Skipulags- og samgönguráð - Fundur nr. 95

Skipulags- og samgönguráð

Ár 2021, miðvikudaginn 10. febrúar kl. 09:06, var haldinn 95. fundur skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð Vindheimum. Viðstödd voru Alexandra Briem, Ragna Sigurðardóttir, Eyþór Laxdal Arnalds og áheyrnarfulltrúinn Vigdís Hauksdóttir.

 

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Pawel Bartoszek, Hjálmar Sveinsson, Hildur Björnsdóttir, Katrín Atladóttir og áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Baldursdóttir og Daníel Örn Arnarsson.

 

Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Þorsteinn Rúnar Hermannsson og Jóhanna Guðjónsdóttir.

 

Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.

Þetta gerðist:

 1. Lagt fram bréf borgarstjórnar Reykjavíkur til nefnda og ráða Reykjavíkurborgar þar sem fram kemur að borgarstjórn samþykkti þann 19. janúar sl. tillögu um framlengingu á heimild til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagi. Einnig er lögð fram auglýsing, dags. 3. nóvember 2020, um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til að tryggja starfhæfi sveitarstjórna og auðvelda ákvörðunartöku við stjórn sveitarfélaga nr. 1076/2020 og auglýsing um leiðbeiningar um notkun fjarfundabúnaðar á fundum sveitarstjórna nr. 1140/2013.

  Fylgigögn

 2. Afgreiðslufundir skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, fundargerð         Mál nr. SN010070

  Lögð fram fundargerð embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 5. febrúar 2021.

  Fylgigögn

 3. Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, 
  Nýi Skerjafj. Breytt landnotkun, 
  breyting á aðalskipulagi         Mál nr. SN200325

  Að lokinni auglýsingu er lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs dags. í júní 2020, síðast uppfærð 11. desember 2020 að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Tillögunni fylgir umhverfisskýrsla. Breytingartillagan nær til landsvæðis vestan núverandi íbúðarbyggðar í Skerjafirði og varðar meðal annars breytta landnotkun, fjölgun íbúða, breytta legu stíga og breytt umfang fyrirhugaðrar landfyllingar. Einnig er lagt fram bréf Skipulagsstofnunar dags. 31. ágúst 2020. Tillagan var auglýst frá 16. september 2020 til og með 28. október 2020. Eftirtaldir sendu athugasemdir/umsögn: Mosfellsbær dags. 28. september 2020, Kópavogsbær dags. 8. október 2020, Seltjarnarnesbær dags. 15. október 2020, Vegagerðin dags. 15. október 2020, Umhverfisstofnun dags. 16. október 2020, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur dags. 21. október 2020, Eyjólfur Gunnarsson, Margrét Gunnarsdóttir, Gunnar Trausti Eyjólfsson, Atli Már Eyjólfsson og Magnús Daði Eyjólfsson dags. 27. október 2020, Anna S. Haraldsdóttir dags. 28. október 2020, Náttúrufræðistofnun Íslands dags. 28. október 2020, Hildur Hjartardóttir og Sigurður Jens Sæmundsson dags. 28. október 2020, Jens Pétur Jensen dags. 28. október 2020, Guðjón Haraldsson dags. 28. október 2020, Daníel B. Sigurgeirsson, Elín Björk Jónasdóttir, Sigurdís Björg Jónasdóttir og Birgir Arnór Birgisson dags. 28. október 2020, Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir dags. 28. október 2020 og Sigríður Ragna Sigurðardóttir dags. 28. október 2020. Einnig er lagt fram bréf Skipulagsstofnunar dags. 21. desember 2020 ásamt ákvörðun um matsskyldu vegna Landfyllingar í Nýja Skerjafirði og umsögn umhverfis- og skipulagssviðs dags. 11. desember 2020.

