Skipulags- og samgönguráð - Fundur nr. 116

Skipulags- og samgönguráð

Ár 2021, miðvikudaginn 6. október kl. 09:04, var haldinn 116. fundur skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Pawel Bartoszek, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Sara Björg Sigurðardóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Katrín Atladóttir, Marta Guðjónsdóttir og áheyrnarfulltrúarnir Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði: áheyrnarfulltrúinn Daníel Örn Arnarsson.

Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir og Björn Axelsson. Eftirtaldir starfsmenn sátu fundinn með fjarfundarbúnaði: Jóhanna Guðjónsdóttir og Sigurjóna Guðnadóttir.

Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir sem sat fundinn með fjarfundarbúnaði.

Þetta gerðist:

Þetta gerðist:

  1. Afgreiðslufundir skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, fundargerð         Mál nr. SN010070

    Lögð fram fundargerð embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 1. október 2021.

    Fylgigögn

  2. Aðalskipulag Reykjavíkur 2040, íbúðarbyggð og blönduð byggð, tillaga         Mál nr. SN190323

    Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040, endurskoðun stefnu um íbúðarbyggð og blandaða byggð og tæknileg uppfærsla Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, með lengingu skipulagstímabils til ársins 2040. Eftirfarandi eru gögn sem fylgja málinu og eru hér lögð fram;

    1. Aðalskipulag Reykjavíkur 2040. Megin markmið um þróun byggðar og bindandi ákvæði um landnotkun, byggingarmagn, þéttleika og yfirbragð byggðar, grænt hefti, tillaga, dagsett maí 2021, uppfærð október 2021. 

    2. Þéttbýlisuppdráttur, 1:20.000, tillaga maí 2021, uppfærður október 2021.

    3. Sveitarfélagsuppdráttur, 1: 50.000, tillaga, maí 2021, uppfærður október 2021.

    4. Umhverfisskýrsla: Aðalskipulag Reykjavíkur 2040. Endurskoðuð stefna um íbúðarbyggð og blandaða byggð og framlenging skipulagstímabils til 2040 (B3), maí 2021, VSÓ-ráðgjöf, uppfærð september 2021.

    5. Reykjavík 2040. Lýsing helstu breytinga og forsendur (B1), blátt hefti,  maí 2021.

    6. Forsendur og áherslur sem samþykktar voru með AR2010-2030. Ítarefni og skýringargögn (B2). Kaflar merktir  B2. Borgin við Sundin, B2. Skapandi borg, B2. Græna borgin, B2. Vistvænni samgöngur, B2. Borg fyrir fólk og B2. Miðborgin. 

    7. Skipulagsstofnun, umsögn dagsett 20, maí 2021.

    8. Athugasemdir sem bárust á kynningartíma

    9. Yfirlit athugasemda og svör við þeim - umsögn Umhverfis- og skipulagssviðs, dagsett 4. október 2021.

    Aðalskipulag Reykjavíkur, 2040, tillaga samþykkt sbr. 32. gr. skipulagslaga, ásamt umhverfisskýrslu ,  sbr.  lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana (sbr. einnig lög nr. 111/2021), umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dagsett 4. október 2021 og öðrum fylgiskjölum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði gegn tillögunni.

    Vísað til borgarráðs.

    Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Með tillögunum nú er lagt til að hið sögulega Aðalskipulag 2010-2030 verði framlengt og uppfært til ársins 2040. Ný viðmið eru sett um þéttleika, gæði og yfirbragð byggðar og skipulagið fléttað við húsnæðisáætlun og loftslagsstefnu borgarinnar. Rými er skapað fyrir Borgarlínu og stokka. Frá auglýsingatíma hafa verið gerðar þær breytingar að hæð bygginga Mjódd er nú miðuð við 4-7 hæðir. Rétt er að árétta að í breyttum ákvæðum hæðastefnunnar er nú undirstrikað að aðeins stakar byggingar geti notið hámarksheimilda og sett eru ákveðnari kröfur um gæði við hönnun, m.t.t. sólríkra dvalarsvæða og almenningsrýma. Eðlilegt er að við mótun byggðar verði leitast við að skala byggðina niður næst hinni lágreistu íbúðarbyggð og lágmarka þannig skuggavarp. Hnykkt er á ákvæðum sem heimila endurnýjun starfsleyfis þegar gildistími starfsleyfis er innan tímamarka gildandi skipulagstímabils og uppbygging samkvæmt framtíðar landnotkun ekki hafin. Aðrar breytingar eru tæknilegs eðlis. Hér er áfram haldið á braut sjálfbærrar borgarþróunar og áhersla lögð á þéttingu byggðar innan vaxtarmarka.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Aðalskipulag til 2040 er gallað. Ekki síst í húsnæðismálum. Nauðsynlegt er að íbúðaframboð sé fullnægjandi og raunsætt á tímabilinu. Árleg þörf er talin að lágmarki 1.200 íbúðir á ári til 2040. Að óbreyttu mun þessi tala ekki nást og húsnæðisverð í Reykjavík því áfram vera undir þrýstingi vegna skorts á fjölbreyttu framboði bygginga. Áhyggjur vekur að ekki er áformað að heimila uppbyggingu á Keldum fyrr en eftir áratug. Ekki er gert ráð fyrir uppbyggingu á Geldinganesi og möguleikar lítið nýttir á Kjalarnesi. Ekki er gert ráð fyrir íbúðum í Örfirisey né á BSÍ reit. Hætta er því á að áfram skorti hagkvæma reiti til fjölbreyttrar húsnæðisuppbyggingar og óvissa er um uppbyggingu í Úlfarsárdal. Þá er beinlínis gengið út frá því að yfir 4.000 íbúðir verði byggðar á skipulagstímanum þar sem flugbrautir Reykjavíkurflugvallar eru. Það er með öðrum orðum gat í húsnæðisáætlun borgarinnar upp á þúsundir íbúða. Gengið er á græn svæði og er gert ráð fyrir fjögurra hæða húsum efst í Laugardalnum upp á 30.000 m2 (á reit M2g). Tillagan gerir ekki ráð fyrir sveigjanleika hvað varðar notkunarheimildir atvinnuhúsnæðis. Þá er þrengt verulega að þróunarmöguleikum Borgarholtsskóla í Grafarvogi. Af þessum sökum og öðrum leggjumst við gegn aðalskipulagi Reykjavíkur til 2040.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Verið er að breyta aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, íbúðarbyggð og blönduð byggð 2040 og eru leiðarljós stefnunnar þessi: Íbúðarbyggð og blönduð byggð rísi innan vaxtarmarka til ársins 2040. 80% nýrra íbúða til 2040 verði innan áhrifasvæðis borgarlínu og 80% nýrra íbúða verði í grennd við öflugan atvinnukjarna. Minnst 90% nýrra íbúða rísi á röskuðum eða þegar byggðum svæðum. Með öðrum orðum – boðuð er róttæk óumhverfisvæn þrengingastefna. Flugvöllurinn er ekki á leiðinni úr Vatnsmýrinni næstu áratugina en samt er gert ráð fyrir 4.000 íbúða byggð þar. Alvarlegar athugasemdir eru gerðar frá Vegagerðinni s.s. að ekki sé nægileg grein fyrir öllum nauðsynlegum breytingum á samgöngumannvirkjum sem tengjast samgöngusáttmálanum s.s. gatnamót Reykjanesbrautar við Bústaðaveg svo og útfærslur gatnamóta í tengslum við stokka sem merktir eru sem jarðgöng á aðalskipulagsuppdrætti við Sæbraut og Miklubraut. Vegagerðin bendir jafnframt á að í samgöngusáttmálanum komi jafnframt fram að sveitarfélögin skuli huga að greiðri tengingu Sundabrautar inn á stofnbrautir höfuðborgarsvæðsins og að skipulag aðliggjandi svæða taki mið af legu Sundabrautar á skipulagstímabilinu.



