Velferðarráð - Fundur nr. 366

Velferðarráð

Ár 2019, miðvikudagur 4. desember var haldinn 366. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:08 í Kerhólum, Borgartúni 12-14. Fundinn sátu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Aron Leví Beck, Örn Þórðarson, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir og Katrín Harpa Ásgeirsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

    -    Kl. 13:12 tekur Elín Oddný Sigurðardóttir sæti á fundinum.

  2. Fram fer kynning á niðurstöðu úttektar á greiningu og ráðgjöf heim á vegum Barnaverndar Reykjavíkur (PMTO).

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Velferðarráð þakkar fyrir kynningu á úttekt á greiningu og ráðgjöf heim á vegum Barnaverndar (PMTO). Mikil ánægja er með úrræðið og sýna matslistar að foreldrafærni hafi aukist hjá 95% foreldra og að hegðun barna bættist hjá 80% þátttakenda. Nú hefur verið tryggt fjármagn til að festa í sessi það tilraunaverkefni sem staðið hefur í tvö ár og fagnar velferðarráð þeim áfanga.

    Hákon Sigursteinsson, framkvæmdastjóri Barnaverndar, Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé, framkvæmdastjóri Samstarfsnets um börn og fjölskyldur, Stefanía Sörheller, verkefnastjóri, Arndís Þorsteinsdóttir, svæðisstjóri PMTO hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Hulda L. Blöndal Magnúsdóttir, forstöðumaður á Mánabergi, Guðrún Hafliðadóttir og Lovísa María Emilsdóttir, umsjónarmenn tengsla- og lausnamiðaða teymisins, Harpa Guðný Hafberg og Sigurbjörg Sigurðardóttir, umsjónamenn PMTO teymisins, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram tillaga sviðstjóra velferðarsviðs um samþykkt nýrra reglna um stuðning við börn og fjölskyldur þeirra. 

    Frestað.

    Helga Jóna Benediksdóttir, lögfræðingur, Kristín Ösp Jónsdóttir, lögfræðingur, Þórdís Linda Guðmundsdóttir,  deildarstjóri, Katrín Þórdís Jacobsen, deildarstjóri og Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé, framkvæmdastjóri Samstarfsnets um börn og fjölskyldur taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  4. Á fundi velferðarráðs þann 23. október 2019 fór fram kynning á reglum um stuðning við börn og fjölskyldur þeirra. Eftirfarandi bókanir voru lagðar fram og færðar í trúnaðarbók.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Talað er um að þetta sé ný hugmyndafræði. Horft er á styrkleika en áður var þá horft á veikleikana ef skilja má þetta rétt? Þjónustuform er meira einstaklingsbundið, á forsendum manneskjunnar, eitthvað sem halda mætti að hefði verið viðhaft áður sem nú. En Flokkur fólksins fagnar vissulega hverju skrefi í átt að fagmennsku og bættari þjónustu við fólk. Það er leitt að sjá hins vegar að strax er gert ráð fyrir biðlista eins og biðlistar séu lögmál. Biðlistar eru nánast partur af hugmyndafræðinni? Borgarmeirihlutinn þarf að endurskoða þetta og hætta að setja á laggirnar kerfi og semja reglur sem gera ráð fyrir biðlistum, stundum mánaða og áralanga biðlista? Undir „helstu breytingar“ eru margir góðir punktar en forvitnilegt væri að sjá meira um hvernig á að útfæra þessar breytingar? Hvert er nákvæmlega ferlið, hver hefur samband við hvern og gerir hvað og hvað svo…? Þegar kemur að fyrirhugaðri samráðslýsingu veit borgarfulltrúi Flokks fólksins að starfsfólkið langar að hafa virkt samráð um stuðning en samráð þýðir í raun að þjónustuþeginn stýrir för þegar um svona persónulega og einstaklingsbundna þjónustu er að ræða og  aldrei skal gera neitt sem er í hans óþökk. Vandamálið er að þetta hefur einfaldlega ekki verið það samráð sem meirihlutinn hefur praktíserað a.m.k. fram til þessa.

