Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 220

Skóla- og frístundaráð

Ár 2021, 23. nóvember, var haldinn 220. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.33. Eftirtalin voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Elín Oddný Sigurðardóttir (V), Marta Guðjónsdóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Eygló Traustadóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir og Ólafur Brynjar Bjarkason. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Valgerður Sigurðardóttir (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum, Bára Katrín Jóhannsdóttir, Reykjavíkurráð ungmenna; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Jafnframt eftirtalið starfsfólk skóla- og frístundasviðs: Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. 
Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram Lýðræðisstefna Reykjavíkurborgar 2021-2030. SFS2021080124

    Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fyrsta lýðræðisstefna Reykjavíkurborgar hefur nú verið lögð fram og samþykkt eftir þverpólitískt samstarf allra flokka í borgarstjórn. Stefnan hefur það meginmarkmið að virkja og hvetja borgarbúa almennt til þátttöku þegar kemur að mótun stefnu og ákvarðanatöku í sameiginlegum hagsmunamálum. Stefnan felur í sér skuldbindingu af hálfu Reykjavíkurborgar um að viðhafa lýðræðisleg vinnubrögð, greiða götu borgarbúa þegar kemur að málefnum sem þá varða og auka gæði ákvarðanatöku með áherslu á virkt samráð, nýjar leiðir fyrir borgarbúa til að hafa áhrif og gegnsæ vinnubrögð í stjórnsýslu borgarinnar. Sérstakur fengur er að aðgerðaáætlun stefnunnar þar sem m.a. er fjallað um lýðræði í skóla- og frístundastarfi m.a. með vísan til Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það er sérstakt fagnaðarefni að þriðjungur aðgerðanna hefur sérstaka skírskotun til ungs fólks, s.s lýðræðishátíð unga fólksins, útgáfa á fræðsluefni um lýðræðismál og samfélagsþátttöku auk áherslu á að efla starf nemendafélaga og skólaráða sem eru lögboðnir farvegir fyrir virka þátttöku nemenda í skólasamfélaginu.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði þakka góða kynningu á nýsamþykktri lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar. Sérstaklega er ánægjulegt að sjá að í aðgerðaáætlun lýðræðisstefnunnar er að finna sérstakan kafla um aðgerðir fyrir ungt fólk, þar á meðal nemendur í grunnskólum. Mikilvægt er að efla lýðræðisáhuga og lýðræðisþátttöku ungs fólks. Ekki síst með því að taka vel á móti ábendingum og tillögum úr þeirri átt. Sameiginlegir fundir borgarstjórnar og ungmennaráðs er öflugur vettvangur í þeim efnum. Því miður hefur reyndin alltof oft, verið sú að tillögur sem ungmenni leggja þar fram eru látnar daga uppi í kerfinu og eru síðan dregnar fram í þynntri mynd sem breytingartillaga meirihlutans. Slík meðferð mála frá ungu fólki er síst til þess fallin að efla áhuga þeirra á þátttöku í lýðræði og ákvarðanatöku í eigin málefnum. 

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 16. júní 2021, þar sem tillögu fulltrúa ungmennaráðs Kjalarness er vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. nóvember 2021: 

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundasviði að hefja vinnu við innleiðingu náms á unglingastigi þar sem áhersla er lögð á fræðslu um lýðræði og lýðræðislega þátttöku í samstarfi við grunnskóla Reykjavíkur. Miða skal við að kennsla hefjist í öllum grunnskólum eigi síðar en á haustmisseri 2022.

    Greinargerð fylgir. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Lagt er til að skóla- og frístundasvið láti taka saman það námsefni sem grunnskólum stendur til boða og fjallar um lýðræði og lýðræðislega þátttöku og útbúi kennsluleiðbeiningar sem skólar geti fylgt í þeirri vinnu. Einnig verði staðið fyrir reglulegum námskeiðum fyrir kennara og starfsfólk félagsmiðstöðva um hvernig megi haga námi um lýðræði og byggja upp lýðræðislega þátttöku í skóla- og frístundastarfi í samræmi við nýja lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar. Miðað verður við að fyrstu námskeiðin verði haldin haustið 2022. 