  Samþykkt með þeim breytingum sem koma fram í umsögn umhverfis- og skipulagssviðs dags. 11. desember 2020, sbr. 1. og 2. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Eyþór Laxdal Arnalds greiðir atkvæði gegn. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir sitja hjá.
  Vísað til borgarráðs.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Með aðalskipulagsbreytingu sem tekur til nýs Skerjafjarðar er útfært markmið um að skapa sjálfbæra, blandaða íbúðarbyggð í Skerjafirði með grænu yfirbragði. Breytingin er forsenda þess að öflugur hverfiskjarni og grunnskóli verði í hverfinu og með henni er núverandi byggð styrkt til muna. Tenging nýja Skerjafjarðar við atvinnukjarna, háskóla og vistvæna samgöngumáta gerir hann að eftirsóknarverðum stað til að búa á. Í breytingunni er dregið verulega úr umfangi landfyllingar og fyrirhugaðrar smábátahafnar og er landfyllingin færð út fyrir skilgreint hverfisverndarsvæði við Ægisíðu. Beðið verður með skipulagsvinnu við síðari áfanga uppbyggingar (þ.e. útfærslu deiliskipulags) í Skerjafirði þar til yfirstandandi umhverfismatsferli við landfyllingu er lokið en fyrri áfangi er óháður landfyllingu. Tekið er fram að niðurstaða umhverfismats geti haft þau áhrif að breytingu þurfi að gera á ný á aðalskipulagi vegna frekari minnkunar landfyllingar eða breyttrar afmörkunar hennar. Byggingarmagn breytist einnig óverulega miðað við gildandi aðalskipulag en heildar byggingarmagn íbúðarhúsnæðis eykst á kostnað atvinnuhúsnæðis.

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja ótímabært að tekin sé endanlega ákvörðun um nýja byggð í Skerjafirði þar sem ýmsum rannsóknum og álitamálum er ólokið. Í fyrsta lagi eru áformaðar landfyllingar komnar í umhverfismat sem er ólokið og því algerlega óvissa um stærð skipulagssvæðisins og þar með fjölda íbúða og íbúa. Þá er Náttúrufræðistofnun með það til skoðunar að strandlengjan við Skerjafjörð verði friðuð í samræmi við samþykkt Alþingis frá 2004. Í öðru lagi hefur Vegagerðin óskað eftir að fram fari heildrænt samgöngumat en því er enn ólokið, en gert er ráð fyrir þreföldun íbúa í hverfinu með tilheyrandi álagi á umferð.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Hér er verið að breyta aðalskipulagi í hinum svokallaða „Nýja Skerjafirði“. Málið er keyrt áfram af fullum þunga þrátt fyrir fjöldamargar athugasemdir. Margt er enn á huldu um þetta svæði s.s. lögmætt gildi landfyllingar sem nú er í umhverfismati. Ekkert tillit er tekið til öryggishlutverks Flugvallarins í Vatnsmýrinni en ljóst er að hann er ekki á förum. Umferðarmál eru óleyst. Alþingi samþykkti árið 2004 að stefnt skuli að friðlýsingu fjöru og grunnsævis Skerjafjarðar og hefur Náttúrufræðistofnun áréttað þær hugmyndir. Hafrannsóknarstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun hafa allar í umsögnum til Reykjavíkurborgar undirstrikað verndargildi fjörunnar. Það er alveg ljóst að ef farið verður í þessar framkvæmdir eiga þær eftir að hafa mikinn umferðarþunga í för með sér sem hlýst af stórum vörubílum og steypubílum, bæði keyrslu í landfyllingu og ekki síður á uppbyggingartíma. Minnt er á að olíumengun er í jörð á þessu svæði og sú dælustöð sem nú er á svæðinu ræður ekki við hlutverk sitt og ljóst er að byggja þarf nýja. Engin áform hafa verið birt hvar ný dælustöð á að vera. Að auki er nú þegar búið að úthluta lóðum á þessu svæði og er það algjörlega fáheyrt.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Í athugasemdum kemur fram andstaða við fyrirhugaða landfyllingu. Flokkur fólksins leggur til að hætt verði alfarið við landfyllingar í borginni þegar á að gera eitthvað á ströndinni. Hér á eftir eru dæmi úr umsögnum sem sýna að fjölmargir eru á sama máli: “ Fjaran er hvorki einkamál né einkaeign okkar mannanna, heldur er hún er búsvæði dýra um aldur og ævi”. ”Af hverju ætti þá að vera í lagi fyrir borgaryfirvöld að leggja út í framkvæmd af þessari stærðargráðu án þess að gefa íbúum tækifæri á að hafa um það að segja?” “Að mati Náttúrufræðistofnunar er það ekki ásættanlegt að landfylling í Skerjafirði sé eini valkosturinn fyrir þéttingu byggðar eða losun á efni. Það er því mat Náttúrufræðistofnunar að vel megi þétta byggð þó ekki sé um leið gengið enn frekar á fjörur og lífríki þeirra í Reykjavík“. Ef markmið með þéttingu byggðar, Nýja Skerjafjarðar, er eyðilegging núverandi Skerjafjarðar þá þarf að hugsa skipulagsmál á svæðinu upp á nýtt.  Að mati Náttúrufræðistofnunar er landfylling vestan við flugvöllinn óþörf með öllu þegar og ef flugvöllurinn verður lagður niður. “Umhverfisstofnun gerir verulegar athugasemdir við áformaða landfyllingu. Raska á sem minnst náttúrulegri strandlengju. Minnt er á að Skerjafjörður er skilgreint sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði.”