    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er lagt fram Aðalskipulag Reykjavíkur, endurskoðuð stefna. Reykjavíkurborg stendur frammi fyrir vanda því ekki er nóg byggt. Vandinn er að lóðir vantar. Ekki hafa verið færri íbúðir á markaði í Reykjavík frá 2017. Brjóta  þyrfti land í Reykjavík undir byggð segir Seðlabankastjóri. Áform um að koma húsaskjóli yfir alla þá sem vilja búa í Reykjavík hefur mistekist.  Vandamálið er það vantar ábyrgð og yfirsýn meirihlutans og embættismanna og er skipulagsmálum borgarinnar undir verkstjórn borgarstjóra kennt um. Borgarkerfið, umsóknarferlið er þess utan langt og óskilvirkt.  Árið 2019 voru um 5000 íbúðir í byggingu en nú eru aðeins 3400 íbúðir í byggingu. Ekki dugar bara að þétta á einum bletti.  Byggja þarf víðar, sjálfbær hverfi þar sem fólk vill byggja og búa.  Það er miður er að sjá að byggingar við strandlengju skyggja á heilu hverfin.  Áhyggjur eru af þéttingu byggðar í Vesturbæ og að borgarlína muni ekki þjóna hverfinu vel. Fyllt verður í flestar fjörur. Gleymt er að gera ráð fyrir innviðum, lóðum fyrir skóla. í Laugarnesi  liggur ekki fyrir þarfagreining um skólamál sem skoða átti í sumar. Framtíðarskólaúrræði þar eru í óvissu. Ekki er heldur hægt að sjá eins og lofað var að atvinnutækifæri væru í hverfum. Mikið skortir á sjálfbærni í hverfum sbr. í Úlfarsárdal.

    Haraldur Sigurðsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  3. Hlíðarendi - Reitir G, H og I, breyting á deiliskipulagi     (01.62)    Mál nr. SN210489

    Lögð fram umsókn ASK Arkitekta dags. 1. júlí 2021 varðandi breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda vegna reita G, H og I. Í breytingunni felst að breyta lóðum G og H úr atvinnulóðum í íbúðalóðir, breyta opnu svæði til bráðabirgða í íbúðalóð ,I, fjölga íbúðum og breyta bílastæðakröfum til samræmis við bíla- og hjólastæðastefnu Reykjavíkurborgar, samkvæmt uppdrætti ASK arkitekta ehf. dags. 24. júní 2021. Einnig er lagt fram samgöngumat Eflu dags. 1. október 2021.

    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

    Vísað til borgarráðs.

    Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Breytingin felur í sér að í stað atvinnustarfsemi, þar á meðal hótel, rísa um 460 íbúðir á þessu svæði við Hlíðarendann. Einnig verður til ný lóð á suðvesturhluta svæðisins. Gert er ráð fyrir að 20% íbúðanna verði leigu eða búseturéttaríbúðir og að Félagsbústaðir eigi forkaupsrétt á 5% íbúðanna. Deiliskipulagið er lagað að bíla- og hjólastæðastefnu borgarinnar, öll götustæði eru samsíða og önnur í kjallara og viðmið fest um að lágmarki skuli vera 2 hjólastæði á íbúð.

    Hildur Gunnarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  4. Lautarvegur 8 og 10, breyting á deiliskipulagi     (01.794.3)    Mál nr. SN210618

    Lögð fram umsókn Jóns Þórs Baldvinssonar dags. 1. september 2021 varðandi breytingu á deiliskipulagi Sléttuvegar vegna lóðarinnar nr. 8 og 10 við Lautarveg. Í breytingunni felst að bogadregin lóðarmörk sem snúa að göngustígum lóðanna eru rétt af, samkvæmt uppdr. Úti og inni arkitekta ehf. dags. 3. september 2021, Við breytinguna stækkar lóð nr. 8, en lóð nr. 10 helst óbreytt. Einnig er lögð fram tillaga úti og inni arkitekta dags. 3. september 2021 og samþykki eigenda að Lautarvegur 10 dags. 22. september 2021. 

    Samþykkt að falla frá kynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.

    Hildur Gunnarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  5. Vogabyggð svæði 2 (Skutulstorg), breyting á deiliskipulagi     (01.45)    Mál nr. SN210610

    Lögð fram umsókn Hans Olav Andersen dags. 31. ágúst 2021 um breytingu á deiliskipulagi Vogabyggðar svæði 2. Í breytingunni felst að byggingareitur dreifistöðvar á Skutulstorgi er stækkaður úr 35m2 í 65m2, lögun og staðsetningu breytt og lóðarmörk fyrir reit 2-3 er breytt skv. uppdrætti Jvantspijker & partners og Teiknistofunnar Traðar dags. 27. ágúst 2021. 

