leggja af herbergjasambýli skv. lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Nú eru slík sambýli 9 en voru 16 svo það er í áttina. Gert er grein fyrir kostnaði hins nýja íbúðakjarna og er hann rúmlega 154 milljónir. Ekki verður þörf á viðbótarrekstrarfjármagni. Þetta er gott og gilt eftir því sem næst er komist. Fulltrúi Flokks fólksins vill í þessu sambandi minna á að nú eru 135 á biðlista og hafa 40 beðið í meira en 5 ár. Þessar tölur hafa lítið breyst en árið 2019 biðu 145 einstaklingar eftir sértæku húsnæði í 1. til 3. flokki. Árið 2014 voru tölur þær sömu. Þetta er stór hópur einstaklinga og hafa margir beðið lengi, sumir í mörg ár, fólk sem orðið er rígfullorðið og býr enn hjá foreldrum sínum sem jafnvel eru orðnir aldraðir og veikir vegna álags svo ekki sé minnst á álag þeirra sem eru á biðlista.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram minnisblað framkvæmdastjórnar Barnaverndar Reykjavíkur, dags. 24. júní 2021, um nýtt skipulag á vistun ungmenna á vegum Barnaverndar Reykjavíkur, ásamt bókun barnaverndarnefndar Reykjavíkur, dags. 25. júní 2021, og fylgigögnum. Trúnaðarmál. VEL2021080007.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.

    Katrín Helga Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

  6. Fram fer kynning á niðurstöðum könnunar Rannsókna og greiningar: Ungt fólk 2021- nýjustu niðurstöður. VEL2021080008.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir þakka fyrir góða kynningu. Það er gott að sjá að ungmennum líður almennt vel í borginni en þó er full ástæða til að veita breytingum á líðan og heilbrigði nú í þessu Covid ástandi fulla athygli. Styrkja þarf verndandi þætti í lífi barna og þar mun velferðarráð leggja sitt fram meðal annars með styrkingu skólaþjónustu og stuðningsþjónustu hverskonar í anda nýsamþykktrar velferðarstefnu. Áhugavert verður að sjá niðurstöður úr rannsókn Reykjavíkurborgar á að seinka skóladegi unglinga og hvort þátttaka barna í tómstundum taki aftur við sér. Það er mikilvægt rétt eins og svefn og aðrir mikilvægir þættir sem hafa áhrif á heilsu okkar.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Engin samantekt eða heildarniðurstöður fylgja. Ef gripið er ofan í myndir og gröf þá er ekki betur séð en að niðurstöður séu fremur neikvæðar. Aðeins eru um 30% barna sem finnst námið oft eða alltaf skemmtilegt. Hlutfall stráka sem finnst skemmtilegt að lesa er rétt rúmlega 60% og ívið hærra hjá stelpum. Rúmlega helmingur barna vakna hress og úthvíld. Hlutfall barna sem líður vel með foreldra sína er tæplega 95% sem er gott. Hlutfall þegar spurt er um góða líðan er 60% drengja og 57% stúlkna. Covid hefur gert illt verra. Þarna koma stúlkur verr út en drengir. Mikið virðist vera um stríðni og einelti. Hlutfall stráka og stelpna í 5. til 7. bekk sem hafa fengið send ljót og særandi skilaboð spannar frá 30% til 53% hjá stelpum. Lykiltölur barna í 8. til 10. bekk eru álíka. Aðeins 22,9% meta andlega heilsu sína góða. Þessar niðurstöður eru í samræmi við aðrar sem mælt hafa líðan barna í grunnskólum Reykjavíkur. Ein af orsökum alls þessa er án efa sú staðreynd að börn fá ekki nauðsynlega þjónustu. Nú bíða 1.484 börn eftir hvað helst sálfræðiþjónustu og talmeinaþjónustu. „Skóli án aðgreiningar“ er vanbúinn til að mæta þörfum allra barna. Það vantar iðjuþjálfa, talmeinafræðinga og félagsráðgjafa. Hópur barna er ekki að fá þörfum sínum mætt.

    Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. Stefanía Sörheller, verkefnastjóri á skrifstofu ráðgjafarþjónustu, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  7. Fram fer kynning á niðurstöðum aðgengiskönnunar meðal notenda velferðarsviðs. VEL2021080006.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans þakka góða kynningu og fagna því að niðurstöður könnunarinnar byggja á svörum frá fjölda fólks en um 800 manns svöruðu könnuninni. Við gerð velferðarstefnu nýttum við þessar niðurstöður og munum gera áfram.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Engin samantekt fylgir í gögnum, þar sem helstu niðurstöður eru dregnar saman. Svarhlutfall er um 20%. Ef rýnt er í gröf og myndir líta prósentur ekki vel út. Um 73% þurfa aðstoð við að sækja þjónustu, 48% eiga erfitt með að biðja um aðstoð. Aðeins rúmlega helmingur eiga auðvelt með að ná í ráðgjafa og aðeins 60% finnst bið eftir þjónustu ásættanleg. Sama má segja um að finnast umsóknarferlið skýrt. Hér má gera mun betur. Kvartað hefur verið yfir flækjustigi og erfiðleikum með að fá upplýsingar. Ef horft er til aðgengis að sækja þjónustu fyrir fötluð börn og foreldra eru tölur slakari. 44% finnst bið eftir þjónustu ásættanleg og svipað mörgum finnst umsóknarferlið skýrt. Fötluð og langveik börn virðast vera sáttari en þó eru 63% sem segja að þau eigi auðvelt með að ná í ráðgjafa og rúmlega helmingi finnst umsóknarferlið ásættanlegt. Svipaðar tölur er að sjá í niðurstöðum „Þjónusta fyrir fatlað fólk“ og „Þjónusta fyrir einstaklinga og fjölskyldur“. Niðurstöður er í samræmi við það sem fulltrúi Flokks fólksins hefur heyrt, bókað um og ítrekað rætt. Aðgengi er langt í frá að vera ásættanlegt og biðlistar óviðunandi. Reglur eru sumar ósveigjanlegar og aðgengi að ráðgjafa þarf að bæta.

  8. 8.    Lagt fram svarbréf velferðarsviðs við erindi félagsmálaráðuneytisins vegna úttektar Ríkisendurskoðunar á innleiðingu og framkvæmd sveitarfélaga á lögum nr. 38/2018. VEL2021050018.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans þakka greinargóða yfirferð yfir þau atriði sem út af standa í innleiðingu og framkvæmd laga um þjónustu við fatlað fólk. Taka skal fram að nú eru í vinnslu nýjar reglur um stoð- og stuðningsþjónustu hjá Reykjavíkurborg sem ætlað er að uppfylla þær skyldur sem þar eru lagðar á herðar borgarinnar. Tilefni er til að árétta að Reykjavíkurborg veitir þjónustu vegna málaflokksins fyrir töluvert meiri fjármuni en ríkið greiðir með honum. Þar eru í kringum 19 milljarðar sem borgin hefur innt af hendi síðan 2011 þegar málaflokkurinn var fluttur yfir. Nauðsynlegt er að samið sé þannig að sátt myndist um veitingu og fjármögnun þessarar mikilvægu þjónustu, þar sem óbreytt staða býr til ólíðandi ástand fyrir notendur.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Eins og sjá má í þessari úttekt Ríkisendurskoðunar þá eru fjölmörg álitaefni sem lúta að innleiðingu og framkvæmd Reykjavíkur á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Kvartað hefur verið yfir að flækjustig sé of mikið og að upplýsingagjöf sé ábótavant hjá Reykjavíkurborg. Samráði sé ábótavant þótt vilji sé til að bæta það. Minnst er á dóma í úttektinni sem borgin hefur fengið á sig. Skemmst er að minnast úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli fatlaðs ungs manns sem beðið hefur árum saman á biðlista eftir húsnæði. Nú er í fréttum möguleg málsókn vegna þess að réttindi barna eftir þjónustu í grunnskóla eru ekki virt. Það sem snýr að velferðarsviði eru biðlistar barna. Nú bíða 1.484 börn. Börn með sérþarfir verða verst úti. Allt of mörg dæmi eru um að Reykjavíkurborg hunsi samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það er alveg ljóst að stór ávísun er ekki að koma frá ríkinu til að bæta sumt af þessu. Borgin verður að útdeila fjármagni með öðrum hætti. Enn er minnst á 10 milljarðana sem fara nú í stafræna umbyltingu og sem verið er allt að því að leika sér með. Nokkrir milljarðar af þeim gætu nýst velferðarsviðinu til að bregðast við þörfinni þar sem hún er mest.