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Velferðarsviði er þakkað fyrir að kynna drög að reglunum um stuðning við börn og barnafjölskyldur fyrir velferðarráði ásamt ferli- og samráðsnefnd fatlaðs fólks á fyrstu stigum. Í kjölfarið munu fulltrúar velferðarsviðs funda með hagsmunasamtökum og ferli- og samráðsnefnd til að fara yfir fyrstu drög. Reglurnar koma síðan aftur fyrir ráðið áður en þeim verður vísað til formlegrar umsagnar. Ráðsfulltrúum gefst kostur á að koma skriflegum ábendingum áleiðis til sviðsstjóra.

  5. Lögð fram tillaga sviðsstjóra velferðarsviðs um breytingu á reglum um

    stuðningsþjónustu í Reykjavík. 

    Frestað. 

    Helga Jóna Benediksdóttir, lögfræðingur, Kristín Ösp Jónsdóttir, lögfræðingur, Þórdís Linda Guðmundsdóttir, deildarstjóri, Katrín Þórdís Jacobsen, deildarstjóri og Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé, framkvæmdastjóri Samstarfsnets um börn og fjölskyldur taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram minnisblað vegna NPA – staðan og umræða um framhaldið.

        Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Velferðarráð Reykjavíkurborgar áréttar að lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir eru réttindalöggjöf og telur ráðið óboðlegt að innleiða lög með þeim hætti að ábyrgð á framkvæmd og fjármögnun sé falin sveitarfélögum án þess að þeim sé tryggð fjármögnun til samræmis. Auk þess er óásættanlegt að enn ríki óvissa um fjárframlög ríkisins til verkefnisins á árinu 2020. Velferðarráð óskar eftir skýrum svörum frá félagsmálaráðuneytinu um hvernig innleiðingu löggjafarinnar verður háttað af hendi ríkisins. Velferðarráð lýsir jafnframt furðu sinni á þessum vinnubrögðum og kallar eftir skýrari aðkomu ríkisins að verkefninu ásamt svörum um það hvernig innleiðingunni verður háttað næstu fjögur ár. Ljóst er að þörf er á mun ítarlegra samráði og samvinnu við sveitarfélögin við innleiðingu laganna en raunin er.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    NPA (notendastýrð persónuleg aðstoð) er nú orðin lögbundið þjónustuform. Því ber að fagna að reglur borgarinnar um þá þjónustu hafa verið samþykktar. Ríkissjóður veitir framlag til ákveðinna fjölda NPA samninga á innleiðingartímabilinu frá 2018 til 2022. Það er ótækt að bráðabirgðaákvæði laga um notendastýrða persónulega aðstoð skuli takmarka fjölda samninga á þann hátt sem gert er. Nú bíða 19 eftir þjónustu og álíka stór hópur mun bætast við á næsta ári. Fulltrúi Flokks fólksins í velferðarráði deilir áhyggjum af þeim sem eiga eftir að þurfa að bíða eftir þjónustu. Til að hægt sé að gæta jafnræðis og alls réttlætis þarf nægjanlegt fjármagn að fylgja inn í málaflokkinn ef þetta á að virka sem skyldi. Annars verður þessi þjónusta hvorki viðunandi hvað þá fullnægjandi. Nú er vitað að sá fjöldi sem áætlaður var mun ekki duga til að koma til móts við þá þörf sem fyrir liggur og þau réttindi sem fólk með sérstakar stuðningsþarfir á samkvæmt lögum 38/2018.  Það er illa farið með fólk að setja réttindi í lög en láta svo ekki fylgja með fjármagn. Spurning er hvort ríki og borg geti mæst á miðri leið með þetta samvinnuverkefni og deilt kostnaði?