  Haraldur Sigurðsson deildarstjóri aðalskipulags tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 4. Brekknaás, nýtt deiliskipulag         Mál nr. SN210101

  Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að deiliskipulagi fyrir 6 lóðir við Brekknaás og Vindás 1.8 ha af stærð. Svæðið er skilgreint sem íbúðarsvæði í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 með síðari breytingum. Í aðalskipulagi segir að leyfilegt sé uppbygging á 60 íbúðum auk búsetukjarna fyrir fatlaða, samkvæmt uppdr. Landmótunar dags. 29. janúar 2021.

  Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
  Vísað til borgarráðs.

  Ólafur Melsted verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 5. Kjalarnes, Varmadalur 1, skipting lands         Mál nr. SN210048
  Egill Sveinbjörn Egilsson, Varmadalur 1, 162

  Lögð fram umsókn Egils Sveinbjarnar Egilssonar dags. 19. janúar 2021 um skiptingu landsins nr. 1 í Varmadal á Kjalarnesi, samkvæmt uppdr. Teiknistofunnar Kvarða ehf. dags. 16. janúar 2021. Einnig er lagður fram uppdráttur, grunnmynd og snið, dags, 2. nóvember 2020. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 5. febrúar 2021.

  Samþykkt að falla frá kynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur nú skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.
  Vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa.

  Ólafur Melsted verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 6. Snorrabraut 54, breyting á deiliskipulagi     (01.193)    Mál nr. SN200593
  500191-1049 Arkþing - Nordic ehf., Hallarmúla 4, 108 Reykjavík
  510517-0830 Reir verk ehf., Laugavegi 7, 101 Reykjavík

  Lögð fram umsókn Sigurðar Hallgrímssonar dags. 22. september 2020 varðandi breytingu á deiliskipulagi Heilsuverndarreits vegna lóðarinnar nr. 54 við Snorrabraut. Í breytingunni felst að lóð nr. 54 við Snorrabraut er stækkuð um 102 m2 og lóð nr. 45A við Barónsstíg (Sundhöll Reykjavíkur) er minnkuð samsvarandi. Fyrirkomulag bílastæða á lóð Sundhallar breytist og bílastæðum fækkar lítillega. Einnig er gerð minni háttar breyting á byggingarreit Snorrabrautar 54 og byggingarmagn aukið um 400 m2 (aðallega neðanjarðar), samkvæmt deiliskipulags- og skýringaruppdr. Arkþing/Nordic ehf. dags. 4. febrúar 2021. 

  Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
  Vísað til borgarráðs.

