Skipulags- og samgönguráð - Fundur nr. 92

Skipulags- og samgönguráð

Ár 2021, miðvikudaginn 13. janúar kl. 09:03, var haldinn 92. fundur skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð Ráðssal.

 

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Pawel Bartoszek, Alexandra Briem, Hjálmar Sveinsson, Ragna Sigurðardóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Katrín Atladóttir og áheyrnarfulltrúarnir Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir og Daníel Örn Arnarsson.

 

Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Þorsteinn Rúnar Hermannsson og Jóhanna Guðjónsdóttir.

 

Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.

 

 

 

Þetta gerðist:

Þetta gerðist:

 1. Afgreiðslufundir skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, fundargerð         Mál nr. SN010070

  Lagðar fram fundargerðir embættisafgreiðslufunda skipulagsfulltrúa frá 18. desember 2020 og 8. janúar 2021.

  Fylgigögn

 2. Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, íbúðarbyggð og blönduð byggð 2040, breyting á aðalskipulagi         Mál nr. SN190323

  Lagt fram til kynningar drög að tillögu að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sem fela m.a. í sér endurskoðun á stefnu um íbúðarbyggð og framlengingu skipulagstímabils til ársins 2040 ásamt umhverfisskýrslu og yfirliti athugasemda að lokinni forkynningu skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga.

  Kynnt.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Um er að ræða forkynningu á vinnslutillögu vegna uppfærslu á aðalskipulagi til 2040. Við lýsum yfir ánægju með fjölda athugasemda sem borist hafa enda mikilvægt að samráðsferlið sé virkt. Fulltrúar meirihlutans telja rétt að gera ekki breytingar á gildandi skipulagi á reitnum „M22 - Hallar” nú en framtíðarskipulag svæðisins verði skoðað nánar í samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila. Í Safamýri er rétt að koma til móts við sjónarmið um varðveislu og eflingu grænna svæða með því að efna til samkeppni um almenningsgarð í tengslum við blandaða byggð á svæðinu. Rétt þykir að ávarpa áhyggjur íbúa Breiðholts af hæðum húsa í Norður-Mjódd með því að miða við 5-8 hæðir, með mögulegum sérskilmálum. Að öðru leyti styðjum við þær áherslur vinnunnar sem miða að því að undirbúa komu borgarlínunnar og styrkja byggð meðfram henni.

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Í viðauka við aðalskipulag Reykjavíkurborgar til 2040 er lagt upp með að íbúðauppbygging verði að mestu í Ártúnshöfða og á Reykjavíkurflugvelli. Ekki er gert ráð fyrir að skipuleggja Keldur og Keldnaholt næstu 10 árin. Ekki er gert ráð fyrir íbúðum í Örfirisey eða við BSÍ reit. Þvert á móti er gert ráð fyrir að fjölga atvinnusvæðum vestast í vesturbænum um 80 þúsund m2 í Örfirisey. Slíkt mun auka á umferðarálag á álagstímum. Skortur á atvinnulóðum verður áfram að óbreyttu og vantar hentugar atvinnulóðir í borginni. Það er jákvætt að falla frá áformum um breytingar á svæði M22, en óljóst er hvort það sé endanleg ákvörðun. Þá vekur athygli að útfærsla á gatnamótum við Bústaðaveg liggur ekki fyrir í þessum drögum fyrir þrátt fyrir að verklok þeirra gatnamóta eigi að vera á árinu 2021 samkvæmt samgöngusáttmála.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

  Engin ákvörðun hefur verið tekin um slíka aukningu atvinnuhúsnæðis í Örfirisey.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Það er mjög gagnrýnivert að verið sé að breyta aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er varðar stefnu um íbúðabyggð í miðjum heimsfaraldri. Asinn á málinu er eftirtektarverður og gagnrýnt er að kjörnum fulltrúum er ekki sýnt á spilin. Breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur eru ekki kynntar sameiginlega með áformum um borgarlínu því vitað er að miklar þrengingar verða á gatnakerfi Reykjavíkur ef hún verður nokkurn tíma að veruleika. Mikillar óánægju gætir meðal íbúa Reykjavíkur og athugasemdum rignir yfir umhverfis- og skipulagssvið vegna breytinganna en málin eru keyrð áfram af meirihlutanum. Sem dæmi má nefna þá gætir mikillar óánægju hjá íbúum í Úlfarsársdal vegna fyrirhugaðra áráforma að breyta reit „M22 Hallar“ í atvinnusvæði. Nú hefur verin tekin ákvörðun um að fresta þeirri ákvörðun. Óánægju gætir út um alla borg enda ekki furða þar sem aðal stefið í þessum breytingartillögum að útrýma enn frekar grænum svæðum í borgarlandinu ásamt þrengingarstefnu meirihlutans.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Farið er yfir viðbrögð við athugasemdir á Aðalskipulagi Reykjavíkur. Fulltrúi Flokks fólksins vill nefna Úlfarsárdal, tillöguna M 22. Fulltrúi Flokks fólksins setur sig alfarið upp á móti því að umræddur reitur verði aðeins atvinnuhúsnæði. Þarna er mikilvægt að byggð verði blönduð. Aðalskipulag á að gilda og er þess vænst að horfið verði frá frekari hugmyndum um að hafa einungis verkstæðisstarfsemi á umræddum reit. Fulltrúi Flokks fólksins vill hér nefna  Arnarnesveginn og ítreka mikilvægi þess að fengið verði nýtt umhverfismat í stað þess að byggt verði á 18 ára gömlu mati. Eðlilegast væri að staða umhverfismats hefði áhrif á tillöguna um 3. áfangann. Meirihlutinn er ekki sammála í  þessu máli. Fyrir utan Viðreisn taka fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Pírata  undir umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem gagnrýnir skort á upplýsingum til að hægt sé að taka afstöðu til matsskyldu framkvæmdarinnar. Fulltrúarnir, utan fulltrúa Viðreisnar, eru auk þess sameinaðir í þeirri skoðun að farsælast væri að framkvæma nýtt umhverfismat. Athugasemdir hafa borist vegna hæð húsa. Þétting byggðar gengur of langt þegar byggt er svo hátt að lokað er fyrir víðsýni víða yfir borgina bæði fyrir vegfarendur og íbúa húsa sem fyrir eru. Kvartanir um þetta eru víða i borginni. Í Mjódd, Glæsibæ og í Úlfarsárdal.

