Skipulags- og samgönguráð - Fundur nr. 90

Skipulags- og samgönguráð

Ár 2020, miðvikudaginn 2. desember kl. 09:01, var haldinn 90. fundur skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð Ráðssal.

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Pawel Bartoszek, Alexandra Briem, Hjálmar Sveinsson, Ragna Sigurðardóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Katrín Atladóttir og áheyrnarfulltrúarnir Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir og Daníel Örn Arnarsson.

Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Þorsteinn Rúnar Hermannsson og Jóhanna Guðjónsdóttir.

Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.

Þetta gerðist:

Þetta gerðist:

  1. Umferðarljósastýringar á höfuðborgarsvæðinu, niðurstöður úttektar, kynning         Mál nr. US200371

    Lögð fram til kynningar skýrsla með niðurstöðum úttektar SWECO á umferðarljósastýringum á höfuðborgarsvæðinu, dags. 7. júní 2020, ásamt kynningarglærum og erindisbréfi samstarfshóps SSH og Vegagerðarinnar.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Niðurstaða greiningar Sweco er að fjárfesta þurfi meira í fólki og ferlum, frekar en búnaði. Búnaðurinn stendur framarlega samanborið við aðrar borgir en koma þyrfti á mælanlegum mælikvörðum t.d. varðandi öryggi og biðtíma gangandi og hjólandi, nýta betur sóknarfæri núverandi búnaðar og auka samráð milli ólíkra aðila í ferlinu. Með stofnun formlegs samráðsvettvangs fagaðila er lagður grundvöllur að innleiðingu þessara ráðlegginga úr skýrslu Sweco.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Eitt af stóru tækifærum í bættri umferð er snjallvæðing ljósastýringa í Reykjavík. Greining Sweco bendir á að mælanleg markmið skortir og auka þurfi samráð við hagaðila. Þá er bent á að borgin geti bætt sig í að læra af reynslu annara borga. Gríðarleg tækifæri eru í bættri ljósastýringu enda er það sett í sérstakan forgang í samgöngusáttmála. Sýnt hefur fram á að betri ljósastýring gæti minnkað tafatíma í umferð verulega. Nauðsynlegt er að setja fram skýr mælanleg markmið og framkvæmdaáætlun í bættri ljósastýringu í borginni. Þessa vinnu þarf nýtt félag Betri samgöngur ohf að leiða.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er komin skýrsla um ekki neitt annað en að fjölga opinberum starfsmönnum, skipa upplýsingafulltrúa um umferðarlýsingarmál og sækja peninga í sjóði ESB. Fulltrúar SWECO komu ekki til landsins til að kynna sér málin áður en skýrslan var gerð. Á þeim grunni er ljóst að skýrslan er gagnslaus. Nú hefur komið í ljós að skýrsla með niðurstöðum úttektar SWECO á umferðarljósastýringum á höfuðborgarsvæðinu var skilað 7. júní sl. Það sætir mikilli furðu að kjörnir fulltrúar fái að bera skýrsluna augum fyrst nú því búið er að bíða eftir þessari skýrslu lengi. Ekki nóg með það – heldur er búið að skipa starfshóp sem þegar hefur hafið störf við úrvinnslu skýrslunnar og í honum sitja eingöngu embættismenn. Minnt er á að í samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu voru umferðarljósastýringarmál sett í forgang og gera átti þarfagreiningu á hvernig hægt væri að auka umferðarflæði með réttri ljósastýringu. Þessi skýrsla fjallar ekki um það verkefni. Einn túrinn enn sitja kjörnir fulltrúar minnihlutans uppi með orðinn hlut og hafa ekkert til málanna að leggja.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Kynntar eru niðurstöður úttektar SWECO á umferðarljósastýringum í Reykjavík. Ef gluggað er í niðurstöður úttektarinnar þá virðist Reykjavík aftarlega á merinni miðað við þær borgir sem fjallað er um í skýrslunni. Hinn 3. júní bókaði Flokkur fólksins við yfirlitskynning á fyrirkomulagi umferðarljósastýringa í Reykjavík eftirfarandi: Á 100 stöðum er enn gömul útfærsla á umferðarljósum en á 113 stöðum nýrri. Þetta er langt því frá að vera viðunandi Eldri útfærslan hlýtur að vera á þeim stöðum þar sem mesta álagið er því slíkar eru umferðartafirnar og umferðarflæðið slakt? Það er vont að enn eigi eftir að nútímavæða ljósabúnað á 100 stöðum. Umferðaröngþveiti er víða í borginni og á hverjum morgni bíða raðir bíla eftir grænu ljósi og leiðin samt löngu orðin greið. Gamaldags umferðar ljósastýringarkerfi er ein stærsta ástæða þess að umferðin er í svo miklum ólestri sem raun ber vitni. Af hverju hefur þetta skref ekki verið tekið til fulls? Leiðrétta þarf einnig gangbrautarljós. Sú staðreynd að rauð ljós loga á gangbraut lengi eftir að viðkomandi hefur þverað gangbrautin er ekki til að bæta útblástursvandann.