  9. Lagt fram svar félagsmálaráðuneytisins við erindi velferðarsviðs um samræmda skilgreiningu á heimilisleysi og upplýsingar á landsvísu um fjölda heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. VEL2021030019.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir þakka fyrir svar, og ítreka þann vilja sinn að komið verði á samræmdri skilgreiningu, en þannig má koma í veg fyrir að upplýsingar frá velferðarsviði Reykjavíkur og frá félagsmálaráðuneytinu virðist í mótsögn eða gefi sitthvora mynd af stöðu mála með tilheyrandi áhrifum á gæði þjónustu og greiningu og samanburð á henni.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í bréfi frá félagsmálaráðuneytinu segir að ekki hafi gefist tími né svigrúm til að vinna með Reykjavíkurborg að verkefnum sem lúta að heimilisleysi og fjölda og þörfum fólks sem er heimilislaust með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Erindi Reykjavíkurborgar gekk út á að unnið verði með félagsmálaráðuneytinu að koma á samræmdri skilgreiningu á heimilisleysi. Fulltrúi Flokks fólksins sér ekki betur en að ekki dugi að bíða eftir ráðuneytinu til að fá einhverja samræmda skilgreiningu. Fyrir liggur skilgreining hjá Reykjavíkurborg um hvað telst vera heimilislaus, svo það ætti ekki að flækjast fyrir Reykjavíkurborg að gera úttekt sem þessa í borginni hið fyrsta. Það skal áréttað í þessu sambandi að þeir sem eru heimilislausir eru líklegri til að leita í neyð sinni skjóls í húsnæði sem er ekki mannabústaðir, ekki aðeins ósamþykkt húsnæði heldur jafnvel varasamir íverustaðir t.d. vegna vöntunar á lágmarks brunaöryggi. Óttast er að hópur heimilislausra hafi stækkað með vaxandi fátækt í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Borgin er einstök vegna stærðar og þarf að sjá um sitt fólk en ekki bíða eftir að ráðuneytið megi vera að því að semja samræmda skilgreiningu. 

    Fylgigögn

  10. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 8. júní 2021, um stjórnkerfis- og skipulagsbreytingar á velferðarsviði, sem var samþykkt og færð í trúnaðarbók á fundi velferðarráðs þann 8. júní 2021:

    Lagt er til að velferðarráð samþykki eftirtaldar skipulagsbreytingar á velferðarsviði í samræmi við áherslur í velferðarstefnu:

    1.    Sett verði á laggirnar rafræn þjónustumiðstöð sem taki til starfa 1. janúar 2022. Þjónustumiðstöðin annist móttöku allra umsókna sviðsins, símaráðgjöf og leiðbeiningar. Áfram verður möguleiki að sækja um þjónustu á þjónustumiðstöð fyrir þá sem það kjósa. Rafræna þjónustumiðstöðin mun jafnframt hafa það hlutverk að framfylgja þeim þáttum velferðarstefnunnar sem snúa að þjónustu við notendur, setja gæðaferla vegna þjónustu og hafa samræmingar og eftirlitshlutverk með þáttum eins og viðmóti, aðgengi og þjónustuferlum í starfsemi velferðarsviðs. 

    2.    Þjónustusvæði velferðarsviðs verði fjögur. Núverandi þjónustumiðstöðvar í Grafarvogi og Kjalarnesi annars vegar og í Árbæ og Grafarholti hins vegar verði sameinaðar frá og með 1. janúar 2022. 

    3.    Verkefnið Betri borg fyrir börn verði yfirfært á fjögur þjónustusvæði í samstarfi við skóla- og frístundasvið þar sem markmiðið er að bæta þjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra í skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Lögð er áhersla á að þétta samstarf skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs í þjónustu við börn og fjölskyldur.

