Velferðarráð - Fundur nr. 392

Velferðarráð

Ár 2021, miðvikudagur 3. febrúar var haldinn 392. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:02 í Prestshúsi, Borgartúni 12-14. Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Alexandra Briem, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Ragna Sigurðardóttir, Egill Þór Jónsson og Kolbrún Baldursdóttir tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

  2. Fram fer kynning á nýjum reglum um stuðningsþjónustu og nýjum reglum um stoð- og stuðningsþjónustu fyrir fullorðið fatlað fólk. Lögð fram drög að reglum um stuðningsþjónustu, ásamt minnisblaði sviðsstjóra, dags. 3. febrúar 2021, um reglur Reykjavíkurborgar um stuðningsþjónustu. VEL2021010040.

    Samþykkt að vísa til umsagnar hagsmunaaðila.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir þakka fyrir góða kynningu á tillögum að nýjum reglum um stuðningsþjónustu og stoð- og stuðningsþjónustu fyrir fullorðið fatlað fólk. Velferðarsviði er falið að senda hagsmunaaðilum drögin og undirbúa samráðsfund með velferðarráði um þessar nýju reglur í framhaldi. Við viljum að Reykvíkingar upplifi þjónustu okkar aðgengilega og að hún sé miðuð út frá þörfum og óskum hvers og eins, eins og hægt er.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Grunnstefna í allri velferðarþjónustu á að miða að því að efla einstaklinga til frekara sjálfstæðis og einstaklingsmiða þjónustuna. Breytingar á reglum um stuðningsþjónustu sem miða að því að valdefla þjónustuþega og styðja þá til sjálfstæðis í lífi og leik eru jákvæðar. Með öflugum stuðningi og með hjálp velferðartækni getur borgin hjálpað fólki til enn betra lífs, enda er það markmið félagslegrar heimaþjónustu.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Stoð- og stuðningsþjónusta er annars vegar praktísk og hins vegar sálfélagslegur stuðningur. Tillaga frá fulltrúa Flokks fólksins um að koma á laggirnar sálfélagslegu meðferðarúrræði fyrir eldri borgara á hjúkrunarheimilum og í heimahúsum til að draga úr óþarfa notkun geðlyfja  var vísað til velferðarráðs með öllum greiddum atkvæðum á fundi borgarstjórnar 2. febrúar. Eins og vitað er þá er oft gripið til geðlyfja þegar ekki býðst sálfélagslegt úrræði.  Efla á viðkomandi til sjálfshjálpar en ávallt þarf að bera virðingu fyrir hvað viðkomandi treystir sér til að gera. Aðstoðin sem þjónustuþeginn þarf og vill á að koma auðveldlega til þjónustuþegans. Ef að búa heima á að vera alvöru kostur þarf að bæta ýmsum þáttum við og hefur fulltrúi Flokks fólksins lagt fram tillögur um hvaða þættir það eru, s.s. að hengja upp þvott og fara út með sorp. Þjónusta þarf einnig að vera um helgar og á rauðum dögum ef þess er þörf en dæmi er um að miklir erfiðleikar hafi verið við að fá t.d. aðstoð við böðun, lendi þjónustan á rauðum degi. Barnafjölskyldur fá nú aðstoð vegna umönnunar barna. Hér er verið að einfalda þjónustuna og gera hana heildstæðari og er það ánægjuleg breyting.

    Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri skrifstofu öldrunarmála, Þórdís Linda Guðmundsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu málefna fatlaðs fólks, Helga Jóna Benediktsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, Katrín Harpa Ásgeirsdóttir, verkefnastjóri á skrifstofu málefna fatlaðs fólks, Kristín Ösp Jónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, Bára Sigurjónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram drög að reglum um stoð- og stuðningsþjónustu fyrir fullorðið fatlað fólk, ásamt minnisblaði sviðsstjóra, dags. 3. febrúar 2021, um reglur Reykjavíkurborgar um stoð- og stuðningsþjónustu fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

