Velferðarráð - Fundur nr. 355

Velferðarráð

Ár 2019, miðvikudaginn 5. júní, var haldinn 355. fundur velferðarráðs. Fundurinn var haldinn í Kerhólum, Borgartúni 12-14 og hófst klukkan 13:04. Viðstödd voru Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Hjálmar Sveinsson, Egill Þór Jónsson, Sanna Magdalena Mörtudottir, Kolbrún Baldursdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir og Elínrós Hjartardóttir sem ritaði fundargerð

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði milli funda velferðarráðs.

    -    Kl. 13:13 tekur Hjálmar Sveinsson sæti á fundinum.

  2. Lögð fram stefna í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir 2019- 2025.

    Breytingartillaga lögð fram að breytingu á orðalagi í stefnunni á bls. 11 og bls. 16 er varðar yfirmarkmið C. Texti yfirmarkmiðs C verði: Að enginn með miklar og flóknar þjónustuþarfir í áhættu fyrir heimilisleysi útskrifist af stofnun eða verði borinn út úr húsnæði án þess að annað úrræði standi til boða.

    Samþykkt.

    Samþykkt og vísað í borgarráð. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Síðustu mánuði hefur staðið yfir viðamikil endurskoðun á stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir þar sem samráð hefur verið haft við notendur, fagfólk og hagsmunaaðila. Sameinast var um að leggja áherslu á skaðaminnkandi nálgun og hugmyndafræði um ,,húsnæði fyrst” og að vinna að því að um málaflokkinn verði þétt samstarf ríkis og sveitarfélaga. Öll vinna í málefnum heimilislausra þarf að byggja á gagnkvæmri virðingu þar sem sjálfsákvörðunarréttur einstaklingsins og umburðarlyndi eru í fyrirrúmi. Það er ánægjulegt að samþykkja þessa metnaðarfullu stefnu þar sem þessum sjónarmiðum er gert hátt undir höfði ásamt aðgerðaáætlun, sem vísað er til borgarráðs.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sósíalistaflokksins styður heilshugar leiðarljós stefnunnar en þau snúa að því að sýna virðingu á öllum stigum þjónustunnar. Áhersla er á að efla og auka sjálfsvirðingu notandans, valdefla einstaklinginn og draga úr fordómum í samfélaginu þar sem öll þjónusta skal stuðla að framangreindum þáttum. Meginstoðir stefnunnar eru mikilvægir þættir sem nauðsynlegt er að byggja á. Ein meginstoðin er hugmyndafræðin um húsnæði fyrst (e. Housing first) sem fulltrúi Sósíalistaflokksins styður heilshugar. Hugmyndafræðin gengur út frá því að húsnæði sé grunnþörf og teljist til mannréttinda. Aðeins þegar þessari grunnþörf sé mætt, geti einstaklingurinn ráðið við aðrar áskoranir í lífi sínu. Fulltrúi Sósíalistaflokksins vill taka fram að grundvallarforsenda þess að geta veitt þjónustu á grundvelli þeirrar hugmyndafræði byggir á því að húsnæði sé til staðar. Staðan hefur því miður ekki alltaf verið þannig þar sem skortur hefur verið á íbúðum á viðráðanlegu verði. Aðrir þættir geta líka mótað stöðu þeirra sem skilgreinast sem heimilislausir og þá er mikilvægt að viðeigandi húsnæði standi fólki alltaf til boða. Það þarf að tryggja að nægilegt húsnæði sé alltaf til staðar og með þeim stuðningi sem fólk þarf á að halda. Húsnæði er ein grunnforsenda velferðar og nauðsynlegt að allir hafi alltaf aðgengi að öruggi húsnæði.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram tillaga fulltrúa í ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða, dags. 29. mars 2019, sem lögð var fram á fundi borgarstjórnar og Reykjavíkurráðs ungmenna þann 26. mars 2019, um aukna viðveru hjúkrunarfræðings á skólatíma. 

    Greinargerð fylgir tillögu.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Velferðarráð felur velferðarsviði að funda með forsvarsmönnum heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í samráði við skóla- og frístundasvið til að leggja áherslu á mikilvægi skólahjúkrunarfræðinga.

