Skipulags- og samgönguráð - Fundur nr. 132

Skipulags- og samgönguráð

Ár 2022, miðvikudaginn 23. mars kl. 9:02, var haldinn 132. fundur skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Pawel Bartoszek, Hjálmar Sveinsson, Sara Björg Sigurðardóttir, Örn Þórðarson, Ólafur Kr. Guðmundsson.

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Alexandra Briem og áheyrnarfulltrúarnir Anna Maria Wojtynska og Kolbrún Baldursdóttir.

Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Borghildur Sölvey Sturludóttir, Gunnar Hersveinn Sigursteinsson og Jóhanna Guðjónsdóttir. Eftirtalinn starfsmaður sat fundinn með rafrænum hætti: Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir.

Fundarritari var Harri Ormarsson.        

Þetta gerðist:

Þetta gerðist:

  1. Afgreiðslufundir skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, fundargerð         Mál nr. SN010070

    Lagðar fram fundargerðir embættisafgreiðslufunda skipulagsfulltrúa frá 11. og 18. mars 2022.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Athugasemdir vegna tillögu að deiliskipulagi Arnarnesvegar eru ekki birtar í fundargerð. Harðorð mótmæli hafa borist frá stórum hópi sem ekki er hlustað á. Fyrirhugaðri framkvæmdum 3. áfanga Arnarnesvegar hefur verið mótmælt vegna þess að hann mun eyðileggja eitt dýrmætasta svæði höfuðborgarsvæðisins. Framkvæmdin byggir á umhverfismati frá 2003 og hefur verið mótmælt kröftuglega á öllum skipulagsstigum af íbúum nágrennisins síðastliðin 40 ár. Nýleg niðurstaða Skipulagsstofnunar um að ekki væri tæknilega þörf á nýju umhverfismat, því að talið er að byrjað hafi verið á framkvæmdinni 2004, er engan veginn í samræmi við umhverfissjónarmið og almennt siðferði. Á síðustu 18 árum hefur höfuðborgarsvæðið breyst mikið og áherslur í umferðarmenningu hafa breyst verulega. Því er ljóst að umferðarlíkanið sem stuðst var við í upphaflega umhverfismatinu er úrelt og þarfnast ítarlegrar endurskoðunar. Það er vert að hafa í huga að verkfræðistofurnar sem vinna þessar skýrslur fyrir Vegagerðina koma ávallt með niðurstöður sem samræmast væntingum Vegagerðarinnar, enda ólíklegt að þessar verkfræðistofur fari að bíta höndina sem fæðir þær. Það er alveg ljóst að Vegagerðin og þessar verkfræðistofur virðast aldrei setja umhverfi og lífríki í fyrsta sætið. Svo snertir þessi vegur einnig Elliðaárdalinn og gengið er þar einnig á útivistarsvæði og öllu þessu er vísað til verkefnisstjóra.

    Fylgigögn

  2. Járnslétta 8, breyting á deiliskipulagi     (03.454.3)    Mál nr. SN220127

    Lögð fram umsókn Kristjáns Ásgeirssonar dags. 25. febrúar 2022 ásamt bréfi dags. 25. febrúar 2022 varðandi breytingu á deiliskipulagi Esjumela vegna lóðarinnar nr. 8 við Járnsléttu. Í breytingunni felst stækkun á byggingarreit lóðarinnar vegna áætlana um byggingu viðbótar stakstæðrar einnar hæðar byggingar á lóðinni, samkvæmt uppdr. ALARK arkitekta ehf. dags. 25. febrúar 2022. Lagt er til að tillagan verði samþykkt án grenndarkynningar þar sem hún varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda.

    Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. viðauka 1.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, um fullnaðarafgreiðslur skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.