  Haraldur Sigurðsson deildarstjóri aðalskipulags tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

 3. Furugerði 23, breyting á deiliskipulagi     (01.807.4)    Mál nr. SN170927
  640517-0850 EA11 ehf., Skólavörðustíg 12, 101 Reykjavík
  531107-0550 Arkís arkitektar ehf., Kleppsvegi 152, 104 Reykjavík

  Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju umsókn Arkís arkitekta ehf. f.h. EA11 ehf. mótt. 14. desember 2017 varðandi breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 23 við Furugerði. Í breytingunni felst að fjarlægja núverandi mannvirki og koma fyrir íbúðum á lóð. Nýir byggingarreitir verði skilgreindir á lóðinni sem skipt er upp í reit A og reit B og lóð sameinuð, kvöð um nýtingu lóðar fyrir götu á reit B verður aflétt o.fl., samkvæmt deiliskipulags-, skýringar- og skilmálauppdráttum Arkís arkitekta ehf. dags. 16. júlí 2020, síðast breytt 11. janúar 2021. Jafnframt er lögð fram húsakönnun Borgarsögusafns Reykjavíkur dags. 19. janúar 2018, umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 28. maí 2018 og hljóðvistarskýrsla Mannvits dags. 14. ágúst 2020. Tillagan var auglýst frá 16. september 2020 til og með 28. október 2020. Eftirtaldir sendur athugasemdir/umsögn: íbúaráð Háaleitis- og Bústaðahverfis dags. 1. október 2020, Emilía Valdimarsdóttir dags. 25. október 2020, Bryndís Valsdóttir og Snædís Logadóttir dags. 25. október 2020, Ólöf Jóhannsdóttir dags. 25. október 2020, Helga Helgadóttir og Kristinn Zimsen dags. 26. október 2020, Elfar Andri Aðalsteinsson dags. 26. október 2020, Guðrún S. Gröndal dags. 27. október 2020, Ásta Ragnheiður Thorarensen og Þórarinn Hilmarsson dags. 27. október 2020, Fanný Jónmundsdóttir dags. 27. október 2020, Jóhanna Þórunn Ásgrímsdóttir og Hermann Þór Gíslason dags. 27. október 2020 og Ingibjörg Halldórsdóttir hdl. f.h. íbúa og eigendur Furugerðis 10 og 12 dags. 28. október 2020. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 11. janúar 2021.

  Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 11. janúar 2021. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði gegn.
  Vísað til borgarráðs.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Hér stendur til að byggja upp 30 íbúðir á lóð sem liggur að Bústaðarvegi og lengi hefur staðið til að byggja upp. Við styðjum uppbyggingu reitnum sem er í anda stefnu Aðalskipulags um þéttingu byggðar. Svæðið liggur vel við hjóla- og almenningssamgöngum. Hægt er að uppfylla viðmiðunargildi fyrir hljóðstig með mótvægisaðgerðum. Vegna bílastæðaábendinga er rétt að taka fram að nú er gert er ráð fyrir bílastæðum fyrir allar íbúðir í kjallara en búið er gera uppdrátt bílastæða og djúpgáma leiðbeinandi til að gera uppbyggingaraðila kleift að koma gestastæðum fyrir á lóð. Tekið er undir og þakkað fyrir ábendingar íbúa um nauðsyn þess a bæta aðgengi hjólandi og gangandi að götunni sem um ræðir.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Íbúar í Furugerði og Íbúaráð Háaleitis- og Bústaðahverfis hafa miklar áhyggjur af framvindu uppbyggingaráforma við Furugerði. Íbúar eru hræddir um skemmdir á húsum sínum þegar farið verður að sprengja fyrir bílakjallara því grunnt er niður á klöpp. Einnig hafa íbúar miklar áhyggjur af skorti á bílastæðum því nú þegar er takmarkað magn bílastæða og einnig eru áhyggjur af hljóðvist. Íbúaráðið bendir á fleiri þætti s.s að takmarkað pláss er fyrir gangstéttir og þröngt verði um bíla. Aðal áhyggjurnar eru þó þær að byggingamagnið á reitnum verði allt of mikið og stendur til að margfalda það miðað við fyrirliggjandi aðalskipulag. Íbúaráðið bendir á að „í B-hluta aðalskipulags 2010-2030 kemur fram um þennan reit: „ÍB33 Gerði-vestur. Svæðið er að mestu fullbyggt og fastmótað.“ Gangi þessi uppbyggingaráform eftir þrengir þetta enn frekar að umferð um Bústaðaveg og engin áform eru um þverun hans með undirgöngum eða göngubrúm.
  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

  Rétt er að taka fram að ekki er um margföldun byggingamagns að ræða miðað við gildandi Aðalskipulag. Í gildandi aðalskipulagi er í A-hluta er heimild fyrir 49 íbúðum á reitnum, en í B-hluta, sem ekki er bindandi, er almenn lýsing sem vísar til eldri úttektar um mögulega íbúðarbyggð á svæðinu og tilgreinir 4-6 íbúðir.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að kvartanir sem hér eru birtar eiga rétt á sér. Þétting byggðar hefur leitt til mikilla þrengsla víða og er áætlað að auka byggingarmagn talsvert. Ekki fylgja bílastæði í hlutfalli við aukningu íbúða. Málið er ekki nýtt og hefur áður komið fyrir skipulagsráð. Nú þegar er  skortur á bílastæðum. Reynt hefur verið að ná eyrum skipulagsyfirvalda og snúast áhyggjur fólks einnig að grunnt sé niður á klöpp á svæðinu og mikið þarf að sprengja með tilheyrandi hættu á skaða. Í byggingaráætlunum er fyrirséð að húsnæði mun ekki uppfylla hljóðvistarkröfur. Almenn er þröngt um húsnæði á svæðinu og lítið pláss fyrir gangstéttir. Því verður þröngt um byggingar þarna. Það eru ekki allir sem geta nýtt sér bíllausan lífsstíl og verða skipulagsyfirvöld að fara að sætta sig við það. Gengið er of langt í fyrirhyggjusemi skipulagsyfirvalda að vilja stýra með hvaða hætti fólk fer milli staða í borginni.

