Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 242

Skóla- og frístundaráð

Ár 2022, 5. desember, var haldinn 242. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.18.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður (B), Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir (P), Helgi Áss Grétarsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D), Sara Björg Sigurðardóttir (S), Stein Olav Romslo (S) og Trausti Breiðfjörð Magnússon (J). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Arndís Steinþórsdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Áslaug Björk Eggertsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum; Guðrún Jóna Thorarensen, leikskólastjórar; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Linda Ósk Sigurðardóttir, starfsfólk í leikskólum og Kristrún Lilja Daðadóttir; framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson, sviðsstjóri, Eygló Traustadóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir.

Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs dags. 1. desember 2022, ásamt umsögn foreldraráðs Bakka, dags. 29. nóvember 2022. 

    Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til að honum verði falið að leita leiða til að tryggja að húsnæðið að Bakkastöðum 77, Reykjavík, verði nýtt undir starfsemi leikskóla fyrir börn á aldrinum 12 mánaða til 6 ára á vegum sjálfstætt starfandi leikskóla.  Niðurstaða liggi fyrir eigi síðar en 2.  janúar 2023. Framangreint felur í sér að frá og með 1. febrúar 2023 verði lögð niður starfsemi starfstöðvar leikskólans Ness að Bakkastöðum 77, 112 Reykjavík. Foreldrar barna sem eru í  Bakka og þess óska fái nú þegar  forgang fyrir börn sín í aðra leikskóla Reykjavíkurborgar og fari börnin fram fyrir önnur börn á forgangslista í þann leikskóla sem foreldrar óska eftir að þau fari í. Sem dæmi eru laus pláss í Ævintýraborg í Vogabyggð fyrir öll börn í Bakka. Ákvæði reglna um leikskólaþjónustu um eins mánaðar uppsagnarfrest eigi ekki við um foreldra barna í Bakka sem færa börn sín í annan leikskóla. Á þetta við um fyrsta flutning barns frá Bakka en ekki við næstu flutninga þar á eftir. 

    Greinargerð fylgir. 

    Samþykkt með sex atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins, Pírata og Sjálfstæðisflokksins gegn atkvæði skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. Vísað til borgarráðs. SFS22100155