    Samþykkt.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð þakkar fyrir tillögu frá ungmennaráði Laugardals, Háleitis og Bústaða um aukna viðveru hjúkrunarfræðinga á skólatíma. Ljóst er að skólahjúkrunarfræðingar sinna mikilvægri þjónustu við nemendur í grunnskólum borgarinnar. Í grunnskólalögum og lögum um heilsugæslu er tiltekið að þjónusta skólahjúkrunarfræðinga sé á ábyrgð heilsugæslunnar á hverjum stað í samvinnu við skólastjóra hvers grunnskóla. Mikilvægt er að hefja samtal við Heilsugæslu höfðuborgarsvæðisins með það að leiðarljósi að tryggja að þjónusta skólahjúkrunarfræðinga sé til staðar með fullnægjandi hætti í öllum skólum borgarinnar.

    Valdís Hulda Valdimarsdóttir, verkefnastjóri á skóla- og frístundasviði og Embla Nótt Pétursdóttir, fulltrúi úr ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram minnisblað dags. 5. júní 2019, vegna bókunar velferðarráðs, sbr. 9. lið fundargerðar velferðarráðs þann 22. júní 2018, um notendasamráð við ákvarðanatöku og framkvæmd velferðarþjónustu.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Velferðarráð felur velferðarsviði að vinna tillögu að verklagi um notendasamráð í velferðarmálum í takt við það minnisblað sem fyrir fundinum liggur, þjónustustefnu og breytingu á lögum um félagsþjónustu frá 1. október 2018 um samráð við notendur og hagsmunasamtök.

    Greinargerð fylgir tillögu.

    Samþykkt

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Minnisblað sviðsstjóra er gott og gagnlegt yfirlit en hvernig eru þessi mál í reynd? Það er alveg sama hvað er skrifað mikið og fallega um notendasamráð og hversu mikill og góður vilji og hvati er þar að baki þá virkar það ekki sannfærandi ef notendunum sjálfum finnst að ekki sé verið að hafa samráð við þá um málefni þeirra. Ekki er vitað hversu víðtækt notendasamráð er haft við notendur þjónustu hjá Reykjavíkurborg. Aðeins notendur þjónustu geta staðfest hvort haft sé fullnægjandi notendasamráð. Borgarfulltrúi Flokks fólksins myndi vilja sjá að gerð yrði könnun hjá notendum, einstaklingum og hópum þar sem spurt er um upplifun þeirra á notendasamráði og notendamiðaðri hönnun. Ef tala á um raunverulegt notendasamráð sem dæmi þurfa notendur helst sjálfir að vera með í að stýra verkefninu. Í þessu sambandi vill borgarfulltrúi Flokks fólksins hvetja til ríkra tengsla milli hugmyndasviðs og framkvæmdarsviðs til að tryggja að þjónustan verði útfærð með þeim hætti að notandinn upplifi að hann sé hafður með í ráðum frá hugmynd á fyrstu stigum til framkvæmdar. Til þess að notendasamráð tvinnist inn í menningu og samfélag þarf hugmyndafræðin að vera helst greipt í námsefni fagaðila og verða hluti að fagþekkingu og reynslu.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands dags. 21. júní 2018, frá fundi borgarstjórnar þann 19. júní 2019, sbr. 9 lið fundargerðar velferðarráðs þann 22. júní 2018, um stofnun félags skjólstæðinga velferðarsviðs og tryggi fulltrúum þess áheyrnarsetu í velferðarráði.

    Frestað.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram erindi dags. 10. apríl 2019, frá fundi mannréttinda- og lýðræðisráði þann 7. mars 2019, um frístundastyrk fyrir öryrkja ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 5. júní 2019. 

    Lagt er til að erindinu, ásamt umsögn velferðarsviðs, verði vísað til menningar, íþrótta- og tómstundarráðs.

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram tillaga fulltrúa Flokks fólksins frá fundi borgarráðs, dags. 2. maí 2019, um greiningu á stöðu barna af erlendum uppruna:

    Lagt er til að Reykjavíkurborg láti greina stöðu fatlaðra barna með innflytjenda-bakgrunn til að varpa ljósi á á stöðu þeirra í íslensku samfélagi. Skoða þarf hverjar eru aðstæður þessara barna og þarfir, hvernig er þjónustu við þau háttað og hvað má gera til að tryggja að hún komi sem best til móts við þarfir barnanna?

