Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 234

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2022, miðvikudaginn 22. júní kl. 9:02, var haldinn 234. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Alexandra Briem, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Pawel Bartoszek og áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Baldursdóttir og Trausti Breiðfjörð Magnússon. 

Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Borghildur Sölvey Sturludóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Gunnar Hersveinn Sigursteinsson og Sigurjóna Guðnadóttir.  

Eftirtaldir starfsmenn sátu fundinn með rafrænum hætti: Bjarni Rúnar Ingvarsson. 

Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.  

Þetta gerðist: 

Þetta gerðist:

  1. Umhverfis- og skipulagsráð 2022 - 2026, tillaga um stofnun umhverfis- og skipulagsráðs - MSS22060046         Mál nr. US220118

    Lagt fram bréf borgarstjórnar dags. 9. júní 2022 um stofnun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Ráðið mun fara með umhverfis-, skipulags-, samgöngu- og byggingarmál. 

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Að mati Sósíalista er ekki verið að veita umhverfismálum nægan sess í þessu ráði. Óhjákvæmilega mun meginþunginn verða á skipulagsmálin á meðan að umhverfismálin lúta í lægri haldi. Nær hefði verið að halda umhverfisráðinu sér á báti þar sem umhverfismál fengju þá athygli og umræðu sem þau eiga skilið.

    Fylgigögn

  2. Umhverfis- og skipulagsráð 2022 - 2026, kosning í umhverfis- og skipulagsráð 2022-2026 - MSS22060046         Mál nr. US220119

    Lagt fram bréf borgarstjórnar dags. 8. júní 2022 um kosningu sjö fulltrúa í umhverfis- og skipulagsráð og sjö til vara til fjögurra ára. Einnig er lagt fram bréf borgarstjórnar dags. 8. júní 2022 um tilnefningu áheyrnarfulltrúa í umhverfis- og skipulagsráði.

    Fylgigögn

  3. Umhverfis- og skipulagsráð 2022 - 2026, kosning um varaformann         Mál nr. US220128

    Kosning varaformanns umhverfis- og skipulagsráðs 2022 - 2026.

    Lagt er til að Pawel Bartoszek verði kosinn varaformaður umhverfis- og skipulagsráðs.

    Samþykkt með fimm atkvæðum. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu. 

    Alexandra Briem varamaður formanns umhverfis- og skipulagsráðs felur nýjum varaformanni að taka við fundarstjórn.

  4. Umhverfis- og skipulagsráð 2022 - 2026, fundadagatal         Mál nr. US220120

    Lagt fram fundadagatal umhverfis- og skipulagsráðs fyrir júní til desember 2022.

    -    Kl. 9:08 tekur Hildur Björnsdóttir sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  5. Umhverfis- og skipulagsráð 2022 - 2026, kynning          Mál nr. US220121

    Kynnt starfsemi umhverfis- og skipulagssviðs.

    Ámundi V. Brynjólfsson, Árný Sigurðardóttir, Ásdís Ásmundsdóttir, Eva Kristinsdóttir, Hjalti Jóhannes Guðmundsson og Nikulás Úlfar Másson taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    (A) Skipulagsmál

  6. Afgreiðslufundir skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, fundargerð         Mál nr. SN010070

    Lagðar fram fundargerðir embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 31. maí 2022, 3. júní 2022 og 10. júní 2022.

    Fylgigögn

  7. Aðalskipulags Reykjavíkur 2040, kynning        Mál nr. US220126

    Kynning á helstu áhersluatriðum aðalskipulags Reykjavíkur og drögum um framtíðarsýn aðalskipulags Reykjavíkur 2040.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áform síðasta meirihluta um að koma húsaskjóli yfir alla þá sem vilja búa í Reykjavík tókst ekki. Ástæða er að ekki var byggt nóg. Ljóst er að ekki dugar bara að þétta. Byggja þarf víðar, sjálfbær hverfi þar sem fólk vill byggja og búa. Miður er að byggingar við strandlengju varpa skugga á heilu hverfin. Hægt gengur að sjá hvernig styrkja á innviði í grónum hverfum samhliða þéttingu. í Laugarnesi og víðar eru framtíðarskólamál í óvissu en nemendum fjölgar. Úlfarsárdalur sem er 15 ára hverfi er ekki enn sjálfbært. Þess er vænst að byggt verði þar af kappi enda nægt rými. Gengið hefur verið á náttúru og lífríki til að þétta byggð t.d. með landfyllingaráformum m.a. við Elliðaárósa. Tillögur um mótvægisaðgerðir eru aumar. Að fylla fjörur er greinilega freistandi aðgerð til þéttingar en „þétt“ þýðir ekki endilega mannvænt og „þétt“ þýðir ekki endilega gæði eða hagkvæmni. Eyðilegging á náttúru og skemmd á lífríki verður þegar sprengt verður fyrir Arnarnesvegi og Vatnsendahvarfið klofið, framkvæmd sem gagnast Kópavogi fyrst og fremst en sem mun leiða til mikillar aukningar á umferð á Breiðholtsbraut. Þrengt er að þróun fyrirhugaðs Vetrargarðar. En bíður að sjá hvernig atvinnumálum í hverfum verður háttað eins og talað var um. 

