Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

Leikskólaráð

Ár 2009, 26. ágúst kl. 14:00 var haldinn 60. fundur leikskólaráðs í fundarherbergi ráðsins að Fríkirkjuvegi 1. Fundinn sátu: Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir formaður, Fanný Gunnarsdóttir, Einar Örn Ævarsson, Ragnar Sær Ragnarsson, Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir, Oddný Sturludóttir og Hermann Valsson. Auk þeirra sátu fundinn Þórunn Gyða Björnsdóttir, áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra og Ólöf Kristjánsdóttir áheyrnarfulltrúi samtakanna Börnin okkar. Jafnframt sátu fundinn Ragnhildur Erla Bjarnadóttir sviðsstjóri, Kristín Egilsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir og Ingunn Gísladóttir. Fundargerð ritaði Laura Bergs.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjóra dags. 16. júní sl. þar sem greint er frá því að Ingvar Mar Jónsson hafi tekið sæti varamanns í leikskólaráði í stað Halls Magnússonar.

2. Helga Alexandersdóttir og Unnur Brynja Guðmundsdóttir frá leikskólanum Laugaborg og Hrefna Sigurðardóttir og Áslaug Pálsdóttir frá leikskólanum Sunnuborg kynntu verkefnið Leikið og lært í Laugardalnum sem unnið er í samstarfi við Náttúruskólann. Verkefnið er eitt þeirra sem hlaut hvatningarverðlaun leikskólaráðs fyrr á þessu ári.

3. Embættisafgreiðslur leikskólaráðs, eitt mál. Ekki voru gerðar athugasemdir við afgreiðsluna.

4. Sérkennslustefna Leikskólasviðs Reykjavíkurborgar. Helgi Hjartarson, sálfræðingur og formaður starfshóps um endurskoðun stefnunnar gerði grein fyrir þeim breytingum sem orðið hafa síðan drög að stefnunni voru kynnt leikskólaráði 13. maí sl.
Sérkennslustefna Leikskólasviðs Reykjavíkurborgar var samþykkt samhljóða.

Bókun leikskólaráðs:
Leikskólaráð fagnar aðgengilegri og faglegri sérkennslustefnu Leikskólasviðs og þakkar faglegum starfshópi fyrir mikla og góða vinnu. Vert er að vekja athygli á því að leitað var umsagnar fagaðila og hagsmunasamtaka og er það vel. Stefnan er á allan hátt vel unnin og aðgengileg bæði fyrir leikskólastarfsfólk, fagfólk og foreldra og innifelur einnig allar reglur og eyðublöð til skýringa.

5. Sex mánaða uppgjör. Fjármálastjóri gerði grein fyrir málinu.

6. Umsókn Hjallastefnunnar ehf. um leyfi til þess að starfrækja leikskólann Öskju við Hlíðarfót 7 í Reykjavík. Umsóknin var kynnt á fundi leikskólaráðs 12. ágúst sl.
Lögð voru fram drög að rekstrarleyfi fyrir leikskólann Öskju og umsögn leikskólaskrifstofu vegna umsóknarinnar.

Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks:
Leikskólaráð samþykkir umsókn leikskólans Öskju um rekstrarleyfi, með fyrirvara um tilfærslu milli kostnaðarstaða í fjárhagsáætlun Leikskólasviðs og fjárveitingu 2010. Leikskólaráð óskar börnum og starfsfólki í leikskólanum Öskju velfarnaðar í námi, leik og starfi.

Fulltrúar Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Samfylkingin leggst ekki gegn umsókn Hjallastefnunnar um nýjan leikskóla en gagnrýnir þá grundvallarbreytingu sem verður á starfsemi Laufásborgar sem felst í því að mikill þrýstingur myndast á foreldra fimm ára barna að hefja fyrr grunnskólanám. Samfylkingin ítrekar þær áhyggjur sínar af þróun bæði erlendis sem og hérlendis, að börn hefji sífellt fyrr nám en fræðimenn hafa margoft bent á að best sé komið til móts við námsþarfir fimm ára barna í gegnum leik. Samfylkingin ítrekar þá skoðun sína að best fari á því að allir leikskólar, borgarreknir sem og sjálfstætt starfandi, hafi samræmt innritunarkerfi og að kennitöluforgangi sé fylgt í hvívetna. Samfylkingin ítrekar óánægju sína með framgang málsins, en það er með öllu ólíðandi að leikskólaráð skuli ekki fjalla faglega um nýja leikskóla sem setja á á laggirnar. Einnig gagnrýna fulltrúar Samfylkingarinnar að fulltrúar í leikskólaráði skuli ítrekað lesa um nýja leikskóla í fjölmiðlum og á heimasíðum – án þess að leikskólaráð hafi samþykkt umsóknirnar.

Fulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Fulltrúi Vinstri grænna styður í grunninn uppeldisstefnu Hjallastefnunnar. Hæst ber þar sú þjálfun sem börn hljóta í að brjóta upp hefðbundin kynhlutverk. Vinstri græn geta þó ekki fallist á að rekstrarform stuðli að fjölbreytileika. Rekstrarform er alls óskylt uppeldis- og menntastefnum. Innan borgarkerfisins á að vera til staðar svigrúm fyrir borgarrekna leik- og grunnskóla til að taka upp hugmyndafræði óhefðbundinna uppeldis- og menntastefna. Áhersla Hjallastefnunnar á sjálfstæðan rekstur stangast þannig á við hugmyndafræði Vinstri grænna. Vinstri græn greiða því atkvæði á móti samningnum við Hjallastefnuna.

Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra óskaði bókað:
Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra vill undirstrika að rannsóknir á námi ungra barna sýna að kennsla fimm ára barna er farsælust innan hugmyndafræði leikskólans, þ.e. í gegnum leikinn.

Ofangreind tillaga um rekstrarleyfi fyrir leikskólann Öskju samþykkt með fjórum atkvæðum gegn einu.
Fulltrúar Samfylkingarinnar sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Kl. 15:20 vék Oddný Sturludóttir af fundi.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Í framhaldi af samþykkt leikskólaráðs um rekstrarleyfi til leikskólans Öskju vill meirihluti leikskólaráðs vekja athygli á þeim áherslum sem Hjallastefnan – leikskólar og gunnskólar – leggur á leikinn og að kennslufræði leikskólans smiti allt starf hjá fimm og sex ára börnum. Einnig er vert að halda á lofti þeim fjölbreytileika sem einkennir leikskóla Reykjavíkurborgar og leikskólaráð telur það mjög jákvætt þegar leikskólar marka sérstöðu sína hvað varðar hugmynda- og kennslufræði.

7. Lagt fram minnisblað þróunarfulltrúa um Stóra leikskóladaginn sem haldinn var í fyrsta sinn 6. júní sl. og endurskoðað erindisbréf starfshóps um Stóra leikskóladaginn.
Samþykkt var að Stóri leikskóladagurinn verði haldinn árlega að vori en ekki bundinn við fyrsta laugardag í júní.

8. Hildur Skarphéðinsdóttir, skrifstofustjóri leikskólaskrifstofu kynnti vinnu sem nú stendur yfir við endurskoðun aðalnámskrá leikskóla.

9. Viðbragðsáætlun Leikskólasviðs vegna inflúensufaraldurs A(H1N1)v lögð fram.
Viðbragðsáætlunin var samþykkt samhljóða.

10. Lagt fram minnisblað þróunarfulltrúa á leikskólaskrifstofu um samstarf leikskóla og miðlun þekkingar milli leikskóla í Reykjavík.

11. Lögð fram skýrsla um námsferð leikskólastjóra til Reggio Emilia á Ítalíu vorið 2008.

12. Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi fyrirspurnir:
i) Hefur mikið af kvörtunum borist til Leikskólasviðs vegna breytinga á reglum varðandi systkinaforgang?
ii) Eru til tölur yfir systkini sem þurfa í kjölfar nýrra reglna að dvelja hvort í sínum leikskólanum?

Fundi slitið kl. 16:00

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
Hermann Valsson Fanný Gunnarsdóttir
Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir Ragnar Sær Ragnarsson
Einar Örn Ævarsson