    Samþykkt. SFS2021060161

    Hulda Valdís Valdimarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Tillaga Ungmennaráðs Kjalarness um aukna fræðslu um lýðræðismál fellur vel að áherslum nýrrar lýðræðisstefnu og er tekið undir kjarna hennar í breytingatillögu meirihlutans um að lagður verði grunnur að lýðræðiskennslu í grunnskólum með því að safna saman námsefni fyrir grunnskóla um lýðræði og lýðræðislega þátttöku og útbúa kennsluleiðbeiningar fyrir skólana. Þá verði efnt til námskeiða fyrir kennara og starfsfólk félagsmiðstöðva um hvernig megi standa að lýðræðisfræðslu í grunnskólunum. Miðað verður við að fyrstu námskeiðin verði haldin næsta haust. Lýðræði í skóla- og frístundastarfi er ein af megintillögum í aðgerðaáætlun lýðræðisstefnunnar og tillaga ungmennaráðsins er gott innlegg í þá vinnu. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Á sameiginlegum fundi borgarstjórnar og Reykjavíkurráðs ungmenna 11. júní 2021 lagði fulltrúi frá ungmennaráði Kjalarness fram eftirfarandi: „Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundasviði að hefja vinnu við innleiðingu náms á unglingastigi þar sem áhersla er lögð á fræðslu um lýðræði og lýðræðislega þátttöku í samstarfi við grunnskóla Reykjavíkur. Miða skal við að kennsla hefjist í öllum grunnskólum eigi síðar en á haustmisseri 2022“. Tillögunni var vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs og ratar hún loksins á dagskrá ráðsins í dag. Og þá sem breytingartillaga meirihlutans, sem er efnislega sú sama og tillaga ungmennaráðsins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja þessa málsmeðferð óþarfa og frekar til að draga úr áhuga á þátttöku ungmenna í ákvörðunum í málefnum sem þeim tengjast. Í bókun við fyrsta lið á dagskrá er varað við þessum vinnubrögðum. Taka þarf fagnandi á móti málefnalegum og vönduðum tillögum frá börnum og ungmennum í borginni, en ekki tefja þær og þvæla í borgarkerfinu.

    Fylgigögn

  3. Fram fer umræða um stöðu mála á vettvangi skóla- og frístundastarfs. 

    -    Kl. 14.15 víkja Helgi Grímsson, Soffía Vagnsdóttir og Guðrún Sigtryggsdóttir af fundinum. 

  4. Lögð fram skýrslan Lesmál, niðurstöður í 2. bekk í grunnskólum Reykjavíkur vorið 2021, dags. í nóvember 2021, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. nóvember 2021. SFS2021040023

    Ásgeir Björgvinsson og Dröfn Rafnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Niðurstöður úr lesskimunarprófinu Lesmál sem lagt var fyrir nemendur í 2. bekk grunnskóla í vor sýna að 75% nemenda ná settum viðmiðum sem hæfa aldri þeirra og þurfa ekki á sérstökum stuðningi að halda í lestri. Rúm 20% til viðbótar þurfa tímabundinn stuðning í lestri og 4% þurfa einstaklingsáætlun og sérstakan stuðning í lestri. Niðurstöðurnar eru jákvæðar og sýna almennt betri stöðu nemenda en í eldra lesskimunarprófi sem var aflagt 2019 en það þótti vera úrelt í veigamiklum atriðum. Samanburður milli ólíkra mælitækja er þó alltaf takmörkunum háður. 1200 nemendur tóku þátt í Lesmáli í vor úr 29 skólum í borginni. Mikilvægt er að sviðið hvetji alla skóla til að taka þátt í prófinu þar sem prófið gegnir því mikilvæga hlutverki að greina snemma nemendur sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda í lestri og tryggja þeim viðeigandi úrræði. Í því samhengi er mikilvægt að tengja niðurstöðurnar við aðrar tölur sem eiga við börn í skólakerfinu, sbr. greiningar, heimilisaðstæður og fleira sem tekið er fyrir í verkefninu Betri borg fyrir börn.

    -    Kl. 14.40 tekur Helgi Grímsson sæti á fundinum. 

    -    Kl. 14.56 tekur Kristján Gunnarsson sæti á fundinum. 

    -    Kl. 15.02 víkur Soffía Pálsdóttir af fundinum. 

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. nóvember 2021: 

    Lagt er til að fimm leikskólar borgarinnar verði opnir til kl. 17, frá 1. janúar 2022. Um er að ræða tilraunaverkefni til tveggja ára, eða til 31. desember 2024, á grunni tillagna stýrihóps um umbætur og skipulag leikskólastarfs. Þessir leikskólar verði Hagaborg í Vesturbæ, Langholt í Laugardal, Bakkaborg í Breiðholti, Klettaborg í Grafarvogi og Heiðarborg í Árbæ. Sjötti leikskólinn, Ævintýraborg við Nauthólsveg í Hlíðum, bætist við þegar hann hefur tekið til starfa.

    Greinargerð fylgir. 