    Haraldur Sigurðsson deildarstjóri aðalskipulags tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  8. Hverfisskipulag, Laugardalur 4.1 Laugarnes, kynning     (04.1)    Mál nr. SN220068

    Kynning á helstu áhersluatriðum hverfisskipulags og drögum um framtíðarsýn hverfisskipulags Laugardals hverfi 4.1. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Skipulagsyfirvöld hafa tilkynnt að gera ætti betur í samráðsferli og að byrja með autt blað. Einnig var tekið fram að forsendurnar frá aðalskipulaginu væru komnar á blað og með því er gefið í skyn að þeim verði ekki breytt. Svo varla er því alveg um autt blað að ræða. Ef hávær mótmæli koma gegn „forsendum“ þá hlýtur að verða að hlusta á það. Það þarf að vera hægt að breyta fyrstu tillögum og þá jafnvel í grundvallaratriðum. Í stuttu máli er staðan þannig að samráð eins og skipulagsyfirvöld lýsa því er ekki alveg í samræmi við eins og íbúar hverfa eru að upplifa það. Þetta vita skipulagsyfirvöld. Háværar raddir hafa verið víða um borg á síðasta kjörtímabili þar sem fram hefur komið megn óánægja með ýmsa hluti i hverfisskipulagi borgarinnar. Mest er kvartað yfir of miklu byggingarmagni, offorsi í þéttingu byggðar, fjarlægingu á bílastæðum og að þrengt er að fólki úr öllum áttum. Fólk hefur áhyggjur af umferð og aðgengi. Umferðarteppur eru stórvandamál því samgöngur fylgja ekki skipulagsbreytingum í hverfum. Annar vandi er að innviðir í grónum hverfum eru sprungnir eins og skólar og ekki liggur fyrir hvernig leysa á úr þeim málum. 

    Ævar Harðarson deildarstjóri hverfisskipulags tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  9. KR svæðið - Frostaskjól 2-6, nýtt deiliskipulag     (01.516.9)    Mál nr. SN210824

    Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að nýju deiliskipulagi fyrir KR svæðið. Í tillögunni felast markmið um að bæta aðstöðu KR til íþrótta og félagsstarfsemi með byggingu íþrótta og þjónustubygginga. Auk þess eru áform um að auka fjölbreytni svæðisins með byggingu íbúða á jöðrum lóðarinnar í samræmi við markmið aðalskipulagsins samkvæmt uppdráttum ASK Arkitekta ehf. og Bj. Snæ slf. dags. 5. janúar 2022, br. 19. maí 2022. Einnig er lagt fram minnisblað Alta dags. 28. desember 2018, drög að húsakönnun Borgarsögusafns Reykjavíkur, skýrsla 221, Samgöngumat Eflu dags. 5. nóvember 2021 og samkomulag á milli Reykjavíkurborgar og KR vegna uppbyggingar á svæðinu dags. 20. maí. 2021. Tillagan var auglýst frá 2. mars 2022 til og með 13. apríl 2022. Eftirtaldir sendu athugasemdir: Þórlaug Jónsdóttir dags. 24. mars 2022, Sólveig Heiða Foss og Patrick Örn Hansen dags. 8. apríl 2022, Ólöf Ólafsdóttir og Helgi Snær Sigurðsson dags. 10. apríl 2022, Finnur Hilmarsson f.h. stjórnar Húsfélagsins Flyðrugranda 2-10 og Sindri Tryggvason f.h. stjórnar Húsfélagsins Flyðrugranda 12-20 dags. 12. apríl 2022, Björgvin Á. Bjarnason og Kristjana S. Kjartansdóttir dags. 12. apríl 2022, Björn Helgason f.h. Húsfélaganna á Meistaravöllum 31, 33 og 35 dags. 13. apríl 2022, Ólafur Friðriksson dags. 13. apríl 2022, Íbúasamtök Vesturbæjar dags. 13. apríl 2022 og Hilmar Þór Björnsson dags. 13. apríl 2022. Einnig er lagt fram bréf íbúaráðs Vesturbæjar vegna bókunar fulltrúa Pírata og fulltrúa íbúasamtaka dags. 18. mars 2022, umsögn Minjastofnunar Íslands dags. 22. mars 2022 og Veitna ohf. dags. 13. apríl 2022. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 19. maí 2022. Lagt er til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem koma fram í umsögninni.

    Samþykkt með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 19. maí 2022. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu.

    Vísað til borgarráðs.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Með tillögunum er gert er ráð fyrir fjölnota knatthúsi auk stórbættrar áhorfendaaðstöðu. Þá er gert ráð fyrir 100 nýjum íbúðum auk atvinnuhúsnæðis á jarðhæð. Bílastæði eru í samræmi við bílastæðastefnu borgarinnar. Tillögurnar gera ráð fyrir stórbættri íþróttaaðstöðu fyrir hverfið, munu fjölga íbúum og efla þannig verslun og þjónustu á svæðinu.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna löngu tímabærri uppbyggingu íþróttamannvirkja fyrir KR við Frostaskjól, en félagið hefur búið við einhverja verstu aðstöðu allra hverfisfélaga í Reykjavík. Fulltrúarnir harma þó að félagið þurfi að láta af hendi mögulegt framtíðarsvæði til íþróttauppbyggingar, svo fjármagna megi fyrirhuguð mannvirki. Betur færi á því að félagið fengi samskonar stuðning til uppbyggingar aðstöðu og önnur hverfisfélög innan borgarinnar. Þá undirstrika fulltrúarnir mikilvægi þess að sjónarmiðum íbúa verði mætt, og að innviðir hverfisins verði efldir svo vel megi taka á móti nýjum íbúum sem óhjákvæmilega munu fylgja uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á svæðinu.

    Fulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Vinstri grænna fagnar því að Meistaravellir og KR-svæðið gangi í endurnýjun lífdaga og að fjölbreytt og betri íþróttaaðstaða, bæði innanhúss sem utan, rísi í náinni framtíð. Það er löngu orðið tímabært að KR-ingar fái úrbætur sinna mála. Hins vegar er eitt og annað í útfærslu íbúðahúsanna sem gæti farið betur og kýs fulltrúinn að sitja hjá í bili en styður engu að síður þær hugmyndir að þarna verði byggð heimili framtíðar Vesturbæinga.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins tekur undir margar af þeim athugasemdum sem hafa borist og hefur áður bókað um sumar þeirra. Spurning er hvort taka eigi tillit til þeirra? Ítrekað er talað um áhyggjur af byggingarmagni því sem auglýst er á svæðinu og hæð húsa sbr. Íbúðahúsið sem auglýst er við Kaplaskjólsveg/Flyðrugranda er sagt verða 3ja-4ra hæða en miðað við teikningar mætti skilja það svo að það verði á hæð við fjölbýlishúsin sem þegar standa við Kaplaskjólsveg og eru það 5 hæða hús. Áhyggjur eru af skuggavarpi á einstaka byggingar. Ennfremur er talað um þrengsl og skort á bílastæðum við nýju mannvirkin þegar keppnisleikir fara fram en næg eru þrengslin fyrir. Horfast verður í augu við raunveruleikann. Bílastæðavandi er einnig í nærliggjandi götum. Skoða þarf að draga úr byggingarmagni og fjölga bílastæðum. Markmið er að bæta félagsaðstöðu sem hlýtur að vera aðalatriðið. í ljósi áætlunar um mikla þéttingu allt um kring má ætla að umræða þurfi að vera um þessar tillögur og nú reynir á hæfileika meirihlutans að „hlusta“. Hér hefði kannski verið betra að byrja með auðara blað? Sennilega eru flestir hlynntir einhverri þéttingu en gengið hefur verið víða of langt í ákafanum að þétta þannig að mörgum, þykir nóg um.

    Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  10. Kjalarnes, Jörfi/Norðurgrund, breyting á deiliskipulagi     (32.472.0)    Mál nr. SN220294

    Lögð fram tillaga Arkþing/Nordic f.h. umhverfis- og skipulagssviðs dags. 11. maí 2022 er varðar breytingu á deiliskipulagi Grundarhverfis á Kjalarnesi. Í tillögunni felst uppbygging á íbúðarhúsnæði og nýjar lóðir skilgreindar innan íbúðarsvæðis ÍB57 skv. Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Um er að ræða fyrsta áfanga af tveimur möguleikum með allt að 77 íbúðum. Meðalstærð íbúða er um 100 fm. Einnig eru lagðir fram deiliskipulagsuppdrættir og skuggavarp dags. 14. júní 2022. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.

    Frestað.

  11. Borgarlína - Steinahlíð að Katrínartúni, skipulagslýsing         Mál nr. SN210755

    Að lokinni kynningu er lögð fram að nýju skipulagslýsing fyrir borgarlínu frá Steinahlíð að Katrínartúni. Í lýsingunni felast megin áherslur/atriði í gerð deiliskipulags fyrir göturými borgarlínunnar í samræmi við fyrstu framkvæmdalotu borgarlínunnar dags. nóvember 2021. Lýsingin var kynnt frá 22. nóvember til 15. desember 2021. Eftirtaldir sendu athugasemdir/ábendingu: Gísli Vilhjálmsson f.h. Kjálka ehf. dags. 9. desember 2021, Egill Jóhann Ingvason og Jón Guðmundsson dags. 14. desember 2021, Fortis lögmannsstofa f.h. eiganda Suðurlandsbrautar 26 dags. 15. desember 2021, Bjarni Pálsson f.h. Mænir Reykjavík ehf. dags. 15. desember 2021, Bjarni Pálsson f.h. LHF ehf. dags. 15. desember 2021, skrifstofa umhverfisgæða dags. 28. desember 2021 og Reitir fasteignafélag dags. 6. janúar 2022. Einnig er lögð fram umsögn stjórnar íbúasamtaka Laugardals dags. 15. desember 2021, umsögn Veitna dags. 15. desember 2021, umsögn Minjastofnunar Íslands dags. 17. desember 2021 og umsögn Skipulagsstofnunar dags. 17. janúar 2022. Athugasemdir kynntar.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Kynntar hafa verið athugasemdir við skipulagslýsingu fyrir þennan lykilhluta fyrsta áfanga Borgarlínu. Það er stefna meirihlutans að flýta Borgarlínu og við leggjum því áherslu á að hratt og vel sé unnið úr framkomnum athugasemdum og svo fyrstu drög að deiliskipulagi fyrir svæðið geti litið dagsins ljós sem fyrst. Mikilvægt er að huga að sem hæstri flutningsgetu Borgarlínunnar og miklum gæðum umhverfis hennar þegar endanleg ákvörðun um útfærslu hennar á svæðinu er tekin.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hvergi er minnst á hreyfihamlaða og leiðir til að tryggja þeim næg bílastæði, þegar ákveðið hefur verið að fækka þeim á Suðurlandsbraut. Það verður að tryggja aðgengið.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Mótmæli, athugasemdir eru mjög keimlíkar. Áhyggjur eru að aðgengi að fyrirtækjum vegna fækkunar á akreinum og fækkun bílastæða. Lesa má út úr þessum bréfum sem fylgja málinu og fólk er áhyggjufullt, fyrirtæki eru áhyggjufull yfir að þjónustuþegar komist ekki að fyrirtækjunum, sérstaklega þeir sem koma á einkabílum sínum. Ekki er minnst á hreyfihamlaða og leiðir til að tryggja þeim næg bílastæði í nálægð við þjónustufyrirtæki og verslanir. Eins og réttilega kemur fram er ekki hægt að skipa fólki að taka borgarlínu. Sá ferðamáti kann ekki að henta og síðan þykir súrt að með tilkomu eins samgöngumáta er verið að skerða annan ferðamáta. Flokkur fólksins vill að hlustað sé meira á fólkið og taka á tillit til með hvaða hætti það vill haga sínum samgöngustíl. Hér vantar lýðræðishugsun. Sjálfsagt er að auka fjölbreytileika ferðamáta en ekki þó þannig að fyrirtæki finni sig knúin til að flýja burt af svæðinu. Ef Borgarlínan á að virka þarf að vanda til hennar og gefa aðlögunartíma. Borgarlína á ekki að koma á kostnað annarra ferðamáta. 

    Lilja G. Karlsdóttir frá VSB verkfræðingum tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  12. Fálkabakki 1, Fálkaborg, breyting á hverfisskipulagi     (04.617)    Mál nr. SN220271

    Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á hverfisskipulagi Breiðholts I vegna lóðarinnar nr. 1 við Fálkabakka. Í breytingunni felst stækkun á skipulagssvæði til norðurs, stækkun á leikskólalóð og núverandi byggingarreit leikskólans ásamt því að bætt er við byggingarreit fyrir tímabundna kennslustofu, samkvæmt uppdr. Landslags dags. 5. maí 2022. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.

    Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

    Vísað til borgarráðs.