    Fylgigögn

  2. Fólksbifreiðastæði við Spöng og Vesturhóla, tillaga - USK2020110068         Mál nr. US200429

    Lögð fram svohljóðandi tillaga Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 23. nóvember 2020:

    Lagt er til að skipulags- og samgönguráð samþykki að eftirtalin bílastæðaplön verði merkt sem fólksbifreiðastæði: - Spöng, sunnan götu.

    - Vesturhólar, móts við Kríuhóla. Ofangreind ráðstöfun verði merkt með viðeigandi umferðarmerkjum og yfirborðsmerkingu þar sem það á við, í samræmi við reglugerð 289/1995 um umferðarmerki og notkun þeirra ásamt áorðnum breytingum.

    Samþykkt með vísan til c liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur nú skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs í samræmi við 1. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.

    Fylgigögn

  3. Kvosin, vistgötur, tillaga - USK2020060077         Mál nr. US200431

    Lögð fram svohljóðandi tillaga Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 27. nóvember 2020:

    Lagt er til skipulags- og samgönguráð samþykki að eftirfarandi götur í Kvosinni verði gerðar að vistgötum: - Aðalstræti, - Grófin, - Naustin norðan Tryggvagötu, - Tryggvagata milli Lækjargötu og Grófarinnar, - Vesturgata milli Grófarinnar og Mjóstrætis, og að bílastæði við Aðalstræti 9 verði sérstaklega merkt hreyfihömluðum.

    Samþykkt með vísan til c liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur nú skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs í samræmi við 1. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tillagan er að fullu í samræmi við tillögur um framtíðarumferðarskipulag Kvosarinnar sem samþykkt var á síðasta fundi. Áfram fögnum við gönguvænni borg.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Vistgötur í Kvosinni eru spennandi þróun sem mun vafalaust bæta mannlíf í miðborginni. Mikilvægt er að áfram sé tryggt gott aðgengi atvinnurekenda með aðföng og aðgengi leigubifreiða sé ekki raskað.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi sósíalista fagnar því að gangandi vegfarendur fái forgang í kvosinni og leggur áherslu á að merkingar verði mjög vel sýnilegar vegna þess að umferðarmenning á Íslandi hefur lítið gert ráð fyrir vistgötum hingað til.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Enn er þrengt að bílaumferð í Reykjavík. Hér er kynnt að loka eigi allri Kvosinni. Þetta er löngu komið yfir eitthvert þráhyggjustig hjá borgarstjóra og meirihlutanum. Þetta er hrein ögrun gagnvart Reykvíkingum og landsmönnum öllum. Það er bæði sorglegt og óhuggulegt hvernig búið er að skemma miðbæinn undanfarin rúman áratug undir stjórn vinstri manna í borgarstjórn. Einnig er það ábyrgðarleysi að verið er að loka aðgengi að opinberum stofnunum ríkisins. Borgin ber skyldur gagnvart ríkinu. Sú skylda er hundsuð í þessu máli – enda mega að sjálfsögðu engir bílar vera fyrir góða fólkinu þegar verið er að flýta sér úr ráðhúsinu yfir á Vinnustofu Kjarvals.