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Erfitt hefur reynst að halda úti öflugum rekstri leikskólans Bakka og metnaðarfullu uppeldis- og menntastarfi. Stjórnendur hafa ítrekað bent á þá þróun sem orðið hefur á barnafjölda í Bakka og lýst yfir áhyggjum sínum af starfinu þar. Erfitt hefur reynst að fá menntað starfsfólk til starfa þegar starfsstöðvar eru fámennar. Markvissar aðgerðir voru gerðar til að fjölga börnum við leikskólann eins og að gera tvær ungbarnadeildir og átak í kjölfar stóra innritunardagsins en án árangurs. Húsnæði Bakka hefur verið nýtt síðan í haust af starfsemi Ævintýraborgar í Vogabyggð samhliða börnum á Bakka. Um miðjan desember opnar Ævintýraborg Vogabyggðar og þau börn ásamt starfsmanni flytjast þangað. Þá munu foreldum barna á Bakka standa þrjár leiðir til boða: Að flytja barnið yfir í Ævintýraborg Vogabyggð, að flytja barnið yfir í aðra borgarrekna leikskóla, en veittur verði forgangur ef laus pláss eru til staðar og að lokum að flytja barnið yfir í sjálfstætt starfandi leikskóla. Styður meirihluti Framsóknar, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar þá tillögu skóla- og frístundasviðs að sjálfstætt starfandi leikskóli taki við húsnæði Bakka og hefji þar leikskólastarf enda mikilvægt að ná farsælli lendingu fyrir foreldrana, festu í daglegu lífi barnanna og bjóða upp á leikskólastarf í nærumhverfinu.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það hefur lengi legið fyrir að vegna fámennis í Staðahverfi í Grafarvogi séu það töluverðar áskoranir að sinna borgarrekinni skólastarfsemi þar. Meðal annars til að bæta úr slíkum viðfangsefnum settu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögur á síðasta kjörtímabili að byggð í Staðahverfi í Grafarvogi yrði gerð þéttari og fyrir kosningarnar sl. vor var það eitt af loforðum flokksins. Einnig verður að horfa til þess að á síðasta kjörtímabili stóð þáverandi meirihluti borgarstjórnar fyrir því að loka eina grunnskólanum í Staðahverfi, Korpuskóla, og í ár hafa málefni leikskólans í Staðahverfi, Bakka, verið mikið til umfjöllunar, svo sem sjá má af fundargerðum skóla- og frístundaráðs 5. september 2022 (9. dagskrárliður), 3. október 2022 (8. dagskrárliður) og 21. nóvember 2022 (14. dagskrárliður). Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í ráðinu hafa á þessu ári talið nauðsynlegt að verja leikskólastarfsemina í Staðahverfi og styðja því þessa tillögu enda veitir hún von um að rekstur leikskóla verði áfram í þessu fallega hverfi borgarinnar. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutinn í skóla- og frístundaráði stefnir að því að koma leikskólanum Bakka í hendur einkaaðila. Rökin fyrir því eru að lítil aðsókn sé í leikskólann og þ.a.l. borgi rekstrareiningin sig ekki. Þrátt fyrir það hefur fjöldi foreldra sótt um að fá pláss fyrir börn sín á leikskólanum en fengið synjun. Talað er um að erfiðlega hafi gengið að ráða inn starfsfólk á leikskólann og því ekki verið hægt að bjóða þessum börnum laus pláss. Samt hefur fólki sem vill vinna á leikskólanum verið ráðlagt að sækja ekki um, og sagt að leikskólanum verði lokað á næstunni. Það er eins og það hafi verið tekin meðvituð ákvörðun um það að ryðja jarðveg fyrir einkavæðingu á þessum leikskóla með því að ráða ekki inn nýtt starfsfólk, synja börnum um pláss og tala síðan í kjölfarið um að leikskólinn borgi sig ekki. Hvernig allt eigi síðan að kippast í lag við einkavæðingu eins og töfrum líkast er erfitt að átta sig á.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    Lagt er til að skóla- og frístundaráð veiti skóla- og frístundasviði heimild til að semja við L.F.A. ehf. eða annan þar til bæran aðila um rekstur leikskólastarfsemi í húsnæði sem áður hýsti leikskólann Bakka í Staðahverfi.

    Greinargerð fylgir. 

    Tillögunni er vísað frá með fimm atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. SFS22120006

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Að mati fulltrúa Sjálfstæðisflokksins hefði farið betur á því að þessi tillaga hefði verið fremur samþykkt en sú sem samþykkt var undir dagskrárlið 1. Tillagan var einnig lögð fram í ljósi þess að engin trygging var fyrir því að fulltrúar meirihluta borgarstjórnar myndu setja málefni leikskólans Bakka á dagskrá fundarins í dag. Eins og fram kom á fundi foreldraráðs leikskólans Bakka þriðjudaginn 29. nóvember sl., þar sem kjörnir fulltrúar frá meiri- og minnihluta, m.a. mættu, þá ríkir vantraust af hálfu foreldra leikskólabarna í Staðahverfi í garð Reykjavíkurborgar. Nánari upplýsingar um það atriði og fleiri til má finna í umsögn foreldraráðs Bakka til skóla- og frístundaráðs, dags. 29. nóvember 2022.  

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihluti Framsóknar, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar styður að sjálfstætt starfandi leikskóli taki við húsnæði Bakka og hefji þar leikskólastarf enda teljum við mikilvægt að það verði boðið upp á leikskólastarf í hverfinu. Það er einnig nauðsynlegt fyrir börn og foreldra að ná farsælli lendingu á leikskólamálum í hverfinu og ná aftur festu í daglegu lífi barnanna.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags, 14. nóvember 2022, ásamt umsögn stjórnar Félags skólastjórnenda í Reykjavík, dags. í nóv. 2022. 

    Lagt er til að hætta að kalla eftir og vinna miðlægt úr niðurstöðum stærðfræðiskimunar í 3. bekk með Talnalykli. Send verði hvatning til nýrrar stofnunar menntamála um að flýta þróun matsaðferða og nýs heildstæðs matskerfis í stærðfræði fyrir alla grunnskóla í landinu. 

    Greinargerð fylgir. 