    Fylgigögn

  13. Bræðraborgarstígur 1, 3 og 5, lýsing         Mál nr. SN220053

    Lögð fram umsókn Yrki arkitekta ehf. dags. 26. janúar 2022 ásamt drögum að lýsingu dags. 4. apríl 2022 vegna gerð nýs deiliskipulag fyrir lóðirnar nr. 1, 3 og 5 við Bræðraborgarstíg. Tilgangur með nýju deiliskipulagi fyrir svæðið er að skilgreina og setja skilmála um umfang nýbygginga á lóðum Bræðraborgarstíg 1 og 3. Markmiðið er að ná fram tillögu sem tekur tillit til nærumhverfisins og virðir sögu staðarins í samræmi við aðferðir og tækniþekkingu okkar tíma. Lagt er til að lýsingin verði kynnt og leitað umsagna þeirra aðila sem taldir eru upp í henni.

    Samþykkt er að kynna lýsingu að deiliskipulagi í samræmi við 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Leita skal umsagna um lýsinguna hjá Skipulagsstofnun, Minjastofnun, Veitum og setja hana í almenna kynningu. 

    Vísað til borgarráðs.

  14. Arnarnesvegur, nýtt deiliskipulag      (04.9)    Mál nr. SN210221

    Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga verkfræðistofunnar Eflu f.h. Reykjavíkurborgar og Kópavogs að nýju deiliskipulag Arnarnesvegar 3. áfanga. Deiliskipulagstillagan nær til hluta Arnarnesvegar, nýjum 2+2 vegi ásamt tveimur nýjum hringtorgum, frá gatnamótum Arnarnesvegar og Rjúpnavegar að fyrirhuguðum gatnamótum Breiðholtsbrautar og Arnarnesvegar og veghelgunarsvæða hans sem nær að jafnaði 30 metra út frá miðlínu vegarins. Hluti veghelgunarsvæðis Arnarnesvegar er innan sveitarfélagsmarka Reykjavíkur, en stærsti hluti vegarins liggur innan sveitarfélagsmarka Kópavogs. Samhliða er gert ráð fyrir stofnstíg, aðskilinn hjóla- og göngustíg, frá Rjúpnavegi í Kópavogi og að Elliðaárdal ásamt tengistígum sem og meðfram Breiðholtsbrautinni og undir fyrirhugaða brú yfir Breiðholtsbraut. Jafnframt er gert ráð fyrir göngubrú/vistloki yfir veginn. Arnarnesvegur sem liggur innan marka skipulagssvæðisins er um 1,9 km að lengd og liggur frá suðaustur hluta Leirdals að grænu opnu svæði norðan Breiðholtsbrautar, samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti verkfræðistofunnar Eflu dags. 13. desember 2021, br. 13. maí 2022. Einnig er lögð fram greinargerð dags. 13. desember 2021, br. 13. maí 2022. Tillaga var auglýst frá 21. janúar 2022 til og með 11. mars 2022. Eftirtaldir sendu athugasemdir: Elísabet Rakel Sigurðardóttir dags. 10. janúar 2022, Ívar Örn Lárusson dags. 1. mars 2022, Ríkarður Sigmundsson dags. 3. mars 2022, Valgerður Helgadóttir dags. 4. mars 2022, Elísabet Guðrún Jónsdóttir dags. 8. mars 2022, Kristján Jónsson dags. 8. mars 2022, Bjarni Gunnarsson, dags. 10. mars 2022, Helgi S. Ólafsson dags. 10. mars 2022, Hjalti Atlason dags. 10. mars 2022, Guðbrandur Gimmel dags. 10. mars 2022, Sveinborg Hlíf Gunnarsdóttir dags. 11. mars 2022, Vinir Vatnsendahvarfs dags. 10. mars 2022, Ágústa Ýr Þorbergsdóttir dags. 10. mars 2022 og Halldór Páll Gíslason dags. 11. mars 2022. Að loknum athugasemdafresti barst athugasemd frá Bernharði Ólafssyni, Soffíu Eiríksdóttur, Aleksöndru Kojic og Heiðari Ásberg Atlasyni dags. 18. mars 2022. Einnig eru lagðar fram umsagnir frá eftirfarandi: Minjastofnun Íslands dags. 8. febrúar 2022, Veðurstofa Íslands dags. 28. febrúar 2022, Vegagerðin dags. 28. febrúar 2022, Umhverfisstofnun dags. 4. mars 2022, Náttúrufræðistofn Íslands dags. 4. mars 2022, íbúaráð Breiðholts dags. 8. mars 2022, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur dags. 10. mars 2022, Skipulagsstofnunar dags. 16. mars 2022 og slökkvilið höfuðborgarsvæðisins 20. apríl 2022. Einnig er lagt fram minnisblað Eflu, dags. 13. maí 2022, þar sem fram koma sameiginleg viðbrögð Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar við innsendum umsögnum og athugasemdum. Lagt er til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem koma fram í minnisblaðinu.

    Frestað.

  15. Elliðaárdalur, breyting á deiliskipulagi      (04.2)    Mál nr. SN210780

    Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Elliðaárdals. Breytingin felst í að skipulagsmörkum deiliskipulagsmarka Elliðaárdals er breytt og minnkar skipulagssvæðið um 1,7 ha. Breytingin er tilkomin vegna fyrirhugaðra gatnamóta Breiðholtsbrautar og Arnarnesvegar sem verða utan skipulagssvæðis. Minnkunin er til að samræma mörk deiliskipulags Elliðaárdals við nýtt deiliskipulag Arnarnesvegar, samkvæmt uppdr. Landslags dags. 20. september 2021, br. 19. maí 2022. Tillagan var auglýst frá 21. janúar 2022 til og með 4. mars 2022. Eftirtaldir sendu athugasemdir: Hollvinasamtök Elliðaárdals dags. 4. mars 2022. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 19. maí 2022. Lagt er til að tillagan verði samþykkt.

    Frestað.

    (B) Byggingarmál

  16. Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa, fundargerð         Mál nr. BN045423

    Lagðar fram fundargerðir afgreiðslufundar byggingarfulltrúa frá. 24. maí 2022, 31. maí 2022, 7. júní 2022 og 14. júní 2022.

