Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

110. fundur

Fræðsluráð

Ár 2000, mánudaginn 3. apríl, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund á Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og var þetta 110. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður, Hrannar Björn Arnarsson, Sigrún Elsa Smáradóttir og Bryndís Þórðardóttir. Auk þeirra sátu fundinn Guðrún Sturlaugsdóttir og Hannes K. Þorsteinsson frá Kennarafélagi Reykjavíkur og Óskar Ísfeld Sigurðsson, fulltrúi foreldra, og Erna Sveinbjarnardóttir frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Arthur Morthens, forstöðumaður þjónustusviðs, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður þróunarsviðs, Runólfur Birgir Leifsson, forstöðumaður fjármálasviðs, Anna Kristín Sigurðardóttir, deildarstjóri kennsludeildar, Friðbjörg Ingimarsdóttir og Ingibjörg Hafstað, kennsluráðgjafar í nýbúafræðslu, og Steinunn Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi á Fræðslumiðstöð, sem ritaði fundargerð.

1. Lagður fram vinnurammi og markmið stýrihóps um einelti ásamt rannsókninni Mat á áhrifum fræðslu til að stemma stigu við einelti sem Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála vann í samvinnu við ÍTR og Fræðslumiðstöð.
Ragnar Ólafsson, sérfræðingur á Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála, kom á fund og greindi frá rannsókninni.

2. Formaður greindi frá málþinginu Nýjar leiðir í mótun námsumhverfis þar sem fjallað verður um samvinnu fagfólks í hönnunarferli skólabygginga. Málþingið verður haldið í samvinnu Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur, byggingadeildar borgarverkfræðings, Arkitektafélags Íslands og Verkfræðingafélags Íslands föstudaginn 7. maí.

3. Lagt fram yfirlit yfir verkefnið Innherjar frá september 1999 til mars 2000 en það er samstarfsverkefni á vegum Vinnuskóla Reykjavíkur og Fræðslumiðstöðvar.
Arthur Morthens greindi frá verkefninu.

4. Lagt fram minnisblað kennsluráðgjafa í nýbúafræðslu, dags. í dag, með yfirliti yfir nýbúafræðslu á þessu skólaári. Einnig lögð fram aðgerðaáætlun frá nóvember 1999 til ársloka 2000, dags. 20. okt. 1999, frá samstarfsnefnd um málefni nýbúa.
Friðbjörg Ingimarsdóttir fór yfir efni minnisblaðsins og Ingibjörg Hafstað greindi frá helstu verkefnum nýbúaráðgjafa og aðgerðaáætluninni.

Hrannar Björn Arnarsson, Friðbjörg Ingimarsdóttir og Ingibjörg Hafstað fóru af fundi eftir þennan lið.

5. Eftirfarandi tillaga var samþykkt samhljóða:
Fræðsluráð samþykkir að stofnaður verði tvíburaskóli fyrir heyrnarlaus og heyrandi börn í samstarfi Hlíðaskóla og Vesturhlíðarskóla. Skólinn verði staðsettur í húsnæði Hlíðaskóla. Skólinn taki til starfa í áföngum og verði fyrsta skrefið stigið haustið 2001. Kostnaður vegna þessa verði ákvarðaður í fjárhagsáætlun Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur fyrir árið 2001 og stefnt að því að allir nemendur Vesturhlíðarskóla hafi samlagast nemendum Hlíðaskóla um svipað leyti og nýbygging verður tekin í notkun.
Markmið með stofnun tvíburaskóla er að veita heyrnarlausum og heyrnarskertum börnum nám og kennslu í fjölbreyttu félagslegu umhverfi, þar sem heyrnarlausir og heyrnarskertir nemendur starfa með og blandast heyrandi nemendum. Í þessum tilgangi verði stofnaður tvíburaskóli sem varðveiti og þrói sérhæfingu í kennslu heyrnarlausra og heyrnarskertra. Þar verði tvítyngt málumhverfi, þar sem táknmál heyrnarlausra og talað mál verði notað samhliða eftir þörfum og aðstæðum. Heyrandi nemendum og starfsfólki Hlíðaskóla verði boðið upp á táknmálsnámskeið og þjálfun í táknmáli.
Tillögunni fylgir greinargerð.

Anna Lilja Sigurðardóttir, Árni Magnússon, skólastjóri Hlíðaskóla, Berglind Stefánsdóttir, skólastjóri Vesturhlíðarskóla, Ásgeir Ásgeirsson, formaður foreldraráðs Hlíðaskóla, og Málfríður Gunnarsdóttir, formaður foreldrafélags Vesturhlíðarskóla, sátu fund undir þessum lið.

6. Lagt fram til kynningar bréf SAMFOKs, dags. 22. mars sl., ásamt erindi SAMFOKs til menntamálaráðuneytisins um úrskurð á því í hvaða tilvikum skóladagar teljist kennsludagar í skilningi grunnskólalaga.
Fræðsluráð lýsir yfir ánægju sinni með að úrskurðað verði um kennsludaga. Fullrúi skólastjóri fagnar sömuleiðis að úrskurðað verði um málið og fulltrúar kennara óska eftir að úrskurðurinn berist fræðsluráði sem fyrst.

Fundi slitið kl. 14.10

Sigrún Magnúsdóttir
Sigrún Elsa Smáradóttir Bryndís Þórðardóttir