    Fylgigögn

  4. Umferðaröryggisaðgerðir 2020, hluti 2, tillaga - USK2020060110         Mál nr. US200430

    Lögð fram svohljóðandi tillaga Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 24. nóvember 2020

    Lagt er til að skipulags- og samgönguráð samþykki að:

    1. Eftirtaldar gönguþveranir verði merktar sem gangbrautir.

    a. Yfir Háteigsveg vestan við Stakkahlíð.

    b. Yfir Urðarbrunn norðan Úlfarsbrautar.

    c. Yfir Úlfarsbraut austan Urðarbrunns.

    d. Yfir Úlfarsbraut vestan Urðarbrunns.

    e. Yfir Úlfarsbraut móts við Lofnarbrunn 28.

    f. Yfir Úlfarsbraut móts við Lofnarbrunn 14.

    g. Yfir Úlfarsbraut austan Freyjubrunns.

    h. Yfir Sogaveg norðan Tunguvegar

    i. Yfir Sogaveg móts við göngubrú að Skeifu

    2. Akstur vélknúinna ökutækja verði óheimill á stíg

    norðan Laugardalsvallar þó verði vöruafgreiðslu,

    sorphirða og aðkoma að Laugardalsvelli heimil.

    Ofangreind ráðstöfun verði merkt með viðeigandi umferðarmerki og yfirborðsmerkingu þar sem það á við, í samræmi við reglugerð 289/1995 um umferðarmerki og notkun þeirra ásamt áorðnum breytingum.

    Samþykkt með vísan til c liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur nú skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs í samræmi við 1. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Umferðaröryggi í Úlfarsárdal hefur verið ábótavant. 7. október bókaði fulltrúi Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu fulltrúa Flokks fólksins um að gert verði átak til að tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda í Úlfarsárdal. Tillögunni var vísað frá. Minnt er á að málið var á dagskrá íbúaráðs Úlfarsárdals fyrir skemmstu en þar var bókað að nokkuð sé ábótavant við merkingar og einnig við umferðarskipulag svo sem hringtorg í Grafarholti og Úlfarsárdal. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að verið sé að vinna að umferðaröryggisaðgerðum s.s. merkingu og lýsingu gangbrauta í Úlfarsárdal. Miklar tafir hafa verið á verkinu sem búið var að lofa fyrir ákveðinn tíma. Fram hefur komið hjá skipulagsyfirvöldum að það sé veghaldara að ákveða hvar gangbrautir yfir vegi eigi að liggja en ekki íbúa. Það er miður ekki síst í allri umræðunni um samráð við íbúa. Auðvitað eiga íbúar að hafa um þetta að segja. Eiga gangbrautir að vera gangbrautir aðeins ef veghaldari segir svo, annars bara gönguþverun? Og ef það er gönguþverun þarf þá ekki að vera skilti?! Hér er gott tilefni til að hafa samráð við íbúa sem vilja kannski hafa eitthvað um það að segja hvar gangbrautir eigi að vera í hverfinu þeirra.

    (A) Skipulagsmál

    Fylgigögn

  5. Afgreiðslufundir skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, fundargerð         Mál nr. SN010070

    Lagðar fram fundargerðir embættisafgreiðslufunda skipulagsfulltrúa frá 12., 20. og 27. nóvember 2020.

    Fylgigögn

  6. Háaleitisbraut 1, breyting á deiliskipulagi     (01.252.1)    Mál nr. SN200697

    440703-2590 THG Arkitektar ehf., Faxafeni 9, 108 Reykjavík

    570269-1439 Sjálfstæðisflokkurinn, Pósthólf 5296, 125 Reykjavík

    Lögð fram umsókn THG Arkitekta ehf. dags. 11. nóvember 2020 ásamt bréfi dags. 12. nóvember 2020 varðandi breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 1 við Háaleitisbraut. Í breytingunni felst að fjölga bílastæðum ofanjarðar um 8, úr 41 í 49, fækka bílastæðum í kjallara um 8, úr 84 í 76, bílastæði ofanjarðar sem eru umhverfis núverandi skrifstofuhús Valhallar sem snúa að húsinu að undanskildum sex syðstu stæðunum austan við húsið verða skammtímastæði Valhallar á skrifstofutíma (alls 24 stæði), en stæðin verða samnýtt stæði með öðrum húsum á lóðinni utan hefðbundins skrifstofutíma ásamt því að önnur bílastæði ofanjarðar verða samnýtt skammtímastæði fyrir öll húsin á lóðinni á skrifstofutíma að auki eru 5 bílastæði fyrir hreyfihamlaða á lóðinni, samkvæmt uppdr. THG Arkitekta ehf. dags. 30. nóvember 2020.

    Samþykkt að falla frá kynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur nú skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.