    (E) Umhverfis- og samgöngumál

    Fylgigögn

  17. Laugavegur milli Rauðarárstígs og Snorrabrautar, tillaga USK22010020         Mál nr. US220123

    Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 15. júní 2022 þar sem lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki eftirfarandi:

    Bann við akstri vélknúinna ökutækja á Laugavegi milli Rauðarárstígs og Snorrabrautar. Undanþeginn banninu er annars vegar akstur Strætó og hins vegar akstur vegna vöruafgreiðslu klukkan 7-11 virka daga og 8-11 á laugardögum.

    Ofangreint verði merkt með viðeigandi umferðarmerkjum og yfirborðsmerkingum í samræmi við reglugerð 289/1995, um umferðarmerki og notkun þeirra, með áorðnum breytingum.

    Í samræmi við 1. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, hefur tillagan verið borin undir og hlotið samþykki lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

    Samþykkt með fimm atkvæðum með vísan til c liðar 1. gr. í viðauka 1.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, um fullnaðarafgreiðslur skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs í samræmi við 1. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Tillögurnar tengjast framkvæmdum á Hlemmtorgi sem eru meðal forgangsaðgerða í samstarfssáttmála hins nýja meirihluta. Breytingarnar eru í samræmi við samþykkt deiliskipulag Hlemmtorgs og miða að því að gera umhverfi torgsins skemmtilegra og gönguvænna, en að sjálfsögðu eru reiðhjól og hlaupahjól áfram velkomin, hvort sem þau eru fótstigin eða rafknúin. Við hlökkum til að sjá þessar hugmyndir verða að veruleika.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lýsa áhyggjum af því að breytt umferðarskipulag á svæðinu, og veruleg fækkun bílastæða fyrir íbúa, hafi ekki hlotið nægilega kynningu í nærumhverfinu. Jafnvel þó deiliskipulag hafi þegar verið kynnt er hér um að ræða umtalsverða breytingu sem haft getur nokkur áhrif á íbúa og atvinnurekendur og óljóst hvort hagsmunaaðilar séu nægilega upplýstir. Mikilvægt er að kynna vel þau úrræði sem íbúum munu bjóðast í framhaldinu.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það verður að vera sýnilegt að fatlaðir með stæðiskort megi aka um götuna og leggja, ef svo er.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Banna á akstur vélknúinna ökutækja á Laugavegi milli Rauðarárstígs og Snorrabrautar. Undanþeginn banninu er annars vegar akstur Strætó og hins vegar akstur vegna vöruafgreiðslu klukkan 7-11 virka daga og 8-11 á laugardögum. Flokkur fólksins spyr, en hvað með fólkið sem býr á þessu svæði. Flokkur fólksins hefur áður bókað um að ekki er tekið tillit til þeirra sem þarna búa. Þetta fólk eins og annað fólk þarf að koma vistun heim til sín og þarf því að geta komið að dyrum sínum með bíl sinn til að afferma. Það eru ekki allir sem geta sett hluti, stóra og þunga undir höndina og gengið með þá mislangar vegalengdir. Það er mikilvægt að íbúum á þessu svæði verði gefið formlegt leyfi til að aka bíl sínum upp að dyrum til að afferma vörur/vistir eða ef flytja þarf þunga hluti inn á heimilið. Það eru leiðir og leyfi fyrir fyrirtæki að losa vörur en ekki fyrir íbúa svæðisins.

    Fylgigögn

  18. Rauðarárstígur norðan Hverfisgötu, tillaga USK22010020         Mál nr. US220124

    Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 8. júní 2022 þar sem lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki eftirfarandi fyrir Rauðarárstíg norðan Hverfisgötu:

    ·      Botnlangi Rauðarárstígs frá Bríetartúni til suðurs verði vistgata.

    · Tvö bifreiðastæði innst í botnlanga verði merkt sem bifreiðastæði fyrir hreyfihamlaða.

    · Þrjú bifreiðastæði vestanmegin í botnlanganum verði merkt sem biðstöð leigubifreiða.

    · Fjögur bifreiðastæði vestanmegin í botnlanganum verði merkt sem bifreiðastæði eingöngu eru ætluð bifreiðum sem þurfa rafhleðslu.

    Bifreiðastæðin verði merkt með viðeigandi umferðarmerkjum og yfirborðsmerkingum í samræmi við reglugerð nr. 289/1995, um umferðarmerki og notkun þeirra, með áorðnum breytingum.

    Í samræmi við 1. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, hefur tillagan verið borin undir og hlotið samþykki lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu: 

    Lagt er til að fyrirliggjandi tillaga um breytingar á umferðarskipulagi á Rauðarárstíg verði kynnt fyrir íbúum og rekstraraðilum á viðkomandi götukafla og þeim gefinn kostur á athugasemdum áður en tillagan verður tekin til afgreiðslu í ráðinu.

    Tillaga felld með fimm atkvæðum Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði með tillögunni.

    Þá var tekin til afgreiðslu upphafleg tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. 

    Tillagan var samþykkt með vísan til c liðar 1. gr. í viðauka 1.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, um fullnaðarafgreiðslur skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs í samræmi við 

    1. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, með fimm atkvæðum Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata Viðreisnar og Vinstri grænna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Tillögurnar tengjast framkvæmdum á Hlemmtorgi sem eru meðal forgangsaðgerða í samstarfssáttmála hins nýja meirihluta. Breytingarnar eru í samræmi við samþykkt deiliskipulag Hlemmtorgs og miða að því að gera umhverfi torgsins skemmtilegra og gönguvænna, en að sjálfsögðu eru reiðhjól og hlaupahjól áfram velkomin, hvort sem þau eru fótstigin eða rafknúin. Við hlökkum til að sjá þessar hugmyndir verða að veruleika.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er gott að sjá að gert sé ráð fyrir stæðum fyrir hreyfihamlaða.

    Fylgigögn

  19. Samþykkt um göngugötur, tillaga USK22060048         Mál nr. US220122

    Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssvið dags. 15. júní 2022 þar sem óskað er að umhverfis‐ og skipulagsráð afgreiði tillögu að samþykkt fyrir göngugötur í Reykjavík.

    Samþykkt.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Göngugötur eru komnar til að vera. Reglurnar nú snúa að notkun á göngugötum og umferð um þær. Komið er á svokölluðum göngugötukortum sem íbúar og rekstraraðilar sem þurfa að nýta göngugötuna til að koma með aðföng eða leggja bílum á bílastæðum á lóð geta sótt um.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í 6. grein samþykktarinnar stendur að það megi hafa viðburði án tónlistar á göngugötum og það þá einungis í klukkustund á sama staðnum. Eftir það megi listamaður ekki halda viðburð nema vera búinn að færa sig um 50 metra. Þetta eru of þröng skilyrði sem er verið að setja fólki. Listafólk má ekki spila tónlist samkvæmt þessu og tjá þannig list sína án þess að sækja um leyfi hjá borginni. Þetta stuðlar ekki að lifandi og spennandi list á göngugötunum og hamlar þeirri tjáningu of mikið. Það að mega ekki vera með viðburð lengur en í klukkustund hamlar því líka að fólk hafi fyrir því að sýna verk sín og leyfa gestum að njóta menningarinnar sem gæti þrifist á göngugötunni.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Eitt og annað er eftirtektarvert í tillögu um samþykkt um göngugötur. Viðburður án tónlistar með allt að þremur listamönnum er leyfður alla daga frá kl. 10.00 - 20.00 að því gefnu að listamaður færi sig að minnsta kosti um 50 metra frá fyrri staðsetningu á klukkustundarfresti. En hvað með skemmtistaði, næturklúbba við göngugötur og opnunartíma þeirra? Það búa fjölskyldur/barnafjölskyldur við göngugötur eins og aðrar götur. Fylgja þarf reglugerð um hávaðamengun og virkja heilbrigðisyfirvöld/umhverfisnefnd við að takmarka hávaða. Komið er inn á skreytingar, setja á blómaker í fyrrum bílastæði. Margir sakna bílastæða á þessu svæðum enda treysta sér ekki allir í bílastæðahús. Bílar með stæðiskort geta ekið göngugötur og eiga að geta lagt í þeim í sérmerkt stæði en þau eru ekki að finna í öllum göngugötum. Talað er um vörulosun og reglur í því sambandi. Íbúar við göngugötur þurfa eins og annað fólk að koma vistun heim til sín og þarf því að geta komið að dyrum sínum með bíl sinn til að afferma ef ekki er hægt að handbera vörur. Fyrir þá íbúa sem eiga bíla er ekki vitað hvort þeir megi aka með þungar og miklar vörur/vistir upp að dyrum sínum.

    Fylgigögn

  20. Borgarhönnunarstefna, kynning, tillaga         Mál nr. US220127

    Lögð fram tillaga, ódags., þar sem lagt er til að settur verði á fót starfshópur sem vinni drög að borgarhönnunarstefnu í samráði við umhverfis- og skipulagsráð. Litið verði til til grænna lífsgæðaáherslna í arkitekta- og borgarhönnunarstefnum í borgum nágrannalandananna og settur saman skýr listi sem taki á forgangsröðun þegar kemur að hönnun almenningsrýmis í þágu virkra ferðamáta og græns yfirbragðs sem og kröfur til byggingargerðar með tilliti til ýmissa lífsgæða eins og birtuskilyrða. Meðfram vinnunni verði unnar viðeigandi greiningar, tímasettar úrbótaáætlanir og úrbætur á verkferlum eftir þörfum.

    Frestað.

  21. SORPA bs., fundargerð         Mál nr. US130002

    Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. nr. 467 dags. 29. apríl 2022 ásamt fylgigögnum.

    -    Kl. 11:36 víkur Kolbrún Baldursdóttir af fundi.

    Fylgigögn

  22. Úthlutun úr styrktarsjóði fyrir fjöleignarhús, til uppsetningar á hleðslustöðvum fyrir rafbíla, tillaga         Mál nr. US200386

    Lögð fram til afgreiðslu tillaga umhverfis- og skipulagssviðs um úthlutun á styrkjum til húsfélagsins að Þorláksgeisla 43 úr styrktarsjóði til uppsetninga á hleðslustöðvum fyrir rafbíla við fjöleignarhús, ásamt fylgigögnum.

    Samþykkt.

    (D) Ýmis mál

    Fylgigögn

  23. Ármúli 38, kæra 32/2022     (01.295.1)    Mál nr. SN220321

    Lagt fram erindi frá úrskuðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 20. apríl 2022 ásamt kæru dags. 12. apríl 2022 þar sem kærð er ákvörðun byggingafulltrúa Reykjavíkur frá 19. október 2021 um samþykkt á byggingarleyfi máls nr. BN059388, Ármúli 38. 

  24. Hrísateigur 15, kæra 52/2022     (01.360.1)    Mál nr. SN220367

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 25. maí 2022 ásamt kæru dags. 25. maí 2022 þar sem kærður er dráttur á afgreiðslu umsóknar kæranda nr. BN059941, byggingarleyfisumsókn og varðar eign kæranda að Hrísateig 15.

  25. Höfðabakki 1, kæra 56/2022     (04.070.0)    Mál nr. SN220369

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 9. júní 2022 ásamt kæru dags. 9. júní 2022 þar sem kærð er afgreiðsla byggingarfulltrúa um synjun á breytingu á skrifstofuhúsnæði í íbúðir við Höfðabakka 1. 

  26. Flókagata 4, kæra 48/2022, úrskurður     (01.247.1)    Mál nr. SN220308

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlundamála dags. 17. maí 2022 ásamt kæru dags. 16. maí 2022 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar 12. apríl 2022 á fyrirspurn um samþykki fyrir áður gerðri íbúð í kjallara að Flókagötu 4. Einnig er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 24. maí 2022.

  27. Garðastræti 11A, kæra 150/2021, umsögn     (01.136.1)    Mál nr. SN210671

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 24. september 2021 ásamt kæru dags. 23. september 2021 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa um að heimila skúr á lóð Hákots, Garðastræti 11A. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 2. nóvember 2021. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 31. mars 2022.

