Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 243

Skóla- og frístundaráð

Ár 2022, 19. desember, var haldinn 243. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.16. Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Sabine Leskopf varaformaður (S), Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir (P), Jórunn Pála Jónasdóttir (D), Magnea Gná Jóhannsdóttir (B), Sara Björg Sigurðardóttir (S) og Trausti Breiðfjörð Magnússon (J). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Atli Steinn Árnason, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Guðrún Jóna Thorarensen, leikskólastjórar og Linda Ósk Sigurðardóttir, starfsfólk í leikskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason og Soffía Vagnsdóttir.

Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 5. desember 2022: 

    Lagt er til að málefni Grandaborgar verði á dagskrá næsta fundar í skóla- og frístundaráði. Mikilvægt er að ráðið fjalli um þá alvarlegu stöðu sem komin er upp í leikskólanum. Það veldur vonbrigðum að ekki hafi verið orðið við því að taka málefni leikskólans á dagskrá fundarins í dag að beiðni skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokksins.

     Samþykkt. SFS22120041

    Fylgigögn

  2. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. desember 2022, varðandi málefni leikskólans Grandaborgar. SFS22120041

    -    Kl. 13.20 tekur Soffía Pálsdóttir sæti á fundinum. 

    -    Kl. 13.23 tekur Þorkell Sigurlaugsson sæti á fundinum með rafrænum hætti. 

    -    Kl. 13.34 tekur Arndís Steinþórsdóttir sæti á fundinum. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Aðstæðurnar varðandi nauðsynlegar viðgerðir á Grandaborg eru afar krefjandi, sérstaklega þar sem upplýsingar um ástand húsnæðisins komu ekki fyllilega í ljós fyrr en á seinni stigum framkvæmda. Skiljanlega er þetta mjög erfitt umhverfi fyrir leikskólasamfélagið og óvissan leiðir af sér mikið álag fyrir fjölskyldur og starfsfólk. Þess vegna leggja fulltrúar meirihlutans mikla áherslu á reglulega upplýsingagjöf til skólasamfélagsins eins og hægt er og að unnið sé vel og hratt að viðhaldi skólans.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa um langt árabil bent á viðhaldsþörf grunn- og leikskólahúsnæðis í borginni án þess að brugðist hafi verið við fyrr en í óefni var komið. Enn er langt í land að hægt verði að mæta viðhaldsþörfinni því samkvæmt áætlun mun það taka a.m.k. fjögur til sex ár. Það er ljóst að borgin hefur sparað sér hér til tjóns sem því miður hefur komið niður á leik- og grunnskólastarfi í borginni eins og nýleg dæmi sanna en rakaskemmdir og mygla hafa fundist á þessu ári í alls 28 leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum. Það er einnig fyllsta ástæða fyrir Reykjavíkurborg að bæta ferla við að koma upplýsingum á framfæri við kjörna fulltrúa, hagaðila og almenning þegar röskun verður á grunn- og leikskólastarfi vegna slæms ástands húsnæðis. Ástæða er til þess að kanna hvort álag á starfsfólki á leikskólum við aðstæður sem þessar kalli á tilfallandi álagsgreiðslur. Bæði hvað varðar ófyrirséð og ný verkefni, breytt skipulag og heilsu starfsfólks. Loks er alvarlegt að í nýafstaðinni fjármálaumræðu í borgarstjórn er ekki að merkja breytingu á fjármagni til viðhalds leikskóla og á því að halda áfram á sömu braut. Þvert á móti á að skera niður í fjármögnun vegna máltíða leikskólabarna um 100 m.kr. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mygla í leikskólum borgarinnar sýnir skýrt hverjar afleiðingar þess að ráðast í „hagræðingu” á viðhaldi skólabygginga hafa orðið. Nú sitja börnin, kennarar, foreldrar og borgin uppi með margfaldan kostnað því afleiðingarnar hafa orðið aukin mygla með tilheyrandi heilsutjóni og kvíða. Það þarf að hugsa fjármögnun skólastarfs borgarinnar upp á nýtt. Mesta hagræðingin er fólgin í því að fjárfesta vel í starfinu og sjá þannig til þess að samfélagið græði á því í framtíðinni. Önnur stefna heldur ekki vatni lengur.

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning og umræða um stafræna vegferð skóla- og frístundasviðs. SFS22110211

    Halla María Ólafsdóttir og Jón Hafsteinn Jóhannsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans þakka fyrir góða kynningu á þessu mikilvæga verkefni sem sýndi vel þá stafrænu siglingu sem Reykjavíkurborg er á. Ávinningurinn er nú þegar sýnilegur en stafræn innritun fyrir foreldra og forsjáraðila barna í grunnskólunum hefur verið tekin í notkun og stafræn innritun leikskóla er væntanleg á næsta ári. Í kjölfarið mun nemendaskráning verða samræmd. Mikilvæg búnaðarkaup fyrir nemendur og kennara hafa litið dagsins ljós og uppbygging á gagnainnviðum fyrir skóla- og frístundasvið er í vinnslu. Stafræn umbreyting mun þá gera upplýsingagjöf betri m.a. með auknu gegnsæi og sjálfvirkni sem styður aukinheldur við betri og upplýstari ákvörðunartöku í málaflokknum. Um er að ræða mikla fjárfestingu til framtíðar í betri þjónustu fyrir nemendur, fagfólk og fjölskyldur barna í borginni.