  Sólveig Sigurðardóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 7. Hraunbær 133, breyting á deiliskipulagi     (04.341.1)    Mál nr. SN210046
  531200-3140 Teiknistofa ark Gylfi G/fél ehf, Vegmúla 2, 108 Reykjavík
  490916-0670 Bjarg íbúðafélag hses., Kletthálsi 1, 110 Reykjavík

  Lögð fram umsókn Teiknistofunnar Gylfa Guðjónssonar og félaga ehf. dags. 18. janúar 2021 varðandi breytingu á deiliskipulagi Hraunbæjar-Bæjarháls vegna lóðarinnar nr. 133 við Hraunbæ. Í breytingunni felst að íbúðum er fjölgað um 6 úr 58 íbúðum í 64 íbúðir, bílastæðakrafa er lækkuð lítillega úr 1 stæði pr. íbúð í 0,9 stæði pr. íbúð, skilgreindur er nýr byggingarreitur fyrir sorpgerði milli byggingarreita A3 og A1 og gerðar eru breytingar á sérskilmálum til samræmis við reit C, samkvæmt uppdr. Teiknistofunnar Gylfa Guðjónssonar og félaga ehf. dags. 12. janúar 2021. Einnig eru lagðir fram fyrirspurnarteikningar dags. 15. og 18. janúar 2021.

  Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
  Vísað til borgarráðs.

  Hildur Gunnarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  (B)    Byggingarmál

  Fylgigögn

 8. Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa, fundargerð         Mál nr. BN045423

  Fylgiskjal með fundargerð þessari eru fundargerðir afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 1101 frá 2. febrúar 2021.

  Fylgigögn

 9. Langagerði 22, Nýir kvistir og svalir     (01.832.011)    Mál nr. BN056643
  Guðrún Hauksdóttir, Langagerði 22, 108 Reykjavík

  Að lokinni grenndarkynningu er lagt fram að nýju erindi frá afgreiðslufundi byggingarfulltrúa frá 20. október 2020 þar sem sótt er um leyfi til þess að bæta við tveimur kvistum á norður- og suðurhlið ásamt svölum og stiga niður í garð á 1. hæð í fjöleignarhúsi á lóð nr. 22 við Langagerði. Erindi var grenndarkynnt frá 3. nóvember 2020 til og með 1. desember 2020. Eftirtaldir sendu athugasemdir: Kristján Brynjar Bjarnason og Björg Valgeirsdóttir dags. 1. desember 2020. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 22. janúar 2021.
  Erindi fylgir afrit af eldri teikningum samþykktum 27. nóvember 1980 og fyrirspurnarteikningum dags. 24. apríl 2019. umboð eigenda íbúðar 01-0101 dags. 23. september 2019 og samþykki meðlóðarhafa áritað á A3 afrit af teikningum A-100 - A-101 dagsettum 3. september 2019. Útskrift úr gerðabók embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 18. október 2019 fylgir erindi, ásamt umsögn skipulagsfulltrúa dags. 18. október 2019. Útskrift úr gerðabók embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 18. september 2020 fylgir erindi, ásamt umsögn skipulagsfulltrúa dags. 18. september 2020. Einnig fylgir bréf skipulagsfulltrúa dags. 21. september 2020.Stækkun: 1.8 ferm., 9.1 rúmm. Gjald kr. 11.200.

  Umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 22. janúar 2021, staðfest.
  Vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa.

  Ingvar Jón Bates Gíslason verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  (E) Samgöngumál

  Fylgigögn

 10. Umsókn um sérmerkt stæði f. hreyfihamlaðan, Rauðarárstígur 3, tillaga - USK2021020003         Mál nr. US210026

  Lögð fram svohljóðandi tillaga skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 1. febrúar 2021:

  Lagt er til að skipulags- og samgönguráð samþykki að bílastæði við Rauðarárstíg 3 verði merkt fyrir hreyfihamlaðan einstakling.
  Bifreiðastæðið verði merkt með viðeigandi umferðarmerki, D01.22, og yfirborðsmerkingu í samræmi við reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra.

  Samþykkt með vísan til c liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs í samræmi við 1. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.