    Samþykkt að falla frá kynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.

    Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  6. Hádegismóar, nýtt deiliskipulag     (04.41)    Mál nr. SN200054

    Lögð fram umsókn f.h. Bandalags íslenskra skáta dags. 22. janúar 2020 um nýtt deiliskipulag fyrir Hádegismóa. Í deiliskipulagstillögunni felst að skilgreind er lóð fyrir höfuðstöðvar Bandalags íslenskra skáta (BÍS), þar sem verður m.a. skrifstofa félagsins, fræðslumiðstöð, kennslu-, fundar- og gistiaðstaða og mögulega rekstur á kaffihúsi. Svæðið er staðsett norðan við Rauðavatn og hallar að vatninu með halla mót suðri, að mestu leyti raskað svæði en hefur gróið upp á síðustu áratugum. Skipulagssvæðið er um 2,2 ha og er gert ráð fyrir nokkrum 1-2 hæða byggingum innan lóðar, samkvæmt deiliskipulags- og skýringaruppdrætti arkitektarstofunnar gb DESIGN ehf. og Urban Beat ehf. dags. 22. september 2021. Einnig er lagður fram tölvupóstur Veitna ohf. dags. 30. september 2021 þar sem ekki eru gerðar athugasemdir við tillöguna.

    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

    Vísað til borgarráðs.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins er samþykkur því að skátar fá þessa lóð, norðan við Rauðavatn, með skilyrðum. Þessi lóð liggur mjög vel með tillit til tengsla við vatn og náttúru. Tryggja þarf því aðgang almennings að þessu svæði , hugsanlega  með skilyrðum í lóðasamningi. Þetta svæði á að vera opið almenningi svo allir geti notið þess.

    Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    (B)    Byggingarmál

    Fylgigögn

  7. Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa, fundargerð         Mál nr. BN045423

    Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 1133 frá 28. september 2021.

    (C)    Ýmis mál

    Fylgigögn

  8. Laugarnestangi, friðlýsing menningarlandslags     (01.32)    Mál nr. SN210615

    Lagt fram bréf Minjastofnunar Íslands dags. 20. ágúst 2021 vegna útvíkkunar á friðlýsingu menningarminja á Laugarnestanga ásamt drögum að friðlýsingarskilmálum og fylgiskjölum. Óskað er eftir að athugasemdir vegna tillögu að friðlýsingu berist fyrir 10. september 2021. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs og Borgarsögusafns Reykjavíkur dags. 15. september 2021.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins telur að friðlýsa  eigi Laugarnestangann. Þegar hefur vanhugsuð landfylling verið gerð við norðurhluta tangans og brýnt að taka fyrir að sú landfylling verði stækkuð og að náttúrulegri fjöru sem enn  er við tangann verði látin í friði.

    Fylgigögn

  9. Battavöllur á Landakotstúni, umsögn - USK2021010098         Mál nr. US210028

    Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 18. mars 2021 um erindi Íbúaráðs Vesturbæjar til skipulags- og samgönguráðs þar sem hvatt var til þess að hannaður yrði boltavöllur (battavöllur) á Landakotstúni. Einnig er lagt fram framangreint bréf formanns íbúaráðs Vesturbæjar til skipulags- og samgönguráðs, dags. 15. janúar 2021, ásamt bréfi skólastjóra Landakotsskóla til borgarstjóra, dags. 16. desember 2017.

    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs og til gerðar fjárfestingaráætlunar.

    Skipulags- og samgönguráð og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ráðið tekur vel í tillögur um gerð battavallar á Landakotstúni og telur rétt að henni sé forgangsraðað með öðrum verkefnum við næstu gerð fjárfestingaráætlunar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því  að þarna verði byggður battavöllur og að gert verði huggulegt umhverfi í kringum hann. Þetta er kjörinn staður fyrir slíkan völl og er hugmyndin um hann þarna vel til fundinn.

    Fylgigögn

  10. Garðastræti 11A, kæra 150/2021     (01.136.1)    Mál nr. SN210671

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 24. september 2021 ásamt kæru dags. 23. september 2021 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa um að heimila skúr á lóð Hákots, Garðastræti 11A. 