    -    Kl. 14.00 tekur Frans Páll Sigurðsson sæti á fundinum. 

    -    Kl. 14.14 víkur Þorkell Sigurlaugsson af fundinum. 

    Fylgigögn

  4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 24. nóvember 2022, um staðfestingu starfsáætlana skólahljómsveita skólaárið 2022-2023 ásamt starfsáætlun Skólahljómsveitar Austurbæjar, Skólahljómsveitar Árbæjar og Breiðholts, Skólahljómsveitar Grafarvogs og Skólahljómsveitar Vesturbæjar og Miðbæjar. 

    Samþykkt. SFS22110210

    Elín Oddný Sigurðardóttir, Anna Sigurbjörnsdóttir, Einar Jónsson, Ingi Garðar Erlendsson og Snorri Heimisson taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans þakka fyrir góða yfirferð og áhugaverða kynningu á starfsáætlunum skólahljómsveita í borginni. Starfsemi skólahljómsveita er mikilvæg leið til að jafna tækifæri barna til að læra á hljóðfæri, taka þátt í skipulögðu tónlistarnámi og tilheyra hópi. Það er ánægjulegt að sjá hversu faglegt og umfangsmikið starf er unnið í skólahljómsveitum borgarinnar þar sem 520 nemendur stunda nám og er skipt upp í þrjár hljómsveitir eftir aldri og getu. Einnig var frábært að sjá hversu vel starf skólahljómsveita fellur að meginmarkmiðum menntastefnunnar t.a.m. er varðar félagsfærni og sköpun. Ljóst er að starfið er ómetanlegt í list- og frístundastarfi innan borgarinnar og í inngildingu barna óháð uppruna inn í íslenskt samfélag.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Starfið sem fer fram hjá skólahljómsveitum Reykjavíkur er mjög mikilvægt og þar fer fram frábært starf. Það þarf að tryggja að allir sem vilji kennslu þar fái pláss. Nú eru starfandi hljómsveitir á fjórum stöðum og það mætti fjölga þeim þannig að hvert hverfi sé með sína hljómsveit. Þannig er betra aðgengi tryggt fyrir alla óháð efnahag. Tónlistarnám ætti þar að auki að vera gjaldfrjálst, eins og grunnskólanám er. Aðgengi allra óháð efnahag er ekki tryggt hér.

    -    Kl. 14.42 tekur Marta Guðjónsdóttir sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram Skýrsla vegna samstarfs- og styrktarsamnings SFS og RÚV um UngRÚV 2020-2022. SFS22120074

    Harpa Rut Hilmarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram drög að samstarfs- og styrktarsamningi skóla- og frístundasviðs við RÚV um UngRÚV 2023-2025 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. desember 2022 og reglum Reykjavíkurborgar um styrki. 

    Samþykkt með fimm atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Vísað til borgarráðs. SFS22120075

    Harpa Rut Hilmarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fjölmiðlalæsi er ein af meginstoðum lýðræðislegrar þátttöku nú á dögum. Að gefa unglingum tækifæri og vettvang til að láta raddir sínar heyrast og læra á fjölmiðlaumhverfi er í samræmi við nýja menntastefnu, m.a. með námskeiðum í tækni- og dagskrárgerð fyrir nemendur á unglingastigi grunnskóla, auk þess sem það er ómetanleg reynsla fyrir unglingana sjálfa. Áður fyrr hefur borgarlögmaður staðfest að samningurinn samræmist innkaupareglum Reykjavíkurborgar og samningurinn falli undir þá starfsemi sem tilgreind er í 13. gr. innkaupareglna borgarinnar og fjárhæð samningsins sé undir viðmiðunarfjárhæðum VIII. kafla laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er ánægjulegt að RÚV sýni þessu verkefni áhuga og sinni þannig fræðsluhlutverki sínu. Rétt er að benda á að RÚV ber að auka framleiðslu á íslensku efni fyrir börn samkvæmt þjónustusamningi RÚV og menntamálaráðuneytisins. Hér hefði verið rétt að fara í útboð/verðfyrirspurn og kanna áhuga annarra sjónvarpsstöðva til að taka verkefnið að sér eða öðrum fjölmiðlum. Þá vekur athygli að hér er ekki um þjónustukaup að ræða heldur er skóla- og frístundaráð að styrkja RÚV ohf. Ekki liggja fyrir skýrar talningar um áhorf á efnið sem framleitt hefur verið hingað til, það er á grundvelli fyrri samnings við RÚV sem nú stendur til að endurnýja.