    Fylgigögn

  3. Nýi Skerjafjörður, breyting á deiliskipulagi         Mál nr. SN210810

    Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi 1. áfanga Nýja Skerjafjarðar. Við vinnslu deiliskipulagstillögu var m.a. horft til umhverfisgæða með hliðsjón af uppfærðu Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Breytingin felst í: 1. Komið er fyrir dreifistöðvum Veitna ohf. með byggingarreitum á þremur stöðum innan deiliskipulagssvæðis. Ein dreifistöðin, sú sem er nyrst í græna ásnum fær sérlóð. 2. Kafla 5.10 vegna lóðar 5 í greinargerð er breytt. 3. Afmörkun fylgilóða fyrir djúpgáma í götum felld niður og gert er ráð fyrir sorpgerðum á lóðum sérbýla og raðhúsa, og djúpgámum á fjölbýlishúsalóðum undir einu eignarhaldi. 4. Akfær stígur á lóð 5 er felldur niður og er byggingarreitur austanmegin lóðar verður þá óslitinn en þess í stað er komið fyrir akfærum stíg vestan megin lóðar að djúpgámum. 5. Svæði afmörkuð á uppdrætti fyrir tímabundin haugsvæði vegna geymslu á menguðum jarðvegi á meðan vinna við jarðvegshreinsun stendur yfir, samtals 1 ha að stærð. 6. Tákn fyrir ofanvatnsrás á grænu svæði vestast á skipulagssvæði tekið út vegna breyttrar hönnunar ofanvatnslausna. 7. Byggingarreitir fyrir raðhús á lóð 2 dregnir inn 2m frá hjólastíg til að rýmka milli hjólastígs og húsgafla. 8. Byggingarreitir sérbýla við Skeljanes stækkaðir. 9. Lóðum 2, 3, 4, 6 og 10 skipt upp í smærri lóðareiningar. 10. Skilmálar fyrir lóð 10 undir hjúkrunarheimili eru felldir úr gildi en fjölbýlishúsum komið fyrir með allt að 80 íbúðum á lóðum 10a og 10b. 11. Lóðir sem snúa að miðsvæðum hafi heimild til atvinnu- og þjónusturýma á jarðhæðum sem snúa að götu. 12. Stök hús í inngörðum minnkuð á reitum 4 og 6. 13. Götuheitum nafnanefndar bætt inná uppdrátt. 14. Við port og sund á lóðum 3, 4, 5 og 10 skal vera uppbrot í útvegg og vandaður frágangur. Breyting deiliskipulagsáætlana þessara er sett fram á þremur uppdráttum; deiliskipulaguppdrætti, skýringaruppdrætti og skuggavarpsuppdrætti, og í uppfærðri greinargerð, almennum skipulagsskilmálum og sérskilmálum, dags. 26. júní 2020 síðast br. 4. mars 2022. Einnig fylgir samantekt breytinga ásamt hönnunarleiðbeiningum fyrir almenningsrými, götur, torg og inngarða, dags. 4. mars 2022. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.

    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

    Vísað til borgarráðs.

    Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Um er að ræða ýmsar breytingar vegna Nýja Skerjafjarðar. Stærsta breytingin felst í því að hjúkrunarheimili á lóð 10 verður að almennu fjölbýlishúsi. Aðrar breytingar felast í uppskiptingu lóða, staðsetningu dreifistöðva, djúpgáma, tilfærslum á staðsetningu stíga o.fl. Við styðjum nýja byggð í Skerjafirði sem fyrr og hlökkum til að sjá hana rísa.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lagt er fram stórt skjal sem ber nafnið Nýi Skerjafjörður og að breytt deiliskipulag fari í auglýsingu. Útilokað er að ná utan um allar þessar upplýsingar á stuttum tíma þótt umræðan sé nú ekki ný af nálinni. Málið hefur verð mjög umdeilt, og hreinlega mörgu mótmælt af íbúum svæðisins. Flestar þessar breytingar eru óafturkræfar. Það þarf sannarlega að byggja af krafti enda mikill húsnæðisskortur er í Reykjavík. Um það eru allir sammála enda barist um hverja íbúð. Í Reykjavík hefur ekki verið byggt nóg. Skortur hefur verið á húsnæði af öllum gerðum. Þétta á byggð þarna svo um munar. Hængur á þessu deiliskipulagi er að verið er að hanna hverfi þar sem sífellt þarf að taka mið af flugvelli sem á að fara. Af hverju má ekki bíða eftir því að það gerist og þá mun hönnun e.t.v. verða allt öðruvísi? Þá verður hægt að hanna og byggja af myndarskap. Nú þarf t.d. að hanna nýja strönd með fram landfyllingu. Hönnuð strönd er líklega miklu betri en náttúruleg strönd að mati núverandi skipulagsyfirvalda. Þessi framkvæmd eru sögð ein mestu skipulagsmistök sem hafa verið gerð á síðustu árum.