    Fylgigögn

  7. Frakkastígur - Skúlagata, breyting á deiliskipulagi     (01.15)    Mál nr. SN200208

    Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi fyrir Frakkastíg - Skúlagata, varðandi fyrirhugaða nýbyggingu við Frakkastíg 1. Um er að ræða endurskoðun á gildandi deiliskipulagi og með þessari breytingu fellur því úr gildi eldra skipulag sem var samþykkt í borgarráði Reykjavíkur þann 7. júní 2018, samkvæmt uppdr. VA arkitekta ehf. dags. 2. apríl 2020 br. 16. nóvember 2020. Tillagan var auglýst frá 20. maí 2020 til og með 1. júlí 2020. Eftirtaldir sendu athugasemdir/umsögn: Benóný Ægisson f.h. Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur dags. 30. júní 2020 og Björgvin Þórðarson hrl. hjá Atlas lögmönnum ehf. f.h. húsfélagsins að Skúlagötu 20, dags. 30. júní 2020. Einnig er lögð fram umsögn Veitna dags. 1. júní 2020, umsögn Minjastofnunar Íslands dags. 2. júlí 2020 og 10. nóvember 2020 og fornleifaskrá Borgarsögusafns Reykjavíkur, skýrsla nr. 206, dags. 2020. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 13. nóvember 2020.

    Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 13. nóvember 2020.

    Vísað til borgarráðs.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans þakka kynningu á málinu. Með þeim breytingum sem hér hafa verið gerðar á deiliskipulagi er komið til móts við umsagnir um málið að því marki sem mögulegt er. Sérstaklega hefur verið skerpt á ákvæðum sem snúa að minjavernd og fornleifaskráning verið framkvæmd á lóðinni við Skúlagötu og Frakkastíg 1. Efstu tvær hæðir fyrirhugaðrar byggingar á lóð við Frakkastíg 1 verða inndregnar og er það rökstutt í tillögunni. Fulltrúarnir leggja áherslu á að við hönnun bygginga verði hugað vel að því að hús falli vel að hverfismynd og umhverfi sínu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins finnst ástæða til að styðja skoðun íbúasamtakanna ÍMR sem stendur gegn því að þessi bygging rísi. Samkvæmt riss –teikningu skemmir þessi bygging útsýni. Ályktum Íbúasamtaka Miðborgar (ÍMR) um deiliskipulagsbreytingu vegna nýbyggingar á Frakkastíg 1 á rétt á sér en stjórn ÍMR leggst gegn því að reist verði sjö hæða bygging á horni Frakkastígs og Skúlagötu þar sem nú, samkvæmt gildandi deiliskipulagi frá 1986 er gert ráð fyrir opnu svæði og “hugsanlegri dagvistun”. Stjórnin telur að halda eigi opna svæðinu við norðurenda Frakkastígs sem einskonar “öndunaropi” en þar er eini staðurinn í röð hárra bygginga við Skúlagötu þar sem enn eru tengsl milli eldri byggðar og sjávar. Það er auðvitað óþarfi að ganga með “þéttingu byggðar” út í slíkar öfgar að stoppa þurfi í hvert gat/bil með byggingu. Ef heldur sem horfir mun hvergi sjást til sjávar úr borginni áður en yfir lýkur. Fyrir augum verður aðeins steypa hvert sem litið er.

    Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  8. Stuðlaháls 2, breyting á deiliskipulagi     (04.325.4)    Mál nr. SN200707

    410169-4369 Áfengis-/tóbaksverslun ríkisins, Stuðlahálsi 2, 110 Reykjavík

    Lögð fram umsókn Karls Péturssonar f.h. Áfengis-/tóbaksverslun ríkisins dags. 17. nóvember 2020 varðandi breytingu á deiliskipulagi Hálsahverfis vegna lóðarinnar nr. 2 við Stuðlaháls. Í breytingunni felst hækkun á þakhæð fyrirhugaðs geymsluhúsnæðis úr 4 m í að hámarki 5,3 m, samkvæmt uppdr. Karls-Eriks Rocksén dags. 24. ágúst 2020 br. 11. nóvember 2020.

    Samþykkt að falla frá kynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur nú skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.

