Velferðarráð - Fundur nr. 335

Velferðarráð

Ár 2018, föstudagur 17. ágúst var haldinn 335. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 9:15 að Borgartúni 12-14. Fundinn sátu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Magnús Már Guðmundsson, Elín Oddný Sigurðardóttir, Alexandra Briem, Egill Þór Jónsson, Ásgerður Jóna Flosadóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Sólveig Ingibjörg Reynisdóttir, Elínrós Hjartardóttir og Arnar Snæberg Jónsson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

  2. Lögð fram að nýju endurbætt drög að erindisbréfi stýrihóps, dags. 10. ágúst 2018, um mótun stefnu til ársins 2025 í þjónustu velferðarsviðs við heimilislausa og/eða fólk sem skilgreint hefur verið sem utangarðs.
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning á skrifstofu öldrunar- og húsnæðismála á velferðarsviði.

    Arnar Guðmundur Ólason, Sigríður Pálsdóttir, Jóna Guðný Eyjólfsdóttir og Helga Sigurjónsdóttir taka sæti undir þessum lið.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram drög að gjaldskrám velferðarsviðs fyrir árið 2019.

    - Kl. 10:30 tekur Ásgerður Jóna Flosadóttir sæti á fundinum.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð felur velferðarsviði að undirbúa tillögu vegna hækkunar fjárhagsaðstoðar fyrir árið 2019 samhliða vinnu við gerð fjárhagsáætlunar. Velferðarsviði er einnig falið að greina kostnað við að hækka upphæð fjárhagsaðstoðar til samræmis við hækkun launavísitölu, í samræmi við hækkun bóta almannatrygginga og forsendur fjárhagsáætlunar. Velferðarsviði er einnig falið að reikna kostnað við að hækka gjaldskrá vegna greiðslna til stuðningsfjölskyldna samkvæmt þeim launaforsendum sem verða á fjárhagsramma velferðarsviðs um hver áramót.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram stöðuskýrsla verkefnahóps, dags. 1. júlí 2018, um framkvæmd og skipulag PMTO í Reykjavík.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð fagnar þeim árangri sem náðst hefur með innleiðingu á PMTO, gagnreyndu meðferðarúrræði sem byggir á víðtækum rannsóknum. Það er ánægjulegt að sjá að meðferðarúrræðið bæði dregur úr hegðunarerfiðleikum barna og unglinga og að mikil ánægja er meðal notenda þjónustunnar með það. Meðferðarúrræði sem eru forvirk og taka á væntanlegum vandamálum áður en þau birtast að fullu eru ein áhrifaríkasta notkun tíma og peninga sem skilar sér hvað best í jákvæðum áhrifum til notenda. Mikilvægt er að halda áfram á sömu braut og efla PMTO enn frekar í öllum hverfum borgarinnar til að styðja við fjölskyldur sem eru að mæta áskorunum í sínu lífi með jákvæðum og uppbyggilegum hætti.

    Fylgigögn

  6. Lagðar fram lykiltölur velferðarsviðs, dags. 9. ágúst 2018, fyrir tímabilið janúar til júní 2018.

    Velferðarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri Grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Pírata fagna því að fjöldi notenda sérstaks húsnæðisstuðnings virðist vera að ná ákveðnu jafnvægi eftir umfangsmiklar breytingar á regluverki sem tóku gildi í upphafi árs 2017.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram minnisblað, dags. 9. ágúst 2018, vegna umsagnar velferðarsviðs um tillögu um stöðu skólasálfræðinga.

    Velferðarráðsfulltrúar Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks, og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Flokks Fólksins taka undir umsögn velferðarsviðs og niðurstöðu þess. Samþætting skólaþjónustu á þjónustumiðstöðvum er mikilvæg til að veita fjölskyldum áhrifaríka og heildstæða þjónustu, bæði í skóla og heima þar sem við á og því tökum við undir að ekki sé ráðlegt að færa þjónustu sálfræðinga beint inn í skólana. Markmiðið er að draga úr biðtíma eftir greiningu barns sem getur valdið óþægindum og ýtt undir erfiðleika. Við tökum því undir þá hugmynd að fjölga stöðugildum sálfræðinga. Það myndi efla þjónustuna og stytta biðtíma, sérstaklega ef aðstaða sálfræðinga til vinnu í skólunum er bætt samhliða.

    Katrín Þórdís Jacobsen tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra dags. 15. ágúst 2018, ásamt fylgiskjali, um fjárveitingu vegna undirbúnings á útboði á ferðaþjónustu fatlaðs fólks.

    Lagt er til að velferðarráð samþykki að vísa beiðni frá framkvæmdastjóra SSH til borgarráðs með ósk um fjárveitingu fyrir allt að 4 mkr. vegna undirbúnings á útboði á ferðaþjónustu fatlaðra.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt.