    Samþykkt með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá. SFS22110146

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mælir meirihluti Framsóknar, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar með að ný stofnun sem kemur í stað Menntamálastofnunnar beiti sér fyrir kynningu á matsaðferðum og þróun á nýju heildstæðu matstæki eða -kerfi í stærðfræði til samræmis við gildandi aðalnámskrá sem tekur einnig til allra aldurshópa grunnskólans.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er mikilvægt að til séu samræmd mælitæki í stærðfræði til að meta kunnáttu og stöðu nemenda á yngri stigum sem nýtist vel til að bæta nám og kennslu í greininni. Skimun í stærðfærði fellur vel að farsældarlögunum um snemmtæka íhlutun og því óábyrgt að hætta að kalla eftir og vinna miðlægt úr niðurstöðum Talnalykils í 3. bekk á meðan annað samræmt mælitæki hefur ekki  verið þróað og tekið við af Talnalyklinum.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram skýrslan Framtíðarskipan skóla- og frístundastarfs: Austurbæjarskóli, Háteigsskóli, Hlíðaskóli, Vörðuskóli, Draumaland, Halastjarnan og Eldflaugin, 105, Gleðibankinn og 100og1, ódags. ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. nóvember 2022 varðandi umsagnir hagaðila, umsögn skólaráðs Austurbæjarskóla, dags. 23. febrúar 2022; umsögn foreldrafélags Austurbæjarskóla, dags. 14. febrúar 2022; umsögn starfsmanna Austurbæjarskóla, dags. 21. febrúar 2022; umsögn skólaráðs Háteigsskóla, dags. 14. febrúar 2022; umsögn foreldrafélags Háteigsskóla, dags. 30. janúar 2022; umsögn starfsfólks Háteigsskóla, dags. 22. febrúar 2022; umsögn skólaráðs Hlíðaskóla, dags. 14. febrúar 2022; umsögn foreldrafélags Hlíðaskóla, dags. 15. febrúar 2022; umsögn frístundamiðstöðvarinnar Tjarnarinnar, dags. 14. febrúar 2022; umsögn félagsmiðstöðvarinnar 100og1, ódags; umsögn félagsmiðstöðvarinnar 105, ódags; umsögn félagsmiðstöðvarinnar Gleðibankans, ódags; umsögn frístundaheimilisins Draumalands, ódags; umsögn frístundaheimilisins Eldflaugarinnar, ódags; umsögn frístundaheimilisins Halastjörnunnar, ódags; umsögn íbúaráðs Miðborgar og Hlíða, dags. 15. febrúar 2022; umsögn Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur, ódags; umsögn ungmennaráðs Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, ódags; samantekt vinnustofu með 5.-10. bekk; samantekt vinnustofu með 1.-4. bekk og umsögn Íbúasamtaka Hlíða, Holta og Norðurmýrar, dags. 14. febrúar 2022. SFS22020011

    Sigrún Harpa Magnúsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þakkar meirihluti Framsóknar, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar fyrir góða kynningu og faglega framsetningu á þeirri vinnu sem liggur að baki umsögnum hagaðila um framtíðarskipan skóla- og frístundastarfs í Hlíðaskóla, Háteigsskóla, Austurbæjarskóla og Vörðuskóla. Umfangsmikið og mikilvægt samtal hefur átt sér stað innan skólasamfélagsins, frístundaaðila, foreldra og barna. Mun skóla- og frístundaráð taka ákvörðun þegar fjármála- og áhættugreining á tillögunum fimm sem fram koma í sviðsmyndagreiningunni liggur fyrir.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram skýrsla starfshóps um framtíð skóla- og frístundastarfs í Ingunnar-, Dals- og Sæmundarskóla, dags. í september 2022. SFS22040092

    Sigrún Sveinbjörnsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er vilji meirihluta Framsóknar, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar að farsæl lausn finnist á framtíðarskipan skóla- og frístundastarfs í Ingunnarskóla, Dalskóla og Sæmundarskóla en um nokkurra ára skeið hefur verið ljóst að nemendaþróun í þessum þremur skólahverfum hefur verið ólík, annars vegar mikil fjölgun og hins vegar viðvarandi fækkun. Umfangsmikil vinna hefur átt sér stað af hálfu starfshópsins sem leggur til þrjár sviðsmyndir út frá þeirri nemendaþróun sem unnið er út frá. Að skólastarf haldi áfram í óbreyttri mynd, að breyta hverfamörkum skólanna og að lokum að gerðir verði tveir barnaskólar og einn unglingaskóli en þar innan eru þrjár útfærslur reifaðar. Vill meirihluti Framsóknar, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar þakka fyrir góða kynningu, fagleg vinnubrögð og þarft innlegg í þá vinnu sem framundan er.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem var á fundi borgarráðs 20. október 2022 vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt bréfi borgarráðs, dags. 21. október 2022 og umsögn skóla- og frístundasviðs, dags. 14. september 2022:

