Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 261

Skóla- og frístundaráð

Ár 2023, 13. nóvember, var haldinn 261. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.14.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður (B), Guðný Maja Riba (S), Helgi Áss Grétarsson (D), Kristinn Jón Ólafsson (P), Sabine Leskopf (S), Sandra Hlíf Ocares (D) og Stefán Pálsson (V). Eftirtaldir áheyrnarfulltrúar voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Helgi Eiríksson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva og Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, og Soffía Vagnsdóttir. Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer umræða um fundarsköp. SFS23110063

    Kl. 13.20 taka Soffía Pálsdóttir og Arndís Steinþórsdóttir sæti á fundinum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu eftir því, innan tilskilins frests, að á dagskrá fundar ráðsins í dag yrðu tekin fyrir tiltekin tvö mál. Þessu var hafnað þar eð dagskrá fundarins var birt án þess að tekið væri tillit til beiðninnar. Þetta gerðist einnig á fundi ráðsins 28. ágúst síðastliðinn. Stjórnsýsla Reykjavíkurborgar er lögbundin og þessi nálgun á beitingu dagskrárvalds meirihlutans samrýmist ekki lögum, sbr. 1. mgr. 27. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 2. ml. 2. mgr. 7. gr. samþykktar skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar. Því er mótmælt að lýðræðislega kjörnir fulltrúar í minni hluta fái ekki að njóta lögbundins réttar síns að koma málum á dagskrá ráðsins.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Hver kjörinn fulltrúi hefur rétt til þess að óska eftir að mál undir verksviði viðkomandi ráðs verði sett á dagskrá ráðsins. Hins vegar er það formaður ráðsins sem er með dagskrárvald en í 7. gr. í samþykktum fagráða kemur fram að formaður ráða boðar til funda, ákveður dagskrá í samráði við sviðsstjóra og tekur þar af leiðandi ákvörðun með málefnalegum hætti hvenær málið ratar á dagskrá.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka hver sé óskoraður réttur kjörinna fulltrúa að koma málum á dagskrá fundar.

  2. Lögð fram skýrslan Lesmál: Niðurstöður í 2. bekk í grunnskólum Reykjavíkur vorið 2023, dags. í nóvember 2023 og Skýrsla Miðju máls og læsis vegna Lesmáls vorið 2022, ódags.

    Ásgeir Björgvinsson og Sigrún Jónína Baldursdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Lestrarfærni er eitt mikilvægasta verkefni menntunar og hér liggja fyrir tölur sem þarf að rýna afar vel. Brýnt er að tryggja markvisst eftirfylgni og nægilegan sveigjanleika til að bregðast við eftir aðstæðum. Fjöldi barna sem þurfa á einstaklingsaðstoð að halda hefur minnkað úr 7% í 5% frá 2021 sem er fagnaðarefni. Hins vegar hefur fækkað í hópi barna sem búa yfir aldurssvarandi lestrarfærni á sama tíma úr 75% í 68%. Einnig vekur athygli að ekki allir skólar taka þátt í þessu ferli eða þiggja aðstoð frá Miðju máls og læsis og greina þarf ástæður þess. Greinargerðin bendir á þætti sem liggja á bak við þessar tölur, mismunandi kennsluaðferðir og krefjandi aðstæður í starfsumhverfi kennara en sérstaklega vaxandi hópur barna af erlendum uppruna sem hefur ekki aðgang að íslenskumælandi málsfyrirmyndum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fyrir liggja niðurstöður Lesmáls 2023 þar sem lestrarkunnátta nemenda í 2. bekk í grunnskólum Reykjavíkur var könnuð. Ástæða er til að þakka fyrir kynningu niðurstaðnanna og með hvaða hætti þeim var fylgt eftir. Töluverðar áskoranir í málaflokknum eru augljósar en í fyrra þurftu 7% barna á einstaklingsbundnum stuðningi að halda en í ár eru það 5% barna. Þýðingarmikið er að vinna markvisst að því að bæta skipulag og auka úrræði í því skyni að tryggja að sem flest börn í 2. bekk í grunnskólum Reykjavíkur hafi viðunandi lestrarfærni.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. nóvember 2023, um staðfestingu starfsáætlana frístundamiðstöðva starfsárið 2023-2024 ásamt starfsáætlunum frístundamiðstöðvanna Brúarinnar, Kringlumýrar, Miðbergs og Tjarnarinnar fyrir starfsárið 2023-2024.