    Fylgigögn

  9. Víðinesvegur 2, skipting lands         Mál nr. SN200644

     Þorbjörg Gígja, Víðinesvegur 2, 162

    Lögð fram umsókn Þorbjargar Gígju dags. 14. október 2020 ásamt bréfi dags. 10. júlí 2020 um að skipta landinu Naustanes, Víðinesvegur 2, í tvo parta, samkvæmt uppdr. Sigurgeirs Skúlasonar dags. 10. júlí 2020. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 20. nóvember 2020.

    Samþykkt að falla frá kynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur nú skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.

    Vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa.

    Fylgigögn

  10. Sóltún 2-4, (fsp) breyting á deiliskipulagi         Mál nr. SN200695

    420805-1360 Sóltún 4 ehf., Laugavegi 182, 105 Reykjavík

    Lögð fram fyrirspurn Sóltúns 4 ehf. dags. 10. nóvember 2020 ásamt greinargerð dags. 10. nóvember 2020 um breytingu á deiliskipulagi Ármannsreits vega lóðarinnar nr. 2-4 við Sóltún sem felst í að heimilt verði að lengja þær álmur á núverandi byggingu við Sóltún sem snúa inn að garði, heimilt verði að minnka tengibyggingu á milli Sóltúns hjúkrunarheimilis og hjúkrunartengdra þjónustuíbúða í 1020 m2 í stað 1400 m2 og að heimilt verði að hafa hjúkrunartengda þjónustubyggingu á 5 hæðum í stað 4 hæða auk kjallara sem að hluta yrði bílakjallari, samkvæmt uppdr. Nexus arkitekta ehf. dags. 30. október 2020. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 27. nóvember 2020.

    Umsögn skipulagsfulltrúa samþykkt. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans fagna aukinni uppbyggingu hjúkrunarheimila og þjónustuíbúða í Reykjavík. Fulltrúarnir leggja til að hugað verði vel að götumynd í vinnu við deiliskipulagið.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að fjölga hjúkrunarrýmum og þjónustuíbúðum í Reykjavík, en lítið hefur gerst í þeim málum á síðustu árum. Hér er verið að samþykkja að unnið verði að deiliskipulagið með fleiri rýmum. Þegar deiliskipulagstillaga kemur fram geta hagaðilar komið með athugasemdir um útfærslu skipulagsins.

    Lilja Grétarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  11. Rofabær 7-9, breyting á hverfisskipulagi Árbæjar skilmálaeiningu 7-2-4     (04.334.3)    Mál nr. SN200703

    660504-2060 Plúsarkitektar ehf, Fiskislóð 31, 101 Reykjavík

    460616-0770 Rofabær 7-9 ehf., Dalaþingi 12, 203 Kópavogur

    Lögð fram umsókn Plúsarkitekta ehf. dags. 13. nóvember 2020 varðandi breytingu á hverfisskipulagi fyrir Árbæ skilmálaeiningu 7-2-4 vegna lóðarinnar nr. 7-9 við Rofabæ. Í breytingunni felst breyting á byggingarreit lóðarinnar ásamt því að uppskipting kjallara í bílakjallara og önnur rými er tekin út og texti um spennistöðvar við nýbyggingu er tekinn út, samkvæmt uppdr. Plúsarkitekta ehf. dags. 12. nóvember 2020. 

    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

    Vísað til borgarráðs.

    (B) Byggingarmál

    Fylgigögn

  12. Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa, fundargerð         Mál nr. BN045423

    Fylgiskjal með fundargerð þessari eru fundargerðir afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 1091 frá 17. nóvember 2020 og nr. 1092 frá 24. nóvember 2020. 

    (D) Ýmis mál

    Fylgigögn

  13. Skólavörðustígur 36, kæra 121/2020     (01.181.4)    Mál nr. SN200709

    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 19. nóvember 2020 ásamt kæru dags. 18. nóvember 2020 þar sem kærðar eru ákvarðanir um veitingu leyfis til niðurrifs húss og byggingarleyfi fyrir þriggja hæða staðsteyptu húsi á lóð nr. 36 við Skólavörðustíg.

  14. Gufuneshöfði, kæra 125/2020     (02.2)    Mál nr. SN200738

    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 26. nóvember 2020 ásamt kæru dags. 20. nóvember 2020 þar sem kærð er útgáfa byggingarleyfis fyrir mastur á Gufuneshöfða og deiliskipulagsbreyting þar af lútandi.