  Sólveig Sigurðardóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 4. Sægarðar 1 og 3, breyting á deiliskipulagi     (01.33)    Mál nr. SN200616
  530269-7529 Faxaflóahafnir sf., Tryggvagötu 17, 101 Reykjavík
  531107-0550 Arkís arkitektar ehf., Kleppsvegi 152, 104 Reykjavík

  Lögð fram umsókn Faxaflóahafna sf. dags. 5. október 2020 varðandi breytingu á deiliskipulagi Sundahafnar norðan Vatnagarða vegna lóðanna nr. 1 og 3 við Sægarða. Í breytingunni felst að færa lóðarmörk Sægarða 1 og 3 til suðausturs, stækka lóða Sægarða 3, stækka byggingarreit, hækka hámarkshæð byggingar á lóð Sægarða 1 og færa lagnaleið Veitna, samkvæmt uppdr. Arkís arkitekta ehf. dags. 2. október 2020. 

  Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
  Vísað til borgarráðs.

  Sólveig Sigurðardóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 5. Lækjargata 1, lýsing     (01.17)    Mál nr. SN200645
  510391-2259 Framkvæmdasýsla ríkisins, Borgartúni 7, 105 Reykjavík

  Að lokinni kynningu er lögð fram að nýju umsókn Framkvæmdasýslu ríkisins dags. 14. október 2020 ásamt bréfi dags. 14. október 2020 um nýtt deiliskipulag fyrir lóðina nr. 1 við Lækjargötu, lóð forsætisráðuneytisins og stjórnarráðshússins, vegna áforma um viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið fyrir starfsemi forsætisráðuneytisins. Einnig er lögð fram vinningstillaga Kurt og Pí arkitekta frá árinu 2018 og umboð forsætisráðuneytisins dags. 14. október 2020. Jafnframt er lögð fram skipulagslýsing umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, dags. 10. nóvember 2020. Lýsingin var kynnt til og með 18. desember 2020. Eftirtaldir sendu athugasemdir/umsögn: Herbertsprent ehf. dags. 7. desember 2020, Borgarsögusafn Reykjavíkur, dags. 16. desember 2020 og Skipulagsstofnun dags. 16. desember 2020.

  Athugasemdir kynntar.

  Ólafur Melsted verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 6. Háskólinn í Reykjavík - Nauthólsvegur 87, breyting á deiliskipulagi     (01.755.2)    Mál nr. SN200769
  710314-0550 Steinselja ehf., Laugarnesvegi 92, 105 Reykjavík
  480609-1150 Bak-Hjallar ehf., Vífilsstaðavegi 123, 210 Garðabær

  Lögð fram umsókn Steinselju ehf. dags. 14. desember 2020 varðandi breytingu á deiliskipulagi Háskólans Í Reykjavík vegna lóðarinnar nr. 87 við Nauthólsveg, lóð C í gildandi deiliskipulagi. Í breytingunni að heimilt verði að setja 15 kennslugáma tímabundið á lóð þ.e. til 15. júní 2021, samkvæmt uppdr. Steinselju ehf. dags. 11. desember 2020.  

  Samþykkt að falla frá kynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur  skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.

  Skipulags- og samgönguráð leggur fram svohljóðandi bókun:

  Mikilvægt er finna varanlega og farsæla lausn á lóðamálum leikskóla og grunnskóla Hjallastefnunnar sem nú eru staðsettir í Öskjuhlíð. Mikilvægt er að málið leysist sem allra fyrst.

  Fylgigögn

 7. Klettagarðar 25, breyting á deiliskipulagi     (01.324.2)    Mál nr. SN200777
  531107-0550 Arkís arkitektar ehf., Kleppsvegi 152, 104 Reykjavík
  670169-5459 Johan Rönning ehf., Klettagörðum 25, 104 Reykjavík

  Lögð fram umsókn Arkís arkitekta ehf. dags. 15. desember 2020 ásamt bréfi dags. 15. desember 2020 varðandi breytingu á deiliskipulagi Klettasvæðis vegna lóðarinnar nr. 25 við Klettagarða. Í breytingunni felst að nýtingarhlutfall hækkar úr 0,5 í 0,65 ásamt því að byggingarreitur bráðabirgðabyggingar er felldur niður, samkvæmt uppdr. Arkís arkitekta ehf. dags. 2. desember 2020. Einnig er lagt fram bréf Módelhúss ehf. til Faxaflóahafna dags. 7. desember 2020 og fundargerð Faxaflóahafna ohf. frá 17. desember 2020 þar sem Faxaflóahafnir samþykkja fyrir sitt leyti ósk um aukið byggingamagn.

  Samþykkt að falla frá kynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur  skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.

  Fylgigögn

 8. Rökkvatjörn 1, breyting á deiliskipulagi     (05.051.6)    Mál nr. SN200674
  Ævar Rafn Björnsson, Dimmuhvarf 15, 203 Kópavogur
  630120-1010 Úlfarsá ehf., Lágmúla 7, 108 Reykjavík

  Lögð fram umsókn Ævars Rafns Björnssonar dags. 28. október 2020 varðandi breytingu á deiliskipulagi Úlfarsárdals vegna lóðarinnar nr. 1 við Rökkvatjörn. Í breytingunni felst að bætt er við byggingarreit fyrir sorpgáma og leyfi fyrir innganga frá garði, samkvæmt uppdr. Teiknistofunnar Traðar dags. 8. janúar 2021.

  Samþykkt að falla frá kynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur  skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.

  Fylgigögn

 9. Krókháls 6 og Lyngháls 5, breytingu á deiliskipulagi     (04.324)    Mál nr. SN200759
  700896-2429 Vektor, hönnun og ráðgjöf ehf., Síðumúla 3, 108 Reykjavík
  570320-0250 Ísafold fjárfestingafélag ehf., Rjúpnahæð 5, 210 Garðabær

  Lögð fram umsókn Vektors, hönnun og ráðgjöf, dags. 8. desember 2020 varðandi breytingu á deiliskipulagi Hálsahverfis vegna lóðanna nr. 6 við Krókháls og 5 við Lyngháls. Í breytingunni felst breyting á lóðamörkum þar sem laufskáli sem tilheyrir eigninni að Krókhálsi 6 stendur hluta til á lóðinni Lyngháls 5. Lóðin við Krókháls 6 mun stækka um 15.8 m2 og lóðin Lyngháls 5 minnka sem því nemur, samkvæmt uppdr. Vektors, hönnun og ráðgjöf, dags. 17. desember 2020. Einnig er lögð fram skissa á byggingarleyfisuppdrætti og eignaskiptayfirlýsing dags. 3. desember 2020.