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2019100023

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Breyttur á opnunartími leikskóla er mikilvægur liður í því að bæta starfsskilyrði og nýta betur tíma starfsfólks á leikskólum. Tillagan kom fyrst fram í skýrslu um bætt starfsumhverfi á leikskólum. Í jafnréttismati kom fram að ákveðnir hópar eiga erfiðara en aðrir með skerta þjónustu og ljóst er að vissir hópar treysta á að geta haft dvöl til klukkan 17. Talið var mikilvægt að koma til móts við þá þörf. Farið var í það að tala við þá foreldra sem eru með samning lengur en til 16:30 og kanna hug þeirra til áframhaldandi dvalartíma til 17.00. Í kjölfar greiningar voru valdir sex leikskólar, einn í hverju hverfi, sem munu vera opnir til kl. 17.00 frá 1. janúar 2022. Um tilraunaverkefni til tveggja ára er að ræða, þar sem þörfin og fyrirkomulagið verður síðan metið. Er það gert til að koma til móts við þarfir fjölskyldna í samræmi við niðurstöður jafnréttismats.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna tillögunni enda verið að taka skref í rétta átt varðandi leikskólaþjónustu í borginni. Með henni er verið að bregðast við ábendingum sem fram hafa komið vegna veikrar stöðu viðkvæmra hópa, að þjónustuskerðing kæmi verst niður á vinnandi mæðrum, lágtekjuhópum, fólki af erlendum uppruna og þeim sem hefðu lítinn sveigjanleika í starfi. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa ávallt hvatt til lausnamiðaðrar nálgunar í þessu máli. 

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. nóvember 2021:

    Lagt er til að breyting verði gerð á sumaropnun leikskóla þannig að þrír leikskólar borgarinnar fái það fasta hlutverk að vera opnir yfir sumartímann. Þessir leikskólar verði Hagaborg í Vesturbæ, Langholt í Laugardal og Bakkaborg í Breiðholti.

    Greinargerð fylgir. 

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2021010121

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Sumaropnun hefur nú verið við lýði síðastliðin þrjú sumur. Þó svo viss hópur sækist eftir þessari þjónustu þá er ljóst að aðlaga þarf þetta fyrirkomulag að þörfum og fjölda þeirra sem það nýta. Hér er lagt til að 3 leikskólar í borginni fái það hlutverk að hafa opið á sumrin varanlega, í stað þess að verkefnið flakki á milli. Þannig myndast fyrirsjáanleiki og stöðugleiki, en þá er hægt að ráða starfsfólk með tilliti til þeirrar væntingar, og foreldrar geta við upphaf leikskólagöngu gert ráð fyrir því við val á leikskóla hvar þessi þjónusta sé veitt, en þó svo það sé til skemmri tíma óheppilegt gagnvart þeim fjölskyldum sem þurfa að nýta sumaropnun en eru ekki með pláss á þeim leikskólum að annar verði fyrir valinu, þá mun það til lengri tíma búa til meira jafnræði og meiri fyrirsjáanleika.

    -    Kl. 15.33 víkja Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir og Ólafur Brynjar Bjarkason af fundinum. 

    Fylgigögn

  7. Lagt fram fundadagatal skóla- og frístundaráðs janúar til júní 2022, dags. 11. nóvember 2021. SFS2019110026 

    Fylgigögn

  8. Lagt fram yfirlit yfir innkaup skóla- og frístundasviðs yfir 1 m.kr. janúar – júní 2021, leiðrétt eintak. SFS2021100142

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. nóvember 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um meðalaldur barna við upphaf leikskólagöngu. SFS2021040161 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lýsa yfir miklum vonbrigðum með þær niðurstöður sem lesa má úr framlögðum gögnum. Kosningaloforð flokka sem mynda meirihluta í borgarstjórn um að taka inn yngri börn en áður hafa ekki náð fram að ganga. Dapurleg staðreynd blasir við, meðalaldur leikskólabarna við inntöku hefur ekki lækkað, heldur hækkað, úr 26 mánuðum í 29 mánuði frá árinu 2018. Þessi þróun er ólíðandi og gagnrýnisverð burtséð frá innistæðulitlum kosningaloforðum meirihlutaflokkanna. Á þessu þarf að ráða bót hið fyrsta fyrir börn og foreldra í Reykjavík sem kalla eftir þróun í aðra átt. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Því er vísað til föðurhúsanna að verið sé að svíkja kosningaloforð um fjölgun leikskólaplássa. Brúum bilið aðgerðaáætlunin var samþykkt í borgarstjórn í lok nóvember 2018 sem verkefni til 5 ára. Þegar hafa opnað um 300 ný leikskólapláss á liðnum árum og á næstu ári fjölgar leikskólaplássum til muna með nýjum leikskólum sem mun eins og bent er á í minnisblaðinu lækka meðalaldur í leikskólum svo um munar.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. nóvember 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins varðandi gjaldskrár ungbarnaleikskóla. SFS2021090141 