        

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er mikilvægt að sjónvarp allra landsmanna sinni hlutverki sínu með fræðslu fyrir ungt fólk. Þó svo að við styðjum tillöguna þá er það sérstakt að samning þurfi til þess að RÚV fjalli um málefni ungs fólks. Það er áhyggjuefni að það sé rekið eins og fyrirtæki sem þurfi að greiða sérstaklega til þess að fjalla um mál sem því ber að sinna.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 5. desember 2022:

    Lagt er til að fulltrúa leikskólastjóra og leikskólakennara af vettvangi verði boðið að taka þátt í vinnu starfshóps um gerð nýs fjárhagslíkans fyrir leikskóla.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn þremur atkvæðum Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands. SFS22110184

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans árétta að tveir fyrrverandi leikskólastjórar hafa verið í starfshópnum vegna vinnu við nýja fjárhagslíkans leikskóla sem er í vinnslu, þau eru Valborg Guðlaugsdóttir fagstjóri leikskóla í Norður og Ólafur Bjarkason skrifstofustjóri leikskólahluta hjá skóla- og frístundasviði. Vinna hópsins er á lokametrunum og hefur verið ákveðið að kynna hana og afrakstur starfshópsins fyrir öllum leikskólastjórum áður en farið verður í að samþykkja nýtt líkan.

    -    Kl. 16.07 víkur Jórunn Pála Jónasdóttir af fundinum. 

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 19. desember 2022:

    Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til að vegna húsnæðismála leikskólans Hlíðar við Engilhlíð verði heimilað að bjóða foreldrum með börn á leikskólanum Hlíð forgang fram yfir aðra á forgangslista í leikskólann Klambra eða aðra leikskóla þar sem mögulegt er. Forgangurinn eigi við um 10 börn foreldra sem óska eftir flutningi, elstu börnin fyrst. Forgangurinn eigi eingöngu við um flutning frá Hlíð í eitt skipti.  

    Greinargerð fylgir.

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS22120101

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans í skóla- og frístundaráði telja mikilvægt að börn sem stundað hafa nám í leikskólanum Hlíð geti komist fljótt og örugglega inn á annan leikskóla. Tillaga skóla- og frístundasviðs er viðleitni við þeirri stöðu sem er uppi þannig að hægt sé að tryggja samfellu í leikskólastarfi barnanna.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ljóst er að mikið úrræðaleysi er hvað varðar húsnæðisvanda þeirra leikskóla þar sem rakaskemmdir og mygla hafa komið upp. Það alvarlega ástand sem við blasir vegna ástands leikskólahúsnæðis er þörf á skýrri stefnumörkun og neyðaráætlun sem fylgi fjármagn.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 29. nóvember 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um sérkennslu í grunnskólum, sbr. 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. febrúar 2022. MSS22020236

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. desember 2022, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um samstarf um tónlistarnám og fjölda nemenda í tónlistarnámi, sbr. 17. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 19. september 2022. SFS22090135

    Fylgigögn

  11. Fram fer umræða um fréttir af vettvangi skóla- og frístundastarfs í Reykjavík. SFS22050155

  12. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að skólamáltíðir verði með öllu gjaldfrjálsar í grunnskólum Reykjavíkur. 

    Greinargerð fylgir.

    Frestað. SFS22120096    

     

    Fylgigögn

  13. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hver er kostnaðurinn við það að halda uppi greiðslukerfi og annarri starfsemi tengdri því að reikna út og hafa yfirsýn yfir þau gjöld sem foreldrar þurfa að borga vegna þjónustu við börn þeirra á leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum? Það má ætla að starfskraft þurfi til þess að vinna við það að hafa þessa yfirsýn og vera í samskiptum við foreldra vegna gjalda.

    SFS22120097

  14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hefur kostnaður vegna afleiðinga niðurskurðar í skólakerfinu (grunn- og leikskólum) verið reiknaður út til langs tíma litið? Hefur það verið kannað hver möguleg áhrif verða á börn vegna niðurskurðar í rekstri grunn- og leikskóla og frístundaheimila? Ætla má að kostnaður vegna vanfjárfestingar muni bíta í bakið á þeim og okkur til lengri tíma litið. Dæmi um slík áhrif er niðurskurður á viðhald skólabygginga, með þeim afleiðingum að kostnaðurinn hlóðst upp seinna meir með enn meiri útgjöldum. Ef við vanfjárfestum í æsku borgarinnar má ætla að afleiðingar þess og kostnaður muni hlaðast upp í framtíðinni. Hefur þetta verið athugað og hugsað til lengri tíma, hver áhrif niðurskurðar og vanfjárfestinga eru með tilliti til upphlaðins kostnaðar seinna meir?

    SFS22120098

Fundi slitið kl. 16:21

Sabine Leskopf Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir

Magnea Gná Jóhannsdóttir Marta Guðjónsdóttir

Sara Björg Sigurðardóttir Trausti Breiðfjörð Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 19. desember 2022