Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 296

Umhverfis- og skipulagsráð

UMHVERFIS- OG SKIPULAGSRÁÐ

Ár 2024, miðvikudaginn 31. janúar, kl. 9:00 var haldinn 296. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Pawel Bartozsek og áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Andrea Helgadóttir Magnússon. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Líf Magneudóttir og Unnur Benediktsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Borghildur Sölvey Sturludóttir, Brynjar Þór Jónsson, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir,
Inga Rún Sigurðardóttir og Hólmfríður Frostadóttir. Fundarritari var Glóey Helgudóttur Finnsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á hönnun og væntanlegum framkvæmdum Fossvogsbrúar, Öldu.

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Alda, nýja brúin yfir Fossvog verður glæsilegt mannvirki og nýtist fjölbreyttum ferðamátum. Hún gegnir lykilhlutverki í fyrsta áfanga Borgarlínu, liðkar fyrir umferð hjólandi milli Reykjavíkur og suðurhluta höfuðborgarsvæðisins og loks skapar möguleika á frábærri upplifun fyrir þau sem ganga og hlaupa. Stefnt er að því að vinna við landfyllingar hefjist í sumar og vinna við sjálfa brúarframkvæmdina á næsta ári. Við þökkum góða kynningu hönnun Öldu og hlökkum til að sjá hana rísa.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fossvogsbrú yrði 270 metra löng stálbrú, sem tengja á saman tvö jaðarsvæði: Kársnes og Nauthólsvík. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lýsa áhyggjum af því hve kostnaðaráætlun fyrir brúna hefur hækkað frá upprunalegum áætlunum, en hún nemur nú um 8,8 milljörðum króna. Ólíklegt er að sú kostnaðaráætlun standist enda er um mjög sérhæft mannvirki að ræða. Athyglisvert er að horfið hefur verið frá því að hafa ryðfrítt stál í burðarvirki brúarinnar, en í ljósi mikils sjó- og veðurálags má draga í efa að það sé skynsamleg ráðstöfun.Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa áhyggjur af neikvæðum áhrifum núverandi fyrirætlana á siglingar og sjósund, sem löng hefð er fyrir í Nauthólsvík, og hafa farið vaxandi. Athygli er jafnframt vakin á því að fyrirhugað brúarstæði er í aðflugsstefnu Reykjavíkurflugvallar og þarf því að gæta þess sérstaklega að byggingakranar og framkvæmdir á svæðinu almennt, ógni ekki flugöryggi.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Glærur í kynningu standast ekki skoðun. Myndir beina fókusnum að göngusvæðinu austan á brúnni og eru þær teknar milli 5 og 6 að morgni um hásumar ef marka má skuggana. Eins og fulltrúi Flokks fólksins fékk ábendingu um, þá er stórgalli að hafa ekki göngustíginn vestan megin og hjólastíginn austanmegin. Hér er verið að hygla hjólreiðamönnum í stað þess að leggja áherslu á gangandi  vegfarendur. Gönguleið er ávallt sjávarmegin á sambærilegum mannvirkjum. Flokkur fólksins hefur reynt að vekja athygli á þessu en fær enga hlustun. Upplifun gangandi vegfaranda er ekki mikils metin. Upplifun af sjávarsýn tapast þegar horft er yfir brú, handrið, strætisvagn að hjólandi vegfarendum.  Þetta er mikill “galli” í svo kostnaðarsömu mannvirki. Í svari við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um málið er gert lítið úr þessu með því að segja að “einhver skuggamyndun verður frá kantbitum í vesturkanti þar sem þeir standa hæst upp fyrir brúargólfið, en þar sem þeir eru lægri verður skuggamyndun ekki veruleg þar sem handrið er fremur gegnsætt” Fullyrt er að þessi tilhögun sé til að minnka þveranir en það stenst  ekki því að þegar þveranir eru taldar sést að þær eru jafnmargar hvort sem hjólreiðamenn fara vestan- eða austan megin.

    -    Kl. 09:19 tekur Hildur Björnsdóttir sæti á fundinum með rafrænum hætti.

