Öldungaráð - Fundur nr. 86

Öldungaráð

Ár 2024, miðvikudaginn 17. apríl var haldinn 86. fundur öldungaráðs Reykjavíkurborgar. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10.02. Fundinn sátu Sara Björg Sigurðardóttir, Ingibjörg Sverrisdóttir, Sigurður Á. Sigurðsson, Elinóra Inga Sigurðardóttir, og Ingibjörg Ósk Guðmundsdóttir. Einnig sat fundinn Anna Sigrún Baldursdóttir. 
Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð. 

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, dags. 8. apríl 2024, um tilnefningar félagsins í öldungaráð. Sigurður Á. Sigurðsson og Elinóra Inga Sigurðardóttir taka sæti sem aðalfulltrúar í öldungaráði í stað Kolbrúnar Stefánsdóttur og Viðars Eggertssonar. Jafnframt að Guðrún Ósk Jakobsdóttir og Bessí Jóhannsdóttir taka sæti sem varafulltrúar í stað Gunnars Magnússonar og Árna Gunnarssonar. MSS22060165

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning á störfum aðgengisfulltrúa Reykjavíkur. MSS22010199 

    -    Kl. 10.15 tekur Anna Kristinsdóttir sæti á fundinum. 

    Öldungaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Öldungaráð þakkar fyrir áhugaverða kynningu og telur mikilvæga þá vitundarvakningu sem á sér stað um aðgengi fyrir öll, hún sé bæði þörf og ánægjulegt að starf aðgengisfulltrúa sé komið á laggirnar. Ráðið vill leggja áherslu á að hugað sé að aðgengi eldra fólks til og frá búsetuþyrpingum til félagsmiðstöðva og samfélagshúsa á þeim svæðum þar sem íbúðauppbygging sérstaklega ætluðu eldra fólki hefur risið löngu eftir að félagsmiðstöðvar tóku til starfa eins og við Árskóga í Breiðholti. 

    Bragi Bergsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning á aðgengi að Borgarlínu. MSS24040021

    Öldungaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Öldungaráð þakkar fyrir áhugaverða kynningu um aðgengi að  Borgalínu. Góðar almenningssamgöngur ýta undir hreyfingu, draga úr félagslegri einangrun og bæta bæði lífsgæði og loftgæði borgaranna. Gott og öruggt aðgengi að Borgalínu er mjög brýnt til að notendur óháð aldri upplifi sig örugga. Ráðið leggur áherslu á að hugað verði að bílastæðum nálægt lykilstöðum borgarlínu. Með því að tryggja hönnun með aðgengi fyrir öll í huga og út frá viðmiðum Alþjóðaheilbrigðisstofnunar um Aldursvænar borgir þá aukast líkur á að borgarbúar óháð aldri og færni noti Borgalínuna.

    Ásdís Kristinsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 14. mars 2024, um fyrirspurn vegna túlkunar á 38.gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og 7. gr. laga um málefni aldraðra. Jafnframt er lagt fram svar félags- og vinnumarkaðsráðuneyti dags. 8. apríl 2024. MSS24030081

    Fulltrúi Samfylkingar leggur fram svohljóðandi bókun:

    Öldungaráð er formlegur vettvangur samráðs og hagsmunagæslu fyrir eldra fólk í borginni sem á sér stoð í 7. gr laga um málefni aldraða og 38. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í lögunum kemur fram að í ráðinu skuli sitja þrír fulltrúar tilnefndir af félagi eldri borgara, án þess að kveða á um hvernig skuli bregðast við ef fleiri en eitt félag gætir hagsmuna eldra fólks er starfar í sveitafélaginu. Í ljósi þess að Reykjavíkurborg hefur áhuga á að tryggja aðkomu eins fjölbreytts hóps eldra fólks og mögulegt er, var ákveðið að senda fyrirspurn til Félags- og vinnumarkaðsráðuneytis. Í svari ráðuneytisins kemur fram að lögin skilgreini ekki sérstaklega hvaða félag skuli eiga sæti í ráðinu, einungs að það skuli vera að lágmarki þrír fulltrúar frá félögum eldri borgara í sveitarfélaginu. Fagnar fulltrúi Samfylkingar þessari niðurstöðu enda brýnt að raddir sem flestra hagsmunafélaga eldra fólks í borginni heyrist í ráðinu. Í ljósi þessarar niðurstöðu fer nú af stað vinna við að ákvarða hvaða hagsmunasamtök eldri borgara í Reykjavík skulu eiga sæti á ráðinu og í framhaldi verður samþykkt ráðsins endurskoðuð í þá veru. 

    Fulltrúar Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, í öldungaráði eru ekki sammála því að fulltrúum þeirra verði fækkað í öldungaráði þar sem félagið er fjölmennasta félag eldri borgara í Reykjavík, telur 16 þúsund manns. Ef það á að fjölga röddum félagasamtaka í ráðinu vill Félag eldri borgara beina athygli að því að önnur félög sem gæta hagsmuna eldri borgara í Reykjavík gætu sótt um að vera áheyrnarfulltrúar í öldungaráði. 

    -    Kl. 12.07 víkur Anna Sigrún Baldursdóttir af fundinum.
    -    Kl. 12.08 víkur Anna Kristinsdóttir af fundinum.   

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 12.10

Sara Björg Sigurðardóttir Ingibjörg Sverrisdóttir

Sigurður Á Sigurðsson Elinóra Inga Sigurðardóttir

Ingibjörg Ósk Guðmundsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð öldungaráðs frá 17. apríl 2024