Skóla- og frístundaráð
Ár 2024, 11. mars, var haldinn 270. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.15.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður (B), Alexandra Briem (P), Guðný Maja Riba (S), Helgi Áss Grétarsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D) og Sabine Leskopf (S). Eftirtalinn fulltrúi tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 4. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Ásta Þórdís Skjaldal Guðjónsdóttir (J). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum, Helgi Eiríksson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva og Leona Iguma, Reykjavíkurráð ungmenna. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Helgi Grímsson sviðsstjóri, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra, dags. 6. mars 2024, þar sem tilkynnt er að Ásta Þórdís Skjaldal Guðjónsdóttir taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Halldóru Jóhönnu Hafsteinsdóttur. MSS22060048
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á U-LYNC ráðstefnu (Urban Life of Young People in the Nordic Countries).
Kl. 13:21 tekur Arndís Steinþórsdóttir sæti á fundinum.
Hulda Valdís Valdimarsdóttir, Gísli Ólafsson og Leona Iguma taka sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. júní 2023, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. febrúar 2024, um tillöguna:
Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg semji við hljóðbókasafnið fyrir hönd allra skólanna í Reykjavík svo það opnist aðgengi fyrir alla nemendur en ekki bara þá sem hafa fengið greiningu. Flokkur fólksins telur mikilvægt að Hljóðbókasafnið sé opið öllum grunnskólabörnum en ekki eingöngu börnum sem fengið hafa greiningu. Efnalítið fólk svo og margir innflytjendur hafa ekki mikið á milli handanna til að kaupa bækur fyrir börn sín. Því er mjög mikilvægt að bæta aðgengi allra barna að hljóðbókum. Hljóðbækur eru mjög mikilvægar fyrir börn af erlendum uppruna og í raun alla grunnskólanemendur til efla málskilning þeirra.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:
Lagt er til að skóla- og frístundasviði verði falið að vekja athygli menningar og viðskiptaráðuneytis á mikilvægi aðgengis nemenda á grunnskólaaldri að íslenskum hljóðbókum. Jafnframt verði send áskorun til mennta- og barnamálaráðuneytis um að tryggja nemendum aðgang að hljóðbókum auk þess sem farið verði fram á að Borgarbókasafnið leggi áherslu á að fjölga hljóðbókum. Þá verði kannað hvort til greina komi að skólabókasöfn geri samning um aðgang að hljóðbókum.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt. MSS23060142
Bókun skóla- og frístundaráðs:
Ljóst er að hljóðbækur geta verið afar gagnlegar til að styðja við læsi barna og æskilegt væri að auka aðgengi þeirra að góðum hljóðbókum. Hljóðbókasafnið hefur lengi aðallega verið fyrir fólk með sjónskerðingu en er nú líka aðgengileg fyrir fólk með t.d. greiningu á lesblindu. Mikilvægt er á sama tíma að tryggja að hér geta blómstrað góðar barna- og unglingabókmenntir á íslensku ef hljóðbókasafnið yrði aðgengilegt fyrir það stóran hóp notenda en ljóst er að til þess þurfti að endurskoða löggjöfina um hljóðbókasafnið í heild sinni.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um skólabókasöfn, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. febrúar 2024. MSS24020004
Fylgigögn
-
Lagt fram svar við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins vegna erindis Tónlistarskóla. SFS24010187
Fylgigögn
-
Fram fara umræður um snjallsímanotkun. SFS24020121
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er ljóst að þó svo snjalltæki séu mikilvægur hluti af umhverfi ungs fólks og nauðsynlegt að þau læri að takast á við áhrif þeirra á samskipti, upplýsingar og félagslíf, og geti þekkt hætturnar sem þar felast, þá eru einkasnjalltæki ekki viðeigandi í daglegu námi, þó tæki á vegum skólanna geti verið það. Nema þau séu með einhverjum hætti beinlínis viðfangsefni kennslustundarinnar. Það er eðlilegt að skólar leitist við að takmarka það áreiti sem af þeim myndast á skólatíma, og sérstaklega í kennslustundum, enda hafa þeir fullt umboð til þess. Mikilvægt er að taka þessa umræðu.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:Gagnlegt er að ræða snjallsímanotkun í grunnskólum og hvernig best sé að skólarnir nálgist hana. Umræðan var tekin upp að beiðni fulltrúa Sjálfstæðisflokks vegna alþjóðlegra þróunar á þessu sviði. Mikilvægt er að skólar í samstarfi við foreldra og nemendur leggist á eitt um skynsamlega notkun snjallsíma. Það úrræði, taka miðlægja ákvörðun um snjallsímabann í skólum, er umdeilt. Samhljómur er fremur um að móta viðmiðunarreglur um notkun farsíma í grunnskólum en fram hefur komið að mennta- og barnamálaráðuneytið sé að vinna að leiðbeinandi viðmiðum um notkun farsíma í grunnskólum.
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að leitað verði nýrra leiða í leikskólamálum og svokallað Kópavogsmódel verði tekið upp í leikskólum Reykjavíkur til að hægt verði að stytta biðlista og nýta þau lausu pláss á leikskólunum sem eru vannýtt vegna mikillar manneklu, veikinda og álags á starfsfólk. Markmiðið með nýjum leiðum í leikskólamálum yrði jafnframt að koma í veg fyrir að loka þurfi deildum vegna manneklu sem hefur komið niður á þjónustu við börnin og sem veldur álagi og streitu á fjölskyldur leikskólabarna.
Vandi leikskólanna hefur verið margþættur á undanförnum árum og yrði hér um að ræða mikilvæga leið til að efla leikskólana og þjónustu þeirra og koma í veg fyrir viðvarandi starfsmannaveltu.
Rétt er að horft verði til Kópavogsleiðarinnar í þeirri viðleitni að tryggja mönnun þannig að hægt verði að nýta laus leikskólapláss sem fyrst enda hefur það gefið góða raun. Mikilvægt er því að til skoðunar komi að auka sveigjanleika í dvalartíma barna, tekjutengja leikskólagjöld og bjóða upp á gjaldfrjálsan leikskóla fyrir sex tíma vistun. Lagt er til að vinna við slíka leið hefjist sem fyrst og skipaður verði starfshópur sem komi með tillögur að útfærslu þannig að taka megi upp slíkt módel á komandi hausti.Frestað. SFS24030067
-
Skóla- og frístunaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er upplýsinga um hvort tekist hafi að tryggja öllum börnum í grunnskólum pláss á frístundaheimili sem sóttu um í haust.
SFS24030068
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir að staða upplýsinga um stöðu biðlista eftir leikskólaplássi verði lögð fram á næsta reglulega fundi skóla- og frístundaráðs.
SFS24030069
Fundi slitið kl. 15:04
Árelía Eydís Guðmundsdóttir Alexandra Briem
Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir Guðný Maja Riba
Helgi Áss Grétarsson Marta Guðjónsdóttir
Sabine Leskopf
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 11. mars 2024