  11. Tangabryggja 13-15, kæra 134/2020, umsögn, úrskurður     (04.023.1)    Mál nr. SN200772

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 14. desember 2020 ásamt kæru dags. 14. desember 2020 þar sem kærð er útgáfa lokaúttektarvottorðs byggingarfulltrúa Reykjavíkur vegna Tangabryggju 13-15 sem gefið var út 21. október 2020. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 16. febrúar 2021. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 6. maí 2021. úrskurðarorð: Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. október 2020 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13-15.

    Lagt fram að nýju ásamt erindi úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála dags. 21. september 2021 þar sem tilkynnt er um endurupptöku máls. Einnig er lagt fram bréf umboðsmanns Alþingis f.h. húsfélags Tangabryggju 13-15 dags. 12. ágúst 2021 og bréf úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 21. september 2021 til húsfélags Tangabryggju 13-15.

  12. Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata, leggja fram svohljóðandi tillögu um bættar göngutengingar í Gamla-Vesturbænum         Mál nr. US210257

    Skipulags og samgönguráð felur umhverfis- og skipulagssviði að skoða leiðir til að bæta tengingar fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur milli Gamla-Vesturbæjarins og Kvosarinnar. Skoðaðar verða bættar göngutengingar í austur-vesturátt, til dæmis meðfram Mýrargötu, Nýlendugötu, Vesturgötu sem og meðfram ströndinni. Möguleikar til að gera götur á svæðinu að göngu- eða vistgötum verða kortlagðir og gerð verði áætlun um eflingu og endurhönnun borgargatna.

    Tillögunni fylgir greinargerð.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

    Fylgigögn

  13. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn, varðandi umferðarspegil við Markarveg við Fossvogsveg         Mál nr. US210242

    Bent hefur verið á að umferðarspegill við Markarveg við Fossvogsveg hefur verið ónothæfur og í ólagi á þriðja ár. Umferðarspegill þarna eykur umferðaröryggi og því mikilvægt að koma þessu í lag sem fyrst. Hvenær má búast við að nýr umferðarspegill verði settur upp?

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

  14. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um fræðslu rafhlaupahjóla fyrir börn         Mál nr. US210258

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipulags- og samgönguráð beitir sér fyrir því, t.d. í samstarfi við skóla- og frístundaráð að börn og unglingar fái sérstaka fræðslu um rafhlaupahjól og hvernig þeim beri að hjóla þeim þegar hjólað er nálægt gangandi vegfarendum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur heyrt frá fólki sem kvartar yfir tillitsleysi þegar ungt fólk, sumt hvert, hjólar á gangstéttum. Fræða þarf börn og ungt fólk um mikilvægi þess að nota bjölluna. Fjölmörg dæmi eru um að bjalla sé ekki notuð þegar komið er hjólandi aftan að vegfaranda sem er að ganga eða hlaupa. Sumir hjólendur hjóla á hraða allt að 25 km/klst hraða, jafnvel með aðeins aðra hendi á stýri og símann í hinni hendinni og eru þar að leiðandi ekki að horfa fram fyrir sig. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að það sé aðeins tímaspursmál hvenær slys verður, að ekið verði á gangandi vegfaranda. Börn sem verða fyrir hjóli á þessum hraða geta stórslasast. Einnig eru komin rafhjól sem komast enn hraðar, upp í 45 kmh. Velta má fyrir sér þeirri spurningu hvort setja ætti aldurstakmark á þau hjól sem komast svo hratt og hvort rafhlaupahjól eigi kannski heima á hjólastígum frekar en gangstéttum.

    Vísað til meðferðar stýrihóps um innleiðingu hjólreiðaáætlunar.

  15. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um innstig í strætó í tengslum við þéttingu byggðar í Mjódd         Mál nr. US210256

    Fram kom í skýrslu um ferðavenjur sem unnin var fyrir SSH, sem liður í undirbúningi Borgarlínu, að flest innstig í strætó eru núna í Mjódd, 4000 talsins en á Hlemmi eru 3400 innstig á sólarhring. Fulltrúi Flokks fólksins óskar að fá upplýsingar um eftirfarandi: Hvers vegna þarf að þétta byggð svona mikið í Mjódd? Við hvaða innstigsfjölda er miðað við þegar tekin er ákvörðun um þéttleikaviðmið? 