  Samþykkt að falla frá kynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur  skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.

  (B) Byggingarmál

  Fylgigögn

 10. Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa, fundargerð         Mál nr. BN045423

  Fylgiskjal með fundargerð þessari eru fundargerðir afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 1095 frá 15. desember 2020, nr. 1096 frá 22. desember 2020 og nr. 1097 frá 5. janúar 2021.

  Fylgigögn

 11. Brekkustígur 9, Stækkun húss og breyting lóðar     (01.134.202)    Mál nr. BN057519
  521108-1180 Ö44 ehf, Pósthólf 17, 121 Reykjavík

  Lagt fram að nýju erindi frá afgreiðslufundi byggingarfulltrúa frá 28. apríl 2020 þar sem sótt er um leyfi til að breyta lóðamörkum milli lóða Öldugötu 44 og Brekkustígs 9, einnig er sótt um leyfi fyrir viðbyggingu við núverandi hús og  gera rishæð, tvær íbúðir verða í húsinu í stað einnar og gerður nýr inngangur frá garði með útitröppum, anddyri og svölum á húsi á lóð nr. 9 við Brekkustíg. Erindi var grenndarkynnt frá 2. júní 2020 til og með 30. júní 2020. Eftirtaldir sendu athugasemdir: Gunnar Helgi Kristinsson og María Jónsdóttir dags. 15. júní 2020, íbúaráð Vesturbæjar dags. 19. júní 2020, Heiðrún Kristjánsdóttir f.h. 20 íbúa að Brekkustíg, Bræðraborgarstíg, Drafnarstíg og Öldugötu dags. 20. júní 2020, Vilhjálmur Guðlaugsson og Edda Guðmundsdóttir dags. 25. júní 2020, Heiðrún Kristjánsdóttir dags. 26. júní 2020, Sigrún L. Baldvinsdóttir dags. 26. júní 2020, Linus Orri dags. 27. júní 2020, Ármann Halldórsson og Bryndís Jóhannsdóttir dags. 27. júní 2020, Eyjólfur Már Sigurðsson, Elizabeth Ortega Lucio, Kolbrún Einarsdóttir, Gísli Þór Sigurþórsson og Sylvía Hrönn Kristjánsdóttir dags. 28. júní 2020, Vésteinn Jónsson dags. 29. júní 2020, Kjartan Páll Sveinsson og Phoebe Jenkins dags. 29. júní 2020, Guðrún Erla Sigurðardóttir, Þorgeir J. Andrésson, Guðrún Ingibjörg Þorgeirsdóttir og Haukur Smári Hlynsson dags. 29. júní 2020,  Ilmur Stefánsdóttir og Valur Freyr Einarsson dags. 29. júní 2020, Kjartan Sveinsson og María Huld Markan Sigfúsdóttir dags. 29. júní 2020, Guðný Helgadóttir, Valdimar E. Valdimarsson, Þorsteinn Geirharðsson og Þuríður Kristjánsdóttir dags. 30. júní 2020, Skólastjórnendur Drafnarsteins, Foreldrafélag Drafnarsteins og Foreldraráð Drafnarsteins dags. 30. júní 2020, Óskar Björgvinsson, Dórathea Margrétardóttir, María Björk Steinarsdóttir og Konstantín Shcherbak dags. 30. júní 2020 og Íbúasamtök Vesturbæjar dags. 30. júní 2020. Erindi fylgir Greinagerð Eflu um brunahönnun útg. 001-V03 dags. 6. apríl 2020, umsögn Minjastofnunar dags. 16. apríl 2020 og 25. febrúar 2020, skýrsla Fornleifastofunnar dags. júlí 2019 og afrit af bréfi Borgarráðs nr. R19050201 dags. 23. maí 2019. Einnig fylgir bréf hönnuðar vegna texta í umsókn dags. 20. apríl 2020. Einnig eru lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 16. október 2020.

  Samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 16. október 2020.
  Vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Við tökum undir umsögn skipulagsfulltrúa með þeim athugasemdum og breytingartillögum sem þar koma fram. Eðlilegt og jákvætt er að byggt sé á umræddri hornlóð en þó er rétt að fjölgunin verði 4-5 íbúðir en ekki 10 eins og áformað var. Þá þarf að tryggja áframhaldandi gróðursæld á reitnum og að hönnun hússins sé í sátt við núverandi umhverfi þess.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins skilur vel óánægju og áhyggjur íbúanna og styður sjónarmið þeirra að hafna skuli því að breyta lóðarmörkum milli lóða Öldugötu 44 og Brekkustígs 9 til að byggja viðbyggingu og nýbyggingu. Fjölmargar athugasemdir hafa borist.  Þessu mun fylgja mikil bílaaukning. Fyrst má nefna að nú eru þarna talsverð þrengsl fyrir. Vandinn er ekki nýr. Þeir sem þurfa að finna bílum sínum stað við hús sín lenda í stökustu vandræðum. Eins og myndir sýna eru göturnar fullar af bílum. Þess utan fellur þetta nýja hús illa að götumyndinni. Þau hús sem fyrir eru, eru lágreist enda um að ræða gamla byggð. Mikilvægt er að hlusta á sjónarmið íbúa.