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun ásamt fulltrúum Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata:

    Það er nauðsynlegt að tryggja að allir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á, án þess að þurfa að bíða til lengdar, hér er um mannréttindi að ræða. Í bráðabirgðaákvæði I í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018 kemur fram að fjárveiting byggir m.a. á samþykkt frá ríkissjóði. Þar kemur fram að ríkissjóður veiti framlag til ákveðinna fjölda NPA samninga á innleiðingartímabilinu frá árinu 2018-2022. Þar stendur einnig að ákvæði þetta og fyrirkomulag notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar auk þeirra álitaefna sem upp koma við framkvæmd laga þessara á tímabilinu skuli endurskoða innan þriggja ára frá gildistöku þeirra í ljósi fenginnar reynslu. Fulltrúi Sósíalistaflokksins telur gríðarlega mikilvægt að fjárheimildir séu ekki til þess fallnar að mögulega leiða til þess að viðkomandi þurfi að bíða til lengdar eftir þjónustu sem hann á rétt á og ítrekar mikilvægi þess að meira fjármagn verði sett í málaflokkinn af hendi ríkisins. Fjárlög vegna framlags ríkisins á árinu 2019 voru 70 mkr. en ekki liggur enn fyrir hvert framlagið verður á árinu 2020.

    Þórdís Linda Guðmundsdóttir, deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram tillaga sviðsstjóra velferðarsviðs um vísun tillagna stýrihóps um sárafátækt til yfirstandandi vinnu velferðarsviðs við endurskoðun reglna um fjárhagsaðstoð.

    Samþykkt.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Í kjölfar skýrslu um lífskjör og fátækt barna á Íslandi 2004-2016 var skipaður stýrhópur á velferðarsviði til að rýna sárafátækt barna. Hópurinn sem er ennþá starfandi taldi brýnt að skila inn áfangaskýrslu með tillögum sem snúa að breytingum á reglum um fjárhagsaðstoð þar sem vinna við endurskoðun reglnanna stendur nú yfir á velferðarsviði. Stærstu breytingar felast í því að lagt er til að teknar verði upp þjónustugreiðslur í stað heimildagreiðslna vegna barna notenda fjárhagsaðstoðar. Þjónustugreiðslur verða skilgreindar sem réttur en ekki heimild og má nýta þær til að greiða fyrir leikskóladvöl barna, dvöl á frístundaheimili ásamt skólamáltíðum. Einnig er lagt til að afnumin verði krafa í reglum um nýtingu frístundakorts til að eiga rétt á þjónustugreiðslum vegna barna. Auk þess er lagt til að tekið verði upp frítekjumark að upphæð 300.000 vegna tekna fyrri mánaða. Er þetta gert til að koma í veg fyrir að einstaklingar á fjárhagaðstoð fái mjög lágar upphæðir greiddar út fyrsta mánuðinn á fjárhagsaðstoð. Fulltrúarnir munu fylgjast spenntir með framhaldinu og hlakka til að fá tillögur um breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð til meðferðar um leið og þær liggja fyrir.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúa Flokks fólksins finnst margt afar gott í þessum tillögum og fagnar breytingum um frístundarkortið þ.e. að hægt sé að fá þjónustustyrk án þess að frístundarkortið skerðist alveg. Flokkur fólksins vill vona að þessi breyting sé tilkomin vegna tillagna Flokks fólksins um m.a. breytingu á þessum þætti frístundarkortsins. Þetta er alla vega byrjun og vonandi halda breytingar áfram þar til frístundarkortið þjóni alfarið því hlutverki sem samræmist markmiði þess og tilgangi. Fulltrúi Flokks fólksins hefði einnig viljað sjá frítekjumarkið hærra t.d. alla vega 320.000.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr í stýrihópnum og fagnar því að heimild til stuðnings börnum verði skilgreindur sem réttur. Hvað varðar tillögu númer eitt um að útreikningar liggi til grundvallar þegar upphæðir fjárhagsaðstoðar til framfærslu eru ákvarðaðar í velferðarráði hverju sinni og að á meðal gagna verði samanburður á þróun örorku, atvinnuleysisbóta og fjárhagsaðstoðar til framfærslu sem nýta megi við þá vinnu, vill fulltrúi Sósíalistaflokksins koma á framfæri að þeirri vinnu er ekki lokið, þar sem beðið er eftir gögnum. Fulltrúi Sósíalistaflokksins vill einnig koma á framfæri sinni skoðun að upphæð fjárhagsaðstoðar til framfærslu þurfi að hækka verulega til að draga úr fátækt, þar sem upphæðin er lág. Þó að hér sé verið að hækka frítekjumarkið verulega hefði fulltrúi Sósíalistaflokksins viljað hækka hana meira þar sem þeir sem fara á fjárhagsaðstoð vita það oftast ekki fyrirfram og fyrri tekjur því oft ekki eitthvað sem viðkomandi á eftir þegar greiðslur fjárhagsaðstoðar til framfærslu hefjast. Stýrihópurinn mun halda áfram vinnu sinni samkvæmt erindisbréfi.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram tillaga sviðstjóra velferðarsviðs um hækkun á grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar (árlegt).  