    Samþykkt að vísa til umsagnar hagsmunaaðila.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir þakka fyrir góða kynningu á tillögum að nýjum reglum um stuðningsþjónustu og stoð- og stuðningsþjónustu fyrir fullorðið fatlað fólk. Velferðarsviði er falið að senda hagsmunaaðilum drögin og undirbúa samráðsfund með velferðarráði um þessar nýju reglur í framhaldi. Við viljum að Reykvíkingar upplifi þjónustu okkar aðgengilega og að hún sé miðuð út frá þörfum og óskum hvers og eins, eins og hægt er.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það eru klárlegar framfarir í þessum reglum, breytt hugsun, víðara sjónarhorn. Horfið verður frá því að meta stuðningsþörf á grundvelli stiga og er það jákvætt. Fulltrúi Flokks fólksins vill þó nefna að í  6. gr. er fjallað um mat á þjónustuþörf. Í b) lið segir að matið sé m.a. byggt á styrkleika og stuðningi frá fjölskyldu. Fara þarf varlega þegar meta á styrkleika og gæta þess að ofmeta ekki styrkleika fjölskyldu fatlaðra einstaklinga. Mikið álag er oft á fjölskyldum fatlaðra einstaklinga. Í mörgum tilfellum lendir of mikið á fjölskyldumeðlimum að annast og aðstoða fatlaða einstaklinginn. Þetta hefur þau áhrif stundum að einstaklingar upplifa að þeir séu að leggja of þungar byrðar á fjölskyldumeðlimi og að þeir séu ekki að geta lifað sjálfstæðu lífi. Ef of mikið er lagt á  fjölskyldumeðlimi getur það ýtt undir togstreitu og afleiðingin er oft hjálparleysi og vanlíðan, bæði hjá einstaklingnum sem þarf á þjónustu og stuðningi að halda sem og fjölskyldumeðlimum. Enda þótt NPA og reglur um NPA sé ekki hluti af þessum reglum þá eru engu að síður margir fatlaðir sem hafa fyrst og síðast áhyggjur af NPA samningum og samkomulag um þá. Best væri ef velferðarráð gæti skoðað þær reglur samhliða til að sjá heildarmyndina.  

    Þórdís Linda Guðmundsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu málefna fatlaðs fólks, Helga Jóna Benediktsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, Katrín Harpa Ásgeirsdóttir, verkefnastjóri á skrifstofu málefna fatlaðs fólks, Kristín Ösp Jónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, Bára Sigurjónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 3. febrúar 2021, um hækkun tekju- og eignamarka sérstaks húsnæðisstuðnings. VEL2021010018. Trúnaðarmál.

  5. Fram fara kynningar annars vegar á úttekt á næringargildi heimsends matar velferðarsviðs og hins vegar viðhorfskönnun er varðar heimsendan mat á velferðarsviði. VEL2021010041.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir þakka fyrir kynningu á niðurstöðum úttektar á matseðlum á framleiðslueldhúsinu á Vitatorgi og könnun á ánægju með heimsendan mat á vegum velferðarsviðs. Samkvæmt úttekt á næringargildi matarins er maturinn að mestu leyti í samræmi við næringarviðmið landlæknis. Þó er áréttað að framleiðslueldhúsið á Vitatorgi tekur mið af næringarviðmiðum fyrir aldraða og hruma. Rúm 70% svarenda segjast í heildina litið ánægð með heimsenda matinn og tæp 20% segja hvorki né. Flestir myndu vilja aukið framboð af fjölþjóðlegum réttum, um helmingur vill val milli tveggja rétta og tæpur fjórðungur myndi vilja veganvalkost. Gott er að kanna ánægju notenda þjónustu velferðarsviðs með reglulegum hætti og vinna markvisst með niðurstöðurnar til að bæta megi þjónustuna. Ljóst er að þeir sem fá heimsendan mat frá velferðarsviði eru heilt yfir ánægðir með gæði matar og þjónustu en ávallt má gera betur. Áfram verður unnið að innleiðingu matarstefnu Reykjavíkurborgar t.d með þá áherslu að auka val sem stendur fólki til boða og auka fjölbreytni matar. Þá myndi aukning á hlut grænmetisfæðis í heimsendum mat auka magn trefja í matnum sem er mikilvægt hvað næringu hópsins varðar.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Könnun um heimsendan mat er að mestu leyti jákvæð, hins vegar má bæta fjölbreytileika og val fólks. Athygli vekur að karlar eru 85% heilt yfir ánægðir með matinn en aðeins 61% kvenna.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Niðurstöður kannananna sýna fram á mikilvægi þess að fólk eigi að hafa val um það sem það borðar og að auka þarf fjölbreytni.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi öldungaráðs lagði til að óháður aðili gerði umrædda úttekt en þess í stað ákvað velferðarráð að endurtaka notendakönnun frá árinu 2014, könnun og spurningar sem lagðar voru fyrir notendur fyrir 8 árum. Einhverjum spurningum var  bætt við. Hringt var í 168 notendur sem skilaði sér í 47% svarhlutfalli. Spurningalistinn var sendur rafrænt á 93 notendur sem skilaði sér í 25% hlutfalli. Þetta sýnir ljóst að þessi hópur notar símann meira en rafrænar lausnir (tölvu og net). Tímasetning útkeyrslu hentar ekki 10%. Spurning er hvort hægt er að mæta þessum hópi með því að finna annan tíma? Um verð matarins eru rúm fjörutíu prósent sem svara ekki, (hvorki né). Það er mikilvægt að finna út af hverju svo margir taka ekki afstöðu. Eina sem fólk er sammála um í þessari könnun er að stærð skammta er mátuleg. Um helmingi finnst maturinn „oftast“ hollur. Af niðurstöðum að dæma þarf að taka þetta kerfi til einhverrar endurskoðunar og ekki linna látum fyrr en um 99% eru ánægðir með alla þætti þjónustunnar. Um 19% finnst maturinn alltaf girnilegur og um 24% finnst hann mjög fjölbreyttur. Kallað er eftir meira hráu grænmeti og ávöxtum. Vonandi verður brugðist jákvætt við því.