  Hrafnhildur Sverrisdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 12. Öldugata 44, Stækkun húss - mhl.1 og mhl.2     (01.134.201)    Mál nr. BN057521
  521108-1180 Ö44 ehf, Pósthólf 17, 121 Reykjavík

  Lagt fram að nýju erindi frá afgreiðslufundi byggingarfulltrúa frá 28. apríl 2020 þar sem sótt er um leyfi til að breyta lóðamörkum milli lóða Öldugötu 44 og Brekkustígs 9 og til þess að byggja 6 íbúðir í nýbyggingum og með breytingum og viðbyggingum verði gerðar 2 íbúðir í núverandi húsum á lóð nr. 44 við Öldugötu. Erindi var grenndarkynnt frá 2. júní 2020 til og með 30. júní 2020. Eftirtaldir sendu athugasemdir: Sigríður Gunnarsdóttir dags. 8. júní 2020, Gunnar Helgi Kristinsson og María Jónsdóttir dags. 15. júní 2020, íbúaráð Vesturbæjar dags. 19. júní 2020, Heiðrún Kristjánsdóttir f.h. 20 íbúa að Brekkustíg, Bræðraborgarstíg, Drafnarstíg og Öldugötu dags. 20. júní 2020, 5 íbúar og eigendur að Öldugötu 42 dags. 23. júní 2020, Vilhjálmur Guðlaugsson og Edda Guðmundsdóttir dags. 25. júní 2020, Heiðrún Kristjánsdóttir dags. 26. júní 2020, Sigrún L. Baldvinsdóttir dags. 26. júní 2020, Ármann Halldórsson og Bryndís Jóhannsdóttir  dags. 27. júní 2020, Eyjólfur Már Sigurðsson, Elizabeth Ortega Lucio, Kolbrún Einarsdóttir, Gísli Þór Sigurþórsson og Sylvía Hrönn Kristjánsdóttir dags. 28. júní 2020, Vésteinn Jónsson dags. 29. júní 2020, Kjartan Páll Sveinsson og Phoebe Jenkins dags. 29. júní 2020, Guðrún Erla Sigurðardóttir, Þorgeir J. Andrésson, Guðrún Ingibjörg Þorgeirsdóttir og Haukur Smári Hlynsson dags. 29. júní 2020, Ilmur Stefánsdóttir og Valur Freyr Einarsson dags. 29. júní 2020, Guðný Helgadóttir, Valdimar E. Valdimarsson, Þorsteinn Geirharðsson og Þuríður Kristjánsdóttir dags. 30. júní 2020, Kjartan Sveinsson og María Huld Markan Sigfúsdóttir dags. 29. júní 2020, Skólastjórnendur Drafnarsteins, Foreldrafélag Drafnarsteins og Foreldraráð Drafnarsteins dags. 30. júní 2020, Óskar Björgvinsson, Dórathea Margrétardóttir, María Björk Steinarsdóttir og Konstantín Shcherbak dags. 30. júní 2020 og Íbúasamtök Vesturbæjar dags. 30. júní 2020. Erindi fylgir bréf Minjastofnun dags. 25. febrúar 2020, afrit af bréfi Borgarráðs nr. R19050201 dags. 23. maí 2019, skýrsla Fornleifastofunnar um könnun á fornleifum á lóðunum Brekkustíg 9 og Öldugötu 44 dags. júlí 2019, greinargerð Eflu verkfræðistofu um val og hönnun brunavarna dags 6. apríl 2020 ásamt yfirliti breytinga dags. 20. apríl 2020. Einnig eru lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 16. október 2020.

  Samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 16. október 2020.
  Vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Við tökum undir umsögn skipulagsfulltrúa með þeim athugasemdum og breytingartillögum sem þar koma fram. Eðlilegt og jákvætt er að byggt sé á umræddri hornlóð en þó er rétt að fjölgunin verði 4-5 íbúðir en ekki 10 eins og áformað var. Þá þarf að tryggja áframhaldandi gróðursæld á reitnum og að hönnun hússins sé í sátt við núverandi umhverfi þess.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins skilur vel óánægju og áhyggjur íbúanna og styður sjónarmið þeirra að hafna skuli því að breyta lóðarmörkum milli lóða Öldugötu 44 og Brekkustígs 9 til að byggja viðbyggingu og nýbyggingu. Fjölmargar athugasemdir hafa borist.  Þessu mun fylgja mikil bílaaukning. Fyrst má nefna að nú eru þarna talsverð þrengsl fyrir. Vandinn er ekki nýr. Þeir sem þurfa að finna bílum sínum stað við hús sín lenda í stökustu vandræðum. Eins og myndir sýna eru göturnar fullar af bílum. Þess utan fellur þetta nýja hús illa að götumyndinni. Þau hús sem fyrir eru, eru lágreist enda um að ræða gamla byggð. Mikilvægt er að hlusta á sjónarmið íbúa.

  Hrafnhildur Sverrisdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  (D) Ýmis mál

  Fylgigögn

 13. Gufuneshöfði, kæra 110/2020, umsögn, úrskurður     (02.2)    Mál nr. SN200691
  701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

  Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 6. nóvember 2020 ásamt kæru dags. 6. nóvember 2020 þar sem kærð er m.a. útgáfa á byggingarleyfi fyrir mastur að Gufuneshöfða og deiliskipulagsbreyting frá 2019 þar af lútandi. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 26. nóvember 2020 og úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 11. desember 2020. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. ágúst 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir innsiglingarmastri við Gufuneshöfða.
  Kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 2. október 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hamrahverfis er vísað frá úrskurðarnefndinni. Jafnframt er lagt fram erindi  úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 18. og 29. desember 2020 ásamt endurupptökubeiðni dags. 15. desember 2020 og umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 6. janúar 2021.

 14. Skólavörðustígur 36, kæra 121/2020, umsögn, úrskurður     (01.181.4)    Mál nr. SN200709
  701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

  Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 19. nóvember 2020 ásamt kæru dags. 18. nóvember 2020 þar sem kærðar eru ákvarðanir um veitingu leyfis til niðurrifs húss og byggingarleyfi fyrir þriggja hæða staðsteyptu húsi á lóð nr. 36 við Skólavörðustíg. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 4. desember 2020. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 22. nóvember 2020. Úrskurðarorð: Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. október 2020 um að veita leyfi til að byggja þriggja hæða staðsteypt hús með verslunarhúsnæði á jarðhæð og einni íbúð á annarri og þriðju hæð á lóðinni nr. 36 við Skólavörðustíg.
  Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. október 2020 um að samþykkja leyfi fyrir þegar framkvæmdu niðurrifi húss á fyrrgreindri lóð.

 15. Búland 1-31 2-40, kæra 126/2020, umsögn     (01.850.3)    Mál nr. SN200743
  701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

  Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 1. september 2020 ásamt kæru dags. 27. nóvember 2020 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að ætla ekki að framfylgja þá þegar tekinni ákvörðun sinni um beitingu þvingunarúrræða gagnvart eigendum eignarinnar að Búlandi 36. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 6. janúar 2021.

