Velferðarráð
Ár 2019, miðvikudagur 20. nóvember var haldinn 365. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:04 í Kerhólum, Borgartúni 12-14. Fundinn sátu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Aron Leví Beck, Örn Þórðarson, Daníel Örn Arnarson og Kolbrún Baldursdóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Dís Sigurgeirsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Agnes Sif Andrésdóttir og Katrín Harpa Ásgeirsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.
-
Lögð fram drög að fundadagatali ráðsins 2020.
- Kl. 13:08 tekur Alexandra Briem sæti á fundinum.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á Grettistaki.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Pírata, Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúarnir þakka fyrir góða kynningu á Grettistaki. Ljóst er að úrræðið nýtist mörgum sem leið til þátttöku í samfélaginu að nýju. Þarna er veittur mikilvægur stuðningur sem skiptir sköpum á svo viðkvæmum tíma. Árangur hefur verð metin og er góður. Auk þess hefur verið framkvæmd þjónustukönnun sem sýnir að mikil ánægja er með þjónustuna. Mikilvægt er að styðja fólk til þátttöku í samfélaginu á nýjan leik í kjölfar veikinda og er Grettistak til þess fallið að mæta mörgum þeirra.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins þakkar kynninguna um Grettistak og veit til þess að Grettistak hefur hjálpað mörgum. Ekki komast allir í prógrammið sem vilja og geta vegna mikillar aðsóknar. Synja þurfti 25 einstaklingum í sumar. Úr þessu er mikilvægt að bæta til að fleiri geti notið góðs af prógramminu. Þótt Grettistak sé sannarlega að hjálpa mörgum er engu að síður mikilvægt að gera árangursmat á því en aðeins eru til gamlar rannsóknir á árangri. Nýleg þjónustukönnun er til en mikilvægt er að gera sambærilega rannsókn og gerð var 2011 og 2013 til að hægt sé að gera marktækan samanburð á árangri.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Tekið er inn í Grettistak tvisvar á ári, því er ekki um eiginlega biðlista að ræða heldur kemst fólk að í næsta hóp þegar hann fer af stað. Mikilvægt er að skoða með hvaða hætti er hægt að efla úrræðið ef ásókn reynist of mikil sem og að gera reglulegar árangursmælingar á öllum úrræðum til að Velferðarráð hafi yfirsýn yfir þjónustu sviðsins. Mikilvægt er að endurskoða öll úrræði reglulega í ljósi reynslu og aðlaga þjónustuna að þörfum notenda hverju sinni.
Kristín Lilja Diðriksdóttir, forstöðumaður, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Fram fer kynning á vinnu og virknimiðaðri stoðþjónustu.
Arne Friðrik Karlsson, verkefnisstjóri og Sigurbjörn Rúnar Björnsson, forstöðumaður taka sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Lagt fram uppgjör velferðarsviðs janúar til september 2019.
-
Lögð fram tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, sem lögð var fram í borgarráði 7. nóvember 2019, um að brugðist verði við breyttum lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar.
Frestað.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðstjóra við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 15. lið fundargerðar velferðarráðs þann 4. september 2019, um lista yfir ferðir starfsmanna og kjörinna fulltrúa síðustu þriggja ára og upplýsingar um kostnað borgarinnar í því sambandi.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið og er vel kunnugt um ferðareglurnar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst það mikilvægt að orð og verk fari saman hjá þessum meirihluta en sífellt er verið að boða að draga úr kolefnissporum. Ferðalög erlendis eru mörg slík spor. Þess utan vantar sviðið fé til að taka á biðlistum og margt annað þarf að gera til að bæta þjónustu við börn og aðra hópa. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að horfa þurfi á þetta allt í samhengi. Kostnaður sem hlýst af ferðum t.d. skoðunarferðum er mikill og skilur oft ekki mikið eftir sig nema reynsluminningar í huga þess sem fer ferðina. Hvað varðar fundi og fræðslu má vissulega nota tæknina mun meira til að halda góðu sambandi við fagfólk erlendis. Árið 2017 og 2018 voru dýr ár hvað þetta varðar hjá sviðinu. Allt of dýr. Ekki má gleyma að þetta er tekið af útsvarspeningum borgarbúa. Samtals fyrir þessi tvö ár var eytt um 10 milljón í alls konar ferðir erlendis á vegum sviðsins. Fyrir þennan pening hefði mátt ráða t.d. sálfræðinga í skólum til að vinna niður biðlistana.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna þakka fyrir framlagt svar. Ljóst er að fastur rammi er utan um ferðir starfsmanna bæði innanlands og erlendis. Í gildi eru verklagsreglur fjármálaskrifstofu um ferðaheimildir og greiðslu ferðakostnaðar auk þess sem í gildi eru sérstakar vinnureglur vegna ferða stafsmanna borgarinnar bæði innanlands og utan. Mikilvægt er að sýna aðhald í kostnaði en jafnframt tryggja starfsþróun og framþróun þjónustu velferðarsviðs auk þátttöku í alþjóðlegu samstarfi. Fulltrúarnir telja að aðhald sé gott og fagna því að skýrar reglur gildi um ferðir starfsmanna og ítreka mikilvægi þess að þeim sé fylgt líkt og gögnin sýna.
- Kl. 14:51 víkur Kolbrún Baldursdóttir af fundi.
Fylgigögn
PDF útgáfa fundargerðar
velferdarrad_2011.pdf