    Velferðarráðsfulltrúi Sósíalistaflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins og leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þó að tillaga sviðstjóra um fjárveitingu vegna undirbúnings á útboði á ferðaþjónustu fatlaðs fólks feli ekki endilega í sér endanlega ákvörðun um útboð, setur Sósíalistaflokkurinn athugasemd við hugmyndina um útboð þjónustunnar. Sósíalistar eru þeirrar skoðunar að Reykjavík eða Strætó bs. eigi að reka þessa þjónustu beint sjálf en ekki að bjóða verkefnið út. Þar er t.a.m. mikilvægt að tryggja að fastráðið starfsfólk sjái um þessa þjónustu í stað undirverktaka, til að tryggja sem besta þjónustu fyrir notendur.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga velferðarráðsfulltrúa Flokks fólksins, sbr. 6. lið fundargerðar velferðarráðs frá 10. ágúst 2018:

    Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn leggi allt kapp á að útrýma heimilisleysi í Reykjavík með öllu á kjörtímabilinu.

    Velferðarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri Grænna, Pírata og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:

    Öruggt húsaskjól er grunnforsenda allrar annarrar velferðarþjónustu. Því ítrekar Velferðarráð einbeittan vilja sinn til þess að leita allra leiða til að tryggja öllum þak yfir höfuðið. Nákvæm útfærsla tillagna að því markmiði á heima hjá nýstofnuðum stýrihóp um mótun stefnu í þjónustu velferðarsviðs við heimilislausa og/eða fólk sem skilgreint hefur verið sem utangarðs og er því vísað þangað.

    Velferðarráðsfulltrúi Sósíalistaflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Heimilisleysi á ekki að vera til staðar til að byrja með og mikilvægt er að vinna tafarlaust að leiðum til að útrýma heimilisleysi.

    Lagt er til að vísa tillögunni til stýrihóps um mótun stefnu í þjónustu velferðarsviðs við heimilislausa og/eða fólk sem skilgreint hefur verið sem utangarðs.
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga velferðarráðsfulltrúa Flokks fólksins af fundi velferðarráðs 10. ágúst 2018:

    Flokkur fólksins leggur til að hugtakið utangarðsfólk verði ekki notað frekar hjá velferðarsviði og velferðarráði borgarinnar. Hugtakið er að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins neikvætt og er ef til vill barn síns tíma. Lagt er til að í stað hugtaksins utangarðsfólk sé talað um heimilislausa eða fólk í húsnæðisvanda. Heimilislaust fólk er afar fjölbreyttur hópur fólks sem á það sameiginlegt að hafa ekki aðgang að hefðbundnu húsnæði, hefur ekki húsaskjól að staðaldri á sama stað.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Eitt af verkefnum stýrihóps um mótun stefnu í þjónustu velferðarviðs við heimilislausa og/eða fólk sem hefur verið skilgreint sem utangarðs samkvæmt erindisbréfi er að skilgreina hugtök og sameinast um notkun þeirra í þjónustunni. Því er tillögunni vísað til frekari úrvinnslu og umræðu í vinnu stýrihópsins.

    Lagt er til að vísa tillögunni til stýrihóps um mótun stefnu í þjónustu velferðarsviðs við heimilislausa og/eða fólk sem skilgreint hefur verið sem utangarðs.
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn velferðarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Hvaða þjónustu fá einstaklingar sem glíma við fíkni- og geðvanda í félagslegri heimaþjónustu? Er einstaklingum synjað/neitað um þjónustu á meðan talið er að einstaklingur sé í neyslu?

    Frestað.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn velferðarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Óskað er eftir upplýsingum hversu margir einstaklingar búa í félagslegu leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg, hversu margir einstaklingar og hlutfall af heildarfjölda sem búa í félagslegu leiguhúsnæði hafa farið aftur á almennan húsnæðismarkað síðustu tíu ár? Er aðgerðaráætlun eða markviss vinna fyrir einstaklinga í félagslega leiguhúsnæðiskerfinu sem styður þau aftur út á almennan húsnæðismarkað?

    Frestað

    Fylgigögn

  13. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn velferðarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Óskað er eftir upplýsingum um hvaða úrræði eru starfrækt hjá Reykjavíkurborg fyrir fólk með tvíþættan vanda, eru úrræðin kynjaskipt, fyrir hversu marga einstaklinga eru tiltekin úrræði, hversu margir eru á biðlista og hvert er einstaklingum vísað sem ekki komast inn í tiltekin úrræði?

    Frestað.

    Fylgigögn

  14. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn velferðarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Óskað er eftir upplýsingum um úrræði eru fyrir börn á grunnskólaaldri hjá Reykjavíkurborg með fíknivanda, eru úrræðin kynjaskipt, fyrir hversu marga einstaklinga eru tiltekin úrræði, hversu margir eru á biðlista og hvert er einstaklingum vísað sem ekki komast inn í tiltekin úrræði?

    Frestað.

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 12:24

Heiða Björg Hilmisdóttir Magnús Már Guðmundsson

Alexandra Briem Sanna Magdalena Mörtudottir