  15. Gufuneshöfði, kæra 110/2020, umsögn     (02.2)    Mál nr. SN200691

    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 6. nóvember 2020 ásamt kæru dags. 6. nóvember 2020 þar sem kærð er m.a. útgáfa á byggingarleyfi fyrir mastur að Gufuneshöfða og deiliskipulagsbreyting frá 2019 þar af lútandi. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 26. nóvember 2020.

  16. Barmahlíð 19 og 21, kæra 54/2020, umsögn, úrskurður     (01.702)    Mál nr. SN200412

    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 23. júní 2020 ásamt kæru dags. 15. júní 2020 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa um að synja beiðni kæranda um leyfi til þakhækkunar að Barmahlíð 19-21. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 24. júlí 2020. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 17. nóvember 2020. Úrskurðarorð: Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. maí 2020 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir hækkun þaks hússins að Barmahlíð 19-21 í Reykjavík.

  17. Blesugróf 30 og 32, breyting á deiliskipulagi     (01.885.3)    Mál nr. SN200595

    Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 12. nóvember 2020 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Blesugrófar vegna lóðanna nr. 30 og 34 við Blesugróf.

    Fylgigögn

  18. Kvosin, Landsímareitur, breyting á deiliskipulagi     (01.140.4)    Mál nr. SN200671

    440703-2590 THG Arkitektar ehf., Faxafeni 9, 108 Reykjavík

    Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 19. nóvember 2020 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna Landsímareits.

    Fylgigögn

  19. Jöfursbás 5 og 7, breyting á deiliskipulagi         Mál nr. SN200658

    210279-3429 Helgi Mar Hallgrímsson, Laugateigur 46, 105 Reykjavík

    470920-2460 Jöfursbás 7 ehf., Katrínartúni 2, 105 Reykjavík

    Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 19. nóvember 2020 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi 1. áfanga Gufuness vegna lóðanna nr. 5 og 7 við Jöfursbás.

    Fylgigögn

  20. Suður Mjódd, breyting á deiliskipulag     (04.91)    Mál nr. SN200543

    Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 19. nóvember 2020 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Suður-Mjóddar.

    Fylgigögn

  21. Umhverfis- og skipulagssvið, uppgjör janúar til september 2020         Mál nr. US200295

    Lagt fram uppgjör umhverfis- og skipulagssviðs fyrir tímabilið janúar til september 2020.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Athygli vekur að undir liðnum Viðhald fasteigna má sjá að viðhaldskostnaður er undir áætlun. Þarf ekki einmitt að sinna viðhaldi vel ? “Viðhald fasteigna var 481 m.kr. undir fjárheimildum tímabilsins, helstu frávik eru sem hér segir; viðhald grunnskóla 166 m.kr., viðhald íþróttamannvirkja 66 m.kr., viðhald leikskóla 111 m.kr. og viðhald ýmissa fasteigna 50 m.kr.” Það er sérkennilegt að ekki hver króna sem er í áætlun sé nýtt í viðhald!

    Hreinn Ólafsson fjármálastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  22. Umhverfis- og skipulagssvið, yfirlit yfir ferðakostnað         Mál nr. US200296

    Lögð fram skýrsla um ferðakostnað á umhverfis- og skipulagssviði fyrir tímabilið júlí til september 2020. 

    Hreinn Ólafsson fjármálastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  23. Umhverfis- og skipulagssvið, yfirlit yfir innkaup yfir 1 m.kr.         Mál nr. US200297

    Lagðar fram innkaupaskýrslur umhverfis- og skipulagssviðs frá janúar til september 2020 fyrir aðalsjóð og eignasjóð á kaupum sem fara yfir milljón.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins óar við öllum þessum innkaupum Umhverfis- og skipulagssviðs sem birt eru í yfirlit í ljósi þess að á sviðinu starfa ótal sérfræðingar. Nýlega var verið að ráða enn fleiri sérfræðinga. Samt sem áður eru nánast flest verkefni keypt út í bæ. Milljarðar streyma úr borgarsjóði í aðkeypta sérfræðivinnu sem skipulagsyfirvöld kaupa af sjálfstætt starfandi fyrirtækjum. Fulltrúi Flokks fólksins mun leggja fram spurningar um hvernig samskiptum umhverfis- og skipulagssviðs er háttað við verkfræði-arkitektastofur. 