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna, gegn einu atkvæði Flokks fólksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillögu Flokks fólksins um að Reykjavíkurborg láti greina stöðu fatlaðra barna með innflytjendabakgrunn til að varpa ljósi á stöðu þeirra í íslensku samfélagi hefur verið vísað frá á fundi velferðarráðs 5. júní 2019. Engu að síður lýsir velferðarráð stuðningi við tillögur sem Landssamtökin Þroskahjálp hafa sent félagsmálaráðuneytinu um að í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda verði aðgerðir sem lúta sérstaklega að aðstæðum þörfum og réttindum fatlaðra barna af erlendum uppruna og aðstandenda þeirra: Söfnun viðeigandi upplýsinga, meðal annars tölfræðilegra gagna og rannsóknargagna, sem gera hlutaðeigandi stjórnvöldum kleift að greina stöðu og þarfir fatlaðra barna af erlendum uppruna í íslensku samfélagi og grípa til veiðeigandi ráðstafana á grundvelli þeirra. Í þessu sambandi vísast til skyldna stjórnvalda á þessu sviði samkvæmt 31. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Gerð fræðsluefnis fyrir aðstandendur fatlaðra barna af erlendum uppruna um réttindi þeirra samkvæmt íslenskum lögum og mannréttindasamningum sem Ísland hefur skuldbundið sig til að framfylgja og þjónustu og stuðning sem þeim stendur til boða.

    Fylgigögn

  8. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna, Sósíalistaflokks Íslands og Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Fulltrúar velferðarráðs fela velferðarsviði að vinna tillögur með skóla- og frístundasviði, í þéttri samvinnu við Háskóla íslands og Þroskahjálp, um nauðsynlegar úrbætur á þjónustu við fötluð börn og fjölskyldur þeirra. Tillögur skulu byggja á niðurstöðum rannsóknar Háskóla Íslands og bestu þekkingu sem til staðar er. Sömu aðilum er einnig falið að vakta stöðuna, m.a. með tölulegum upplýsingum og upplýsa velferðarráð jafnóðum.

    Greinargerð fylgir tillögu.

    Samþykkt með með sex atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna, Sósíalistaflokks Íslands og Sjálfstæðisflokks gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillögu Flokks fólksins um að Reykjavíkurborg láti greina stöðu fatlaðra barna með innflytjendabakgrunn til að varpa ljósi á stöðu þeirra í íslensku samfélagi hefur verið vísað frá á fundi velferðarráðs 5. júní 2019. Engu að síður lýsir velferðarráð stuðningi við tillögur sem Landssamtökin Þroskahjálp hafa sent félagsmálaráðuneytinu um að í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda verði aðgerðir sem lúta sérstaklega að aðstæðum þörfum og réttindum fatlaðra barna af erlendum uppruna og aðstandenda þeirra: Söfnun viðeigandi upplýsinga, meðal annars tölfræðilegra gagna og rannsóknargagna, sem gera hlutaðeigandi stjórnvöldum kleift að greina stöðu og þarfir fatlaðra barna af erlendum uppruna í íslensku samfélagi og grípa til veiðeigandi ráðstafana á grundvelli þeirra. Í þessu sambandi vísast til skyldna stjórnvalda á þessu sviði samkvæmt 31. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Gerð fræðsluefnis fyrir aðstandendur fatlaðra barna af erlendum uppruna um réttindi þeirra samkvæmt íslenskum lögum og mannréttindasamningum sem Ísland hefur skuldbundið sig til að framfylgja og þjónustu og stuðning sem þeim stendur til boða.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram tillaga fulltrúa Flokks fólksins, dags. 6. maí 2019, frá fundi borgarráðs 2. maí 2019, um að gripið verði til sérstakra aðgerða til að létta undir með fátækum barnafjölskyldum.