    Guðrún Adolfsdóttir, matvælafræðingur og ráðgjafi hjá Sýni ehf., Elín Sigríður Gunnsteinsdóttir, sérfræðingur í teymi árangurs og gæðamats á velferðarsviði, Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu öldrunarmála og Eyjólfur Elías Einarsson, forstöðumaður framleiðslueldhúss á Lindargötu taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

  6. Lögð fram að nýju svo breytt tillaga starfshóps velferðarráðs, dags. 20. janúar 2021, um styrkveitingar velferðarráðs úr borgarsjóði fyrir árið 2021:

    Lagt er til að velferðarráð samþykki tillögu starfshóps velferðarráðs um styrkveitingar velferðarsviðs úr borgarsjóði fyrir árið 2021. VEL2021010014.

    Greinargerð fylgir tillögu.

    Almennir styrkir 2021:

    Allir hjóla, félagasamtök. Allir hjóla. 300.000 kr. 

    Samþykkt.

    Einhverfusamtökin. Fræðsla um einhverfu til skóla, starfsendurhæfinga og almennings. 1.000.000 kr. 

    Samþykkt.

    Gigtarfélag Íslands. Ráðgjöf, félagsstarf, valdefling og stuðningur við gigtarfólk og aðra með annan stoðkerfisvanda í Reykjavík. 1.000.000. kr. 

    Samþykkt. 

    Hjálparstarf kirkjunnar. Sumarfrí innanlands. 500.000 kr.

    Samþykkt.

    Hjálparstarf kirkjunnar. Taupokar með tilgang. 800.000 kr.

    Samþykkt.

    Hjálpræðisherinn á Íslandi. Samvera og góðar minningar – sumarbúðir fyrir fjölskyldur. 500.000 kr. 

    Samþykkt.

    Höndin. Stuðningur við skjólstæðinga Handarinnar í Covid-19 faraldri. 300.000 kr.

    Samþykkt. 

    Íþróttafélag Reykjavíkur. Tinna –sjóður ÍR. 300.000 kr.

    Samþykkt.

    Kvennaráðgjöfin. Lögfræði- og félagsráðgjöf í Kvennaráðgjöfinni og lögfræðiviðtöl fyrir brotaþola í Bjarkarhlíð. 100.000 kr.

    Samþykkt.

    Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur. Aðstoð við bágstadda. 1.000.000 kr. 

    Samþykkt.

    Samband íslenskra Kristniboðsfélaga. Íslenskukennsla fyrir útlendinga. 400.000 kr.

    Samþykkt.

    Samvera og súpa, félagasamtök. Samvera og súpa. 300.000 kr.

    Samþykkt.

    Sorgarmiðstöð, félagasamtök. Stuðningur við erlenda syrgjendur á Íslandi. 1.000.000 kr.