  (C)    Ýmis mál

  Fylgigögn

 11. Kjalarnes, Esjumelar, kæra 96/2020, umsögn, úrskurður     (34.2)    Mál nr. SN200634
  701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

  Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 9. október 2020 áamt kæru dags. 9. október 2020 þar sem kærð er ákvörðun borgarráðs frá 2. júlí 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi, sem öðlaðist gildi 11. september 2020. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 3. nóvember 2020. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 4. febrúar 2021. Úrskurðarorð: Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 12. Yfirlit yfir verkefni innkaupaskrifstofu fyrir desember 2020,  f.h. umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur - USK2020020031         Mál nr. US200293

  Lögð eru fram yfirlit yfir verkefni innkaupaskrifstofu fyrir hönd umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur fyrir desember 2020.

  Fylgigögn

 13. Battavöllur á Landakotstúni, USK2021010098         Mál nr. US210028

  Lagt fram bréf formanns íbúaráðs Vesturbæjar til skipulags- og samgönguráðs, dags. 15. janúar 2021, vegna battavallar á Landakotstúni ásamt bréfi skólastjóra Landakotsskóla til borgarstjóra, dags. 16. desember 2017.

  Vísað til umsagnar umhverfis - og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds, deildar opinna svæða.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Þetta virðist vera góður kostur og bæta umhverfið fyrir börn og unglinga þ.e. ef þetta er í sátt við nærliggjandi íbúa. Svona völlur er sannarlega mikilvægur og börnum til gleði en hann má ekki vera þar sem hann veldur öðrum ólíðandi ama og truflar heimilislíf eins og lýst var af íbúum í Skaptahlíðinni.  Fulltrúi Flokks fólksins fagnar ef komin er góð lausn í þetta mál.

  Fylgigögn

 14. Fyrirspurn áheyrnafulltrúa Miðflokksins, um EasyPark, umsögn - USK2021010067         Mál nr. US200461

  Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 4. febrúar 2021.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Hér er um hreina og klára verðhækkun að ræða við gjaldtöku þegar bílastæði Reykjavíkur eru notuð. Er nú nóg samt. Það er með ólíkindum að Reykjavíkurborg sem stjórnvald skuli útvista gæðum sínum til einkaaðila með það eitt að leiðarljósi að hækka gjöld á notendur. Verið er að búa til „millistykki“ á milli bílastæðasjóðs og notenda bílastæðanna. Til hvers í ósköpunum? Hér er um fundið fé fyrir þann aðila sem fékk dílinn. Mánaðaráskrift kostar 529 kr. á mánuði og stakt gjald er 95 kr. Málefni bílastæðissjóðs er rannsóknarefni og skemmst er að minnast þess að Landsspítalinn hefur nýlega fengið að taka upp gjaldtöku bílastæða á kostnað bílastæðissjóðs og hirðir ágóðann af bílastæðunum í eigin þágu. Sífellt er verið að seilast lengra og lengra í vasa notenda bílastæða hjá Reykjavíkurborg. Líklega á slíkt að hafa fælingarmátt á þá sem kjósa að nota fjölskyldubílinn eins og stefna meirihlutans er. Ágætt að allir átti sig á því.

  Fylgigögn

 15. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um EasyPark, umsögn - USK2021010065         Mál nr. US200439

  Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 4. febrúar 2021.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins finnst þetta svar vera óljóst og spyr hvers vegna þarf að gera einfalt mál flókið? Að greiða fyrir bílastæði ætti að vera einfalt. Það kerfi sem nú er við líði er flókið  mörgum. Fólk hefur því neyðst til að nota lausnir þriðja aðila sem eykur enn kostnaðinn við að leggja í gjaldskyld svæði. Að setja upp þessa mæla voru mistök. Á þessu svæði hefði verið tilvalið að notast við bifreiðastæðaklukkur t.d. í miðbænum.  Bifreiðaklukkur eða framrúðuskífa eru víða notaðar í öðrum sveitarfélögum. Bifreiðaklukka gæti einnig komið að gagni kringum háskóla eins og Flokkur fólksins hefur áður nefnt. Framrúðuskífa hentar vel þar sem fólk þarf að skjótast inn í 1-2 tíma. Eldri borgara eiga erfitt með þessa mæla og sumir treysta sér ekki að nota bílastæðaapp. Þetta er vandamál í kringum Landspítala sem dæmi. Tímabært er að skoða hlutverk bílastæðasjóðs. Kanna þarf hvort ekki er hægt að finna aðrar vinsamlegri leiðir til að hvetja fólk til að koma í bæinn. Bílastæðahús ættu að vera aðlaðandi kostur en mörg þeirra standa ansi mikið auð. Hafa mætti í einhverjum þeirra frí stæði sem myndi hvetja fólk til að koma og umfram allt leggja þá frekar í „húsin“ en á götuna. 