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

  16. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um kynningar á nýju skipulagi í Breiðholti         Mál nr. US210255

    Fulltrúa Flokks fólksins finnst kynning á svo stórri fyrirhugaðri breytingu á hverfisskipulagi í Breiðholti ábótavant og má telja víst að ekki nema brot af þeim sem búa í Breiðholti hafa áttað sig á hvað til stendur. Fulltrúi Flokks fólksins spyr eftirfarandi: Hvernig stendur á að farið hafi svo lítið fyrir kynningu á svo stórri fyrirhugaðri skipulagsbreytingu í nærumhverfi fjölda fólks? Í tilfelli Mjóddar, þar sem hægt er að lesa sér til í fleiri en einni rúmlega 200 bls. skýrslum að gert sé ráð fyrir að byggja 800 nýjar íbúðir og 60.000 fermetra atvinnuhúsnæðis á 5-8 hæðum, er ekki einu sinni minnst á þessa meiriháttar breytingu í 4 bls. kynningarbæklingi um helstu breytingar aðalskipulagstillögunnar?

    Vísað til umsagnar umhverfis - og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa.

  17. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um innviði leikskóla til að taka við mikilli fjölgun         Mál nr. US210254

    Leikskólar í Mjódd eru þétt setnir og sumir sprungnir. Útreikningar sýna að 800 íbúða fjölgun í neðra Breiðholti er 53% fjölgun íbúða. Fulltrúi Flokks fólksins óskar að fá upplýsingar um eftirfarandi: Ráða innviðir við svona mikla fjölgun á stuttum tíma? Er gert ráð fyrir nýjum grunn- og leikskólum í Mjódd? 

    Vísað til umsagnar umhverfis - og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa.

  18. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um þéttleika í nýju skipulagi í Breiðholti         Mál nr. US210253

    Fulltrúi Flokks fólksins telur að nýbyggingar sem kynntar hafa verið í nýju skipulagi í Breiðholti verði að vera í  takti og tilliti við núverandi byggð. Í tillögu að aðalskipulagsbreytingu virðist mikill þéttleiki og há hús á sumum stöðum svo sem í Mjódd og tengist  áformum um Borgarlínu. 

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar að fá upplýsingar um eftirfarandi:

    Voru áhrif á nærliggjandi byggð m.t.t.  skuggavarps, umfangs, útsýnis og veðurfars skoðuð með þar til bærum sérfræðingum? Um þetta er spurt vegna þess að við eigum því miður vond dæmi um veðurfarsleg áhrif á nærliggjandi byggð og skuggavarp sem dæmi í nágrenni Höfðatorgs í Reykjavík. Er tryggt að ný viðmið um hæðir húsa og þéttleika rýri ekki gæði núverandi byggðar í nágrenni þéttingarreita t.d. í nýju skipulagi í Breiðholti?

    Vísað til umsagnar umhverfis - og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa.

  19. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um hvort leitað var til sérfræðinga þegar viðmið um þéttleika og hæðir húsa voru ákvörðuð í Breiðholti         Mál nr. US210252

    Breiðholtið er mörgum kært enda gott og barnvænt að búa í Breiðholti. Núverandi  skipulag, sem er verðlaunaskipulag, þarf að skoða nánar með tillit til útsýnis, skuggavarps og umferðaröryggi. Fulltrúi Flokks fólksins óskar að fá upplýsingar um eftirfarandi í ljósi þess að skipulagsyfirvöld leita mikið til utan að komandi sérfræðinga: Var leitað til sérfræðinga í byggðu umhverfi og áhrif byggðs umhverfis á fólk þegar viðmið um þéttleika og hæðir húsa voru ákvörðuð? Sérfræðingarnir gætu verið sálfræðingar, félagsfræðingar, veðurfræðingar, arkitektar, landslagsarkitektar og skipulagsfræðingar. Ef svo er, hverjir voru sérfræðingarnir og var farið að ráðum þeirra þegar viðmið voru ákvörðuð?

    Vísað til umsagnar umhverfis - og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa.

  20. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn, um athugasemdir við breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 - 2040 eftir að athugasemdum lauk         Mál nr. US210281

    Bárust einhverjar athugasemdir við breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2040 eftir að athugasemdafresti lauk? Ef svo er voru þær mótteknar og teknar gildar og frá hvaða aðilum bárust þær?

