Velferðarráð - Fundur nr. 201

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2012, fimmtudaginn 20. desember var haldinn 201. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.53 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Sverrir Bollason, Páll Hjalti Hjaltason, Áslaug María Friðriksdóttir, Jórunn Frímannsdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna; Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Ingibjörg Sigurþórsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Húsaleigubætur og sérstakar húsaleigubætur; staða mála.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu:
Fulltrúi Vinstri grænna leggur til að þakið sem er á húsaleigubótum (70.000 kr.) verði afnumið.

Afgreiðslu tillögunnar er frestað til næsta fundar.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu:
Fulltrúi Vinstri grænn leggur til að Reykjavíkurborg hækki sérstakar húsaleigubætur til jafns við hækkun húsaleigu Félagsbústaða frá því í maí 2008.

Afgreiðslu tillögunnar er frestað til næsta fundar.

2. Lögð fram eftirfarandi tillaga Velferðarsviðs; greinargerð fylgir.
Lagt er til að velferðarráð samþykki stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum eldri borgara til ársins 2016.

Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.

Tillagan var samþykkt samhljóða. Málinu er vísað til borgarráðs og borgarstjórna til umfjöllunar og kynningar og Velferðarsviði er falið að koma með tillögum að aðgerðum í samræmi við mótaða stefnu.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúi Vinstri grænn samþykkir stefnumótunina í trausti þess að hún sé unnin í fullri sátt við hagsmunasamtök aldraðra eins og formaður hefur sagt á þessum fundi.

3. Lögð fram eftirfarandi tillaga Velferðarsviðs, greinargerð fylgir.
Velferðarráð samþykkir að skipaður verði starfshópur sem vinni að stefnumótun í þróun þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum til næstu 10 ára, í samræmi við starfsáætlun Velferðarsviðs fyrir árið 2012. Starfshópurinn verði skipaður notendum, kjörnum fulltrúum, stjórnendum og sérfræðingum Velferðarsviðs og skili tillögum fyrir 1.júlí 2013.

Samþykkt samhljóða.

4. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna sem lögð var fram á fundi velferðarráðs 6.desember s.l.

Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði leggur til að aðrar heimildargreiðslur hækki í samræmi við þá hækkun sem samþykkt var varðandi grein 16A.

Tillagan var felld með sex atkvæðum gegn einu.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Allar heimildir í tengslum við fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar eru vegna sérstakra aðstæðna. Í sumum tilfellum er miðað við útlagðan kostnað en öðrum fasta upphæð. Velferðarráð samþykkti á síðasta fundi sínum að hækka sérstaka fjárhagsaðstoð til foreldra vegna barna á þeirra framfæri en þó aðeins um 3,9#PR þó svo að almenn hækkun gjaldskráa borgarinnar sé að meðaltali 5,6#PR.
Aðrar heimildir eða viðmiðunarmörk hafa ekki hækkað og má þar nefna fjárhagsaðstoð vegna kaupa á húsbúnaði til einstaklings sem er eignalaus og er að stofna heimili eftir a.m.k. tveggja ára dvöl á stofnun, ungs fólks á aldrinum 18–24 ára, sem er eignalaust og hefur átt í miklum félagslegum erfiðleikum og er að stofna heimili í fyrsta sinn, þegar rýma þarf íbúð af heilbrigðisástæðum, þegar um er að ræða einstaklinga/hjón/sambúðarfólk sem eiga í félagslegum erfiðleikum og þurfa aðstoð vegna kaupa á nauðsynlegum heimilistækjum, greiðslu nauðsynlegra tannlækninga, greiðslu viðtala hjá félagsráðgjöfum, sálfræðingum og geðlæknum, greiðslu útfararkostnaðar þegar staðreynt hefur verið að dánarbúið getur ekki staðið undir útför hins látna, fjárhagsaðstoð vegna skyndilegs missis búslóðar eða annars eignamissis sem orðið hefur vegna bruna eða náttúruhamfara, heildarþrifa á íbúð sem er orðin það heilsuspillandi að illmögulegt er að búa við þær aðstæður og fjárhagsaðstoð sem veitt er í formi láns vegna sérstakra erfiðleika.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Þann 1. nóvember sl. var samþykkt tillaga Besta flokksins og Samfylkingarinnar um að fela Velferðarsviði að koma með tillögur að breytingum á reglum um fjárhagsaðstoð þ.m.t. heimildargreiðslum. Verið er að vinna að tillögum m.a. frá þeim sem vinna með þeim borgarbúum sem nýta sér þessar greiðslur og því eðlilegra að bíða eftir þessari vinnu.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna getur ekki fallist á það að fátækir séu látnir líða fyrir endurskoðunaráráttu meirihluta velferðarráðs. Vel er hægt að hækka umræddar heimildargreiðslur til jafns við hækkun fjárhagsaðstoðar þó endurskoðun fari fram.

5. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem lögð var fram á fundi velferðarráðs 6.desember s.l.
Velferðarráð samþykkir að fela Velferðarsviði að koma með tillögur um hvernig auka má valdeflingu fólks sem er í þörf fyrir þjónustu. Valdeflingu má t.d. auka með notkun á þjónustuávísunum eða þjónustutryggingu sem fylgir skilgreindri þörf. Þannig geti þeir sem hafa þörf fyrir þjónustu valið um hvernig þeir leysa úr henni og hvaðan þeir fá þjónustu. Um leið verður til hvati fyrir fjölbreyttari og sveigjanlegri velferðarúrræði sem byggja á þörfum fólksins sjálfs.

Samþykkt samhljóða að vísa tillögunni til umsagnar Velferðarsviðs.

Páll Hjalti Hjaltason vék af fundi kl. 15.00.

6. Lögð fram til kynningar samþykkt borgarráðs frá 29. nóvember s.l. á tillögu stýrihóps Youth in Europe – A Drug Prevention Programme, dags. 12. nóvember s.l. um að Reykjavíkurborg boði til alþjóðlegrar ráðstefnu 9. og 10. október 2013.
Formaður velferðarráðs og sviðsstjóri gerðu grein fyrir málinu.

7. Lagt fram til kynningar samkomulag velferðarráðuneytisins og Reykjavíkurborgar um framkvæmd verkefnisins VINNA OG VIRKNI – Átak til atvinnu 2013. Enn fremur lögð fram tillaga borgarstjóra dags. 21.nóvember 2012 um þátttöku Reykjavíkurborgar í verkefninu ásamt fylgiskjölum.

Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.

Jórunn Frímannsdóttir vék af fundi kl. 15.15.

8. Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu:
Velferðarráð óskar eftir því að Velferðarsvið dragi til baka auglýsingu eftir áhugasömum um rekstur neyðargistiskýla fyrir konur annars vegar og karla hinsvegar þar til ráðrúm hefur gefist til að fara yfir málið.

Tillagan var felld með þremur atkvæðum gegn einu.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Samkvæmt leiðbeiningum frá innkaupaskrifstofu skal miða við að samningar skuli gerðir til þriggja ára og að auglýst sé að lágmarki þremur mánuðum áður en samningar rennur út. Framundan er viðræðuferli við umsækjendur og í því ferli er mikilvægt að það komi skýrt fram að þjónustan og húsnæðið geti tekið breytingum í samræmi við nýja stefnu í málefnum utangarðsfólks sem samþykkt verður snemma á næsta ári. Setja þarf endurskoðunarákvæði í komandi samninga til að tryggja að hægt sé að breyta kröfum, ef það verður ofan á.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði harmar það að Velferðarsvið skuli ekki hafa haft samráð við starfshóp um þjónustu við utangarðsfólk áður en auglýst var eftir áhugasömum um rekstur gistiskýla. Starfshópurinn hefur ekki fjallað um kröfulýsingu sem fylgir auglýsingunni en þar er meðal annars reiknað með að starfsemin fari fram í núverandi húsnæði og ekki gerðar faglegar kröfur til starfsfólks.
Þetta er sérstaklega skaðlegt þar sem nú á í fyrsta skipti að semja um þrjú ár en ekki eitt eins og tíðkast hefur. Fenginn var frestur vegna núverandi samninga og vel hefði mátt framlengja hann til að gefa starfshópnum ráðrúm til að klára sína vinnu. Engin gögn hafa verið lögð fram þess efnis að Innkaupaskrifstofu fari fram á að samningar skuli vera til þriggja ára en það er sérstaklega slæmt að leggja upp með slíkt núna. Jafnframt er vakin athygli á því að í kröfulýsingu sem fylgir með auglýsingu Velferðarsviðs er nákvæm og í því ljósi er undarlegt að meirihluti velferðarráðs skuli nú tala um það að þjónustan og húsnæði geti tekið breytingum og setja megi endurskoðunarákvæði í komandi samninga.

9. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 13.desember s.l. þar sem óskað er eftir umsögn velferðarráðs um erindi frá framkvæmdastjóra Skógarbæjar, dags. 4.september s.l., varðandi stækkun Skógarbæjar – fjölgun rýma.

Samþykkt var að óska eftir umsögn Velferðarsviðs um málið.

Fundi slitið kl.16.35

Björk Vilhelmsdóttir
Heiða Kristín Helgadóttir Sverrir Bollason
Áslaug María Friðriksdóttir Þorleifur Gunnlaugsson