    Samþykkt. SFS23110014

    Atli Steinn Árnason, Guðrún Kaldal, Haraldur Sigurðsson og Sigrún Sveinbjörnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans vilja koma á framfæri þakklæti til starfsfólks frístundar og félagsmiðstöðva fyrir bæði faglegt og uppbyggilegt starf með börnum og unglingum borgarinnar. Eftir því er tekið um allt land og víðar.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir kynningu á starfsáætlunum frístundamiðstöðva starfsárið 2023-2024. Þessi starfsemi er mikilvæg, m.a. til að stuðla að uppbyggilegu félagslífi ungs fólks og vera virk forvörn.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram greinargerð um Flotann – flakkandi félagsmiðstöð sumarið 2023 og vettvangsstarf félagsmiðstöðva í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum, dags. 24. október 2023. SFS23110015

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans fagna því góða og mikilvæga starfi sem Flotinn hefur unnið á höfuðborgarsvæðinu. Það tekur samhenta sveit að ráðast að vanda sem unglingar glíma við eins og ofbeldi þeirra á meðal. Við verðum að bregðast við með því að koma til móts við þau þar sem slíkt viðgengst.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir kynningu á Flotanum – flakkandi félagsmiðstöð sumarið 2023. Margvíslegar hagnýtar upplýsingar komu fram í kynningunni og æskilegt að þetta starf haldi áfram næsta sumar sem og áfram.

    Fylgigögn

  5. Fram fer kynning á niðurstöðum úr könnun á viðhorfum foreldra til frístundaheimila Reykjavíkurborgar vorið 2023. SFS23110038

    Gísli Ólafsson og Guðrún Mjöll Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ljóst er að það er mikil ánægja með starf frístundaheimila meðal foreldra. Meirihlutinn fagnar því að starfið sé vel metið og vill koma á framfæri þakklæti til stjórnenda starfsins og starfsmanna.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 24. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 9. október 2023:

    Óskað er eftir að upplýsingar um stöðu biðlista eftir plássi á frístundaheimili verði lagðar fram á næsta reglulega fundi skóla- og frístundaráðs.

    Samþykkt. SFS23100047

    Fylgigögn

  7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. nóvember 2023, um stöðu biðlista í frístundaheimili. SFS23100047

    Fylgigögn

  8. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 25. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 9. október 2023:

    Óskað er eftir að á dagskrá næsta reglulega fundar skóla- og frístundaráðs verði staða ráðninga á leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum.

    Samþykkt. SFS23060085

    Fylgigögn

  9. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundaráðs, dags. 18. október 2023, um stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði, 17. október 2023. SFS23060085

    Jóhanna H. Marteinsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 23. febrúar 2023, um svohljóðandi tillögu Úlfhildar Elísu Hróbjartsdóttur fulltrúa í ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða sem á fundi borgarstjórnar 14. febrúar 2023 var vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblöðum sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. apríl 2023 og 2. nóvember 2023:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundaráði að sjá til þess að nemendur í grunnskólum Reykjavíkurborgar fái fræðslu í skyndihjálp annað hvert ár, tvo klukkutíma í senn, frá og með vorönn 2024.

    Greinargerð fylgir.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi breytingatillögu:

    Sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs er falið að sjá til þess að nemendur í grunnskólum Reykjavíkurborgar fái viðunandi fræðslu í skyndihjálp í samræmi við aðalnámskrá grunnskóla.

    Greinargerð fylgir.

    Samþykkt.

    Tillagan er samþykkt svo breytt. MSS23020095

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutinn fagnar því að ungmenni hafa komið þessari tillögu á framfæri og telja mikilvægt að ganga úr skugga um að slysavarnakennsla sé í hverjum skóla.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði, sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. september 2023:

    Flokkur fólksins leggur til að skólayfirvöld boði til fundar með skólasamfélaginu í Reykjavík til að ræða þróunarverkefnið Kveikjum neistann og hvort áhugi sé á að innleiða það í einhverja skóla Reykjavíkur t.d. í tilraunaskyni. Jafnframt er lagt til að forsvarsmönnum verkefnisins verði boðið á fundinn til að kynna verkefnið og þróun þess. Til þessa hefur enginn grunnskóli í Reykjavík haft samband við skrifstofu skóla- og frístundasviðs og lýst yfir áhuga á verkefninu Kveikjum neistann sem Grunnskóli Vestmannaeyja hefur tekið þátt í ásamt Rannsóknasetri um menntun og hugarfar við Háskóla Íslands. Þetta kom fram í svari sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um hversu margir grunnskólar í Reykjavík hafi sýnt verkefninu áhuga og haft samband við skóla- og frístundasvið vegna þess. Draga má þá ályktun af þessu að skólar í Reykjavík þekki ekki verkefnið og væri því vert að halda kynningarfund fyrir kennara og skólastjórnendur þar sem forsvarsmenn Kveikjum neistann gætu kynnt verkefnið og þróun þess og svarað spurningum.