    Vísað til umsagnar umhverfis - og skipulagssviðs, deildarstjóra aðalskipulags.

  21. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um nýbyggingar á árunum 2014 til 2021         Mál nr. US210280

    Óskað er upplýsinga um hvaða græn svæði í borgarlandinu hafa verið nýtt til nýbygginga að hluta til eða öllu leyti á þessu kjörtímabili og því síðasta eða frá 2014-2021?

    Vísað til umsagnar umhverfis - og skipulagssviðs, deildarstjóra aðalskipulags.

  22. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu, um að fá umræðu um grásleppuskúrana við Ægisíðu og að forstöðumaður Borgarsögusafns mæti á næsta fund          Mál nr. US210279

    Lagt er til að á næsta reglulega fundi ráðsins verði umræða um grásleppuskúrana við Ægisíðu og forstöðumaður Borgarsögusafns mæti á fundinn og fari yfir ástand skúranna og framtíð þeirra.

    Samþykkt. 

  23. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um þrengingar í ýmsum götum og hverfum í Reykjavík         Mál nr. US210278

    Miklar þrengingar hafa staðið yfir í ýmsum götum og hverfum í Reykjavík á þessu kjörtímabili. Svo miklar þrengingar hefur verið farið í að þær hafa skapað mikla slysahættu og sem dæmi má nefna að nú í haustbyrjun voru gatnamótin af Kringlumýrarbraut upp á Bústaðaveg til vesturs þrengd mjög. Einnig má nefna algjöra lokun Lækjargötunnar á stóru svæði þrátt fyrir að hótelbyggingin þar er komin upp. Lokun bílastæða í miðborginni er svo annar handleggur eins og t.d. við Austurvöll. Á þessum grunni óskar borgarfulltrúi Miðflokksins að fá upplýsingar um:

    1. Yfirlit yfir allar þrengingar á götum sem farið hefur verið í frá 1. júní 2018 innan borgarmarkanna hvort um sé að ræða borgargötur eða götur sem eru á ábyrgð Vegagerðarinnar.

    2. Einnig er óskað eftir yfirliti yfir fækkun allra bílastæða frá 1. júní 2018 í borgarlandinu og þar undir fellur líka fækkun bílastæða sem hefur verið breytt í útisvæði fyrir rekstraraðila. 

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

  24. Tillaga Flokks fólksins að ljósabúnaður við innkeyrslu bílakjallara Ráðhússins verði lagaður hið fyrsta. Í mörg ár hefur verið ljósabúnaður við innkeyrslu bílakjallara Ráðhússins, þar sem umferð upp og niður var stýrt með rauðu og grænu ljósi, þar sem innkeyrslan er einbreið.  Til viðbótar var ljós fyrir ofan með textanum "Fullt" sem gaf til kynna að engin stæði væru laus og þá var rauða ljósið jafnframt logandi þótt enginn bíll væri að koma á móti.  Nú hefur þetta verið tekið niður og einungis rautt og grænt ljós gefur til kynna hvort umferð sé að koma upp innkeyrsluna.  Þetta er ekki lengur tengt teljara aðgangskerfisins.  Afleiðingin er sú, að bílum er hleypt niður innkeyrsluna, en lokunarsláin opnast ekki ef stæðin eru öll upptekin.  Það gerist einnig þótt einhver stæði séu laus, frátekin fyrir þá sem eru með sérstök kort frá Ráðhúsinu.  Ófremdarástand hefur skapast við þessa breytingu þegar röð af 3-4 bílum eru á leið ofan í kjallarann en sláin lyftist þar sem kjallarinn er fullur.  Allir meta það svo að græna ljósið þýði laus pláss og vandræði myndast þegar allir bílar þurfa að bakka aftur upp innkeyrsluna. Þessu þarf að breyta og setja aftur upp skiltið "Fullt" ásamt rauða ljósinu sem áður var, þannig að ekki sé ekið niður í bílakjallarann við þessar aðstæður.