  28. Laugavegur 178, kæra 183/2021, umsögn     (01.251.1)    Mál nr. SN210829

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 23. desember 2021 ásamt kæru dags. 22. desember 2021 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa frá 23. nóvember 2021 um að synja umsókn Dyrhólma hf. um leyfi til að byggja bílgeymslu neðanjarðar á lóðinni nr. 178 við Laugaveg. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 3. mars 2022.

  29. Nýr Landspítali við Hringbraut, breyting á deiliskipulagi     (01.19)    Mál nr. SN220214

    Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 25. maí 2022 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Nýs Landspítala við Hringbraut.

    Fylgigögn

  30. Heklureitur, nýtt deiliskipulag     (01.242)    Mál nr. SN210448

    Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 25. maí 2022 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á nýju deiliskipulagi fyrir Heklureit, lóðanna við Laugaveg 168-174A.

    Fylgigögn

  31. Kjalarnes, Esjumelar-Varmadalur, breyting á deiliskipulagi vegna Kalksléttu 1 og Koparsléttu 22     (34.2)    Mál nr. SN220195

    Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 25. maí 2022 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi athafnasvæðis á Esjumelum á Kjalarnesi vegna Kalksléttu 1 og Koparsléttu 22.

    Fylgigögn

  32. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn, um nýtt deiliskipulag KR svæðisins         Mál nr. US220137

     

    Hver er núverandi stærð íþróttasvæðis KR á reitnum í fermetrum? Hver verður stærð íþróttasvæðis KR á reitnum samkvæmt fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu, í fermetrum? Hver verður stærð nýrra bygginga á reitnum fyrir íbúðir og þjónustu (aðra en íþrótta- og æskulýðsstarfsemi) samkvæmt fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu, í fermetrum? Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum. 

  33. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn, um gatnamót við Vogabyggð         Mál nr. US220138

     

    Frá því Vogabyggðin tók að rísa hafa tvö gatnamót þyngst verulega, þ.e. Sæbraut á móts við Skeiðarvog/Kleppsmýrarveg og Kleppsmýrarvegur til móts við Súðarvog. Óskað er upplýsinga um það hvernig áformað er að tryggja öryggi barna, gangandi vegfarenda og hjólreiðafólks við gatnamótin meðan beðið er eftir Sundabraut? Málið þolir ekki bið enda eiga fjölmörg börn leið yfir þessa umferðarþungu vegi daglega á leið til skóla og tómstunda.

  34. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi, fyrirspurn, um tómar íbúðir í Reykjavíkurborg         Mál nr. US220130

     

    Hversu margar íbúðir, þ.e.a.s íbúðir sem eru taldar til búsetu, standa auðar í Reykjavíkurborg? Þurfum kannski að nefna einhvern tímaramma, þ.e.a.s. Hversu margar íbúðir standa auðar/eru tómar og hafa verið það í lengur en mánuð? Hversu margar af þeim eru félagslegar íbúðir í eigu Reykjavíkurborgar?

  35. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um auglýsingar á biðskýlum strætisvagna         Mál nr. US220131

     

    Í biðskýlum strætisvagna borgarinnar er eitt fyrirtæki sem selur auglýsingar. Það er sem sagt einn aðili sem sér um þennan rekstur og innheimtir gjöld fyrir. Billboard ehf. heitir fyrirtækið og selur þessar auglýsingar í biðskýlum strætisvagna án neinnar samkeppni. Því er um einokun að ræða og tekjurnar fara á einn aðila. Hvers vegna fær ekki borgin eða Strætó bs. tekjur fyrir auglýsingar í staðinn?

  36. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, 

    um gerð nýs umhverfismats vegna 

    3ja áfanga Arnarnesvegar         Mál nr. US220132

     

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að gert verði nýtt umhverfismat fyrir 3. áfanga Arnarnesvegar þar sem fyrra umhverfismat er frá 2003 og forsendur hafa breyst verulega á síðustu tveimur áratugum. Vatnsendahvarf er dýrmætt náttúru- og útivistarsvæði sem liggur á mörkum Reykjavíkur og Kópavogs. Áætlað er að sprengja 60 metra breiða geil, 1.5 km langa, inn í þetta fallega græna svæði, sem er varpsvæði ýmissa farfuglategunda, og notast við 19 ára gamalt umhverfismat. Fjölmargar athugasemdir hafa borist frá áhyggjufullum íbúum varðandi þessa vegalagningu á öllum skipulagsstigum og ríkir mikil óeining um þessa framkvæmd. Vegna glufu í lögum um umhverfismat þá hefur Skipulagsstofnun úrskurðað að ekki "þurfi" að gera nýtt umhverfismat fyrir framkvæmdina og hefur Reykjavíkurborg hingað til tekið undir það. Jafnvel þó að vegurinn eins og hann er skipulagður í dag, með ljósastýrðum gatnamótum, muni eflaust stífla umferð á Breiðholtsbraut enn frekar. Einnig á Vetrargarðurinn, leiksvæði barna, að liggja þétt upp við tvær stofnbrautir með samtals 10 akreinum. Það samræmist varla grænum áherslum borgarinnar að kalla ekki eftir nýju umhverfismati fyrir þessa framkvæmd. Það hafa orðið miklar breytingar á áherslum í umhverfis- og samgöngumálum á síðustu tveimur áratugum og því verður að endurskoða þessa vegalagningu með umhverfi, íbúa og komandi kynslóðir í huga.

    Tillögunni fylgir greinargerð.

    Frestað.