 16. Úlfarsbraut 6-8, kæra 139/2020     (02.698.4)    Mál nr. SN200795
  701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

  Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 22. desember 2020 ásamt kæru dags. 22. desember 2020 þar sem kærð er ákvörðun um útgáfu nýs byggingarleyfis sem samþykkt var 21. júlí 2020 vegna byggingar parhúss að Úlfarsbraut 6-8.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúa Flokks fólksins finnst kærur allt of margar sem borist hafa úr Úlfarsárdal. Kvartað er yfir að verið sé að breyta gildandi skipulagi eftir á, t.d. minnka bil á milli húsa og byggja ofan á hús sem ekki stóð til að yrðu hærri og þar með skerða útsýni frá næstu húsum. Við skoðun á sumum kærum í gegnum tíðina sem tengjast þessu svæði finnst fulltrúa Flokks fólksins eins og komið hafi verið aftan að fólki í sumum þessara mála. Fólk sem fjárfest hefur í fasteignum í hverfinu hefur ekki rennt í grun að eiga eftir að upplifa það að skipulagi muni verða breytt eftir á.  Í sakleysi sínu flytur fólk inn og því verið sagt að ef byggt verði við hliðina á eða fyrir framan þá verði hús ekki hærra en X. En það næsta sem skeður er að hús er byggt sem er hærra en ákveðið hafði verið í skipulagi.

 17. Tangabryggja 13-15, kæra 134/2020     (04.023.1)    Mál nr. SN200772
  701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

  Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 14. desember 2020 ásamt kæru dags. 14. desember 2020 þar sem kærð er útgáfa lokaúttektarvottorðs byggingarfulltrúa Reykjavíkur vegna Tangabryggju 13-15 sem gefið var út 21. október 2020.

 18. Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, Stefna um íbúðarbyggð, breyting á aðalskipulagi         Mál nr. SN200328

  Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 7. janúar 2021 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á tillögu að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er varðar stefnu um íbúðabyggð.

  Fylgigögn

 19. Hraunberg 4, breyting á deiliskipulagi     (04.674.0)    Mál nr. SN200714
  610415-1560 RK Pípulagnir ehf., Lambhagavegi 9, 113 Reykjavík
  530201-2280 Nexus arkitektar ehf., Hafnarstræti 20, 101 Reykjavík

  Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 7. janúar 2021 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á tillögu að breytingu á skilmálum deiliskipulags fyrir Breiðholt III, austurdeildar, vegna lóðarinnar nr. 4 við Hraunberg.

  Fylgigögn

 20. Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, 
  um varanleg hjólabraut, umsögn         Mál nr. US190256

  Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 17. desember 2020. 

  Vísað til meðferðar stýrihóps um hjólreiðaáætlun.

  Fylgigögn

 21. Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um reglur varðandi rafskutlur, umsögn - USK2020110095         Mál nr. US200408

  Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 11. janúar 2021.

  Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Sviðið vinnur þegar með aðilunum að því að stuðla að góðri umgengni í kringum tækin. Ákvæði um þetta er að finna í samningum við leigurnar og margar vinna að þessu t.d. með því að láta notendur taka myndir þegar þeir skila þeim. Samstarfið gengur vel og er ekki talin þörf á að gera breytingar á því.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að skipulagssvið borgarinnar útfærði leiðir/umgengnisreglur í samráði við rafskutlaleigur til að fá leigjendur til að ganga frá hjólum þar sem þau skapa ekki hættu.   Tillögunni er vísað frá og segir að ákvæði um þetta sé að finna í samningum við leigurnar. Fulltrúi Flokks fólksins telur að breyta þurfi reglum á þann hátt að skýrt verði hvar megi setja rafskutlur eftir notkun. Bæta þarf einnig innviðina. Víða vantar standa t.d. fyrir utan verslunarmiðstöðvar og skóla. Með bættum innviðum má ætla að umgengni verði betri. Tillagan á því fullt erindi og hefði átt að vera samþykkt. Málið á sér margar hliðar, hjólum fer fjölgandi og líklegt að fleiri verði skilin eftir á víðavangi. Hér þarf að sýna fyrirhyggju. Fulltrúi Flokks fólksins er sammála því að gott samstarf við leigurnar er afar mikilvægt.

  Fylgigögn

 22. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um mön við Reykjanesbraut/Blesugróf, umsögn - USK2020110094         Mál nr. US200407

  Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 11. janúar 2021.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins spurði fyrir íbúa eftir upplýsingum um fyrirhugaða mön við Reykjanesbraut/Blesugróf og þá hvernig mál standa. Íbúum fannst þeir ekki hafa náð til skipulagsyfirvalda. Í svari segir að forhönnun á umræddri hljóðmön sé nú lokið og kostnaðaráætlun vegna framkvæmda liggi fyrir en ekki liggi fyrir hvenær hægt verði að ráðast í framkvæmdir. Mörgu er því enn ósvarað svo sem hvenær hægt verður að ráðast í framkvæmdir og hver sé ábyrgur fyrir því að koma verkinu af stað.

  Fylgigögn

 23. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins, um lóða- og gatnagerðargjöld, svar - USK2020070026         Mál nr. US200211

  Lagt fram svar fjármála og áhættustýringarsviðs, dags. 17. desember 2020.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Frá 1. janúar 2010 hefur Reykjavíkurborg fengið greidda tæpa 9,7 milljarða í byggingarétt og tæpa 6 milljarða í gatnagerðargjöld eða samtals rúma 15,6 milljarða. Athygli vekur að rúmur 1,1 milljarður í vanskilum og elstu gjalddagarnir eru frá 2014. Á þessu 10 ára tímabili hafa tæpir 9,7 milljarðar í borgarsjóð vegna byggingaréttar. Því er það alveg ljóst eins og borgarfulltrúi Miðflokksins hefur marg oft bent á að verið er að fegra áætlunargerð Reykjavíkurborgar með „byggingaréttarfroðu“. Í ársreikningi fyrr árið 2019 voru tæpir 3,8 milljarðar vegna sölu byggingaréttar á árinu en einungis skiluðu sér 26 milljónir. Sama má segja um áætluð gatnagerðargjöld en samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir árið 2019 áttu gatnagerðargjöld að skila í borgarsjóð tæpum 4,2 milljörðum en einungis rúmur 1,8 milljarður skilaði sér. Ekki nóg með það heldur er gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun til ársins 2024 er gert ráð fyrir sölu byggingaréttar upp á 17 milljarða. Þetta sýnir mikla veikleika í fjárhagsstjórn Reykjavíkur og sýnir mikið ábyrgðarleysi. Það sjá allir að þetta áætlaða fjármagn skilar sér aldrei í borgarsjóð. Hér er á ferðinni enn ein froðan í bókhaldi Reykjavíkur þar sem keyrð er áfram lóðaskortastefnu.