    Samþykkt.

    Sorgarmiðstöð, félagasamtök. Stuðningur við syrgjendur á Íslandi. 800.000 kr. 

    Samþykkt.

    Trans Ísland, félag transgender. Talað um Trans – handbók um hugtök og orðræðu. 200.000 kr.

    Samþykkt.

    Vernd, fangahjálp. Brú yfir í virkni. 2.000.000 kr. 

    Samþykkt.

    Vinaskákfélagið. Skákiðkun. 200.000 kr.

    Samþykkt.

    Vímulaus æska – Foreldrahús. Námskeið fyrir foreldra/forsjáraðila í Foreldrahúsi. 500.000 kr. 

    Samþykkt.

    Þjónustusamningar til eins árs 2021:

    Afstaða til ábyrgðar. Þjónustusamningur við Afstöðu. 3.500.000 kr.

    Samþykkt.

    ADHD samtökin. Ráðgjöf og stuðningur við fólk með ADHD. 2.000.000 kr. 

    Samþykkt.

    -    Heiða Björg Hilmisdóttir víkur af fundi við afgreiðslu þessa liðar. 

    Bergið Headspace – félagasamtök. Bergið Headspace. 3.500.000 kr.

    Samþykkt.

    Blindrafélagið. Stuðningur til sjálfstæðis. 5.000.000 kr.

    Samþykkt.

    EAPN á Íslandi, samtök gegn fátækt. Samfélagshús – miðstöð fólks í fátækt. 3.000.000 kr.

    Samþykkt.

    Félag heyrnarlausra. Þjónusta við heyrnarlausa íbúa Reykjavíkur. 4.000.000 kr.

    Samþykkt.

    Hjálpræðisherinn á Íslandi. Opið hús fyrir jaðarsetta. 3.000.000 kr.

    Samþykkt.

    Hjálpræðisherinn á Íslandi. Smiðjan. 3.000.000 kr.

    Samþykkt.

    Hugarafl. Endurhæfing – valdefling. 5.500.000 kr.

    Samþykkt.

    MS-félag Íslands. Ráðgjafarþjónusta. 2.000.000 kr.

    Samþykkt.

    Rauði krossinn í Reykjavík. Frú Ragnheiður – skaðaminnkun. 3.500.000 kr.

    Samþykkt.

    Rauði krossinn í Reykjavík. Heimsóknarvinir Rauða krossins. 1.500.000 kr.

    Samþykkt.

    Samhjálp, félagasamtök. Rekstur Kaffistofu Samhjálpar. 10.000.000 kr.

    Samþykkt.

    Vímulaus æska – Foreldrahús. Fjölskylduráðgjöf. 4.500.000 kr.

    Samþykkt.

    Þjónustusamningar til þriggja ára:

    Samtök um kvennaathvarf. Rekstur Kvennaathvarfs. 12.500.000 kr.

    Samþykkt.

    SÁÁ fjölskylduþjónusta. Samningur á grundvelli styrkveitingar. 20.000.000 kr.

    Samþykkt.

    Sjónarhóll – ráðgjafarmiðstöð. Ráðgjöf til foreldra barna með sérþarfir. 4.000.000 kr. 

    Samþykkt.

  7. Fram fer kynning á drögum að velferðarstefnu. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 3. febrúar 2021, um mótunarferli velferðarstefnu. VEL2019110005.

    Samþykkt að vísa til samráðs hagaðila og almennings.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er að mörgu að hyggja þegar horft er til velferðarstefnu. Taka þarf á öllum þáttum velferðar. Tekið er skref í átt að meira notendasamráði en samt eru fulltrúar hagsmunaaðila ekki hafðir með á fyrstu stigum. Hagsmunaaðilar fá kynningu á drögum og veita umsagnir en oft er búið að draga meginlínurnar á  þeim tímapunkti. Það sem einnig þarf að bæta eru viðbrögð við erindum fólks, svörun í síma, svörun skeyta og stytting biðtíma eftir viðtali. Upplýsingaflæði þarf að bæta, að fólk fái upplýsingar um réttindi sín en þurfi ekki að frétta af þeim fyrir tilviljun. Þjónustuþegar eiga að geta fylgst með ferli máls síns, sjá hvar það er statt, á hvaða stigi það er. Fulltrúi Flokks fólksins vill bóka um þjónustumiðstöðvar og mikilvægi þess að endurskoða hlutverk þeirra með reglulegu millibili og samspil þeirra við aðrar borgarstofnanir eins og skólana. Ef horft er til barnanna má minnast á skólasálfræðingana sem hafa aðsetur á þjónustumiðstöðvum í stað þess að vera þar sem þeir sinna sínum störfum, í skólunum. Fulltrúi Flokks fólksins telur þetta fyrirkomulag ekki nægjanlega skilvirkt og tefji fyrir vinnslu mála sem fjölga með hverjum degi.