    Tillögunni er vísað frá. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. MSS23090125

    Kl. 15.28 víkur Stefán Pálsson af fundinum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Kveikjum neistann er verkefni sem fer fram í grunnskólanum í Vestmanneyjum og áhugavert er svo sannarlega að fylgjast með því þó að aðstæðurnar þar séu að mörgu leyti ekki sambærilegar. Fulltrúar meirihlutans leggja hins vegar mikla áherslu á áframhaldandi kannanir og verkefni hér í borginni sem byggja á gagnreyndum aðferðum á þessu sviði til að styðja við lestrarhæfni barna eins og kemur fram í þeim minnisblöðum sem hafa verið lögð fram um fyrirspurnir og tillögur sem áður hafa komið fram um sama verkefni bæði hér og í borgarráði. Tillögunni er þess vegna vísað frá.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. október 2021 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. nóvember 2023 og reglum um strætókort til nemenda í grunnskólum Reykjavíkurborgar:

    Lagt er til að reglur um strætókort handa nemendum í grunnskólum Reykjavíkurborgar taki mið af bæði lögheimili og búsetuheimili barns og að börn sem sæki skóla í öðru skólahverfi en lögheimili þeirra eigi einnig rétt á strætókorti. Eins er lagt til að þau börn sem sækja skóla í öðru hverfi en lögheimili þeirra fái einnig strætókort. Það eru ýmsar ástæður fyrir því að börn skipta um skóla og í lang flestum tilvikum eru foreldrar að taka ákvörðun sem þau telja barni sínu fyrir bestu. Börn hafa kannski þurft að skipta um skóla vegna eineltis og sækja þá skóla fjarri heimili sínu af þeim sökum. Einnig er hér um að ræða börn sem hafa flutt í nýtt hverfi en vilja halda tengslum við vini í gamla skólanum þar til haldið er í menntaskóla. Fráleitt er að neita þeim um strætókort.

    Greinargerð fylgir.

    Tillagan er felld. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS22020285

    Fylgigögn

  13. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði, sbr. 8. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 14. september 2023 og 2. lið fundargerðar mannréttinda og ofbeldisvarnarráðs frá 12. október 2023:

    Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg sendi bréf til foreldra og forráðamanna vegna aukins hnífaburðar barna og ungmenna líkt og það sem Menntasvið Kópavogsbæjar sendi foreldrum grunnskólabarna í upphafi skólaárs. Dæmi um hnífaburð barna í skólum eru til í Reykjavík og því full ástæða til að upplýsa foreldra og forráðamenn um þær reglur sem eru í gildi um að bera hníf á sér í skóla- og félagsmiðstöðvastarfi borgarinnar. Í bréfinu myndu foreldrar vera hvattir til að eiga samtal við börnin um að það sé stranglega bannað að bera hníf á sér í skóla- og félagsmiðstöðvastarfi og öðrum stofnunum.

    Tillagan er felld. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Helgi Áss Grétarsson, situr hjá. MSS23090085

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 9. nóvember 2023, um afgreiðslu borgarráðs á umsókn Hjallastefnunnar Grunnskóla ehf. um tímabundið leyfi til kennslu í 6. og 7. bekk í Barnaskóla Hjallastefnunnar og fjölgun nemenda. SFS23060039

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. nóvember 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um biðlista frístundaheimila, sbr. 8. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. nóvember 2023. MSS23110012

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. nóvember 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um upplýsingagjöf um frístundastarf til foreldra barna með stöðu flóttafólks, sbr. 14. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 25. september 2023. SFS23090150

    Fylgigögn

  17. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. nóvember 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um möguleika barna á flótta til að tjá sig um þeirra mál og þarfir, sbr. 31. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 9. október 2023. SFS23100040

    Fylgigögn

  18. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. nóvember 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um leiðir til að hjálpa börnum á flótta að þroskast í íslensku samfélagi, sbr. 32. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 9. október 2023. SFS23100041

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 15:51

Árelía Eydís Guðmundsdóttir Guðný Maja Riba

Helgi Áss Grétarsson Kristinn Jón Ólafsson

Sabine Leskopf Sandra Hlíf Ocares

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð Stafræns ráðs frá 13. nóvember 2023