  25. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, vegna álits umboðsmanns Alþingis um að hreyfihamlaðir megi leggja í almenn stæði á göngugötu         Mál nr. US210287

    Fyrirspurn Flokks fólksins um viðbrögð skipulags- og samgönguráðs við áliti umboðsmanns Alþingis um að hreyfihamlaðir megi leggja í almenn stæði á göngugötum. Fram hefur komið að handhafi stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða kvartaði til umboðsmanns Alþingis yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um að leggja á hann stöðubrotsgjald. Handhafinn hafði lagt bíl sínum í almennt stæði á göngugötu en Bílastæðasjóður taldi honum aðeins heimilt að leggja í sérmerkt bifreiðastæði fyrir hreyfihamlaða á göngugötu. Það var niðurstaða umboðsmanns að ekki væri hægt að fallast á þann lagaskilning að handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða gætu eingöngu lagt í sérmerkt stæði á göngugötum. Þetta er einmitt sá skilningur sem fulltrúi Flokks fólksins hafði á þeim lögum sem hér um ræðir og hefur það margsinnis komið fram í bókunum Flokks fólksins. Heimildin nær til þess að P merktir bílar megi leggja í göngugötunni sjálfri.

    Frestað.

  26. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, 

    um skotsvæðið í Álfsnesi         Mál nr. US210288

    Fyrirspurn Flokks fólksins um hvort sé verið að leita að  nýrri staðsetningu með virkum hætti og þá hvar,  innan eða utan dyra? Skotsvæðinu í Álfsnesi var lokað án fyrirvara?  Fram hefur komið að lokunin hafi komið meirihlutanum á óvart sem er sérkennilegt því málið hefur verið a.m.k. tvisvar rætt í borgarstjórn.  Margir voru búnir að hafa uppi varnaðarorð og hneykslast á aðgerðarleysi heilbrigðisnefndar. Þegar loks er lokað er það ekki vegna mengunar heldur skipulagsmála. Halda mætti að "skipulagsmál" séu notuð sem átylla fyrir að loka. Finna þarf aðra lausn fyrir þá 1.500 félagsmenn og aðra sem stunda skotæfingar. Erfitt getur reynst  að finna svæði þar sem ekkert mannlíf er í nágrenninu og þar sem blýmengun veldur ekki skaða og/eða þar sem skotæfingar skaða ekki náttúru. Ef utandyra er þarf það svæði að vera einangrað eða afskekkt og sem ekki er metið mikils virði út frá náttúru.  Fyrirspurn Flokks fólksins lýtur að hvort verið sé að  leita að  nýrri staðsetningu og þá hvar,  innan eða utan dyra? 

    Frestað.

  27. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um aðstæður hjólandi vegfarenda í Úlfarsárdal         Mál nr. US210289

    Fulltrúi Flokks fólksins var fyrir nokkrum vikum með fyrirspurn um aðstæður  hjólandi vegfarenda í Úlfarsárdal þar sem eru tröppur á göngustígum. Þarna fer fólk einnig um með barnakerrur.  Í hverfinu eru tröppur víða og hafa börn sem hjóla í skólann þurft að bera hjól sín upp og niður tröppurnar eða leiða þau auk þess sem hjólastígar eru víða með krappar beygjur. Sendar voru myndir með fyrirspurninni til að sýna aðstæður. Fulltrúi Flokks fólksins kallar eftir endurskoðun á þessu en fékk engin viðbrögð önnur en þau að þetta væri í lagi við Urðarbrunn. Með þessari fyrirspurn sem hér er lögð fram er aftur sýnd mynd sem sýnir hvernig börn reyna að redda sér þegar aðstæður bjóða ekki upp á að hjóla á stíg.  Hér má sjá hvernig þau einfaldlega hjóla á grasbakka með fram göngustígnum til að þurfa ekki að bera eða leiða hjól sín. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort skipulagsyfirvöld vilja ekki reyna að lagfæra þetta þannig að börn komist leiðar sinnar hjólandi án erfiðleika og einnig að fólk geti farið um með barnakerrur bæði þrí- og fjórhjóla? Það ástand sem þarna ríkir getur verið hættulegt. Stígarnir eiga að þjóna börnum á hjólum og hlaupahjólum sem og fólki með vagna og kerrur.

    Frestað.

Fundi slitið klukkan 11:00

Pawel Bartoszek Dóra Björt Guðjónsdóttir

Hjálmar Sveinsson Sara Björg Sigurðardóttir

Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
skipulags-_og_samgongurad_0610.pdf