    Lagt er til að starfsmönnum frístundaheimila verði boðið upp á heilsdags- og heilsársstörf. Þannig munu starfskraftar þeirra nýtast fyrri hluta dags við leikskólana en seinni hlutann við frístundaheimilin.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Lagt er til að starfsmönnum frístundaheimila verði boðið upp á heilsdags- og heilsársstörf þar sem því verður við komið. Þannig munu starfskraftar þeirra nýtast fyrri hluta dags við leikskólana en seinni hlutann við frístundaheimilin.

    Breytingartillagan er samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá.

    Tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er samþykkt svo breytt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá. SFS22080117

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem var frestað á fundi skóla- og frístundaráðs 21. nóvember 2022, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 28. nóvember 2022, um tillöguna:

    Lagt er til að vinna hefjist sem fyrst við gerð nýs fjárhagslíkans fyrir leikskóla Reykjavíkur. Í þeirri vinnu er lagt til að samráð verði haft við leikskólastjórnendur og að þeir eigi fulltrúa í vinnuhópnum.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá. SFS22110184

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    Lagt er til að frá og með 1. janúar 2023 taki til starfa starfshópur þriggja kjörinna fulltrúa í skóla- og frístundaráði, tveir frá meirihluta og einn frá minnihluta. Verkefni starfshópsins er að tryggja að allar upplýsingar sem berast skóla- og frístundasviði um húsnæði, þar sem starfsemi fer fram á þess vegum, og telja verður óviðunandi, svo sem vegna myglu, verði eins skjótt og kostur er, komið til starfshópsins. Starfshópurinn setur sér nánari starfsreglur, m.a. með hvaða hætti upplýsingum verði miðlað til annarra fulltrúa skóla- og frístundaráðs.

    Greinargerð fylgir.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

    Tillögu skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stofnun starfshóps kjörinna fulltrúa vegna óviðunandi húsnæðis á vegum skóla- og frístundasviðs er vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs. 

    Samþykkt. SFS2212000

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að skóla- og frístundaráð samþykki stefnu í málefnum dagforeldra á grundvelli skýrslu dags. maí 2018 (SFS2018010109) og sú stefna taki gildi eigi síðar en 1. júlí 2023. Í þessu felst m.a. að borgin útvegi leiguhúsnæði svo að dagforeldrar eigi auðveldara með að starfa tveir saman, niðurgreiðslur til dagforeldra hækki verulega, aðstöðu- og stofnstyrkir verði hækkaðir og aukinn verður faglegur stuðningur við dagforeldra.

    Greinargerð fylgir. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

    Tillögu skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um mótun stefnu í málefnum dagforeldra er vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

    Samþykkt. SFS22120007

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs, dags. 14. nóvember 2022, um bókun um ofbeldi meðal ungmenna. MSS22100253

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf mannréttinda og ofbeldisvarnarráðs, dags. 14. nóvember 2022, um bókun um stöðu eineltismála. MSS22100254

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs, dags. 14. nóvember 2022, um bókun um hatursorðræðu og aukið aðkast sem hinsegin ungmenni verða fyrir. MSS22100255

    Fylgigögn

  13. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi skóla- og frístundaráðs 21. nóvember 2022. 

    Í apríl 2021 auglýsti Reykjavíkurborg á evrópska efnahagssvæðinu eftir tilboðum í nýbyggingu og lóðarhönnun fyrir Miðborgarleikskóla og fjölskyldumiðstöð að Njálsgötu 89, 105 Reykjavík. Á þessu ári hafa tvö útboð verið haldin þar sem boðið hefur verið út bygging leikskóla og fjölskyldumiðstöðvar á áðurnefndum reit á Njálsgötu. Í ágúst sl. barst ekkert tilboð í verkið og núna 12. nóvember sl. var í fjölmiðlum upplýst að eitt tilboð hafi borist í síðara útboðinu sem var 71,6% hærra en kostnaðaráætlun, þ.e. tilboðið hljóðaði upp á tæpa 2,6 milljarða kr. en kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir byggingarkostnaði upp á rétt rúman 1,5 milljarð kr. Spurt er: Kemur til greina að falla frá því að bjóða út verkið á þeim forsendum sem hönnun húsnæðisins gerir ráð fyrir?