    Ingvar Jón Bates Gíslason verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  4. Fornhagi 1, nýtt deiliskipulag     (01.542.1)    Mál nr. SN220141

    Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, að nýju deiliskipulagi fyrir Hagaskóla að Fornhaga 1. Í tillögunni felst að gerðir eru byggingarreitir fyrir uppsetningu tímabundinna færanlegra eininga fyrir kennslu og starfsmannahald á lóð, samkvæmt uppdr. Hornsteina arkitekta ehf. dags. 18. mars 2022. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.

    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

    Vísað til borgarráðs.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Því er fagnað að lögð er fram tillaga skipulagsyfirvalda/umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, að nýju deiliskipulagi fyrir Hagaskóla að Fornhaga 1. Í tillögunni felst að gerðir eru byggingarreitir fyrir uppsetningu tímabundna færanlegra eininga fyrir kennslu og starfsmannahald á lóð. Árum saman hafa skólayfirvöld kvartað vegna ástandsins, skólinn löngu sprunginn og mygla og raki víða í eldri byggingu. Hagaskóli var eins og Fossvogsskóli hafa verið í langan tíma heilsuspillandi húsnæði en yfirvöld vildu ekki ljá málinu eyra. Verið er að súpa seyðið af áralangri vanrækslu á viðhaldi skólabygginga í borginni. Viðhaldsskuld borgarinnar er orðin stór og komið er að skuldadögum. Hvað varðar Hagaskóla er óhætt segja að þar hefur staðan verið sérlega alvarleg. Loksins er eitthvað að gerast. Börn og starfsfólk hafa iðulega verið veik og jafnvel alvarlega veik.

    Ingvar Jón Bates Gíslason verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  5. Álfheimar 74, breyting á deiliskipulagi     (01.434.3)    Mál nr. SN220083

    Lögð fram umsókn LF1 ehf. dags. 9. febrúar 2022 varðandi breytingu á deiliskipulagi Álfheima 74 - Glæsibæ vegna lóðarinnar nr. 74 við Álfheima. Í breytingunni felst að heimilt er að koma fyrir tæknirými ofan á þaki B og C húss, samkvæmt uppdr. Teiknistofunnar Óðinstorgi dags. 15. mars 2022. Lagt er til að tillagan verði samþykkt án grenndarkynningar þar sem hún varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda.

    Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. viðauka 1.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, um fullnaðarafgreiðslur skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.

    Fylgigögn

  6. Heiðargerði 34, breyting á deiliskipulagi     (01.802.1)    Mál nr. SN220079

    Lögð fram umsókn Gunnars Björns Melsted dags. 10. febrúar 2022 varðandi breytingu á deiliskipulagi Heiðargerðisreits vegna lóðarinnar nr. 34 við Heiðargerði. Í breytingunni felst stækkun á byggingarreit til suðurs, samkvæmt uppdr. Úti og inni arkitekta ehf. dags. 9. febrúar 2022. Lagt er til að tillagan verði samþykkt án grenndarkynningar þar sem hún varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda.

    Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. viðauka 1.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, um fullnaðarafgreiðslur skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.