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 25. október 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fjölda barna sem hafa hætt í Fossvogsskóla. SFS2018120034 

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. nóvember 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa foreldra barna í grunnskólum um óánægju foreldra í Fossvogsskóla og flutning barna milli skóla. SFS2021090310 

    Fylgigögn

  13. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. nóvember 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um öryggismyndavélar og aðgangsstýringar við skóla. SFS2021010172

    -    Kl. 15.45 víkur Kristján Gunnarsson af fundinum. 

    Fylgigögn

  14. Fram haldið umræðu um stöðu mála á vettvangi skóla- og frístundastarfs. 

    -    Kl. 16.05 víkur Diljá Ámundadóttir Zoëga af fundinum. 

  15. Fréttir af vettvangi skóla- og frístundastarfs

  16. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

    Lagt er til að viðhaldsmál Hagaskóla verði sett á dagskrá næsta fundar skóla- og frístundaráðs. Það vekur furðu að málefni Hagaskóla skuli ekki hafa verið sett sérstaklega á dagskrá fundar skóla- og frístundaráðs í dag í ljósi þess að mygla greindist í húsnæði skólans í liðinni viku. Þá hefur einni álmu skólans verið lokað sem óneitanlega mun hafa eitthvað rask á skólastarfi í för með sér. Leggja hefði átt fram skýrslu Mannvits frá því í apríl um ástand skólans sem hefur verið í mikilli viðhaldsþörf til margra ára og fá sérfræðinga frá framkvæmdasviði borgarinnar til að fara yfir þær framkvæmdir sem bráðnauðsynlegt er að ráðast í. Það ætti að vera sjálfsagt mál að upplýsa ráðið ítarlega um svo aðkallandi mál enda ber það ábyrgð á skólastarfi í borginni. Fram hefur komið að starfsmaður hafi farið í veikindaleyfi sem viðkomandi telur að rekja megi til myglunnar í skólanum. Þegar grunur um myglu kom upp í október hefði átt að loka húsnæðinu strax á meðan rannsóknir færu fram til að taka af allan vafa um að kennsla færi fram í heilsuspillandi húsnæði. Það er líka ámælisvert að árið 2019 voru engin sýni um myglu tekin þegar fjöldi nemenda og starfsmanna Hagaskóla sýndu einkenni sem bentu til að skólahúsnæðið væri heilsuspillandi. Að ofansögðu er nauðsynlegt að málið verði tekið til umfjöllunar í ráðinu hið fyrsta.

    Frestað. SFS2021110192

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Málefni Hagaskóla voru rædd á fundinum undir dagskrárliðnum Fréttir af vettvangi. Tekið er vel í ábendingu um að málefni Hagaskóla verði á dagskrá næsta fundar með aðkomu sérfræðinga umhverfis- og skipulagssviðs.

  17. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja það til að Reykjavíkurborg taki upp kennslu geðræktar í grunnskólum sínum. Útfærslan verður í höndum skóla- og frístundasviðs. 

    Greinargerð fylgir. 

    Frestað. SFS2021110193

    Fylgigögn

  18. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir svörum. Töluvert er af ósvöruðum fyrirspurnum frá fulltrúum Sjálfstæðisflokks. Þær elstu eru frá árinu 2019. Fulltrúarnir óska sérstaklega eftir svari við fyrirspurn SFS2021080261 sem lögð var fram á fundi skóla- og frístundaráðs 24.08.2021 vegna Fossvogsskóla. Þar settu fulltrúar Sjálfstæðisflokks inn fyrirspurn vegna heildarkostnaðar við framkvæmdir Fossvogsskóla sem ekki hefur verið svarað. 

    SFS2021080261

  19. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Hversu margir leikskólar hafa í september, október og nóvember orðið að senda börn heim vegna manneklu? Hversu margir eru skólarnir og hversu marga daga hefur orðið að senda börn heim.

    SFS2021110194

  20. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar óska upplýsinga um hvort ennþá sé verið að skoða hugmynd um að opna leikskóla við Þorragötu? Hefur samráð átt sér stað um þá hugmynd við íbúa hússins og ef svo er hvað hefur komið út úr því samráði?

    SFS2021110195

PDF útgáfa fundargerðar
skola-_og_fristundarad_2311.pdf