    Magnús Arason hjá Eflu, Anders Plovgaard og Bryndís Friðriksdóttir hjá Vegagerðinni og Bjarni Rúnar Deildarstjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Keith Brownlie hjá Beam architects sem tekur sæti á fundinum með rafrænum hætti. USK22030185

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning á athugasemdum sem bárust á kynningartíma matsáætlunar og lýsingar umhverfismats aðalskipulagsbreytingar vegna Sundabrautar ásamt áætluðum viðbrögðum við þeim.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í gagni er sagt frá athugasemdum sem hafa borist um Sundabraut, þær eru margar. Flokkur fólksins þarf ekki endurtaka það sem kemur fram í athugasemdunum, en bendir þó á að lega Sundabrautar þarf að vera þannig að náttúrunni sé hlíft, einkum  náttúrulegum fjörum og strandsvæðum, sem hefur verið gengið á á undanförnum áratugum. Í þessu tilfelli þarf  einkum að taka tillit til umhverfis í Leiruvog og Blikastaðakró og hindra ekki vatnsskipti inn í þau svæði. Stefna á að þar verði byggðar brýr en ekki notast við landfyllingu.  Afar brýnt er að rannsóknir á áhrifum framkvæmda á straumafar og setflutninga verði gerðar og að hönnun brúar tryggi örugg vatnsskipti og að engin neikvæð áhrif verði af henni.

    Helga Jóna Jónasdóttir hjá Vegagerðinni, Ragnhildur Gunnarsdóttir, Aron Geir Eggertsson hjá Eflu og Haraldur Sigurðsson deildarstjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK22010109

    Fylgigögn

  3. Lögð fram greinargerð um stöðu sorphirðu í Reykjavík og svar við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um sorphirðu í Reykjavík.

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Við þökkum kynninguna og minnisblaðið. Tímamótabreyting með mjög fylgjandi jákvæðum umhverfisáhrifum hefur orðið á sorphirðukerfinu sem gerir sorphirðuna mun flóknari og umfangsmeiri. Það þýðir að það tekur lengri tíma að vinna upp tafahala en áður. Nú er lífrænum úrgangi safnað við heimili en samhliða hefur flokkun á plasti tvöfaldast milli ára. Líkt og fram kemur í minnisblaði sviðsins urðu tafirnar í kringum áramót vegna bilunar í fimm sorpbílum, veikinda, veðurs og annarra þátta. Í heimilishirðu var forgangsraðað í þágu hirðu almenns sorps og lífræns úrgangs sem eru þeir flokkar sem helst valda ólykt og laða að meindýr. Til að vinna á vandanum hefur verið unnið á laugardögum í desember og janúar og starfsfólkið hefur lagt mikið á sig til að vinna upp þann hala sem myndast. Einkaaðili sem sinnt hefur losun sorps úr grenndargámum sinnir öllum grenndargámum á höfuðborgarsvæðinu og hafa tafir við hirðu grenndargáma átt við í öllum sveitarfélögum. í nýju útboði verða skynjarar settir í alla grenndargáma sem eykur yfirsýn og svo verður bætt við möguleikum á févíti ef það vantar upp á losun. Áform eru uppi um að flýta endurnýjun vagnaflotans til að minnka líkur á að sambærilegar aðstæður endurtaki sig í framtíðinni.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Enda þótt Sorpa komi hvergi nærri  sorphirðu við heimili á höfuðborgarsvæðinu er ekki þar með sagt að Sorpa eða meirihlutinn í borginni geti fríað sig ábyrgð ef illa gengur.  Sorpa og borgin bera alltaf ábyrgðina. Terra sinnir losun á pappír, plasti, gleri og málmum skv. samningi í kjölfar útboðs. Miklir erfiðleikar hafa verið í sorphirðumálum þeim sem snýr að Terru. Tafir á hirðu og aukið álag á grenndarstöðvum m.a. þar sem hirðuaðilarnir Íslenska gámafélagið og Terra ákváðu skyndilega að fjarlægja endurvinnslutunnur sem þessir aðila buðu íbúum uppá. En hér má sjá galla útvistunar í hnotskurn. Þegar búið er að útvista verkefni og þjónustan versnar þvær meirihlutinn hendur sínar og segir að þetta komi okkur ekki við. Vel má sýna þessu skilning en ekki endalaust.  Umburðarlyndi þarf líka að vera á báða bóga. Fólk er enn að læra að flokka og venjast kerfinu. Sorpa hefur ekki alltaf sýnt því umburðarlyndi t.d. ef fólk hefur ekki flokkað rétt er tunnan ekki tekin. Það þarf að tæma tunnur þannig að fólk geti flokkað. Nýr samningur um leigu og losun grenndargáma fyrir pappír, plast, gler og málma tekur gildi nú í febrúar og vonandi mun þetta ganga betur en síðustu mánuði.