  Fylgigögn

 24. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að ráðist verði í úttekt á aðgengismálum hjólastólar og göngugrindur         Mál nr. US200435

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að ráðist verði í úttekt á aðgengismálum í Reykjavík af hálfu umhverfis- og skipulagssviðs hvað varðar hjólastólaaðgengi og göngugrindur. Það er á ábyrgð stjórnvalda að tryggja það að allir hafi jafnt aðgengi að verslunum og þjónustu í landinu. Þetta er kveðið á um í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Lög um mannvirki leggja þá skyldu á sveitarfélög að hafa eftirlit með aðgengismálum. Ítrekað hefur verið bent á það að reglur um aðgengi séu ekki virtar. Fólk er orðið langþreytt á því að þurfa í sífellu að vekja athygli á því hve langt er í land í þessum málum þrátt fyrir það að lög og reglugerðir séu til staðar sem kveði á um aðgengiskröfur. Þörf er á því að greina betur vandann og efla eftirlit og ráðgjöf til verslana og þjónustuveitenda til að tryggja það að allir komist greitt sinna leiða. Því er lagt til að umhverfis- og skipulagssvið framkvæmi úttekt á málaflokknum og greini hvaða leiðir séu færar til úrbóta til að tryggja það að verslanir og þjónustuveitendur geti haft aðgengiskröfur í samræmi við lög, reglugerðir og alþjóðasamninga.

  Tillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata.
  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Tillagan er ekki vel afmörkuð og þótt hugmyndin sé fín er erfitt er að ráðast í verkefni á borð við þetta án þess að gera sér grein fyrir umfangi þess.

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Víða þarf að bæta aðgengismál í borginni og er mikilvægt að hafa greinargóða sýn á stöðu mála. Fyrsta skref væri fyrir skipulags- og samgönguráð að fá yfirlit yfir þær úttektir sem gerðar hafa nú þegar um málið. Hjá borginni er starfandi aðgengis- og samráðsnefnd varðandi þessi mál. Skipulags- og samgönguráð ætti að fara markvisst í að vinna úr þeim aðgengishömlum sem enn eru í borgarlandinu sem og í aðgengi hjá stofnunum og fyrirtækjum. 

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu um að ráðist verði í úttekt á aðgengismálum hjólastóla og göngugrinda. Tillagan hefur verið felld. Segir í bókun að hún sé ekki vel afmörkuð og þótt hugmyndin sé fín er erfitt er að ráðast í verkefni á borð við þetta án þess að gera sér grein fyrir umfangi þess. Þetta þykir fulltrúi Flokks fólksins vera fyrirsláttur. Úttekt af þessu tagi er nauðsynleg og myndi nýtast öllum. Víða er pottur brotinn í þessum efnum. Þeir sem þurfa að styðjast við hjálpartæki eins og hjólastóla og göngugrindur komast sums staðar ekki leiðar sinnar. Betrumbætur ganga of hægt. Segja má sem dæmi að almenningssamgöngur hafa ekki staðið þeim til boða sem notast við hjólastóla. Á biðstöðvum strætó er staðan slæm á meira en 500 stöðum, bæði aðgengi og yfirborð. Strætó, sem almenningssamgöngur, hefur ekki verið raunhæfur kostur fyrir fatlað fólk og þess vegna lítið notaðar af hreyfihömluðu, sjónskertu og blindu fólki. Nýjasta hindrunin er að rafskutlur liggja stundum á miðri gangstétt og er útilokað fyrir fólk með göngugrind eða í hjólastól að komast fram hjá. Það hefði gagnast öllum ef gerð hefði verið úttekt á þessum málum svo hægt væri að sjá hver heildarstaðan er.

 25. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, 
  um EasyPark         Mál nr. US200439

  Svar hefur borist við fyrirspurn um hvert tekjurnar sem mest notaða bílastæðaapp í Evrópu, sem nú er komið til Íslands fara vegna greiddra bílastæðagjalda innan Reykjavíkur? Í svari segir að EasyPark keypti Leggja.is árið 2019. Greiðslur fyrir stæði sem greiddar eru með greiðslulausninni renna óskertar til Bílastæðasjóðs. EasyPark leggur aukalega á þóknun fyrir hverja notkun og rennur sú þóknun til þeirra. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta skrýtið svar frá bílastæðasjóði en er hér verið að segja að bæði bílastæðasjóður fái gjald og svo fari einnig sérstök greiðsla til EasyPark? Eru bílaeigendur að greiða gjald til beggja í hvert skipti sem þeir leggja? Eru bílaeigendur  meðvitaðir um það og hafa þá gjöldin ekki hækkað sérstaklega þar sem EasyPark leggur aukalega þóknun á fyrir hverja notkun? Óskað er upplýsinga um samninga sem liggja til grundvallar samstarfs bílastæðasjóðs og EasyPark og hvernig fyrirkomulagið allt er í því sambandi?

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar og Bílastæðasjóðs.

 26. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200461

  Leggja.is er hætt starfsemi. Við tók fyrirtækið Easy Park öllum að óvörum. 1. Hverjir eru eigendur Easy Park? 2. Hvert er mánaðargjaldið/áskriftin hjá Easy Park svo notendur bílastæða geti þegið þjónustuna sem fyrirtækið veitir og borginni er skylt að uppfylla til að hafa greiðan aðgang að bílastæðum í miðborginni?  3. Er það eðlilegt að bílastæðasjóður framselji gæði - í þessu tilfelli bílastæði í miðbænum til einkaaðila án útboðs eða verðkönnunar? 4. Á hvaða lagagrunni byggir þessi ákvörðun með framsal bílastæða til einkaaðila?

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar og Bílastæðasjóðs.