    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram eftirfarandi bókun:

    Á fundi velferðarráðs 6. mars 2019, var stofnaður stýrihópur um aðgerðir gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra. Hlutverk hans að yfirfara reglur og úrræði á vegum velferðarsviðs til að koma í veg fyrir sárafátækt og gera tillögur um markmið og aðgerðir, s.s. breytingar á reglum, frekari úrræði eða annað, sem stutt geta íbúa Reykjavíkur sem búa við sárafátækt. Sú vinna sem þessi tillaga ber með sér er því þegar í framkvæmd og er því vísað frá.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillögu Flokks fólksins um að gripið verði til sértækra aðgerða til að létta á undir með fátækum barnafjölskyldum hefur verið vísað frá. Borgarfulltrúa finnst það miður og telur að það hefði verið lag að vísa tillögunni inn í hóp um sárafátækt sem er að störfum. Það hljómar illa þegar tillaga eins og þessari er fleygt út af borðinu eins og hún sé ekki þess verð að fá nánari skoðun. Betur hefði farið á því að leyfa henni að fljóta með í vinnu um málefnið sem nú þegar er í gangi. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill nota tækifærið hér aftur til að höfða til þeirra flokka í meirihlutasamstarfinu sem hafa gefið sig út fyrir að vera jafnaðarflokkar. Til að hægt sé að stuðla að jöfnun þarf að beita sértækum aðgerðum þar með tekjutengingaraðferðum til að rétta hlut þeirra verst settu. Það verður aldrei neinn jöfnuður að heitið geti ef hækkanir ganga upp allan skalann án tilllits til efnahags og aðstæðna fólks. Hópur efnaminna fólks og fátækra hefur orðið útundan í Reykjavík síðustu ár. Hátt leiguverð og gríðarlega erfiður húsnæðismarkaður étur upp meira og minna allt sem fólk nær að þéna á mánuði. Borgarfulltrúi vill benda á skýrsluna Lífskjör og fátækt barna á Íslandi 2004-2016 sem unnin var fyrir Velferðarvaktina í þessu sambandi.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Tillaga Flokks fólksins kveður á um að gripið verði til sértækra aðgerða til að létta undir með fátækum barnafjölskyldum. Tillagan sem er frá 2. maí 2019 samræmist erindisbréfi stýrihóps sem skipaður var í velferðarráði þann 6. mars 2019 eða tæpum mánuði fyrr. Í tillögunni er engin viðbót við það sem fram kemur í erindisbréfi starfshópsins og því óþarfi að vísa tillögunni þangað.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram tillaga sviðstjóra, dags. 5. júní 2019, um hækkun á eignarmörkum varðandi sérstakan húsnæðisstuðning:

    Lagt er til að gerðar verði eftirfarandi breytingar á 6. tl. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning sem samþykktar voru á fundi velferðarráðs þann 3. nóvember 2016 og á fundi borgarráðs þann 10. nóvember 2016, þannig að fjárhæð eignamarka hækki í samræmi við breytingar á eignamörkum í reglugerð um stofnframlög ríkis og sveitarfélaga og að breytingin taki gildi frá og með 1. júní 2019.

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram erindi, dags. 24. maí 2019, frá Hjálpræðishernum, Hjálparstarfi kirkjunnar og EAPN á Íslandi um afnot af húsnæði borgarinnar að Álfabakka 12, 3h, undir samfélagshús.

    Velferðaráð leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Velferðarráð felur velferðarsviði að skoða möguleika á að verða við erindi Hjálpræðisherins, Hjálparstarfs kirkjunnar og EAPN á Íslandi.

    Samþykkt.

    Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi frá Hjálparstarfi kirkjunnar tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram yfirlit, dags. 5 júní 2019, um innkaup velferðarsviðs yfir milljón fyrir tímabilið janúar til mars 2019.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram yfirlit, dags. 5. júní 2019, yfir ferðir starfsmanna og kjörinna fulltrúa fyrir tímabilið janúar til mars 2019.

    Fylgigögn

  14. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn vegna heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónstu yfir sumartímann:

    Árið 2018 fengu notendur heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu tilkynningu um skerta þjónustu yfir sumartímann vegna manneklu. Hvernig er staða mála fyrir komandi sumarmánuði? Eiga notendur von á skertri þjónustu, ef svo er hvernig verður brugðist við ástandinu? Óskað er eftir því að svar berist fyrir síðasta fund velferðarráðs fyrir sumarfrí.

Fundi slitið klukkan 16:43

Heiða Björg Hilmisdóttir Hjálmar Sveinsson

Sanna Magdalena Mörtudottir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir