Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

108. fundur

Fræðsluráð

Ár 2000, mánudaginn 13. mars, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund á Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og var þetta 108. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður, Hrannar Björn Arnarsson, Sigrún Elsa Smáradóttir, Guðrún Pétursdóttir og Eyþór Arnalds. Auk þeirra sátu fundinn Erna M. Sveinbjarnardóttir frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur, Guðrún Sturlaugsdóttir og Hannes K. Þorsteinsson frá Kennarafélagi Reykjavíkur. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður þróunarsviðs, Runólfur Birgir Leifsson, forstöðumaður fjármálasviðs, Júlíus Sigurbjörnsson, deildarstjóri rekstrardeildar, og Steinunn Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi á Fræðslumiðstöð, sem ritaði fundargerð.

1. Kynnt heftið Af gnægtarbrunni lista þar sem lýst er verkefnum þar sem listamenn koma til starfa með nemendum í grunnskólum og atburðum við hæfi barna á menningarári, skólum til upplýsingar. Fræðsluráð lýsir ánægju sinni með samstarf listamanna við nemendur í grunnskólum borgarinnar á menningarári. Guðrún Pétursdóttir lagði til að leitað yrði allra leiða til að halda áfram samstarfi grunnskóla og listamanna eftir að menningarári lýkur. Samþykkt samhljóða.

2. Lagt fram minnisblað fræðsluslustjóra: Hvert stefnir í skólamálum? Hvert liggja straumarnir? Frásögn af 132. ráðstefnu fræðslustjóra í Bandaríkjunum, haldin 3.-6. mars 2000, í San Fransisco, Kaliforníu. Fræðslustjóri sagði frá þeim málefnum sem hæst bar á ráðstefnunni.

Óskar Ísfeld Sigurðsson kom á fund kl. 12.45.

3. Lagt fram bréf Borgarskipulags Reykjavíkur, dags. 28. febrúar sl., um deiliskipulag að Ármannsreit, sem markast af Sóltúni, Hátúni, Miðtúni og Nóatúni. Fræðslusluráð er sátt við deiliskipulagið. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks setja þó fyrirvara um þörf fyrir skóla í hverfinu. Fræðslumiðstöð falið að vinna að þróun málsins í samvinnu við Leikskóla Reykjavíkur.

4. Lagt fram að nýju minnisblað fræðslustjóra, dags. 22. október 1999, um mat í hádegi í skólum. Minnisblaðið var unnið í framhaldi af störfum vinnuhóps um mat í skólum sem skipaður var Önnu Kristínu Sigurðardóttur, Guðbjörgu Andreu Jónsdóttur og Júlíusi Sigurbjörnssyni frá Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og Brynhildi Briem fyrir hönd Manneldisráðs. Fræðsluráð samþykkir að í áföngum verði boðið upp á mat í grunnskólum Reykjavíkur fyrir alla nemendur. Skólum verði gert kleift að bjóða upp á heitan og kaldan mat. Heit máltíð verði í boði fyrir hvern nemanda, a.m.k. tvo til þrjá daga í viku en kaldur matur aðra daga. Fræðsluráð leggur áherslu á að maturinn sé hollur, fjölbreyttur og lystugur. 1. Allir einsetnir grunnskólar Reykjavíkur með 1.-4. bekk verði með hádegisstund haustið 2000 og bjóði upp á heitan og/eða kaldan mat fyrir þá árganga. 2. Haustið 2002 verði allir skólar með 1.-4. bekk með hádegisstund og mat. 3. Lögð verði fljótlega fram í fræðsluráði áætlun um hvenær unnt verður að koma á hádegisstund með mat í 5.–7. bekk. Athugað verði sérstaklega hvort hægt sé að bjóða þeim bekkjum upp á sambærilega þjónustu og nemendur á unglingastigi fá þangað til. 4. Nemendur á unglingastigi geta nú víða keypt mat, s.s. samlokur, brauð, súpur og grillmat í nemendasölu. Kannaður verði möguleiki þeirra og vilji til að kaupa heitan mat í hádegi. 5. Aðstaða þarf að vera í hverjum skóla þar sem unnt er að bjóða upp á heita og kalda rétti fyrir nemendur og starfsfólk skólans. 6. Nemendur neyta matarins í fjölnotasölum skóla og nemendaaðstöðu, en einnig verði kennslustofur nýttar ef um kaldan mat er að ræða, þar sem þörf er á. 7. Á næstu árum verði unnið að því að útbúa aðstöðu til að neyta matar í grunnskólum borgarinnar þar sem hún er ekki þegar fyrir hendi. 8. Í stofnkostnaðaráætlun byggingadeildar fyrir grunnskóla Reykjavíkur kemur fram að nota á 10 m.kr. í nemendaeldhús árið 2000. 9. Nauðsynlegt er að fljótlega liggi fyrir reglur og viðmið um rekstur og gerð skólaeldhúsa, s.s. mönnun, búnað, gæði matar, efniskostnað, innheimtu o.fl. Í þeim efnum verði allir kostir kannaðir, s.s. útboð, stóreldhús eða eigin framleiðsla. Fræðsluráð beinir því til vinnuhópsins að skoðuð verði kostnaðarskipting miðað við mismunandi forsendur. Einnig verði gerð grein fyrir reynslu þeirra skóla sem boðið hafa þessa þjónustu. Samþykkt samhljóða.

Arthur Morthens kom á fund kl. 13.45.

5. Lögð fram að nýju tillaga að viðmiðum um hádegisstund í 1.–4. bekk grunnskóla Reykjavíkur og minnisblað fræðslustjóra um málið. Samþykkt samhljóða með eftirfarandi viðbót: Foreldrum/aðstandendum verði gert kleift að taka þátt í hádegisstund eins og við á um kennslustundir.

6. Lagt fram að nýju minnisblað Júlíusar Sigurbjörnssonar, deildarstjóra rekstrardeildar, dags. 2. mars sl., um örgjörvagreiðslukort. Íþrótta- og tómstundaráð vinnur nú að athugun á notkunarmöguleikum örgjörvagreiðslukorta og mun fræðsluráð bíða niðurstaðna úr þeirri athugun.

7. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu eftir að eftirfarandi væri bókað: Eitt meginhlutverk Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur er að sjá til þess að lögum og reglum um grunnskóla sé framfylgt í borginni. Fræðsluráð verður að geta treyst því að þessari skyldu sé sinnt. Farið er fram á það við fræðslustjóra að hann leggi fram greinargerð um það með hvaða hætti Fræðslumiðstöð hafi sinnt eftirlitsskyldu sinni á undanförnum árum, þar sem m.a. komi fram hvernig fylgst er með því að börn fái lögboðinn fjölda kennsludaga. Jafnframt verði gerð grein fyrir því með hvaða hætti Fræðslumiðstöð hyggst sinna eftirlitsskyldu sinni framvegis.

Fulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu eftir að eftirfarandi væri bókað: Á síðasta fundi fræðsluráðs var tillaga um málsmeðferð þessara mála samþykkt einróma. Við teljum efnisatriði bókunar Sjálfstæðismanna rúmast innan þeirrar samþykktar.

Fundi slitið kl. 14.15

Sigrún Magnúsdóttir
Hrannar Björn Arnarsson Sigrún Elsa Smáradóttir
Guðrún Pétursdóttir Eyþór Arnalds