    Samþykkt með 5 atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Vinstri Grænna, Pírata og Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er um að ræða árlega hækkun, sem byggist á úthlutun fjárhagsramma til sviðsins. Nauðsynlegt er að skoða árlega upphæðir með tilliti til breytinga á verðlagi og aðstæðum, og þess svigrúms sem sviðið hefur yfir að ráða.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er verið að leggja til hækkun grunnfjárhæðar fjárhagsaðstoðar til framfærslu. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að þessar hækkanir séu allt of litlar. Hér hefði verið nauðsynlegt að gera betur. Allir vita að enginn lifir sómasamlegu lífi á þessum fjárhæðum. Hækkanir eru frá örfáum hundrað krónum í mest um 10.000 krónur. Það segir sig sjálft að þetta eru engar hækkanir að heitið geti enda þótt muni vissulega um hverjar þúsundkrónurnar hjá fólki sem býr við slæman efnahag og fátækt. Hækkanir eru eftirfarandi: Að grunnfjárhæðir fjárhagsaðstoðar til framfærslu hækkar úr 201.268 kr. í 207.709 kr. á mánuði. – Grunnfjárhæð til hjóna/sambúðarfólks hækkar úr 322.028 kr. í 332.334 kr. á mánuði. – Grunnfjárhæð til einstaklings sem býr með öðrum, leigir húsnæði án þinglýsts leigusamnings eða hefur ekki aðgang að húsnæði hækkar úr 169.579 kr. í 175.006 kr. á mánuði. - Grunnfjárhæð til þeirra sem búa í foreldrahúsum hækkar úr 100.634 kr. í 103.854 kr. á mánuði. - Fjárhæð vegna barna í 16 gr. a hækkar úr 16.154 kr. í 16.671 kr. á mánuði.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fjárhagsaðstoð til framfærslu er veitt þeim sem ekki geta séð sér farborða án aðstoðar. Eftir umræddar breytingar nemur grunnupphæð fjárhagsaðstoðarinnar allt að 207.709 kr. á mánuði fyrir einstakling sem rekur eigið heimili en grunnupphæðin er breytileg eftir húsnæðisaðstæðum viðkomandi og sambúðarstöðu. Lágar upphæðir fjárhagsaðstoðar eru ekki til þess fallnar að bæta viðkvæma stöðu þeirra sem framfleyta sér á henni. Það er mikilvægt að fjárhagsaðstoð hækki svo hún verði álíka lágmarkslaunum og að enginn í samfélaginu sé með minna en lágmarkslaun. Þeir sem þurfa að lifa á fjárhagsaðstoð gera slíkt ekki nema að þörf sé á og ætti upphæðin að duga fyrir helstu nauðsynjum út mánuðinn en erfitt er að sjá fyrir sér hvernig ætlast sé til þess að einstaklingur og fjölskyldur geti lifað sómasamlega á umræddri upphæð. Gert er ráð fyrir að vaxtabætur, húsnæðisbætur og sérstakur húsnæðisstuðningur hjálpi til við að greiða húsnæðiskostnað en það er stuðningur sem einstaklingar á lágmarkslaunum fá einnig en slíkt dugar samt sem áður oft ekki til að láta enda ná saman.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram yfirlit yfir innkaup yfir milljón janúar til september 2019

    Fylgigögn

  10. Lagt fram minnisblað um stöðuna á niðurlagningu herbergjasambýla.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram minnisblað um öryggisvistun.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Pírata og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúarnir taka undir bréf Sambands Íslenskra Sveitarfélaga dagsett 12. sept. 2019 þar sem bent er á að heimildir til reksturs öryggis- og vistunarúrræða eigi ekki heima í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Skýrt er að slíkar heimildir eru ávallt hluti af réttarvörslukerfinu og eiga því ekki heima í lögum um þjónustu við fatlað fólk. Velferðarráð vill þakka velferðarsviði fyrir að tryggja þeim sem þurfa á úrræðinu að halda áframhaldandi þjónustu þangað til samningar um yfirfærslu til ríkisins liggja fyrir. Ljóst er að borgin hefur sýnt mikla biðlund og því mikilvægt að klára málið eigi síðar en 1. júlí 2020.

