Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

114. fundur

Fræðsluráð

Ár 2000, mánudaginn 29. maí, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund á Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og var þetta 114. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður, Sigrún Elsa Smáradóttir, Hrannar Björn Arnarsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Margrét Theodórsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Guðbjörg Þórisdóttir, fulltrúi skólastjóra, Guðrún Sturlaugsdóttir og Hannes Kr. Þorsteinsson frá Kennarafélagi Reykjavíkur og Óskar Ísfeld Sigurðsson, fulltrúi foreldra. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Arthur Morthens, forstöðumaður þjónustusviðs, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður þróunarsviðs, Runólfur Birgir Leifsson, forstöðumaður fjármálasviðs, Áslaug Brynjólfsdóttir, umboðsmaður foreldra og skóla og Guðmundur Þór Ásmundsson, verkefnisstjóri á Fræðslumiðstöð, sem ritaði fundargerð.

1. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 26. maí sl., um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa fræðsluráði, tvö mál. (fskj 114, 1.1)

2. Kynntar fjórar umsóknir um stöðu aðstoðarskólastjóra Hamraskóla, ráðning til eins árs (fskj 114, 2.1, 2.2, 2.3) og lögð fram álit fræðslustjóra, kennararáðs og skólastjóra Hamraskóla um ráðninguna. Samþykkt samhljóða að ráða Auði S Hrólfsdóttur, kt. 280355-5509.

3. Lögð fram tillaga að úthlutun ferðastyrkja úr ferðasjóði kennara við grunnskóla Reykjavíkur alls að upphæð kr 754 þúsund, sem eru 75% af ráðstöfunarfé sjóðsins sbr. reglur hans. Tillagan samþykkt samhljóða.

4. Lagðar voru fram og kynntar leiðbeinandi starfsreglur fyrir foreldraráð í grunnskólum Reykjavíkur (fskj 114, 3.1) unnar af starfshópi sem í sátu tveir fulltrúar Fræðslumiðstöðvar, tveir fulltrúar Skólastjórafélags Reykjavíkur og tveir fulltrúar frá SAMFOK. Lagt var fram bréf frá formanni Skólastjórfélagsins þar sem fram kemur að Skólastjórafélagið sé ekki tilbúið að samþykkja umræddar leiðbeinandi tillögur um starfsreglur. Einnig voru lagðar fram tillögur um leiðbeinandi reglur um störf kennararáða (fskj 114, 3.2) sem starfshópur skipaður tveim fulltrúum skólastjóra, tveim fulltrúum kennara og fulltrúa frá Fræðslu-miðstöð vann. Fræðsluráð gerir ekki athugasemdir við tillögurnar og mælist til þess að þær verði sendar skólunum til frekari meðferðar.

Áslaug Brynjólfsdóttir hvarf af fundi kl 13:10.

5. Kynnt erindi frá nokkrum grunnskólum í Reykjavík varðandi hádegisstund og svör við þeim. Einnig lögð fram álit lögmanns Kennarasambands Íslands, minnisblað frá forstöðumanni kjaraþróunardeildar Reykjavíkurborgar og bréf frá formanni Kennarafélags Reykjavíkur (fskj 114, 4.1, 4.2, 4.3). Meirihluti fræðsluráðs lagði fram eftirfarandi bókun: Fræðsluráð harmar þann misskilning sem virðist vera uppi hjá Kennarafélagi Reykjavíkur og meðal kennara í nokkrum skólum borgarinnar varðandi hádegisstund fyrir yngstu börnin í einsetnum skólum borgarinnar. Svo virðist sem menn líti á viðmið sem reglur, þ.e. að viðmið um hádegisstund jafngildi reglum, en svo er ekki. Hér er aðeins um að ræða ábendingu um fyrirkomulag sem fræðsluráð telur æskilegt. Haustið 1998 hófst tilraun með hádegisstund í fjórum skólum. Starfsfólk skólanna taldi hádegishlé skipta sköpum fyrir nemendur. Þau voru mun betur undirbúin til að takast á við lengri skóladag eftir að hafa fengið um klst. til að hvílast og matast. Sú stefnumótun var því sett fram í starfsáætlun fyrir skólaárið 1999 – 2000 að hádegisstund yrði í öllum einsetnum skólum. Því miður tókst það ekki fyrir það skólaár. Áætlað er að haustið 2000 eigi öll börn í 1.-4. bekk í einsetnum skólum kost á hádegisstund. Á fundi fræðsluráðs þann 13. mars s.l., samþykkti ráðið samhljóða ákveðin viðmið m.a. um viðveru kennara í hádegisstundinni. Fræðsluráð hvorki skipar kennurum að taka að sér ákveðin störf utan kennslu né tekur vald af sjálfstæðum skólum til að skipuleggja skólastarfið. Hins vegar setur fræðsluráð fjárhagsramma og leggur fram æskileg viðmið um hvernig skólarnir geti framkvæmt ákvarðanir þess. Með hag yngstu nemenda okkar að leiðarljósi ber okkur að gefa þeim hádegishlé undir handleiðslu ágæts starfsfólks grunnskólans. Vissulega eru kennarar þar í fararbroddi. Fræðsluráð treystir kennurum best til að sinna þessu verkefni, en fáist þeir ekki til þess væntir fræðsluráð þess að skólastjórar leiti annarra leiða.

6. Kynnt hvaða skólar hafa fengið viðurkenningar vegna átaks til bættrar umgengni ásamt rökstuðningi (fskj 114, 5.1).

Margrét Theodórsdóttir hvarf af fundi kl 13:45.

7. Kynntar voru ályktanir frá aðalfundi SAMFOKs sem haldinn var 16. maí s.l. (fskj 114, 6.1) þar sem fjallað er um lengingu skólaársins og sérúrræði. Vísað til gerðar starfsáætlunar fyrir árið 2001.

8. Rætt um drög að stefnu í tölvumálum grunnskóla Reykjavíkur sem kynnt var á 102. fundi fræðsluráðs. Forstöðumaður þróunarsviðs kynnti minnisblað um rekstur víðnets og Internetssambands árið 1999 og kostnaðaráætlun vegna tölvumála árin 2000 - 2004 (fskj 114, 7.1). Fræðslumiðstöð falið að vinna áfram að stefnumótun í tölvumálum í ljósi þeirra hugmynda sem fram komu. Jón Ingvar Valdimarsson sat fundinn undir þessum lið og kynnti hugmyndir um breytingar á víðnetinu.

Guðlaugur Þór Þórðarson hvarf af fundi kl 14:00.

9. Drög að stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum nýbúa lögð fram (fskj. 114, 8.1). Stefnt er að því að kynna stefnu borgarinnar í málefnum nýbúa n.k. haust og þá er æskilegt að áætlanir einstakra stofnana liggi fyrir. Þjónustusviði falið að sjá til þess. Ingibjörg Hafstað, Friðbjörg Ingimarsdóttir og Anna Kristín Sigurðardóttir mættu á fundinn undir þessum lið.

Fundi slitið kl. 14.15

Sigrún Magnúsdóttir
Hrannar Björn Arnarsson Sigrún Elsa Smáradóttir