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Hér er um hreina og klára verðhækkun að ræða við gjaldtöku þegar bílastæði Reykjavíkur eru notuð. Er nú nóg samt. Það er með ólíkindum að Reykjavíkurborg sem stjórnvald skuli útvista gæðum sínum til einkaaðila með það eitt að leiðarljósi að hækka gjöld á notendur. Verið er að búa til „millistykki“ á milli bílastæðasjóðs og notenda bílastæðanna. Til hvers í ósköpunum? Hér er um fundið fé fyrir þann aðila sem fékk dílinn. Mánaðaráskrift kostar 529 kr. á mánuði og stakt gjald er 95 kr. Málefni bílastæðissjóðs er rannsóknarefni og skemmst er að minnast þess að Landsspítalinn hefur nýlega fengið að taka upp gjaldtöku bílastæða á kostnað bílastæðissjóðs og hirðir ágóðann af bílastæðunum í eigin þágu. Sífellt er verið að seilast lengra og lengra í vasa notenda bílastæða hjá Reykjavíkurborg. Líklega á slíkt að hafa fælingarmátt á þá sem kjósa að nota fjölskyldubílinn eins og stefna meirihlutans er. Ágætt að allir átti sig á því. 

  Fylgigögn

 16. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu,          Mál nr. US210023

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir því að aðkoma að iðnaðarhverfi sem staðsett er á Flötunum í Grafarvogi verði bætt. Núna er aðeins hægt að koma inn í hverfið á einum stað. Mikilvægt er að aðkoma að hverfinu sé frá tveim stöðum, því er lagt til að gerð verði aðkoma að hverfinu sem tengist Hallsvegi. Einnig er það lagt til að núverandi aðkoma sem er að hverfinu við Strandveg/Rimaflöt verði lagfærð. Þar eru núna umferðarljós og börn mikið að fara yfir þessar götur til þess að komast í Gufunesbæ. Mikil hætta hefur oft skapast við þessi gatnamót og því mikilvægt að gera á þeim úrbætur áður en slys verða þar.

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

  (D)    Samgöngumál

 17. Framkvæmdir við Suðurgötu,          Mál nr. US210019

  Kynning á stöðu framkvæmda við Suðurgötu.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Allir vita hvernig fór um sjóferð þessa. Háskóli Íslands flaut upp og tjónið er gríðarlegt. Verkið tafðist fram úr hófi með tilheyrandi ónæði fyrir vegfarendur. Verkið hófst í júní 2019 og áætluð verklok voru að vori 2020. Enn er verkinu ekki lokið og glittir í vorið 2021 og verkinu ekki nærri lokið. Áætlaður kostnaður Veitna ohf. var 180 milljónir en nú er ljóst að sá kostnaður verður a.m.k. tvöfaldur.  Endanlegur kostnaður verður líklega í verklok tæpur hálfur milljarður með kostnaði Reykjavíkur sem snýr að hlut borgarinnar í verkinu. Í Reykjavík er alltaf verið að finna upp hjólið og látið líta út fyrir að hvert verk er „einstakt“ vegna margra óvissuþátta. Verktökunum er falið það vald að bæta við aukaverkum að vild sem hleypir kostnaði sífellt upp. Ljóst er að verkáætlanir og kostnaðaráætlanir borgarinnar - í þessu tilfelli Veitna ohf. eru stórkostlega vanmetnar. Því er spurt – hví hleðst ekki upp verkkunnátta hjá Reykjavíkurborg og dótturfélögum svo framkvæmdakostnaður hlaupi ekki sífellt upp úr öllu valdi gjörsamlega stjórnlaust?