 27. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200440

  Fulltrúa Flokks fólksins óar við öllum þessum innkaupum Umhverfis- og skipulagssviðs sem birt eru í yfirlit í ljósi þess að á sviðinu starfa ótal sérfræðingar. Nýlega var verið að ráða enn fleiri sérfræðinga. Samt sem áður eru nánast flest verkefni keypt út í bæ. Milljarðar streyma úr borgarsjóði í aðkeypta sérfræðivinnu sem skipulagsyfirvöld kaupa af sjálfstætt starfandi fyrirtækjum. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvernig samskiptum umhverfis- og skipulagssviðs (USK) er háttað við verkfræði-arkitektastofur. Spurt er:  Hvernig er samskiptum við verkfræði-arkitektastofur háttað? Óskað er eftir upplýsingum um tilboð- fasta samninga-  magnafslætti? Verið er að greiða verk- og arkitektastofum gríðarlegar upphæðir. Er ekki hægt að vinna nein þessara verkefna af sérfræðingum sviðsins? 

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

 28. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200459

  Hvað hafa göturnar í Reykjavík verið þrifnar/þvegnar oft á árinu 2020 tæmandi talið eftir hverfum?

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu reksturs og umhirðu.

 29. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200460

  Samræmist nýr vegur sem verið er að leggja í Öskjuhlíð deiliskipulagi?

  Vísað til umsagnar umhverfis - og skipulagssviðs, Skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

 30. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, 
  vegna sameiningar grunnskóla í norðanverðum Grafarvogi         Mál nr. US210006

  Fulltrúi Flokks fólksins spyr um hver er staðan á þeim framkvæmdum sem lofað var í  framhaldi af lokun Korpuskóla sem áttu að auka öryggi gangandi vegfaranda og nemenda sem þurfa að sækja skóla utan hverfisins? Gangbrautir eru enn óupplýstar og umferðarhraði er enn of mikill. Eins vill fulltrúi Flokks fólksins spyrja um hvort það sé ekki óheimilt að nota húsnæði í annað en því var ætlað nema til komi breyting á aðalskipulagi? Ef húsnæði er skipulagt sem skólahúsnæði að þá sé óheimilt að vera með aðra starfsemi í húsinu en skólastarf?  Af sama skapi ef húsnæði er skipulagt sem verslunarhúsnæði þá má ekki  nota það sem íbúðir nema til komi breyting á skipulagi. Óskað er staðfestingar á þetta sé rétt skilið hjá fulltrúanum.

  Frestað.

 31. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, 
  um Hafnartorg         Mál nr. US210007

  Hafnartorgið er í  hjarta bæjarins. Nú eru þar  miklar byggingar og er svæðið  kalt ásýndum í ýmsum merkingum. Þarna er vindasamt. Einkaaðilar hafa fengið mikil völd í þessu tilfelli en Reginn er eigandi alls verslunarsvæðisins. Þótt þeir ráði hverjir fái leyfi til rekstur  á götum við Hafnartorgi hefur  Reykjavíkurborg engu að síður mikið um það að segja hvernig umhverfi Hafnartorgs lítur út. Borgararnir eiga líka rétt á að sjónarmið þeirra  um borgina fái að koma fram. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort skipulagsyfirvöld borgarinnar ætli  beita sér til að gera þetta svæði meira aðlaðandi, veðursælla og lygnari stað? Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður talað um líkantilraunir í vindgöngum. Umræða um vindstrengi í og við Hafnartorg gefa tilefni til að endurtaka þá umræðu enda virðist ekki þörf á. Í líkantilraunum er hægt að mæla hvernig form húsa og staðsetning hafa áhrif á vindstrengi. Sumt byggingarlag ,svo sem þegar hús mjókka upp (t.d. Hallgrímskirkju) lyfta vindinum en kassalaga hús (t.d. Höfðatorg) beina  vindi jafnt upp og niður með tilheyrandi vindstrengjum niður við jörð. Tilraunir í vindgöngum geta svarað öllum slíkum spurningum. Lagt er því til að skipulagsyfirvöld í borginni taki upp þess háttar vinnubrögð. Það gæti fyrirbyggt mörg skipulagsslysin.

  Frestað.

 32. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að lækka hámarkshraða við Korpúlfsstaðaveg         Mál nr. US210008

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að lækkaður verði hámarkshraði við  Korpúlfsstaðaveg og að farið verði í að skoða hraðann við   stoppistöð milli Brúnastaða og Bakkastaða. Þar er lýsing nánast engin, hraðinn mikill, merkingar nánast engar og þarna er stærsti hópurinn af yngsta stigi að taka skólarútuna á hverjum morgni og koma svo aftur seinni partinn heim. Báðar tímasetningar eru á háanna tíma og þegar umferðin er sem mest og birtan sem minnst. Mælingar sem borgin gerði sl. haust  til þess að skoða eðli umferðarinnar á veginum voru villandi að mati íbúa.  Mælingarnar voru gerða milli Brúnastaða og Garðsstaða þar sem hraðahindranir eru fyrir og merktar gangbrautir. Skoða þarf þessi mál betur og endurtaka mælingar sem og mæla á fleiri stöðum. Skoða þarf eðli umferðarinnar þegar strætó og eða skólarúta stoppar þarna. Framúrakstur er algengur þrátt fyrir litla "eyju" milli akreina sem eykur enn hættuna.

  Frestað.

 33. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US210009

  Víða er pottur brotinn í salernismálum í Reykjavík fyrir almenning. Eftir að Mathöll á Hlemmi opnaði þá hefur aðgengismálum farið mjög hrakandi. Húsið lokar nú kl. 22:00 eða 23:00 - fer eftir dögum. Eftir þann tíma er strætónotendum úthýst um notkun salerna við þessa megin stoppistöð Strætó. Tryggja verður að notendur Strætó hafi aðgang að snyrtilegum salernum á vegum borgarinnar. 1. Hver er stefna borgarinnar í almennings salernismálum í borgarlandinu? 2. Hvernig er það tryggt að notendur Strætó komist á salerni á Hlemmi eftir lokun? 3. Stendur til að koma fyrir útisalernum á Hlemmi? 4. Hvað er Reykjavíkurborg/rekstraraðilar með mörg almenningssalerni og hvar eru þau?

  Frestað.

Fundi slitið klukkan 12:06

Pawel Bartoszek Alexandra Briem

Hjálmar Sveinsson Hildur Björnsdóttir