    Hreinn Ólafsson fjármálastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  24. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks, um greiðslur í gegnum app EasyPark sem áður var Leggja.is, svar - USK2020110008, R20100407         Mál nr. US200405

    Lagt fram svar Bílastæðasjóðs, dags. 27. nóvember 2020.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Að mati áheyrnarfulltrúa sósíalista er í raun fáránlegt að borgin sjálf sjái ekki sjálf um innheimtu gjalda fyrir bílastæði heldur hleypi utanaðkomandi fyrirtæki inn sem græðir á innviðum borgarinnar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er talsvert áfall að heyra að bíleigendur sem nota EasyPark eru að greiða bæði bílastæðasjóði og EasyPark gjöld/þóknun. Segir i svari við fyrirspurn að EasyPark keypti Leggja.is árið 2019. Greiðslur fyrir stæði sem greiddar eru með greiðslulausninni renna óskertar til Bílastæðasjóðs. EasyPark leggur aukalega á þóknun fyrir hverja notkun og rennur sú þóknun til þeirra. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta vond tíðindi og veltir fyrir sér hvort bíleigendur sem leggja bíl sínum séu meðvitaðir um að þeir eru að greiða gjöld til beggja aðila. Seilst er ansi langt að mati fulltrúa Flokks fólksins í að hafa fé af þeim sem koma á bíl sínum á gjaldskylt svæði í Reykjavík 

    Fylgigögn

  25. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200421

    Ítrekuð er fyrirspurn þar sem spurt var um verð á þeim 12 lóðum sem leggja á undir Malbikunarstöðina Höfða sem eru 12 talsins og nema samanlagðar um 5 hekturum. Eins er óskað eftir upplýsingum hvað Malbikunarstöðin Höfði greiðir í byggingaréttar- og innviðagjöld. Hvað greiðir malbikunarstöðin í gatnagerðargjöld af þessum lóðum?

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsvið, eignaskrifstofu.

  26. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200433

    1. Hvað kostar skýrslan sem SWECO gerði um umferðarljósastýringu á höfuðborgarsvæðinu? 2. Hvernig var þessi aðili valinn til skýrslugerðarinnar?

    Frestað.

  27. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200434

    Kynntar eru niðurstöður úttektar SWECO á umferðarljósastýringum í Reykjavík. Reykjavík fær þar frekar slæma útreið og er aftarlega á merinni ef samanborin við aðrar borgir sem Reykjavík er borin saman við. Fulltrúi Flokks fólksins fýsir að vita hvernig það kom til að Reykjavík er þátttakandi í þessari úttekt og hvað er verið að greiða fyrir að vera aðili að þessari úttekt? Hvaða fyrirtæki er þetta SWECO og hver eru tengsl þess við skipulagsyfirvöld í borginni? Óskað er eftir að umhverfis- og skipulagssvið finni út hver kostnaður er ef hann liggur ekki fyrir nú. 

    Frestað.

  28. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að ráðist verði í úttekt á aðgengismálum hjólastólar og göngugrindur         Mál nr. US200435

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að ráðist verði í úttekt á aðgengismálum í Reykjavík af hálfu umhverfis- og skipulagssviðs hvað varðar hjólastólaaðgengi og göngugrindur. Það er á ábyrgð stjórnvalda að tryggja það að allir hafi jafnt aðgengi að verslunum og þjónustu í landinu. Þetta er kveðið á um í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Lög um mannvirki leggja þá skyldu á sveitarfélög að hafa eftirlit með aðgengismálum. Ítrekað hefur verið bent á það að reglur um aðgengi séu ekki virtar. Fólk er orðið langþreytt á því að þurfa í sífellu að vekja athygli á því hve langt er í land í þessum málum þrátt fyrir það að lög og reglugerðir séu til staðar sem kveði á um aðgengiskröfur. Þörf er á því að greina betur vandann og efla eftirlit og ráðgjöf til verslana og þjónustuveitenda til að tryggja það að allir komist greitt sinna leiða. Því er lagt til að umhverfis- og skipulagssvið framkvæmi úttekt á málaflokknum og greini hvaða leiðir séu færar til úrbóta til að tryggja það að verslanir og þjónustuveitendur geti haft aðgengiskröfur í samræmi við lög, reglugerðir og alþjóðasamninga.

    Frestað.