    4.    Hlutverk fagskrifstofa velferðarsviðs í málefnum fatlaðs fólks, málefnum aldraðra og á sviði ráðgjafar í félags- og fjölskyldumálum verði eflt með það að markmiði að auka gæðastýringu, samhæfingu í þjónustu og eftirlit með þjónustuveitingu. Skrifstofustjórar fagskrifstofa hafi það hlutverk að vera faglegir leiðtogar, hver á sínu sviði.

    5.    Hlutverk skrifstofa sem veita stoðþjónustu á velferðarsviði verði eflt með það að markmiði að auka þjónustu við stjórnendur stofnana sviðsins. Sérstaklega er horft til mannauðs og fjármála til að auka gæðastýringu, kostnaðareftirlit og þróa nýjar leiðir til að nýta ávallt bestu aðferðir og tækni til að ná sem mestum árangri.

    6.    Sett verði á laggirnar sérhæfð teymi sem sinna veigamiklum málaflokkum þvert á velferðarsvið. Um er að ræða málaflokka á borð við húsnæðismál; ráðgjöf við börn og fjölskyldur á grundvelli lagafrumvarps um farsæld barna; þjónustu við erlenda íbúa, þ.m.t. teymi hælisleitenda og flóttafólks; málefni heimilislauss fólks, þ.m.t. rekstur neyðarskýla og úrræði fyrir fólk í virkri neyslu; virkniúrræði og stuðningsþjónustu við börn og fullorðna. Teymin tryggi samræmingu í þjónustuveitingu og samvinnu milli sviða, stofnana og hagsmunaaðila sem koma að þjónustu við tiltekna hópa. Teymin eru ýmist staðsett miðlægt eða á þjónustumiðstöðvum. 

    7.    Skipurit þjónustumiðstöðva verði endurskoðuð með áherslu á samræmingu á milli hverfa og að þau endurspegli helstu áherslur velferðarstefnunnar, m.a. um aðgengileika og notendavæna hönnun. Ennfremur endurspegli skipuritin stóraukna áherslu á lágþröskuldaþjónustu við börn og fjölskyldur. Lögð verði áhersla á fræðslu og innleiðingu verkefnastjórnunar og verkbókhalds á þjónustumiðstöðvum og skilgreindir mælikvarðar og þjónustu- og kostnaðarviðmið. 

    Nánari útfærslur tillagna ásamt kostnaðarmati verði lagðar fyrir velferðaráð eigi síðar en 1. október næstkomandi. VEL2021060010. 

    Tillagan var samþykkt með sex atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna og Flokks fólksins. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands sat hjá.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsins:

    Þær stjórnkerfisbreytingar sem hér eru samþykktar snúa að innleiðingu á nýrri velferðarstefnu borgarinnar og innleiðingu á verkefninu Betri borg fyrir börn í Reykjavík. Samkvæmt niðurstöðum þjónustukannana meðal notenda velferðarsviðs óska flestir eftir því að eiga í rafrænum samskiptum og því er sett á laggirnar rafræn þjónustumiðstöð sem mun annast móttöku allra umsókna sviðsins, símaráðgjöf og leiðbeiningar. Áfram verður möguleiki að sækja þjónustu á þjónustumiðstöð fyrir þá sem það kjósa. Þjónustusvæði velferðarsviðs verða fjögur og samræmast þannig starfssvæðum verkefnisins Betri borg fyrir börn í samstarfi við skóla- og frístundasvið til að bæta þjónustu við börn og fjölskyldur í borginni. Hlutverk fagskrifstofa og stoðþjónustu verður eflt á sviðinu, sérhæfð teymi verða stofnuð og skipurit þjónustumiðstöðva verða samræmd milli hverfa út frá áherslum velferðarstefnu. Nánari útfærslur á stjórnkerfisbreytingunum ásamt kostnaðarmati verði lagðar fram fyrir velferðarráð eigi síðar en 1. október nk. 