    Benedikt Traustason verkefnastjóri, Atli Ómarsson deildarstjóri og Þórólfur Jónsson deildarstjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK24010286

    Fylgigögn

  4. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa 25. janúar 2024. USK23010150

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Vegna neikvæðrar afgreiðslu skipulagsfulltrúa í 3. lið fundar frá 25. janúar, sem varðar Sigluvog 12, er bent á að það er hluti af skilmálum hverfisskipulaga að heimila breytingar á bílskúrum í íbúðir og því færi vel á að almennt taka vel í það þegar íbúar vilja gera það. Ekki eru lagt mat á þann rökstuðning skipulagsfulltrúa að heimila ekki breytinguna þar sem ekki sé til deiliskipulag eða hverfisskipulag fyrir reitinn en rétt kynni að vera að benda umsækjanda á að hverfisskipulag fyrir Laugardal sé í vinnslu fyrir hverfið og umrædd breyting kunni að vera heimil í framtíðinni enda sé fjölbreyttari nýting bílskúra almennt í anda hugmyndafræði hverfisskipulags.

     

    Fylgigögn

  5. Lögð fram umsókn P13 fjárfestinga ehf., dags. 11. október 2023, ásamt bréfi Birkis Ingibjartssonar, dags. 11. október 2023, um breytingu á skilmálum deiliskipulags reits 1.140.5 vegna lóðarinnar nr. 13-15 við Pósthússtræti. Í breytingunni sem lögð er til felst að heimilt verði að vera með gistiþjónustu í flokki II í íbúðum á 2. hæð hússins, samkvæmt tillögu, dags. 11. október 2023. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 25. janúar 2024.
    Lagt til að málinu verði synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.
    Synjað er beiðni um breytingu á deiliskipulagi með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa dags. 25. janúar 2024. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá  við afgreiðslu málsins.
    Vísað til borgarráðs.
    Sigríður Lára Gunnarsdóttir sérfræðingur tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23100149

    Fylgigögn

  6. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingafulltrúa 23. janúar 2024. USK22120096

    Fylgigögn

  7. Lagt fram málskot VA Arkitekta, dags. 27. nóvember 2023, vegna neikvæðrar afgreiðslu skipulagsfulltrúa frá 21. september 2023  um breytingu á deiliskipulagi Reynisvatnsáss vegna lóðarinnar nr. 124-126 við Haukdælabraut sem felst í stækkun lóðarinnar. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 21. september 2023.
    Umsögn skipulagsfulltrúa dags. 21. september 2023 staðfest. USK23120018

    Fylgigögn

  8. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að fá umfjöllun um þekkt sprungusvæði innan Reykjavíkur sbr. 15. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 17. janúar 2024.
    Tillagan er samþykkt USK24010169

  9. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fyrirkomulag og framvindu sorphirðu í Reykjavík. Sbr. 16. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 24. janúar 2024 ásamt svari sbr 3 liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 31. janúar 2024. USK24010248

    Fylgigögn

  10. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sbr. 45. liður fundargerðar borgarráðs 11. janúar 2024.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs skrifstofu stjórnsýslu og gæða. MSS24010107

  11. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Umhverfis- og skipulagsráð samþykkir að tryggja íbúum Reykjavíkur endurgjaldslausa poka fyrir umframúrgang meðan tafir á sorphirðu standa yfir. Sorphirða Reykjavíkur skilji pokana eftir fyrir utan heimili, þegar sorphirða hefur ekki staðist áætlun og umframsorp myndast við heimili. Greinargerð fylgir tillögunni.