    Fylgigögn

  7. Fossháls 13-15, breyting á deiliskipulagi     (04.304.5)    Mál nr. SN210687

    Að lokinni grenndarkynningu er lögð fram umsókn Kjartans Hafsteins Rafnssonar dags. 1. október 2021 um breytingu á deiliskipulagi Hálsahverfis vegna lóðarinnar nr. 13-15 við Fossháls. Í fyrirhugaðri breytingu felst stækkun á byggingarreit lóðarinnar fyrir einnar hæðar viðbyggingu. Um er að ræða lagerhúsnæði við austurhluta lóðarinnar. Gert er ráð fyrir kjallara undir viðbyggingunni og að bætt verði við innkeyrslu á lóð vegna aðgengi að kjallara, samkvæmt uppdr. K.J. ARK elf. dags. 28. september 2021. Tillagan var grenndarkynnt frá 10. nóvember 2021 til og með 8. desember 2021. Eftirtaldir sendu athugasemdir: Finnbogi Geirsson f.h. Stjörnublikks ehf. dags. 26. nóvember 2021 og Kristín Lára Helgadóttir f.h. Hávarðsstaða ehf. dags. 7. desember 2021. Einnig er lagt fram samþykki eigenda að Fosshálsi 13 mótt. 31. janúar 2022 og umsögn skipulagsfulltrúa dags. 11. mars 2022. Lagt er til að tillögunni verði synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.

    Synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa dags. 11. mars 2022. 

    Vísað til borgarráðs.

    (B)    Byggingarmál

    Fylgigögn

  8. Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa, fundargerð         Mál nr. BN045423

    Lagðar fram fundargerðir afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 1154 og 1155 frá 8. og 15. mars 2022.

    (C)    Ýmis mál

    Fylgigögn

  9. Umhverfis- og skipulagssvið, ársuppgjör 2021, trúnaður         Mál nr. US220073

    Lögð fram og kynnt greinargerð vegna ársuppgjörs umhverfis- og skipulagssviðs fyrir árið 2021.

    Hreinn Ólafsson fjármálastjóri tekur sæti á fundinum þessum lið.

    -    Kl. 9:57 tekur Nína Margrét Grímsdóttir sæti á fundinum.

  10. Umhverfis- og skipulagssvið, ferðakostnaður         Mál nr. US170113

    Lagt fram yfirlit yfir ferðakostnað umhverfis- og skipulagssviðs fyrir tímabilið október - desember 2021.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Árið 2021 fóru rúmlega 11 milljónir í ferðakostnað hjá Umhverfis- og skipulagssviði þrátt fyrir að Covid væri enn í gangi. Því er velt upp hvort þessar ferðir voru allar bráðnauðsynlegar og hvort fjarfundir hefðu ekki verið jafn gagnlegir. Í það minnst hefðu þeir ekkert kostað og sparað nokkur kolefnisspor. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af því að nú þegar Covid verður víkjandi fari allt í sama horf og fyrir Covid. Gríðarlegum fjármunum verði eytt í ferðalög m.a. embættismanna um allan heim með tilheyrandi fjölda af kolefnissporum.

    Hreinn Ólafsson fjármálastjóri tekur sæti á fundinum þessum lið.

    Fylgigögn

  11. Tillaga fulltrúa í ungmennaráði Kjalarness, um fjölgun stöðvunarskýla Strætó á Kjalarnesi og betri samrýmingu á strætóleiðum - MSS22020115         Mál nr. US220050

    Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 9. febrúar 2022, þar sem fram kemur að samþykkt var á fundi borgarstjórnar og Reykjavíkurráðs ungmenna, þann 8. febrúar 2022, að vísa tillögu Regínu Bergmann Guðmundsdóttur, fulltrúa í ungmennaráði Kjalarness, um möguleika á fjölgun strætóskýla á Kjalarnesi til meðferðar skipulags- og samgönguráðs. Tillagan er svohljóðandi:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að beina því til stjórnar Strætó bs. að kanna fyrir árslok 2022 möguleika á fjölgun strætóskýla á Kjalarnesi til að auðvelda samgöngur til Mosfellsbæjar og Reykjavíkur auk þess sem nauðsynlegt er að samrýma ferðir leiðar 29 við aðrar leiðir Strætó bs.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins styður tillögu fulltrúa í ungmennaráði Kjalarness um fjölgun strætóskýla á Kjalarnesi til að auðvelda samgöngur til Mosfellsbæjar og Reykjavíkur auk þess sem nauðsynlegt er að samræma ferðir leiðar 29 við aðrar leiðir Strætó bs. Þetta er brýnt mál. Eins og staðan er núna eiga börn og unglingar í Klébergsskóla erfitt með að taka strætó til Mosfellsbæjar og Reykjavíkur þar sem mörg þeirra stunda íþróttaæfingar og annað frístundastarf. Rök ungmennaráðs fulltrúans eru rök. Þrátt fyrir að Kjósin sjálf tilheyri ekki Reykjavíkurborg þá tilheyrir sveitin í Hvalfirði samt sem áður borginni og þarf gott aðgengi að samgöngum til Reykjavíkur sem auka möguleika ungmenna töluvert á að iðka íþróttir og annað félagslíf. Eins og segir í greinargerð þá tilheyra ungmenni á Kjalarnesi Reykjavík en fá í raun og veru ekki þau strætó fríðindi sem önnur ungmenni í Reykjavík fá.

    Regína Bergmann Guðmundsdóttir, fulltrúi í ungmennaráði Kjalarness og Hulda Valdís Valdimarsdóttir verkefnastjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  12. Bókun íbúaráðs Kjalarness, vegna tillögu ungmennaráðsfulltrúa á Kjalarnesi um

    þjónustu strætó - MSS22020115         Mál nr. US220074

    Lagt fram bréf íbúaráðs Kjalarness, dags. 15. janúar 2022, til skipulags- og samgönguráðs um bókun íbúaráðsins varðandi tillögu ungmennaráðsfulltrúa á Kjalarnesi um þjónustu strætó.

    Fylgigögn

  13. Sóltún 2-4, breyting á deiliskipulagi     (01.233.101)    Mál nr. SN210452

    Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 10. mars 2022 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Ármannsreits, með síðari breytingum, vegna lóðarinnar nr. 2-4 við Sóltún.

    Fylgigögn

  14. Reynisvatnsás, breyting á skilmálum deiliskipulags         Mál nr. SN220117

    Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 10. mars 2022 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á almennum skilmálum deiliskipulags fyrir Reynisvatnsás.

    Fylgigögn

  15. Köllunarklettsvegur 1, breyting á deiliskipulagi     (01.330.9)    Mál nr. SN210759

    Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 17. mars 2022 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á breytingu á deiliskipulagi Klettasvæðis vegna lóðarinnar nr. 1 við Köllunarklettsveg.

    Fylgigögn

  16. Fyrirspurn Áheyrnarfulltrúa Miðflokksins, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, og áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um útistandandi tillögur og fyrirspurnir         Mál nr. US220062

    Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu sviðsstjóra, dags. 17. mars 2022.

    Fylgigögn

  17. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um sorpflokkun         Mál nr. US220055

    Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um sorpflokkun sbr. 29. liður fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 23. febrúar 2022.

    Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

  18. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins, 

    um Vogabyggð         Mál nr. US220069

    Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um Vogabyggð sbr. 18. liður fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 9. mars 2022.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds

  19. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um yfirlit fyrirspurna og tillaga á kjörtímabilinu         Mál nr. US220075

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir yfirlit yfir öll mál, tillögur og fyrirspurnir sem Flokkur fólksins hefur lagt fram í skipulags- og samgönguráði á kjörtímabilinu. Gott er að fá upplýsingar um hvað ef þessum málum eru afgreidd og þá hvenær og hvað mörg mála eru enn í ferli eða frestun.

    Frestað.

Fundi slitið klukkan 10:30

Pawel Bartoszek Alexandra Briem

Hjálmar Sveinsson Sara Björg Sigurðardóttir

PDF útgáfa fundargerðar
132._fundargerd_skipulags-_og_samgongurads_fra_23._mars_2022.pdf