    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá. SFS22110190

    Fylgigögn

  14. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. nóvember 2022, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um lista yfir skóla þar sem rakaskemmdir og mygla hafa komið upp á árinu 2022, sbr. 20. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 3. október 2022. SFS22100009

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ljóst er að ástand skólahúsnæðis í borginni er víða óviðunandi enda hafa rakaskemmdir og mygla komið upp á  28 starfsstöðum  skóla- og frístundsviðs á þessu ári. Þetta eru afleiðingar margra ára uppsafnaðs viðhaldsleysis sem ekki hefur verið tekið  nægjanlega alvarlega þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir og ábendingar fulltrúa Sjálfstæðisflokksins til margra ára. Bregðast þarf við þessari alvarlegu stöðu til að tryggja nemendum og starfsfólki heilsusamlegt húsnæði.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. nóvember 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um hækkun á niðurgreiðslu til dagforeldra, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. október 2022. MSS22100201

    Fylgigögn

  16. Fram fer umræða um fréttir af vettvangi skóla- og frístundastarfs í Reykjavík. SFS22050155

  17. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að skóla- og frístundasvið Reykjavíkur geri reglulega könnun á því hversu margir nemendur í grunnskólum Reykjavíkur eru í mataráskrift og samhliða fari fram könnun á gæðum skólamáltíða. Mikilvægt er að slík könnun fari reglulega fram og að kannaðar verði sérstaklega ástæður þess hvers vegna allir nemendur nýti sér ekki mataráskrift, hvort um sé að ræða efnahagslegar ástæður foreldra eða að máltíðirnar uppfylli ekki gæðakröfur. Könnunin verði nýtt til þess að gera viðeigandi úrbætur til að fleiri nemendur nýti sér mataráskrift. 

    Frestað. SFS22120040

  18. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að málefni Grandaborgar verði á dagskrá næsta fundar í skóla- og frístundaráði. Mikilvægt er að ráðið fjalli um þá alvarlegu stöðu sem komin er upp í leikskólanum. Það veldur vonbrigðum að ekki hafi verið orðið við því að taka málefni leikskólans á dagskrá fundarins í dag að beiðni skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokksins.

    Frestað. SFS22120041

  19. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að fulltrúa leikskólastjóra og leikskólakennara af vettvangi verði boðið að taka þátt í vinnu starfshóps um gerð nýs fjárhagslíkans fyrir leikskóla.

    Frestað. SFS22110184

  20. Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Í ljósi þess að tilraunaverkefni um breytingu á dvalartíma barna í leikskólanum á viku í 42,5 klst. að hámarki mun hefjast í janúar 2023 þá er mikilvægt að fram komi hvernig árangur tilraunaverkefnisins verður metinn. Ljóst er að þessi stytting á leyfilegum hámarksdvalartíma mun hafa mikil áhrif á daglegt líf sumra fjölskyldna sem þurfa á lengri dvalartíma að halda vegna ýmissa aðstæðna sem oft eru ekki á færi þeirra að breyta. Stytting dvalartíma minnkar sveigjanleika og mun auka álag á sumar fjölskyldur. Hvernig verður þetta tilraunaverkefni metið? Hver munu sjá um það mat? Hvernig verða áhrif þessarar breytingar á fjölskyldur metin? Hvernig verða áhrifin á leikskólastarfið metin? Hvernig verða áhrifin á börn metin? Hvaða þættir munu vega þyngst þegar ákveðið verður hvort þessi breyting verður varanleg? Mikilvægt er að fá svör við þessu.

    SFS22120042

Fundi slitið kl. 15:54

Árelía Eydís Guðmundsdóttir Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir

Helgi Áss Grétarsson Marta Guðjónsdóttir

Sara Björg Sigurðardóttir Stein Olav Romslo

Trausti Breiðfjörð Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
242. Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 5. desember 2022.pdf