    Frestað. USK24010351

  12. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks Fólksins:

    Fulltrúi Flokks fólksins vill ítreka þessa tillögu [USK23110322] á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 31. janúar 2024 en tillagan var lögð var fram 13. des. 2023 og hljóðaði eftirfarandi:
    Lögð fram svohljóðandi tillaga Flokks fólksins gerð verði breyting á samráðsfyrirkomulagi í kjölfar hönnunarsamkeppni. Lagt er til að um leið og vinningstillaga liggur fyrir skuli gera deiliskipulag í samræmi við vinningstillöguna til þess að hægt sé að gefa almenningi kost á að senda inn formlegar athugasemdir áður en að fullnaðarhönnun fer af stað: Flokkur fólksins leggur til að gerð verði breyting á samráðsfyrirkomulagi í kjölfar hönnunarsamkeppni.
    Lagt er til að um leið og vinningstillaga liggur fyrir skuli gera deiliskipulag í samræmi við vinningstillöguna til þess að hægt sé að gefa almenningi kost á að senda inn formlegar athugasemdir áður en að fullnaðarhönnun fer af stað. Nauðsyn þess að breyta þessu ferli kom glöggt í ljós í verkefni um Fossvogsbrú. Nú í september 2023 tæpum tveim árum eftir að vinningstillagan var tilkynnt var auglýst breyting á deiliskipulagi við brúna. Þá var hönnun brúarinnar nánast fullkláruð í trássi við gildandi deiliskipulag og athugasemdir almennings nánast tilgangslausar. Búið er að eyða allt of miklum tíma í hönnun til að hægt sé að breyta nokkru núna. Óhæft er með öllu að svör við athugasemdum séu að koma fram á sama fundi og samþykkt er að mæla með breytingunni fyrir borgarráð. Þeir sem senda inn athugasemdir gefst ekki kostur á að skoða svörin og koma með andmæli/viðbrögð við þeim. Til hvers er fólki boðið að koma með athugasemdir ef ekkert er gert við þær? USK24010344
     

  13. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Vísað er til máls nr. 2 í fundargerð skipulagsfulltrúa frá 11 janúar en þar var samþykkt að veita leyfi fyrir svalaskýli við vesturgafl á svölum á Rafstöðvarvegi 31. Í fundargerð var síðan búið að afmá alla umfjöllun um málið eins og það hafi aldrei verið tekið fyrir. Fulltrúi Flokks fólksins óskar skýringa á þessu og hvað þarna hefur átt sér stað? USK24010345

  14. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um óafgreidd mál Flokks fólksins hjá umhverfis- og skipulagsráði/sviði. Óskað er  eftir yfirliti yfir fyrirspurnir og tillögur frá Flokki fólksins ásamt dagsetningu þeirra sem enn er ósvarað/óafgreitt hjá umhverfis- og skipulagssviði. USK24010346

  15. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Sorpa tekur að sér fatasöfnun á kostnaðarverði. Þetta er mikið þarfaverk. Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hvað sé kostnaðarverðið?  Spurt er einnig hve mikið þessi þáttur hefur áhrif á hækkun gjalda hjá Sorpu? Væri það betra, hagkvæmara fyrir útsvarsgreiðendur ef þetta verk væri hjá öðrum aðilum en hjá Reykjavíkurborg? USK24010349

Fundi slitið kl. 12:10

Dóra Björt Guðjónsdóttir Hildur Björnsdóttir

Kjartan Magnússon Hjálmar Sveinsson

Unnur Þöll Benediktsdóttir Líf Magneudóttir

Pawel Bartoszek

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 31. janúar 2024