    Fylgigögn

  37. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, 

    um að endurskipuleggja íbúðakjarna

    að Rökkvatjörn 3         Mál nr. US220133

     

    Lagt er til að farið verði í að endurskipuleggja íbúðakjarna að Rökkvatjörn 3 með það að markmiði að gera almenningsrými fyrir íbúana. Nýlega flutti fatlað fólk inn í nýjan íbúðakjarna að Rökkvatjörn 3. Flestir íbúanna eru að fara að heiman í fyrsta sinn. Íbúarnir þurfa mikla aðstoð við flesta hluti og verkefnin sem hvíla á starfsfólki eru mörg og margvísleg. Komið hefur í ljós að það er stórgalli á húsinu en þar er ekkert sameiginlegt rými þar sem íbúar geti komið saman, borðað saman, horft á saman á viðburði í sjónvarpi. Ljóst er að láðst hefur að hafa foreldra með í ráðum við hönnun og skipulagningu íbúðakjarnans. Foreldrar óttast að börn þeirra einangrist inni í íbúðum sínum, ekki síst ef þau hafa ekki færni til að kalla eftir aðstoð eða félagsskap. Lagt er til að til þess að leysa þetta vandamál verði skoðað hvort á öðrum stöðum í íbúakjarnanum sé óþarfa mikið eða stórt rými, eða rými sem ekki verður nýtt nema að litlu leyti eða sjaldan sem þá er hægt að nýta undir sameiginlegt rými fyrir íbúana. Þetta er spurningum um að endurskipuleggja íbúakjarnann með útsjónarsemi og hagræðingu að leiðarljósi. Það hlýtur að vera hagur allra, bæði íbúa og starfsmanna að íbúarnir geti átt stundir saman í sameiginlegu rými.

    Frestað.

  38. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um skilti         Mál nr. US220134

     

    Svo virðist sem skiltamál í borginni séu í ólestri. Borgarfulltrúar hafa fengið ábendingar um áform að setja eigi upp auglýsingaskilti við austurenda Klambratúns, gegnt Bólstaðarhlíð, sjá hér: https://2021.reykjavik.is/skipulag-i-kynningu/auglysingaskilti-vid-longuhlid. Fram hefur komið hjá íbúum að ekki hafi verið haft samráð við nema örfáa og áform um skilti uppsetningu stríði gegn samþykktum. Í markmiðum Samþykktar um skilti í Reykjavík segir beinlínis að "skilti séu íbúum borgarinnar ekki til ama eða óþæginda og að þau skerði ekki hönnun mannvirkja, hafi neikvæð áhrif á umhverfi eða skerði ásýnd borgarinnar." Einnig segir að halda eigi fjölda skilta í lágmarki og að leggja eigi áherslu á að fjöldi skilta valdi ekki óreglu og ringulreið í sjónlínu gatna." Flokkur fólksins spyr hvort umræða og ákvörðun um auglýsingavæðingu ætti ekki að fara fram í tengslum við vinnu við hverfisskipulag hverfisins? Hvernig hefur samráði verið háttað þegar setja á upp skilti? Er öllum gefinn kostur á að kynna sér málið? Það hlýtur að eiga að horfa á þessi mál í heild sinni og um þennan málaflokk þarf eins og aðra þarf að ríkja skipulag. Ljósaskilti og auglýsingaskilti almennt hafa mikil áhrif á útlit hverfa.

  39. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um óbyggðar lóðir í Úlfarsárdal         Mál nr. US220135

     

    Talan á óbyggðum sérbýlis lóðum í Úlfarsárdal er um 30. Þetta eru allt lóðir sem Reykjavíkurborg bauð út árið 2006 og seldi hæstbjóðendum og fékk greitt fyrir þær fyrir 15 - 16 árum. Á þessum lóðum má víða sjá rusl og drasl og oft byggingarefni sem legið hefur á víð og dreif um þessar lóðir og fokið um hverfið. Umræðuna um lóðarskort þarf ekki að kynna. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvenær borgar- og skipulagsyfirvöld hyggjast bregðast við þessu ástandi í Úlfarsárdal og hvernig? Eiga þessar lóðir að vera óbyggðar áfram? Þegar skipulagsyfirvöld veita byggingarleyfi eiga að fylgja því tímamörk sem umsækjandi hefur til að fullklára bygginguna. Útgefið leyfi þarf að leiða til þess að bygging rísi á viðkomandi lóð innan ákveðins tíma. Um tímann má semja enda ýmislegt sem kemur til. Fram til þessa eru sum útgefin leyfi aðeins pappír um eitthvað sem kannski verður gert. Í einhverjum tilfellum eru engar sérstakar ástæður fyrir töfum nema kannski að það standi illa á hjá lóðarhafa, hann vilji jafnvel bíða og sjá hvert íbúðaverð sé að þróast. Það sárvantar húsnæði sem hefur leitt til þess að fasteignamarkaðurinn er ekki í jafnvægi. 

  40. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, hljóðvist á KR svæðinu         Mál nr. US220136

     

    Fram kemur í kynningu um hljóðvist í kringum KR svæðið að áhyggjur eru af hávaða og hávaðamengun og að tryggja eigi að reglugerð um hávaðamengun sé fylgt. Flokkur fólksins spyr hvernig á að gera það? Hvernig á eftirliti að vera háttað og hver eru viðurlögin ef reglur um hávaðamengun eru brotnar? Öll þekkjum við hávaðavandann í miðbænum þar sem reglur um hávaðamengun hefur ekki verið fylgt og engar afleiðingar hlotist af því að brjóta lög og reglur í þessu sambandi. Það er ekki nóg að vísa í reglugerðir og halda að þar með sé málið leyst. Vissulega er hægt að skipuleggja húsnæði þannig að svefnherbergi og önnur dvalarsvæði íbúða snúi frá umferðargötum/hávaðavöldum. Erfiðara er að eiga við hitt, þ.e. að tryggja að rekstraraðilar íþróttasvæðis bæði hvað varðar notkunartíma, umgang og annað sem tengist íþróttavöllum raski ekki næði íbúa í íbúðum.

    -    Kl. 11:53 víkur Líf Magneudóttir af fundi.

    -    Kl. 11:55 víkur Trausti Breiðfjörð Magnússon af fundi.

Fundi slitið klukkan 12:10

Alexandra Briem Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Hjálmar Sveinsson Kjartan Magnússon

Hildur Björnsdóttir Pawel Bartoszek

PDF útgáfa fundargerðar
234._fundargerd_umhverfis-_og_skipulagsrads.pdf