  29. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að breyta bílastæðum fyrir stóra bíla fyrir hleðslustöðvar         Mál nr. US200436

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skoðað verði hvort ekki er hægt að breyta bílastæðum fyrir stóra bíla, sem ekki fá að nota þau lengur samkvæmt hverfisskipulagi Breiðholts, í hleðslustæði ? Nú ríður á að liðka fyrir orkuskiptum og skipulagsyfirvöld geta beitt sér mun meira og betur í að komið verði hratt upp hleðslustöðum bæði fyrir rafmagn og metan.

    Frestað.

  30. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að nota frárennsli húsa í meiri mæli til að hita almennar gangstéttir         Mál nr. US200437

    Flokkur fólksins leggur til frárennsli frá húsum verði í meira mæli nýtt til að hita almennar gangstéttir. Nú sem fyrr er mikil hálka og víða stórhættulegt að ganga um í borginni. Hálkuvarnir eru hagkvæm framkvæmd sem fækkar beinbrotum og bætir lýðheilsu, því að á öruggum gangstéttum má ganga allan ársins hring. Þar sem ekki tekst að hita gangstéttir þarf að sinna snjómokstri og salta þegar hálka myndast. Saltkassar eiga einnig að vera aðgengilegir við göngustíga.

    Frestað.

  31. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að sinna snjómokstri enn betur, salta gangstéttir og hafa saltkassa aðgengilega         Mál nr. US200438

    Flokkur fólksins leggur til að skipulags- og umhverfissvið standi sig betur í snjómokstri og söltun gangstétta og að saltkassar verði aðgengilegir við göngustíga í borginni. Borist hafa kvartanir yfir hversu illa er hreinsað t.d. í kringum skóla í Breiðholti og víðar á göngustígum í Breiðholti sem og ýmsum öðrum hverfum. Nú sem fyrr er mikil hálka og víða stórhættulegt að ganga um í borginni. Hálkuvarnir eru hagkvæm framkvæmd sem fækkar beinbrotum og bætir lýðheilsu, því að á öruggum gangstéttum má ganga allan ársins hring.

    Frestað.

  32. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200439

    Svar hefur borist við fyrirspurn um hvert tekjurnar sem mest notaða bílastæðaapp í Evrópu, sem nú er komið til Íslands fara vegna greiddra bílastæðagjalda innan Reykjavíkur? Í svari segir að EasyPark keypti Leggja.is árið 2019. Greiðslur fyrir stæði sem greiddar eru með greiðslulausninni renna óskertar til Bílastæðasjóðs. EasyPark leggur aukalega á þóknun fyrir hverja notkun og rennur sú þóknun til þeirra. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta skrýtið svar frá bílastæðasjóði en er hér verið að segja að bæði bílastæðasjóður fái gjald og svo fari einnig sérstök greiðsla til EasyPark? Eru bílaeigendur að greiða gjald til beggja í hvert skipti sem þeir leggja? Eru bílaeigendur meðvitaðir um það og hafa þá gjöldin ekki hækkað sérstaklega þar sem EasyPark leggur aukalega þóknun á fyrir hverja notkun? Óskað er upplýsinga um samninga sem liggja til grundvallar samstarfs bílastæðasjóðs og EasyPark og hvernig fyrirkomulagið allt er í því sambandi?

    Frestað.

  33. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200440

    Fulltrúa Flokks fólksins óar við öllum þessum innkaupum Umhverfis- og skipulagssviðs sem birt eru í yfirlit í ljósi þess að á sviðinu starfa ótal sérfræðingar. Nýlega var verið að ráða enn fleiri sérfræðinga. Samt sem áður eru nánast flest verkefni keypt út í bæ. Milljarðar streyma úr borgarsjóði í aðkeypta sérfræðivinnu sem skipulagsyfirvöld kaupa af sjálfstætt starfandi fyrirtækjum. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvernig samskiptum umhverfis- og skipulagssviðs (USK) er háttað við verkfræði-arkitektastofur. Spurt er: Hvernig er samskiptum við verkfræði-arkitektastofur háttað? Óskað er eftir upplýsingum um tilboð- fasta samninga- magnafslætti? Verið er að greiða verk- og arkitektastofum gríðarlegar upphæðir. Er ekki hægt að vinna nein þessara verkefna af sérfræðingum sviðsins? 

    Frestað.

Fundi slitið klukkan 11:28

Pawel Bartoszek Alexandra Briem

Hjálmar Sveinsson Hildur Björnsdóttir