    Sigþrúður Erla Arnardóttir, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, Bergþór Heimir Þórðarson, Ásta Þórdís Skjalddal fulltrúar, fulltrúar stýrihóps um mótun velferðarstefnu taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

  8. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu: 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgaryfirvöld grípi strax til aðgerða sem miða að því að finna öruggt húsnæði fyrir þann hóp fólks sem býr í ósamþykktu íbúðarhúsnæði. Talið er að allt að 7000 manns búi í ósamþykktu húsnæði í borginni. Í sumum tilfellum er aðbúnaður ekki í samræmi við öryggiskröfur sem getur skapað íbúum mikla hættu. Það hefur ávallt tíðkast að hluti borgarbúa eigi heimili í húsnæði sem ekki hentar til íbúðar og er ekki samþykkt sem slíkt. Heimilisfesta í ósamþykktu íbúðarhúsnæði jókst verulega eftir hrun, þegar fjöldi fólks missti vinnu og heimili. Góðærið varð til þess að sumir fundu betri aðstæður en í stað þeirra komu aðrir. Vegna mikillar eftirspurnar eftir ódýru vinnuafli við ferðaþjónustu flutti til landsins fjöldi fólks og hóf búsetu í ósamþykktum íbúðum. Ætla má að stór hópur þessa fólks sé nú atvinnulaus vegna áhrifa faraldursins og eigi því ekki annara kosta völ en að dvelja áfram í óöruggu húsnæði. Um 900 manns eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði í Reykjavík. Flestir búa í óleyfishúsnæði vegna þess að þeir hafa ekki efni á að koma yfir sig betra og öruggara skjóli. Mikið af þessu fólki er fjölskyldufólk.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Frestað.

  9. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 27. janúar 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 15. lið fundargerðar velferðarráðs þann 16. september 2020 um markmið og aðgerðir í aðgengisstefnu. VEL2020120096. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er  verið að setja aðgengisstefnu, loksins, en það er enginn fulltrúi frá hagsmunasamtökum í stýrihópnum. Það þarf að taka leyfismálin fastari tökum. Það er auðvitað óásættanlegt að undanþágur hafa ekki verið skráðar og því er erfitt að sannreyna og rekja þessar staðhæfingar. Vetrarþjónustan hefur svo sem aldrei miðast við að halda leiðum greiðum fyrir fatlað fólk að t.d. stoppistöðvum. Það eru alltaf ruðningar fyrir. Gönguleiðir eru tepptar í borgarlandinu og ekkert gert í málunum. Spurt var um merkingar fyrir bílastæði hreyfihamlaðra. Skipulagsyfirvöld hafa borið fyrir sig að  slík umferðarskilti séu ekki til en það er, að mati Flokks fólksins aðeins fyrirsláttur. Enn liggur ekki fyrir um hvenær og með hvaða hætti merkingar og upplýsingar um þessi réttindi verði sett upp og fram. Fulltrúi Flokks fólksins vill hér með ýta við því máli og óskað er eftir að gengið verði í það hið fyrsta. Ef eitthvað er að í skipulagi og skapar hættur eða óþægindi fyrir vegfarendur þarf að laga það. Með fyrirspurnum Flokks fólksins er verið að spyrja um og benda á hluti sem þarf að laga. Í svari er sagt hvernig hlutirnir eru og vitnað í reglur en ekki hvenær á að laga og bæta.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Aðgengisstefnan er unnin í nánu samráði við aðgengis- og samráðsnefnd fatlaðs fólks þar sem hagsmunasamtök eiga fulltrúa.

    Fylgigögn

PDF útgáfa fundargerðar
velferdarrad_0302.pdf