  Katrín Karlsdóttir og Hörður Harðarson frá Veitum taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

 18. Mat á umhverfisáhrifum, Suðurlandsvegar milli Bæjarháls og Hólmsár, kynning         Mál nr. US210005

  Kynnt mat á umhverfisáhrifum Suðurlandsvegar milli Bæjarháls og Hólmsár.

  Ragnhildur Gunnarsdóttir frá EFLU og Erna Bára Hreinsdóttir, Kristján Árni Kristjánsson og Bryndís Friðriksdóttir frá Vegagerðinni taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. 

 19. Rafhlaupahjólanotkun Reykvíkinga, kynning         Mál nr. US210018

  Lögð fram skýrsla Gallup um Rafhlaupahjólanotkun Reykvíkinga, dags. nóvember-desember 2020.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fram kemur að fáir nota rafhlaupahjól og kemur það kannski ekki beint á óvart. Mikill munur er á notkun rafhlaupahjóla eftir hverfum. Notkun er  lang minnst í úthverfunum. Þetta endurspeglar m.a. að stígar þar eru víða slæmir,  gerðir upphaflega sem göngustígar með kröppum beygjum og blindhornum víða. Þetta þarf að laga ef stígakerfin eiga að nýtast til samgangna. Ójafnt yfirborð og sleipir stígar eru helstu orsakir óhappa. Hjólin eru nú notuð almennt til ferða í örfáar mínútur og notuð meira af yngra fólki en eldra fólki, af körlum frekar en konum eins og fram kemur í þessari könnun. Eitt er að að leiga sér hjól til skemmtunar og annað að nota það sem „aðal“ samgöngutæki sitt. Vert væri að skoða hverjir eru líklegir til þess að nota þau sem aðal samgöngutæki sitt, hvernig er lífsstíll þeirra, fjölskylduaðstæður (þeir sem eru með börn eru að fara með þau í skóla og íþróttir) og fleira t.d. er þetta bílaeigendur? Svo má ætla að veðurfar hér spili stórt hlutverk þegar fólk velur sér aðal-samgöngutæki til að fara á milli staða.

  Jóna Karen Sverrisdóttir frá Gallup tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  (E)    Ýmis mál

  Fylgigögn

 20. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um verkferla vegna ósvaraðra erinda         Mál nr. US210031

  Flokkur fólksins leggur til að umhverfis- og skipulagssvið fari með markvissum hætti yfir verkferla sem lúta af því hvenær erindum er svarað og þá hvernig og hvað líður langur tími frá því erindi berst og þar til viðkomandi fær svar/viðbrögð. Á RÚV í vikunni var rætt við konu sem átti erindi við skipulagsyfirvöld vegna leigu á gömlum skúr sem borgin átti. Konan lýsti því að hún náði aldrei sambandi við meirihlutann/skipulagsyfirvöld þrátt fyrir að hafa marg reynt ýmist með skeytum eða símhringingum. Nú hefur fulltrúi Flokks fólksins áður nefnt þetta við skipulagsráð (USK) og sviðið að það sé því miður of algengt að fólk kvarti yfir að erindi þeirra séu hunsuð. Það er alveg ljóst að bæta þarf viðbrögð við erindum fólks, svörun í síma, svörun skeyta og stytting biðtíma eftir viðtali ef það er það sem óskað er eftir. Fulltrúi Flokks fólksins vill auk þess hvetja skipulags- og samgöngusvið allt að skoða aftur í tímann hvaða erindi hafa með öllu verið hunsuð, hafa samband við aðila, leysa málið ef þess er enn kostur og biðja fólk afsökunar.

  Frestað.

Fundi slitið klukkan 11:49

Pawel Bartoszek Alexandra Briem

Hjálmar Sveinsson Hildur Björnsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
skipulags-_og_samgongurad_1002.pdf