    Sigtryggur Jónsson, framkvæmdastjóri og Helga Jóna Benediktsdóttir, lögfræðingur taka sæti á fundinum undir þessum lið.  

    -    Kl. 15:56 víkur Örn Þórðarson af fundinum.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram tillaga, ásamt umsögn sviðsstjóra, áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt húsnæði R19090312.

    Samþykkt að vísa inn í endurskoðun á reglum um félagslegt leiguhúsnæði á velferðarsviði.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins telur að ekki eigi að nota þetta atriði sem hindrun til að fólk komi á biðlistann þótt líta eigi til þessa þáttar. Þetta fyrirkomulag getur leitt til þess að fólk segi upp leigusamningi ótímabært til að  komast inn á biðlistann. Í umsögn við tillöguna er sagt að  „Einstaklingar fá því 1 stig óháð því hve langan húsaleigusamning þeir eru með ef húsnæðiskostnaður telst verulega íþyngjandi“. Þetta er í ósamræmi við svör deildarstjóra í deild húsnæðis og búsetu á velferðarsviði, við fyrirspurn  dagsett 25. 9. sl en þar segir að „Ef meira en sex mánuðir eru eftir af húsaleigusamningi umsækjanda er hann metin í öruggu húsnæði og fær 0 stig“. Hér er því um mismunandi svör frá tveimur starfsmönnum borgarinnar. Þetta þarf að skýra. Það skiptir ekki máli hvort leigusamningur sé 6 mánuðir eða lengri. Vel er hægt að taka þessa setningu út úr matsblaðinu. Tillögunni er vísað í endurskoðun og er fulltrúi Flokks fólksins sáttur við það.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Ef umsækjandi er með verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað fær hann eitt stig óháð lengd leigusamnings

    Fylgigögn

  13. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Tillaga um að kanna hvernig aldursfordómar birtast í borgarkerfinu, í samþykktum borgarinnar og regluverki borgarinnar sem fjalla um eldri borgara. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að velferðarráð og velferðarsvið geri úttekt á hvernig aldursfordómar birtast í borgarkerfinu, í samþykktum borgarinnar og regluverki borgarinnar sem fjalla um eldri borgara. Markmiðið er að draga úr öldrunarfordómum og fyrsta skrefið hlýtur að vera að skoða með hvaða hætti stjórnkerfi borgarinnar fjallar um eldri borgara, hvað hindranir og takmörk samþykktir og regluverk setur fólki sem grundvallast einungis á aldri þeirra. Metið verði hvort samþykktir og regluverk borgarinnar mismuni að því er varðar réttindi og skyldur umfram það sem mætti telja eðlilegt vegna þroska og getu, hvort tilefni sé til að fella brott aldurstengd viðmið, hvort frekar skuli miða við hæfni eða önnur málefnaleg viðmið í stað aldurs. Öldrunarfordómar eru rótgrónir víða í samfélaginu og þeir snerta afar stóran hóp, ekki bara eldra fólk heldur líka aðstandendur þeirra og þá sem vinna með eldra fólki. Fyrsta skrefið í átt að því að eyða öldrunarfordómum er að stjórnkerfið skoði sjálft sig enda leggur það línurnar og setur fyrirmyndirnar. Fordómarnir gagnvart öldruðum koma auk þess fram með margvíslegum öðrum hætti t.d. í umræðunni í heilbrigðiskerfinu og í umræðu um félagslega kerfið. Þeir koma fram í umræðu um eldri borgara hvað varðar allt mögulegt.

    Greinargerð fylgir tillögunni. 

    Vísað til öldungaráðs.

Fundi slitið klukkan 16:52

PDF útgáfa fundargerðar
velferdarrad_0412.pdf