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands lagði fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsins:

    Fulltrúi sósíalista styður heils hugar þær breytingar sem eru gerðar til að ná betur til þarfa borgarbúa og hér eru lagðir fram liðir til þess. Fulltrúi sósíalista á erfitt með að taka undir fækkun þjónustumiðstöðva. Hér skal tekið fram að verið er að efla þjónustuna með öðrum leiðum en fulltrúi sósíalista telur samt sem áður mikilvægt að borgarbúar geti mætt á þjónustumiðstöðvar í sínu hverfi. 

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsins: 

    Fulltrúi Flokks fólksins styður við að kerfið verði einfaldað enda mikið völundarhús í þeirri mynd sem það er. Notendur hafa kvartað yfir að ná ekki sambandi og fá ekki þjónustu oft fyrr en illa og seint. Þjónustumiðstöðvar hafa virkað sem hindrun t.d. milli grunnskólabarna og sálfræðinga skólaþjónustu. Þjónustan þarf að vera aðgengilegri fyrir börnin og foreldra þeirra og starfsfólk skóla á einnig að hafa greiðan aðgang að fagfólki skólans. „Borgarbúinn“ hefur ekki verið í fyrsta sæti eins og sjá má af biðlistum en á þeim fjölgar með hverjum degi. Íslensk ungmenni sýna aukin þunglyndiseinkenni og segja andlega líðan sína verri í kórónuveirufaraldrinum en áður. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri íslenskri rannsókn sálfræðideildar HR og Rannsóknar og greiningar. Kannski er ekkert af þessu skrýtið ef horft er til þess að „fólk“ hefur ekki verið sett í fyrsta sæti. Skaðinn er skeður hjá mörgum, því miður því ástandið hefur varað allt of lengi. Bernskan verður ekki tafin frekar en nokkuð annað tímaskeið og fyrir sum börn verður skaðinn aldrei bættur. Það þarf að gera grundvallarbreytingar á skipulagi velferðarsviðs. En það kostar meira fjármagn, samþættingu þjónustu, samhæfingar, samstarfs við aðrar stofnanir, einföldun ferla, minni yfirbyggingu, skýr markmið og árangursmælingar.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 12. ágúst 2021, um framlengingu heimilda til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagi - notkun fjarfundarbúnaðar á fundum ráða og nefnda o.fl., ásamt fylgigögnum. VEL2021080004.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 18. ágúst 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um áætlanir um byggingu nýrra hjúkrunarrýma í Reykjavík, sbr. 11. lið fundargerðar velferðarráðs þann 16. júní 2021. VEL2021060034.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins spurði um áætlanir um byggingu nýrra hjúkrunarrýma í Reykjavík. Í svari kemur fram að byggja á í Grafarvogi 144 íbúðir og fyrir liggur viljayfirlýsing um 200 í viðbót á svæði við Ártúnshöfða en það er aðeins viljayfirlýsing. Allt virðist þetta frekar óljóst og jafnvel loðið. Nú þegar eru 250 manns á biðlista eftir hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu svo það segir sig sjálft að þetta er ekki nærri nóg. Betur má ef duga skal. Ef heldur sem horfir verður biðlistinn sá sami ef ekki lengri eftir örfá ár. Uppfærð húsnæðiáætlun var síðast lögð fram 2020 og var það sjötta útgáfan. Sú áætlun sem nú liggur fyrir til ársins 2025 er ekki í samræmi við þörfina. Þessu þarf borgarmeirihlutinn að gera sér grein fyrir og því fyrr því betra. Ábyrgð Reykjavíkurborgar er mikil í þessum efnum. Lóðaúthlutun er á forræði Reykjavíkurborgar og einnig getur borgin byggt hjúkrunarheimili. Reykjavíkurborg á og rekur núna tvö hjúkrunarheimili, Droplaugarstaði og Seljahlíð. Lífslíkur fara stöðugt hækkandi og hefur því verið spáð sem dæmi að árið 2040 muni hlutfall fólks eldra en 67 ára hafa hækkað úr 12% í 19%.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Uppbygging hjúkrunarrýma er á ábyrgð ríkisins en Reykjavíkurborg hefur marglýst vilja sínum til að taka þátt í slíkri uppbyggingu en rekstur er alltaf á kostnað og ábyrgð ríkis.

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 16:24

PDF útgáfa fundargerðar
velferdarrad_1808.pdf